Mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 12:05:58 (1245)

1995-11-23 12:05:58# 120. lþ. 40.5 fundur 31. mál: #A mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[12:05]

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um till. til þál. um mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja. Eins og þingheimi er kunnugt hefur gríðarleg mótmælaalda risið víða um heiminn vegna tilraunasprenginga Frakka og raunar Kínverja líka. Margar ríkisstjórnir, m.a. sú íslenska, hafa mótmælt þessum tilraunum Frakka og Kínverja. Hér á þinginu hefur verið lögð fram þáltill. Hún hefur verið tekin til ítarlegrar umfjöllunar í utanrmn. og þar er fullkomin samstaða um að leggja til að Alþingi ítreki frekar þau mótmæli sem íslensk stjórnvöld hafa sett fram við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja.

Herra forseti. Stjórnvöld og almenningur í flestum ríkjum heims hafa lýst yfir miklum vonbrigðum og haft uppi mikil mótmæli við þessum tilraunasprengingum. Þau hafa að engu verið höfð af hálfu franskra stjórnvalda og í þessari viku sprengdu Frakkar fjórðu tilraunasprengju sína.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt mótmæli gegn þessum tilraunum með 95 atkvæðum gegn 12 og þess er að geta að Ísland greiddi þar atkvæði með tillögunni. Á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins í Búkarest á þessu hausti var jafnframt samþykkt harðorð ályktun gegn kjarnavopnatilraunum þessara ríkja og þar kom fram að hún naut yfirgnæfandi stuðnings þingmanna hvaðanæva að úr heiminum. Á ráðstefnu um bannsamninginn gegn dreifingu kjarnavopna, sem fór fram fyrr á árinu, var mælst til þess að kjarnavopnaveldin gerðu sitt ýtrasta til þess að forðast tilraunir með kjarnavopn. Þess vegna er ekki unnt annað en líta á tilraunasprengingarnar sem afturför enda er ljóst að þær gætu torveldað viðræður um samning um algert bann við kjarnasprenginum í tilraunaskyni sem nú standa yfir í Genf. Þó er alvarlegast að tilraunir sem þessar geta stofnað heilsu manna og umhverfi í hættu á viðkomandi tilraunasvæði.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns er samstaða innan utanrmn. um að ítreka mótmæli íslenskra stjórnvalda og nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt í eftirfarandi formi:

,,Alþingi ályktar að ítreka mótmæli íslenskra stjórnvalda við tilraunum Frakka og Kínverja með kjarnavopn. Alþingi felur ríkisstjórninni að halda áfram að beita sér fyrir og styðja aðgerðir á alþjóðavettvangi sem þrýsta á frönsk og kínversk stjórnvöld að breyta um stefnu og hætta við frekari kjarnorkuvopnatilraunir.``