Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 15:03:29 (1255)

1995-11-23 15:03:29# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[15:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að náðst hefur samkomulag um að stækka álbræðslu Ísals sem hefur verulega þýðingu fyrir efnahagslíf okkar. Í samningnum eru þó bæði kostir og gallar sem nauðsynlegt er að Alþingi skoði gaumgæfilega áður en þessi samningur öðlast lagagildi. Þingmenn Þjóðvaka munu greiða fyrir umræðu og afgreiðslu málsins eins og kostur er en nauðsynlegt er að kryfja ákveðna þætti til mergjar meira en gert hefur verið og fá fram ýmsar upplýsingar frá hæstv. iðnrh. áður en samningurinn verður lögfestur.

Kostir samningsins eru þeir að þeir koma hreyfingu á efnahags- og atvinnulíf okkar þó vara beri við því að ofmeta áhrif þeirra á atvinnustigið í landinu eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni þó vissulega sé rétt að samningurinn mun glæða efnahagslíf. Það er líka einn af stærstu kostum samningsins að við nýtum alla okkar umframorku strax við gangsetningu verksmiðjunnar auk þess sem stækkunin leiðir til þess að við þurfum að ráðast í verulegar fjárfestingar við nýjar virkjanir. Þegar til lengri tíma er litið virðist samningurinn líka geta orðið hagstæður Landsvirkjun ef spár standast en samkvæmt útreikningum Landsvirkjunar reikna þeir hreinan hagnað af samningnum á um 8 milljarða króna. Það væri líka sérstakt fagnaðarefni ef þessi samningur mundi leiða til lækkunar á verði til almenningsrafveitna sem sumir tala um að geti orðið en þó ekki fyrr en eftir aldamótin. Af því að hæstv. iðnrh. kom ekki inn á það í máli sínu væri ástæða til að hann mundi gera þinginu nánari grein fyrir því hvers megi vænta í því efni, hvort samningurinn geti leitt til lækkunar á verði til almenningsrafveitna og einnig þá hvort áformaðar eru aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu til að lækka verð til almenningsrafveitna eða jafna orkukostnað landsmanna.

Eins og fram hefur komið hefur Þjóðhagsstofnun lagt mat á þjóðhagsleg áhrif stækkunar álversins í Straumsvík. Þar kemur fram að fjárfesting eykst verulega á árunum 1996 og 1997 miðað við núverandi áætlanir eða um 14 milljarða vegna stækkunar álversins og hafnaraðstöðu en um 3 milljarða vegna fjárfestinga í raforkumannvirkjum. Þjóðhagsstofnun áætlar ársverk vegna framkvæmdanna um 750--800 og varanleg störf eru áætluð um 90 þegar álbræðslan hefur starfsemi sína en þó ber þess að geta að það hefur auðvita margfeldisáhrif eins og fram hefur komið. Því má vænta þegar verksmiðjan verður gangsett að um 300 manns hafi af þessu vinnu. Það er þó ekki nema brot af því sem framsóknarmenn sögðu fyrir kosningar. Þeir sögðu að kæmust þeir í ríkisstjórn þá mundu þeir sjá til þess að hér yrðu til 12.000 störf í landinu þannig að þetta er einungis brot af því og einungis fáir þeirra sem eru atvinnulausir munu fá störf vegna þessara framkvæmda.

Framlag til stækkunarinnar til vergrar þjóðarframleiðslu er einungis áætlað á bilinu 2,4--3,5 milljarðar kr. sem líkt hefur verið við umfang Smuguveiða eða það sem áætlað er að aukning í ferðaþjónustu gefi árlega næstu árin. Þannig er ljóst að þó þessir samningar rjúfi vissulega þá kyrrstöðu sem verið hefur í efnahags- og atvinnulífi okkar um langan tíma er engin ástæða eins og reyndar hefur komið fram í máli fyrri ræðumanna að ofmeta samninginn. Engu að síður áætlar Þjóðhagsstofnun að áhrifin á þjóðarframleiðslu séu um 3 milljarðar kr. og að hagvöxtur aukist á árinu 1996 um 0,7%. Þó vekur athygli mína í lauslegri áætlun Þjóðhagsstofnunar að þeir gera ekki ráð fyrir neinni aukningu kaupmáttar launa. Finnst mér nokkuð sérkennilegt að reikna með því að kaupmáttur launa verði óbreyttur á næsta ári.

Virðulegi forseti. Full ástæða hefði verið til þess að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur umræðuna vegna þess að nauðsynlegt væri að fá hann til þess að svara ýmsum spurningum við þessar umræður, m.a. um skattalegan þátt samningsins. Þar sem fjmrh. er ekki viðstaddur mun ég beina þeim spurningum sem ég hef varðandi skattalegan þátt samningsins og fleirum atriðum, sem fjmrh. ætti með réttu að svara, til iðnrh. og hafi hæstv. iðnrh. ekki svör við þessum spurningum sem ég mun leggja fyrir hann í því efni mun ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. mæti við umræðuna.

Er hæstv. iðnrh. sammála því mati Þjóðhagsstofnunar að þessi samningur, sem menn láta mikið með að sé mikil innspýting í efnahagslífið, eigi að skila auknum hagvexti og auka þjóðarframleiðsluna? Ekki er gert ráð fyrir því að hann hafi nein áhrif til að auka kaupmátt launatekna á næsta ári heldur er gert ráð fyrir því að kaupmáttur launataxta verði óbreyttur. Það hefði mátt ætla að þessi búbót inn í þjóðfélagið auðveldaði t.d. verkalýðshreyfingunni þá kjarasamninga sem í hönd fara.

Það er líka ástæða til að spyrja hæstv. iðnrh. --- sem fjmrh. hefði kannski reyndar átt að svara --- að því sem fram kemur hjá Þjóðhagsstofnun að það komi til álita eins og stendur í grg. með frv. að fresta opinberum framkvæmdum vegna þessa samnings og þá væntanlega meira en fjárlagafrv. á næsta ári gerir ráð fyrir þar sem gert er ráð fyrir verulegum samdrætti. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir verulegum samdrætti í opinberum framkvæmdum en í grg. með þessu frv. kemur fram að það komi til álita að fresta enn frekar opinberum framkvæmdum. (Gripið fram í: Í fylgiskjali?) Í fylgiskjali með frv. Ég held að það hljóti að vera að ríkisstjórnin hafi rætt þennan þátt mála, hvort komi til álita að fresta opinberum framkvæmdum vegna þessa samnings sem ég tel mjög óráðlegt. Ég tel að það mundi auka á atvinnuleysið. Nauðsynlegt er að fá fram í umræðunni hvort eitthvað slíkt sé á döfinni og hvort ríkisstjórnin hafi rætt þennan þátt málsins.

Herra forseti. Samningarnir segja okkur betur en margt annað hvað við þurfum að kosta til til að fá erlenda fjárfesta inn í landið sem margir héldu að yrðu á hverju strái með tilkomu EES-samningsins. Upplýsingarnar, sem komu fram í máli hæstv. iðnrh., voru athyglisverðar að því er þann þáttinn varðar en hæstv. iðnrh. upplýsti að miðað við erlenda fjárfestingu hér á landi sem hlutfall af landsframleiðslu væru hin Norðurlöndin með 0,7--0,8% af landsframleiðslu, hjá öðrum Evrópuþjóðum 2--3% en á Íslandi aðeins 0,1% af landsframleiðslu. Mér finnst þetta athyglisverð tölur sem menn þurfa að hafa í huga vegna þess að margir héldu að með þeirri breytingu sem varð með tilkomu EES-samningsins stæðu erlendir fjárfestar hér í biðröðum.

Hæstv. iðnrh. Enda þótt ástæða sé til að fagna þeirri innspýtingu í efnahagslífið sem samningurinn gefur þá eru nokkrar augljósar ástæður fyrir því að hann tókst og þær heldur dapurlegar. Segja má að ástæðurnar séu þrjár eða jafnvel fjórar. Ísland er láglaunasvæði enda hafa lág laun og launatengd gjöld verið notuð til að freista útlendinga til að fjárfesta hér á landi. Markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar hafa t.d. einmitt sent frá sér plagg þar sem sagt er frá því að hér bjóðist mjög lágt raforkuverð, það lægsta sem þekkist í Evrópu fyrir nýja samninga. Sett er upp tafla þar sem tilgreind eru 14 lönd að því er varðar launakostnað, hvað vinnuaflið hér á landi sé ódýrt miðað við aðrar þjóðir. Af þeim 14 löndum, sem eru talin upp, er erlendum fjárfestum bent á að þeir þurfa að borga langlægst að því er varðar kostnað við vinnuaflið miðað við þessi 14 lönd. Það er sama hvort um er að ræða laun eða launatengd gjöld, þau eru lægst á Íslandi. Lág laun hér á landi eru notuð til að freista erlendra fjárfesta til að koma til Íslands til að fjárfesta. Það er heldur dapurlegt, hæstv. iðnrh., að þurfa að nota slíka gulrót. Ég nefndi að ástæðurnar væru þrjár til fjórar. Ein ástæðan er ódýrt vinnuafl eog það er kannski dapurlegast og lítt til sóma fyrir íslensku þjóðina.

Önnur ástæða er skattaumhverfi fyrirtækjanna sem á margan hátt má segja að sé skattaparadís umfram önnur lönd enda er skattaþunginn hér á landi á einstaklingum. Skattapakkinn í samningnum var viðsemjendum okkar ákaflega hagstæður. Þriðja ástæðan fyrir því að samningarnir tókust er orkuverðið, sem samið var um, sem er snautlega lágt, hæstv. iðnrh., og nánast á útsölu, a.m.k. fyrstu árin. Fjórða ástæðan til að samningarnir tókust, sem mikið hefur verið rætt í umræðunni, m.a. af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og Svavari Gestssyni, er að samið var um minni kröfur til mengunarvarna en gerðar eru kröfur um hjá nýjum álverum. Þetta eru þær fjórar meginástæður sem urðu til þess að samningurinn tókst sem menn hafa verið að bíða eftir áratugum saman.

[15:15]

Ég vil fara nokkrum orðum um þessi atriði og byrja á skattamálunum. Forsendan sem gengið er út frá er að laga skattareglur Ísals að þeim breytingum á íslenskum skattalögum sem hafa tekið gildi frá því að aðalsamningurinn var endurskoðaður. Þannig er verið að lækka þá skattprósentu sem Ísal býr nú við sem er stighækkandi skattur á bilinu 35--55% í 33% eins og er hjá íslenskum fyrirtækjum, ef ég skil rétt bæði varðandi nýju og gömlu álbræðsluna og það er það sem ég geri athugasemd við. Það eru ekki svo lítil skattahlunnindi, hæstv. iðnrh. Að auki er gert ráð fyrir að lækkun á sköttum komi til framkvæmda miðað við 1. jan. 1995 eða vegna yfirstandandi tekjuárs. Út af fyrir sig tel ég eðlilegt að ný álbræðsla gangi inn í það skattaumhverfi sem fyrir er en ég tel langt í frá sjálfgefið og reyndar vafasamt að núverandi álbræðsla njóti þeirrar lækkunar sem var að ég best veit samningsbundin við 35--55% skatt fram til ársins 2004, að það njóti þeirrar skattalækkana sem orðið hafa frá og með 1. jan. 1995. Fyrirtækið hefur þó ekki heimild til að greiða út skattfrjálsan arð og réttur Ísals til að leggja 20% í varasjóð er felldur niður við árslok 1996 en á móti því fær Ísal rétt til að færa tap milli ára í allt að fimm ár sem er verulegt skattahagræði fyrir fyrirtækið.

Hagstæðari orkusölusamningar verða fyrst á gildandi orkusamningi við Ísal á árinu 2004 en þá koma til breytingar á orkusölusamningum. Frá 1. okt. 2004 er gert ráð fyrir að sama orkuverð gildi fyrir núverandi orkusölu og eins og til stækkunar Ísals. Þá hefðu eldri skattareglur átt að gilda fyrir núverandi álbræðslu Ísals til þess sama tíma eða til 2004 en nýjar skattareglur einungis að gilda vegna nýju álbræðslunnar. Ég vil fá upplýst, hæstv. iðnrh., hvað það hefði gefið ríkissjóði ef þessar skattareglur gagnvart núverandi álveri hefðu verið í gildi út þennan samningstíma, ef þeim hefði ekki verið breytt yfir í hagstæðari skattakerfi. Þá er ég að tala fyrst og fremst um núverandi álver. (Gripið fram í.) Til 2004, ég skil það svo að í gamla samningnum hefði þetta gilt til 2004 ef þessu hefði ekki verið breytt með þessum hætti. Ég tel líka töluverða fórn fyrir samninginn að í samkomulaginu felst að fastagjald Ísals verði eftir stækkun lækkað úr 20 dollurum á framleitt tonn í 10 dollara á tonn og kemur sú breyting til framkvæmda í upphafi fyrsta heila rekstrarárs stækkaðs álvers eða 1. jan. 1998. Þó að á móti komi að það verði frá 2005 aðeins frádráttarbært frá tekjum, svo sem er um fasteignagjöld og gjöld sem nú leggjast á veltu hlutafélaga, en ekki frádráttarbært frá tekjuskattsgreiðslum eins og nú er, hefur mikið verið gefið eftir til að ná samningnum. Hvaða áhrif hefur breytingin að lækka framleiðslugjaldið um helming? Sú breyting hefur veruleg áhrif. Því 20 dollarar á hvert framleitt tonn en lágmarksgreiðsla miðast við um 100 þús. árstonn, hefur verið um 2 millj. Bandaríkjadollara eða um 130 millj. dollara á ári. Frá og með 1. janúar 1998 lækkar þetta lágmarksgjald í 10 Bandaríkjadali á hvert tonn og árlegt lágmarksgjald jafngildir þá aðeins um 100 millj. kr. Með stækkun og aukinni framleiðslu í allt að 200 þús. tonn þá mun þetta gjald gefa 130 millj. eða það sama, hæstv. iðnrh., eins og við höfum út úr núv. álbræðslu. Með öðrum orðum, það gefur ekkert aukalega inn í ríkissjóð þó við aukum framleiðsluna um næstum helming. (Gripið fram í.) Gjaldið lækkar um helming og þó að við bætum framleiðslunni við gangsetningu nýrrar verksmiðju mun gjaldið einungis gefa það sama og það gefur í dag. Ég er að segja, hæstv. ráðherra, að kannski sé engu hægt að breyta úr því sem komið er en ég er að sýna fram á hvað það kostar íslensku þjóðina raunverulega að fá erlenda fjárfesta inn í landið.

Mér sýnist að aukin framleiðsla muni engu skila umfram það sem verið hefur. Þetta sýnir enn hve hagkvæmar skattalegar niðurstöður samningsaðilar okkar hafa fengið í málinu enda getur vel verið með öðru að það sé það verð sem við þurfum að gefa fyrir samninginn. Þá er ágætt að átta sig á því þó að það virðist litlu hægt um það að breyta nú þegar samningurinn er kominn fyrir Alþingi. Kannski segir samningurinn okkur þá sögu, eins og ég hef hér sagt, hve miklu við þurfum að kosta til að fá erlenda fjárfesta til að fjárfesta hér á landi, þvert á það sem margir héldu, að þeir biðu í röðum til að geta fjárfest hér á landi. Það er ódýra vinnuaflið. Það er ódýra orkan og það eru hagstæð skattakjör sem hafa laðað þennan erlenda fjárfesti til þess að stækka álbræðsluna.

Ég spyr líka að því hvort þær skattareglur, sem Ísal fær í þessum samningum, sem eru miðaðar við núgildandi skattalegt umhverfi íslenskra fyrirtækja, geti haldist óbreytt út allan samningstímann ef Ísal kýs svo. Þótt skattar á íslensk fyrirtæki breytist, til að mynda til hækkunar á öllum samningstímanum, getur Ísal haldið þeirri hagstæðu skattalegu stöðu sem þeir fá nú með samningnum, að þeir haldi henni út allan samningstímann? Það er mikilvægt að það komi fram hvort svo geti farið á samningstímanum að íslensk fyrirtæki þurfi að búa við óhagstæðara skattalegt umhverfi en fyrirtæki í eigu erlendra aðila.

Ég ítreka þá spurningu mína, hæstv. iðnrh., að fá fram upplýsingar um hverjar væru tekjur ríkissjóðs af álbræðslunni ef ekki hefði komið til þessi breyting á skattareglunum samningsaðilum okkar í hag

Hæstv. iðnrh. Mér sýnist að það komi fram á bls. 45, ef ég skil málið rétt, að þrátt fyrir þetta verði ekki verulegar breytingar á þeim heildartekjum sem ríkissjóður hefur haft af rekstri álbræðslunnar þrátt fyrir þessa stækkun og ég held að það sé brýnt að það komi fram.

Áður en ég vík frá skattahlið samningsins spyr ég um það sem kemur fram á bls. 40 í frv. undir lið 4.4. Þar er talað um samkomulag um framkvæmd tiltekinna þátta í skattakafla aðalsamnings. Þar stendur með, leyfi forseta:

,,Jafnframt því að undirrita fimmta viðauka við aðalsamninginn var sérstakur samningur undirritaður milli Alusuisse og ríkisstjórnarinnar um skýringu á framkvæmd nokkurra skattaákvæða, m.a. um vinnslu brotamálms, verðlagningu fullunnins áls, afskriftastofns og skattalega meðferð langtímasölusamninga á áli. Samningurinn kveður á um nánari viðmiðun á viðskiptaháttum milli óskyldra aðila um þau nýju viðskipti sem heimiluð eru með fimmta viðaukanum, þ.e. vinnslu brotamálms, verð á fullunnu áli og meðferð langtímasölusamninga.``

Ég hef ekki séð að þetta samkomulag hafi verið sett með þessum samningi sem viðauki eða fylgiskjal þannig að ég spyr sérstaklega um þennan þátt málsins, hvað samningurinn inniheldur nákvæmlega og hvernig standi á því að hann hafi þá ekki verið birtur til upplýsinga fyrir Alþingi sem fylgiskjal með þessu frv. Því spyr ég nánar um innihald samkomulagsins sem kemur hér fram.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu tel ég að útsöluraforkan fyrstu árin, verulegt skattalegt hagræði og ódýrt vinnuafl, vegi örugglega þyngst í því að þessir samningar náðust enda kemur fram í þessu frv. að eftir stækkun muni beinn framleiðslukostnaður í stækkuðu álveri verða verulega lægri en í núverandi álveri. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. iðnrh. óski eftir því að sem minnst verði fjallað um orkusölusamninginn í umræðunni miðað við þá leynd sem óskað hefur verið eftir að hvíli yfir þeim samningi. Ég verð að segja að mér finnst þessi viðskiptaleynd sem svo er kölluð nokkuð sérkennileg og hljóti að vekja upp þá tortryggni að menn hafi samið af sér varðandi orkuverðið. Það er erfitt að sjá að þó orkuverðið verði gert opinbert að það þurfi að hafa nokkurt fordæmisgildi varðandi aðra samninga í framtíðinni. Við hljótum, virðulegi ráðherra, að ráða því sjálf hvenær við lokum þessari útsölu og hvort við opnum hana nokkuð aftur. Þetta þarf því ekki að hafa neitt fordæmisgildi þó að þessir samningar yrðu opinberir.

Það væri fróðlegt að fá upplýst hjá hæstv. iðnrh. án þess að ég sé að biðja hann um að upplýsa nákvæmlega um orkusölusamninginn, hvort hann viti til þess að annars staðar þar sem samið hefur verið um álbræðslur, hafi verið gerðir viðlíka hagstæðir orkusölusamningar og Íslendingar hafa nú gert við Alusuisse-Lonza. Ég held að það væri fróðlegt að fá það upplýst í umræðunni.

Til þess að hafa einhvern samanburð því að það virðist vera mjög viðkvæmt að ræða raforkuna, sem hlýtur að vekja upp mikla tortryggni, tel ég rétt að við fáum upp hjá hæstv. ráðherra í umræðunni hvert raforkuverðið er nú til álversins, til járnblendiverksmiðjunnar og Áburðarverksmiðjunnar. Ég vænti að hæstv. ráðherra sé að hlýða á mitt mál vegna þess að ég er að beina fyrirspurn til ráðherrans. (Gripið fram í.) Ég er að biðja hæstv. iðnrh. að upplýsa þingið um það hvert sé raforkuverðið nú til álversins, járnblendiverksmiðjunnar, Áburðarverksmiðjunnar og fiskvinnslustöðva í landinu. Ég held að það væri ágætt að fá það inn í umræðuna, fríska upp á minni manna hvað orkuverðið er til starfseminnar. Ég vil líka spyrja hæstv. iðnrh., er hann rokinn úr salnum, hæstv. forseti?

Virðulegi ráðherra. Það vakna margar spurningar við það að lesa 60 síður í samningnum og ráðherra verður að hafa þolinmæði til að sitja hér inni og svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Ég spyr ráðherrann að því nú þegar ráðast þarf í þessar nýju virkjanaframkvæmdir upp á meira en 3 milljarða, sem ljúka þarf á árinu 1997, m.a. að flýta endurbótum á Sogsvirkjun, hvaða orkuverð við þurfum að fá til að standa undir þeim kostnaði eða með öðrum orðum um það orkuverð sem við fáum fyrstu árin meðan á framkvæmdatímanum stendur til að standa undir nýjum virkjunarframkvæmdum? Ég held að ráðherrann hljóti að geta svarað því jafnvel þó hann upplýsi ekki hér og nú um orkuverðið sem slíkt. Það er þó a.m.k. lágmark að fá fram að þær virkjunarframkvæmdir, sem þarf að ráðast í, hvort að það orkuverð sem við fáum fyrstu árin standi undir þeim nýju virkjunarframkvæmdum sem þurfum að ráðast í. Ég bið ráðherrann að svara því á eins skýran hátt eins og hann getur gert við þessa umræðu.

[15:30]

Meðan ég dvel við orkuverðið er líka ástæða til að spyrja ráðherrann um tiltekin óbein áhrif af þessum samningi. Landsvirkjun og rafveitur selja rafmagn oft á svokölluðum rofnum taxta, þ.e. kaupandi kaupir rafmagn á tiltölulega hagstæðu verði en býr við það óöryggi að það má rjúfa rafstraum til hans fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið ef raforkusalinn telur nauðsyn á því. Það er t.d. fiskvinnslan og garðyrkjan sem hafa fengið slík kjör. Ég spyr ráðherra hvort það sé hætta á því að til rofs komi þar sem eftirspurnin eykst jú í kerfinu við þennan nýja samning. Það eru margir sem hafa verulegar áhyggjur af þessu þannig að ég held að það væri ágætt ef ráðherrann myndi upplýsa það hér í þessari umræðu. Eins vil ég spyrja ráðherrann um áhrif þessa samnings á aðrar rafmagnsveitur en Landsvirkjun, þar með talið verð til almennings eins og fram kom í upphafi máls míns.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti geyma mér að ræða orkuverðið þar til í iðnn. sem fær málið til meðferðar, þar sem mér virðist í reynd ógerningur að ræða um það út frá forsendum samningsins hér í þessum virðulega sal þar sem öll þessi leynd hvílir yfir málinu og ég ætla að ítreka að ég tel mjög óeðlilega.

Varðandi umhverfisþáttinn og mengunarvarnir þá hefur það mjög ítarlega verið rætt hér að vonum af síðustu tveim ræðumönnum. Ég get tekið undir það sem fram kom m.a. hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það er full ástæða til þess að umhvn. fjalli um þennan þátt málsins meðan það er til meðferðar í þinginu. Mér finnst, virðulegi forseti, þessum stóra þætti málsins vera gerð harla lítil skil á þessum 60 síðum í frv. sem við höfum fengið til aflestrar. Það er eðlilegt að það sé spurt: Er svo um hnútana búið að við höfum traustustu mengunarvarnir sem völ er á og hefur sú krafa verið gerð að þær miðist við það sem best þekkist og ýtrustu kröfur sem gerðar eru til nýrra álvera, til nýrra álvera? Ég held að það sé ekki gert ef mark er takandi á því, sem ég ætla nú ekkert að draga í efa, sem iðnrh. sagði hér sjálfur í sinni framsöguræðu. Hann sagði: Það er ekki tillaga um breytingu á meginsamningi varðandi mengunarvarnir. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að ekki séu gerðar ýtrustu kröfur eins og gerðar eru til nýrra álvera ef þetta hefur verið uppleggið?

Ég vil líka spyrja hv. ráðherra hver beri ábyrgð á því eftir að starfsemin er hafin að hafa eftirlit með að mengunarvörnunum sé framfylgt. Hverjir bera ábyrgð á því? Þó það mál hafi fengið fullnaðarafgreiðslu þar til bærra stjórnvalda að lögum eins og segir í frv. þá hlýtur iðnn. við meðferð málsins og umhvn. að skoða sérstaklega þennan mikilvæga þátt samningsins.

Örfáum atriðum vil ég í lokin beina til hæstv. iðnrh. Það kemur fram í frv. að samhliða undirritun fimmta viðauka við aðalsamning hafi tveir samningar um tækniaðstoð verið undirritaðir. Annars vegar um tækniaðstoð vegna hönnunar og byggingar nýja kerskálans og tengdra mannvirkja og hins vegar um áframhaldandi rekstraraðstoð eftir stækkun. Ég spyr ráðherrann: Við hverja voru þessir samningar gerðir? Það er ekki upplýst í þessu frv. Hvað innihalda þessir samningar? Hvaða útgjöld hafa þeir í för með sér og hver ber kostnaðinn af þessum samningum? Ég held að það sé nauðsynlegt að fá einhverjar gleggri upplýsingar um þennan þátt málsins en fram kemur í frv.

Í annan stað kemur fram í frv. að heildarfjárfestingarkostnaður vegna stækkunarinnar sé um 13,5 milljarðar kr. Einungis þriðjungur eða 4,5 milljarðar kr. er innlendur kostnaður, þ.e. vinnulaun, íslenskt byggingarefni og verktakakostnaður en tveir þriðju hlutar eða um 9 milljarðar kr. eru erlend aðföng. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort um sé að ræða erlend aðföng sem ekki eru fáanleg hér á landi því það er vitanlega mikilvægt að sem mest af umsvifunum vegna þessa samnings komi inn í íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Einnig væri fróðlegt að fá upplýst hvort þessi erlendu aðföng séu flutt inn á einhverjum sérstökum kjörum, þ.e. hvort einhver sérstök innflutnings- eða tollakjör af þeim hafi verið boðin eða með öðrum orðum hvað mikið kemur í ríkiskassann vegna þessara 9 milljarða kr. í erlendum aðföngum. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. geti svarað þessum spurningum og það þurfi þá ekki að kalla hæstv. fjmrh. hingað til að vera viðstaddan þessar umræður.

Það er brýnt að fá fram hvort samningar hafi verið gerðir um að hluti aðfanga skuli vera innlendur. Var gerður einhver samningur um að hluti skuli vera innlend aðföng? Slík viðskipti, svokölluð ígildisviðskipti eru að ryðja sér til rúms um allan heim þegar gerðir eru samningar um gagnkvæm kaup á vörum og þjónustu við stóra opinbera aðila.

Síðan er í lokin ein spurning til ráðherrans og það skal vera mín síðasta spurning. Hún fjallar um starfsmannamál. Spurningin er sú: Fengu starfsmannafélögin í Ísal að fylgjast með samningsgerðinni og er gert ráð fyrir að einhverjar breytingar fylgi þessum samningum í samskiptum við verkalýðsfélögin? Nefni ég þar sérstaklega til verktakastarfsemi. Ég held að það sé rétt að fá það upplýst við þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir helstu atriðin sem ég tel rétt að fá upplýst í þessari umræðu og ég ítreka að þingflokkur Þjóðvaka mun eins og efni standa til greiða fyrir afgreiðslu þessa máls á þingi þó eins og fram hefur komið í mínu máli ýmsar athugasemdir og spurningar hafi vaknað við yfirferð þessa máls og ég treysti að hæstv. iðnrh. hafi náð þeim niður og svari skilmerkilega hér við þessa umræðu.