Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:13:16 (1267)

1995-11-23 18:13:16# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eitt atriði í máli hæstv. ráðherra sem ég ætla að koma hér að í andsvari. Í greinargerð með þessu frv. stendur að stjórn Hollustuverndar ríkisins hafi afgreitt endanlegar tillögur að starfsleyfi til umhvrh. á fundi 2. nóv. 1995. Hæstv. ráðherra fór yfir þetta og viðurkenndi að þetta væri ekki rétt. Hann sagði það að vísu ekki berum orðum, hann reyndi að snúa sig út úr þessu með loðnum svörum varðandi útgáfu starfsleyfis. En hér stendur í greinargerð með þessu stjórnarfrv.: ,,Stjórn Hollustuverndar ríkisins afgreiddi endanlegar tillögur að starfsleyfi.`` Hér er um að ræða fölsun, ef maður tekur þetta eins og það stendur hér. Ráðherrann hefur þegar upplýst að þetta sé rangt. Mér finnst þetta mjög alvarlegt atriði sem hér er á ferðinni. Þetta tengist annarri málsmeðferð af hálfu þessarar stjórnar sem á fundi nefndan dag hafnaði að taka fyrir efnislega athugasemdir sem ég hafði beint til hennar í samræmi við heimild í reglugerð. Ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvernig getur hann réttlætt vinnubrögð af þessu tagi? Ef hér hefði ekki verið gengið eftir þessu þá hefði þetta staðið hér eftir með þessum hætti. En það vill svo til vegna málafylgju fyrir þessari nefnd, úrskurðarnefnd, þá fékk ég afrit af fundargerð stjórnar Hollustuverndar ríkisins nefndan dag og þar er ekki orð að finna um þetta. Og af þeim ástæðum spurði ég.