Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 16:09:47 (1301)

1995-11-27 16:09:47# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[16:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi mikið um einkavæðingu og um það hvernig einkavæðingin hefði gengið í Afríku. Ég held að við getum ekki borið okkur saman við Zaire eða einhver þriðja heims ríki í Afríku sem eru ekki komin lengra á lýðræðisbrautinni en það að flestir búa annaðhvort við einræði eða hreint og beint ofurvald hersins eða einhverra manna, sem hafa komist þar til valda án lýðræðislegra kosninga.

Þegar tölum um að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, þá er það ekki ,,einhver einkavæðing``. Þar er verið að færa reksturinn í frjálsræðisátt. Öllum er ljóst að á meðan yfirmenn stofnana heyra beinlínis undir ráðuneyti eða ráðherra, er ekki um þá fersku strauma að ræða sem segja má að fylgi fyrirtækum sem rekin eru af fólki sem þekkir vel til hlutanna. Og við þeim er ekki að búast, nema ríkisfyrirtækjum sé breytt í hlutafélög. Að mínu mati skiptir hér höfuðmáli að ríkið hafi yfirhöndina í svona fyrirtæki. Því má ekki breyta þannig að hagur þess, eða hagur landsins, fari á skjön við ætlanir manna. Í þessu tilfelli er ætlunin að reyna að gera fyrirtækið sterkara með aukinni aðild starfsmannanna að rekstrinum. Þannig hef ég hugsa mér þetta dæmi. Ég held að menn hafi ekki treyst sér til í þessari umræðu að skilgreina hversu vel hefur til tekist af hálfu starfsmanna við að gera þennan rekstur arðbæran og aðgengilegan og þeim eigi þess vegna að gefast fleiri tækifæri til þess. Og ég veit ekki betur en að það sé líka þeirra tillaga.