Orka fallvatna

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 16:13:23 (1302)

1995-11-27 16:13:23# 120. lþ. 41.6 fundur 11. mál: #A orka fallvatna# frv., 12. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[16:13]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Þau tvö frumvörp sem ég mæli fyrir eru á starfssviði hæstv. iðnrh. og ég vil óska eftir því að hæstv. ráðherra verði gert viðvart þannig að honum gefist kostur á að vera við umræðuna, enda hefur verið um það rætt milli mín og hæstv. ráðherra að honum gefist kostur á því.

(Forseti (ÓE): Forseti hafði þegar gert ráðstafanir til að láta hæstv. ráðherra vita að málið yrði tekið fyrir. Ég sé að hann er ekki kominn í húsið, en það verður náð til hans.)

Virðulegur forseti. Þau tvö frumvörp sem hér er um að ræða eru í fyrsta lagi frv. til laga um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, og hins vegar frv. til laga um jarðhitaréttindi. Flm. beggja málanna eru hv. þm. Alþb. og mæli ég hér sem 1. flutningsmaður þessa máls.

Þessi þingmál eru vel kunnug þeim sem setið hafa hér á Alþingi um árabil þar sem þau hafa bæði verið flutt margsinnis í þinginu, fyrst á öndverðu ári 1983 og þá lögð fram sem stjórnarfrumvörp. Og bæði eru málin afurðir nefndastarfs stjórnskipaðra nefnda sem undirbjuggu mál þessi í mínar hendur, sem þáv. iðnrh. Raunar eiga þau upptök í annarri ríkisstjórn en stóð að flutningi málanna, þ.e. í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem settist á stóla 1. september 1978, en þá var tekið inn í stjórnarsáttmála að djúphiti í jörðu og orka fallvatna skyldu lýst þjóðareign og þá þegar hafinn undirbúningur að flutningi mála til þess að uppfylla þessa niðurstöðu, þetta samkomulag þáverandi stjórnarflokka.

[16:15]

Þau frumvörp sem hér um ræðir hafa gengið til iðnn. þingsins, iðnn. neðri deildar á meðan þingið sat í tveimur málstofum. Eftir að málstofur voru sameinaðar hafa málin gengið til iðnn. Alþingis, sem hefur fjallað um málin, en ekki náð að afgreiða þau frá sér til þingsins vegna pólitísks ágreinings sem hefur verið um málatilbúnaðinn og ekki síður hitt að ríkisstjórnir á hverjum tíma, önnur en sú sem lagði málið fyrir, hafa lýst því yfir að þær hefðu mál í undirbúningi hliðstæðs eðlis eða um sama efni og þau væru að koma allt hvað liði. Yfirlýsingar um þessi efni eru orðnar margar og kem ég að því síðar.

Ég vil hins vegar leyfa mér að reifa í örstuttu máli meginefni þessara frumvarpa og þá fyrst frv. um orku fallavatna og nýtingu hennar. Samkvæmt 1. gr. þess máls er því slegið föstu að orka fallvatna landsins er eign íslenska ríkisins sem eitt hefur heimild til nýtingar hennar, samanber þó 2. gr., og í 2. gr. frv. er að finna undanþágur við þetta ákvæði varðandi þá nýtingu sem þegar er orðin að hún er undanskilin og heimildir rétthafa til virkjunar fallvatna að ákveðnum stærðarmörkum, 200 kw, að aðilar hafi hafið virkjunarframkvæmdir og að þeir aðilar sem virkjað hafa fallvötn til orkuframleiðslu innan 10 ára frá gildistöku laganna haldi þeim heimildum sem þeir hafa öðlast. Nánar er síðan kveðið á um einstök atriði, m.a. heimildir ráðherra til leyfisveitinga, til eignarnáms og annað sem að máli lýtur um þetta efni. Í greinargerð er ítarlegan rökstuðning að finna fyrir þeim tillögum sem þarna eru lagðar fyrir og m.a. fjallað um spurninguna um afstöðu til eignarréttarákvæða stjórnarskrár um þessi efni og leiddar að því líkur að þær tillögur sem hér eru bornar fram brjóti í engu í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og í því sambandi vitnað til þekktra fræðimanna.

Mál þessi varðandi virkjunarrétt fallvatna eiga sér langa sögu í meðförum Alþingis. Hún nær aftur í fossamálin svonefndu sem rædd voru snemma á fyrsta fjórðungi aldarinnar. Þá voru leidd fram frumvörp sem einmitt byggðu á því að takmörkun á eignarrétti að því er varðaði orku fallvatna væri eðlileg og rúmaðist innan stjórnarskrár Íslands.

Nefnd sú sem undirbjó þetta mál á sínum tíma var hins vegar ekki sammála. Einn nefndarmanna skilaði séráliti og hafði aðra skoðun á því efni sem ég hef einkum nefnt, spurninguna um eignarréttinn. Álit þetta er birt með frv. og hefur ætíð verið látið fylgja svo sem eðlilegt er, þannig að þau sjónarmið fá einnig að koma fram.

Þá er það frv. um jarðhitaréttindi en í 1. gr. þess segir:

,,Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.

Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.``

Aðaltakmörkunina er að finna í 6. gr. frv. þar sem því er slegið föstu eða gerð um svofelld tillaga:

,,Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareigna skv. 1. mgr. 1. gr. Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.``

Síðan eru allítarlega ákvæði varðandi meðferð, m.a. undanþágur, litið til baka varðandi sérstök ákvæði um sveitarfélag sem á land við jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara. Kveðið er á um að þá skuli sveitarfélag hafa forgangsrétt til að fá leyfi til að rannsaka jarðhita og nýta og einnig eru þarna atriði sem varða umhverfisvernd í sambandi við virkjun jarðhitasvæða.

Í greinargerð með þessu frv. er víða fjallað um spurninguna um eignarréttarákvæði og með tilliti til stjórnarskrár og leiddar að því líkur með tilvitnunum í þekkta fræðimenn á sviði réttarfars að þær tillögur sem bornar eru fram með frv. rekist ekki á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þar eru leiddir fram þekktir fræðimenn á sviði lögfræði. Fyrir utan Ólaf Lárusson, sem víða er getið í sambandi við bæði þessi mál sem hér eru til umræðu, er vitnað til Ólafs Jóhannessonar, lagaprófessors og þingskörungs sem allir þekkja til, sem og til dr. Bjarna Benediktssonar sem ekki er síður þekktur á sviði lögfræði og af þingstörfum sínum, en báðir þessir fræðimenn og þingmenn og forustumenn flokka fluttu frumvörp varðandi notkun jarðhita og umráðarétt sem gerðu ráð fyrir takmörkunum á eignarrétti og lét þeim fylgja vel rökstudd sjónarmið um að slíkt rækist ekki á við ákvæði stjórnarskrár.

Ég gat þess, virðulegur forseti, að mál þessi hefðu oft komið fyrir. Málið um jarðhitaréttindin þó oftar en um orku fallvatna og hefur það eingöngu verið vegna þess að þörfin hefur kannski verið talin enn þá brýnni að því leyti, jafnframt því sem verið var að kanna pólitískan vilja í þinginu til þess að taka á málunum. Og það hefur ekki brugðist að alla tíð í öllum ráðuneytum sem setið hafa frá því að mál þetta fyrst var flutt 1983, hefur komið fram af hálfu iðnrh. að þeir teldu nauðsyn á að sett verði löggjöf um þessi efni, þeir hafi málin til skoðunar í sínum ráðuneytum, þess sé að vænta að fram komi frumvörp af hálfu ríkisstjórnanna og það sé mjög skammt í þau, ef ekki á haustþingi þá á vorþingi, ef ekki á vorþingi þá á næsta haustþingi. Ég gæti haft langar tilvitnanir uppi, virðulegur forseti, um þessi efni, en tel í rauninni ekki ástæðu til að taka tíma þingsins til að rekja það í einstökum atriðum, en þetta eru orðnar mjög þekktar vísur og oft kveðnar.

Það var svo að hæstv. iðnrh. í ráðuneyti Davíðs Oddssonar 1991--1995, að vísu sat viðkomandi ráðherra ekki allan tímann og ég vitna þar til þáv. hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar, var mikill áhugamaður um þetta efni og svaraði til samræmt þegar um var spurt, ég held með orðunum: ,,Það skal vanda sem lengi skal standa`` og var með því að réttlæta að nokkur dráttur hefði orðið á að frumvörpin kæmu fram.

Sama máli gegndi varðandi þann sem við tók, hæstv. ráðherra Sighvat Björgvinsson, nú hv. þm., að sá ráðherra hafði uppi fyrirheit um að fram væru að koma frumvörp og hæstv. fyrrv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, nú hv. þm., svaraði fyrir hönd nefnds ráðherra, hæstv. Sighvats Björgvinssonar og flutti þau boð inn í þingið á síðasta Alþingi að nú væru málin senn að koma og mundu sjá dagsins ljós áður en næstsíðasta þingi lyki, hinu 118.

Ég hef, virðulegur forseti, útskrift af umræðu á síðasta þingi og gæti fundið þessum orðum mínum stað með tilvitnunum. Það eru viss atriði sem ástæða er til að nefna sem bera vott um það hversu erfitt það hefur reynst ríkisstjórnum á þessu tímabili, frá 1983 og mætti reyndar leita lengra til baka, að koma þessum málum í hendur þingsins af sinni hálfu. Ég vísa þar í sjálfan stjórnarsáttmála ráðuneytis Davíðs Oddssonar frá 1991, þ.e. hina lengri útgáfu sem hét Velferð á varanlegum grunni. Og hvað halda menn að standi þar á bls. 34 í þessum útfærað stjórnarsáttmála þáv. ríkisstjórnar? Ég bið hv. þm. að leggja við hlustir. Með leyfi forseta:

,,Lagt verður fram frumvarp um eignarhald á orkulindum, afréttum og almenningum á 115. löggjafarþingi.`` Þetta er stjórnarsáttmáli ráðuneytis Davíðs Oddssonar 1991--1994. Lagt verður fram frumvarp og það er tiltekið á hvaða þingi. Og nánari tilvitnun, með leyfi forseta: ,,Þar verður skilgreint hvaða réttur til náttúruauðæfa landsins skuli fylgja bújörðum og öðrum landareignum og hvað skuli teljast almannaeign. Í framhaldi af starfi nefndar sem hefur það hlutverk að skýra og skilgreina mörk eignarlands og almenninga verður einnig sett löggjöf um það efni.``

Þetta er sáttmáli sem gilti --- ekki bara til 1994, ég mun hafa haft uppi rangt ártal, heldur fram undir sumarmál 1995. Og enn bíðum við eftir efndunum sem áttu að koma á 115. þingi í formi lagafrv.

Hæstv. ráðherrar, sem tóku þátt í umræðunni á 118. þingi, reiddu fram skýringar á þessum drætti. En niðurstaðan varð sú, fyrir hönd þáv. hæstv. iðnrh,. að frv. mundi koma inn í þingið fyrir þinglok. Svo varð þó ekki. Af ummælum hæstv. forsrh., þáv. og núv., mátti marka að það væri spurningin um eignarréttarákvæðin sem stæði í stjórninni að ná samkomulagi um. Það var í rauninni nokkuð ljóst af umræðum í þinginu, og hefur lengi verið, að talsmenn Alþfl. hafi verið reiðubúnir til að taka undir meginefni þessara frumvarpa, þó stundum vísað til þess að hugsanlega væri rétt að þrengja nálgunina varðandi jarðhitaréttindin, þannig að miðað væri við háhitasvæði fyrst og fremst en ekki allan jarðhita undir ákveðnum dýptarmörkum. Og ég hef fyrir hönd flm. lýst því yfir jafnoft að við værum reiðubúnir til að leita málamiðlunar um þetta mikilvæga efni til þess að Alþingi ræki af sér slyðruorðið og skorið væri úr þeirri miklu réttaróvissu sem í rauninni er uppi í þessum efnum, m.a. varðandi afréttir og almenninga, sem kunnugt er.

[16:30]

Mál hafa verið fyrir dómum og nú nýlega féllu reyndar mjög athyglisverðir dómar um þau efni og er ég þá að vitna til svæða í Norðurlandi vestra þar sem athyglisverðir dómar féllu þann 20. nóvember sl. varðandi eignar- og umráðarétt lands á afréttum þar norðan heiða, norðan vatnaskila á heiðum. Allt er þetta mikið umhugsunarefni og langt frá því að þessi málafylgja sé þinginu til sóma. Því er það svo að allir í þingflokki Alþb. láta hér enn á það reyna hvort vilji sé fyrir í þinginu að taka á þessu máli. Ég ítreka enn vilja til þess að skoða aðra útfærslu á þessum málum heldur en við hefðum kosið samkvæmt þessum frv. sem hér liggja fyrir.

Aðalatriðið er að þingið taki á málinu og setji löggjöf, auðvitað helst þannig að víðtæk samstaða sé um, þannig að þjóðarhagsmuna sé gætt. Því það eru þjóðarhagsmunir sem eru í húfi í þessum málum, ríkir þjóðarhagsmunir. Það hefur þegar komið fram að skortur á réttarlöggjöf, ófullnægjandi ákvæði í löggjöf um þessi efni, standa rannsóknum á auðlindum okkar fyrir þrifum og hafa gert það um lengri tíma, og þá ekki síst á jarðhitanum. Það liggur jafnframt fyrir að sú undanþága, eða réttara sagt það frestunarákvæði á gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði sem snertir kaup á fasteignum og lendum, rennur út um næstu áramót. Var það rætt hér á 118. þingi hver sú staða væri sem blasti við þegar sá frestur á gildistöku ákvæða í viðauka XII sem ber fyrirsögnina Frjálsar fjármagnshreyfingar, rynni út. Ég er reyndar með ensku útgáfuna hér fyrir framan mig, Free Movement of Capital. Þar kemur skýrt fram að Ísland ásamt Austurríki og Finnlandi fékk aðlögunartíma að þessum ákvæðum til 1. jan. 1996. Þá rennur hann út og við stöndum þá jafnfætis öðrum þegnum Vestur-Evrópu á öllu gildissvæði hins Evrópska efnahagssvæðis varðandi jarðakaup, kaup á fasteignum og landareignum, með öllu því sem þeim fylgir að lögum. Getur hver sagt sér í hvaða stöðu stefnir að óbreyttu. Þetta ætti sannarlega að vera hvatning fyrir þingið til að taka á málinu. Raunar kom fram í umræðum á næstsíðasta Alþingi að einn þeirra sem starfaði í nefnd varðandi orku fallvatna, hv. þm. Páll Pétursson, nú hæstv. félmrh., mat það svo að vegna þess að tímabundið undanþáguákvæði EES-samningsins væri að renna út, þá væri komin önnur staða í málið en hann hafði talaði fyrir. Nefndur hv. þm., nú hæstv. ráðherra, hafði fyrirvara og skilaði minnihlutaáliti í stjórnskipaðri nefnd á sínum tíma varðandi orku fallvatna og vitnaði til þess oft hér í umræðum á árum áður. En mat hans var hins vegar orðið það á næstsíðasta þingi að nú væri breytt staða uppi og nú yrðu menn vissulega að taka á málinu út frá því sjónarhorni sem hv. þm. þá mælti fyrir að því er varðaði eignarréttarákvæðin og þau atriði sem lúta að honum.

Ég vil líka leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna til ummæla hv. þm. Björns Bjarnasonar, nú hæstv. menntmrh., á 118. þingi þegar þessi mál voru rædd hér vegna þess að ég tel að þau lýsi nokkuð vel stöðunni. Með leyfi forseta, þá mælti hv. þm. svo í andsvari:

,,Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni [þ.e. ræðu sem sá sem hér talar flutti] um að í þessu máli þarf að taka af skarið. Það er ekki einleikið að það skuli hafa tekið jafnlangan tíma og raun ber vitni að komast að niðurstöðu um eignarhald t.d. á jarðhita undir 100 metra dýpi, en það er vegna þess hve viðkvæmt og vandasamt þetta mál er að þingmenn m.a. hafa skotið sér undan því að taka af skarið en nauðsynlegt er að það verði gert. Hvort það sé nauðsynlegt vegna þess að það tengist sérstaklega aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu vil ég ekki leggja mat á. Þetta mál hefur verið til umræðu frá því löngu áður en kom til tals að við gerðumst aðilar að því samstarfi.`` Þetta sagði hv. þm., nú hæstv. ráðherra, þá m.a. Hann benti jafnframt á að tímabundin aðlögunarákvæði samningsins um EES rynnu út um áramótin 1995/1996, sem sagt næstu áramót.

Í þessari umræðu talaði þáv. hæstv. umhvrh., sem ég hef þegar getið um hér í máli mínu, og var mjög eindreginn í sínum sjónarmiðum og yfirlýsingum og sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Það er hins vegar rétt að það komi fram að í þeim frv. sem eru í samningu hjá ríkisstjórninni er gert ráð fyrir að efni þeirra sé talsvert víðtækara. Þar er einnig fjallað um aðrar auðlindir sem finnast í jörðu eins og málma, steinefni, jarðgas, olíu og jafnframt grunnvatn, sem er auðlind sem menn horfa stundum fram hjá en kann að verða af skornum skammti þegar vindur fram um miðja næstu öld.``

Þetta sagði hæstv. þáv. umhvrh., sem tók þátt í umræðunni að iðnrh. þeirrar ríkisstjórnar fjarstöddum.

Eins og þessi tilvitnuðu ummæli bera með sér þá hefur verið skilningur hjá ýmsum mætum hv. alþm. á því að það þyrfti að setja löggjöf og undirtektir við það og hjá fjölmörgum ráðherrum eins og ég hef þegar nefnt. Iðnn. þingsins á ýmsum tímum hefur gert allmyndarlegar atrennur að því að vinna í þessu máli, kvatt til sérfræðinga og haft fullan vilja á því að leggja sitt til. En það hefur skort að það kæmu frá ríkjandi meiri hluta, þ.e. frá stjórnvöldum og úr ráðuneyti, þær tillögur sem menn hafa ætíð fullyrt að von væri á, allt frá því að Albert heitinn Guðmundsson sem hæstv. iðnrh., greindi frá því að slíkt frv. væri í smíðum í iðnrn.

Virðulegur forseti. Ég geri það ekki að gamni mínu frekar en aðrir hv. þm. Alþb. að leggja þetta mál ítrekað fyrir þingið. Við gerum það hins vegar vegna þess að við teljum að skyldan bjóði og vegna þeirra undirtekta sem þrátt fyrir allt hafa verið hér í þinginu við það að ástæða sé til að taka á málinu.

Nú hef ég litið á stefnuyfirlýsingu hæstv. núv. ríkisstjórnar frá 23. apríl 1995. Hún er engan veginn jafnvegleg og önnur útgáfa stefnuyfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar, Velferð á varanlegum grunni, og hefur ekki að geyma nein viðlíka ákvæði að því er varðar þessi mál eins og þar komu fram. Það er kannski jafngott ef ekkert verður úr efndum. En núv. hæstv. ríkisstjórn boðaði að það kæmi önnur útgáfa og hún vegleg. Ég held að hún hafi átt að koma í byrjun þings, mig minnir að það hafi verið fyrirheit um það. Hafi hún komið út hefur það algjörlega farið fram hjá mér. En hæstv. iðnrh., sem væntanlega tekur hér þátt í umræðu og er viðstaddur þessa umræðu, mun eflaust greina okkur frá hvar málum sé komið að því er varðar þetta framlag í jólabókaflóðið. Ég vona sannarlega að í það fari að styttast því við, sem viljum fylgjast með því hvað hugsað er og rætt á stjórnarheimilinu, höfum beðið eftir þessu,

Ég vænti þess, virðulegur forseti, að það sem hér hefur verið fram lagt verði tilefni til þess að Alþingi taki nú á sig rögg með atfylgi þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd, því ég veit að við komumst skammt, stjórnarandstæðingar, án þess að það komi til atfylgi bæði frá ríkisstjórn og hennar stuðningsmönnum hér á Alþingi. Ég minni aftur á þá aðstöðu sem uppi er frá næstu áramótum í þessu máli. Ég hef að vísu ekki mikla von um að mönnum takist að lögfesta ákvæði um þessi efni fyrir áramót. En aðalatriðið er að þingið taki sig á í þessum efnum, að það verði sett löggjöf að vilja meiri hluta og helst með góðu samkomulagi þingsins í heild, sem taki mið af ríkum þjóðarhagsmunum í þessum málum báðum sem hér eru til umræðu og mega þá gjarnan fylgja önnur atriði þar sem óvissa er uppi um eignarrétt, þannig að sett verði sem víðtækust ákvæði um þjóðareign á verðmætum sem enginn mennskur maður hefur átt þátt í að skapa, og á eðli máls samkvæmt að vera sameign þjóðarinnar. Það væri vel ef við þyrftum ekki að bíða næsta þings eftir slíkri löggjöf.

Virðulegur forseti. Ég legg til að báðum þessum málum verði vísað til hv. iðnn.