Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:53:06 (1316)

1995-11-27 17:53:06# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:53]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Fyrir örskömmu var ég í Aserbaídsjan, fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna. Ég var þar í kosningaeftirliti á vegum Evrópuráðsins og það hérað sem mér var ætlað að fylgjast með er alveg suður undir Íran en þar er múhameðstrú hvað sterkust í því landi. Margháttuð kosningasvik voru höfð í frammi í þessum kosningum. Flokkar voru útilokaðir svo og frambjóðendur. Aðgangur stjórnarandstöðu að fjölmiðlum var takmarkaður og her og lögreglu var beitt bæði beint og óbeint gegn vilja fólksins sem sótti kjörstaðinn. Eitt var þó meira áberandi en flest annað. Til kjörstaðanna komu heimilisfeður og kusu, ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur kusu líka fyrir alla fjölskyldu sína. Hver einasti maður sem vildi halda virðingu sinni lét að sjálfsögðu ekki sjá eiginkonu eða eiginkonur sínar og þaðan af síður dætur. Þessir menn voru að kjósa fyrir marga, sumir fyrir þrjá eða fjóra, allt upp í sextán. Það þykir tilhlýðilegt að senda sérstaka sveit Vesturlandabúa, lýðræðishyggjumanna og frelsisboðenda til þess að hafa eftirlit með þessu fólki og að sjálfsögðu lýsum við andúð okkar á þessum vinnubrögðum. En við höfum líka samúð með þessu fólki því það þekkir ekki lýðræðishefðirnar. Þetta fólk hefur verið undir kommúnisma Sovétríkjanna í 70 ár og þar áður kúgað í margar aldir og ekki er laust við það að við brosum að því þegar mennirnir koma og kjósa fyrir svo marga.

En hver er afsökun okkar þar sem menn koma hér í sumum kjördæmum og kjósa fyrir marga? Ekki er afsökun okkar sú að við þekkjum ekki grundvallaratriði lýðræðisins. Ekki ætla ég nokkrum manni það í nokkru kjördæmi að hann sé að koma þar og kjósa sérstaklega fyrir eiginkonu, ég segi ekki eiginkonur, heldur eiginkonu sína og dætur. Ég ætla mönnum það ekki. En grundvallarmisréttið er engu að síður til staðar. Eigum við að fara að óska eftir sérstöku kosningaeftirliti frá Evrópu eða úr öðrum áttum til að fylgjast með því að við getum viðhaldið grundvallaratriðum lýðræðisins? Að sjálfsögðu viljum við ekki fá slíkt yfir okkur. Við höfum ekki einu sinni trúmál til þess að skjóta okkur á bak við. Hins vegar hafa mörg atriði verið sett fram til að afsaka það óréttlæti sem er í jafnvægi kosningarréttar hér á þessu landi og ég ætla aðeins að drepa á örfá og mótmæla þeim. Það hefur verið sagt sem svo að réttur manna og möguleiki til áhrifa á lýðræði sé orðinn svo mikill að það þurfi varla miklu meira. Þá benda menn á áhrif fjölmiðla, niðurstöður skoðanakannana og áhrif margvíslegra þrýstihópa. Að sjálfsögðu getum við ekki sætt okkur við að þessir aðilar taki við eða beri með nokkrum hætti fram þann rétt sem hver maður á að hafa einn með sjálfum sér og án afskipta og í fullu jafnrétti við aðra þegar hann gengur einn inn í kjörklefann.

Þá hefur það líka verið nefnt að búsetuskilyrði og aðstöðumunur séu þannig að það sé rétt að bæta það upp með kosningarrétti. Ég get alls ekki sætt mig við verslað sé með grundvallaratriði lýðræðis og mannréttinda með neinum hætti á móti aðstöðumun. Við getum fundið svo margvíslegan aðstöðumun í þjóðfélaginu að þessi aðstöðumunur sem svo sannarlega er á milli kjördæma er ekki sá eini. Ef við ætluðum að nýta stöðugt kosningarréttinn til jöfnunar, væri það til að æra óstöðugan.

Ég held þess vegna að óhjákvæmilegt sé að Íslendingar taki rögg á sig með hvaða hætti sem það er og að sjálfsögðu snýr það hér að hinu háa Alþingi að jafna kosningarréttinn þannig að einn maður hafi eitt atkvæði. Mér þótti vænt um að hv. þm. Jón Baldvin vill þakka okkur framsóknarmönnum þessa liðveislu sem hann telur að sé komin en ég fullvissa hann um að það er ekki af neinni sérstakri samúð við Alþfl. þótt full ástæða sé til að við leggjum áherslu á þessi atriði í stefnu okkar margra ungra framsóknarmanna ef ég má telja mig til þeirra í þessu tilliti. Ég tel að við eigum að sjálfsögðu að nýta tímann vel. Það mun alveg ábyggilega ekki veita af tímanum til þess að ljúka málinu fyrir næstu kosningar og styð þess vegna meginatriði þess sem kemur fram í þáltill. að unnið verði að þessu á þinginu og því lokið þannig að kosið verði með réttlátum hætti til næsta Alþingis.