Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 19:06:17 (1340)

1995-11-27 19:06:17# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[19:06]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil ekki verða til að lengja umræðurnar mjög mikið úr þessu. En ég vildi aðeins bæta því við umræðuna að kenna þeim mönnum það ráð sem hafa talað sem mest um mannréttindi án þess að útskýra í hverju þau eru fólgin. Þeir hafa bent á það sjálfir að það verði að fara þá leið að breyta stjórnarskránni til þess að fá fram þessa jöfnun atkvæðaréttar og láta fara fram kosningar tvisvar. Hvorki Alþingi né ríkisstjórn sé samt treystandi til þess að ganga frá þessum málum eins og þeir telja rétt og skylt. Þriðju kosningarnar verða að fara fram og kjósa til stjórnlagaþings. Enginn hefur svarað þeirri spurningu hvort á stjórnlagaþinginu muni sitja sömu mennirnir og hafa reynst ófærir á Alþingi og í ríkisstjórn til þess að koma þessum málum í framkvæmd.

Nú skal ég kenna þeim ráð sem er mjög einfalt. Af hverju tekur ekki einhver sig til og kærir þetta fyrirkomulag sem við höfum á kosningum fyrir mannréttindanefnd Evrópudómstólsins og fær forskrift þaðan hvernig við eigum að haga okkur?