Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:10:00 (1355)

1995-11-28 15:10:00# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert flókið. Menn hafa starfað á þessum grundvelli frá árinu 1985 ef ég man rétt og Schengen-samkomulagið byggist á samkomulagi frá árinu 1990. Það mun hafa verið í umræðu við undirbúning þess máls, en það var talið að það væri ekki nægilega langt komið.

Það liggur alveg ljóst fyrir að þjóðir sem koma sér saman um að hafa sem frjálsust samskipti reyna að koma því þannig fyrir að fólk geti farið á milli landa á sem auðveldastan hátt. Það hlýtur alltaf að hafa búið þar undir að greiða fyrir umferð á landamærum og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði fjallar um það og þess vegna er ekkert óeðlilegt að þetta mál hafi verið þar með í myndinni. Hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir að við Íslendingar höfum ekki undirgengist neinar skuldbindingar að því leytinu til. Við höfum hvorki lofað því í þeim samningi né annars staðar að taka upp þetta Schengen-samkomulag þannig að engin slík skuldbinding liggur fyrir. Það er sjálfstæð ákvörðun okkar þegar þar að kemur hvort við eigum að gera þetta eða ekki. En það er eins og gengur og gerist að þá þurfum við að yfirtaka bæði kostina og gallana. Mér er það vel ljóst að ýmsir eru andvígir þessu í Noregi, en þar liggur m.a. að baki að menn trúa því að öll Norðurlöndin muni þá fylgjast að í því að verða utan við þetta. Ég er ekkert viss um að það sé hægt að treysta á það. Það má vel vera að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson treysti því án þess að ég hafi heyrt hann segja það. En mér hefur fundist það liggja að nokkru leyti að baki m.a. þeirra raka sem hafa komið fram í norska Stórþinginu.