Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:28:01 (1371)

1995-11-28 16:28:01# 120. lþ. 42.9 fundur 71. mál: #A menningar- og tómstundastarf fatlaðra# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Örfá orð vegna ræðu hv. þm. sem hér talaði um mismunandi framlög svæða. Ég get ekki svarað því nákvæmlega en einn þáttur er misdýr úrræði á hinum ýmsu svæðum. Ég get nefnt að verndaður vinnustaður er mjög dýrt fyrirtæki, þar sem þeir hafa verið settir upp og reknir og tek það fram að það er visst afturhvarf frá þeirri stefnu í lögunum sem voru endurskoðuð 1991 og frekar mælt með liðveislu og aðstoð við að fatlaðir séu á almennum vinnumarkaði. Fjöldi sambýla er mismunandi og þau eru misdýr miðað við fötlun íbúa. Svæðisskrifstofur meta þörf fyrir bæði framkvæmdir og rekstur stofnana og senda inn umsóknir til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem stýrir uppbyggingunni, þ.e. framkvæmdum sem síðan draga á eftir sér að sjálfsögðu þann rekstur sem til þarf. En ég get nefnt það t.d. að á Norðurlandi hefur verið nokkuð mikið um framkvæmdir að undanförnu. Þar hefur verið um mörg úrræði að ræða vegna þess að það var verið að leggja niður Sólborg á Akureyri. Það var verið að leggja niður stóra stofnun sem var barn síns tíma og byggð upp á Norðurlandi sambýli fyrir þá einstaklinga sem fluttust út af Sólborg. Endurgjaldið fyrir Sólborg fer síðan í að byggja upp á öðrum stað. Ég vil nefna það í lokin að í vetur var sett reglugerð sem hækkaði mjög greiðslur til svokallaðra stuðningsfjölskyldna. Stuðningsfjölskyldur eru eitthvert mikilvægasta úrræði sem fjölskyldur fatlaðra barna, eða fatlaðra einstaklinga sem þurfa hjálp, njóta. Það er fólkið sem tekur einstaklingana að sér yfir helgar og vinnur mjög óeigingjarnt starf með oft erfiða einstaklinga. Greiðslur fyrir þetta verkefni voru mjög lágar og hreint smánarlegar. Þessar greiðslur voru hækkaðar með reglugerð sl. vetur og það er Framkvæmdasjóður fatlaðra sem greiðir þetta og eitt af því sem telst til svokallaðs reksturs í Framkvæmdasjóði fatlaðra.