Habitat-ráðstefnan 1996

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:59:30 (1420)

1995-11-29 13:59:30# 120. lþ. 43.3 fundur 91. mál: #A Habitat-ráðstefnan 1996# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það var sannarlega þörf á því. Það er nú svo að við Íslendingar getum ekki tekið þátt í öllu því sem fram fer á alþjóðavettvangi með þeim hætti sem við kysum helst vegna fámennis okkar og líka vegna kostnaðar. Það er því nauðsynlegt að velja þar og hafna og reyna að sinna þessum málum eftir bestu getu. Það verður ekki gert nema í náinni samvinnu við þau félagasamtök sem tengjst þessum málum.

[14:00]

Hvað þetta mál varðar er það t.d. mjög á dagskrá sveitarfélaga, svo eitthvað sé nefnt, fyrir utan ráðuneyti, stjórnmálaflokka og að sjálfsögðu Alþingis. Ég legg því áherslu á að það geti verið um þessi mál hið besta samstarf. En í sannleika sagt getum við ekki sinnt þessu máli sem hér um ræðir eins vel og við vildum hafa gert vegna kostnaðar. Það hafa nú þegar átt sér stað margvíslegir undirbúningsfundir og við höfum því miður ekki getað sinnt þeim öllum. Þetta vildi ég að væri alveg ljóst því að það þýðir ekkert að vera eitthvað að þykjast í þessum málum. Við getum ekki rækt þau með alveg sama hætti og stóru þjóðirnar, en það er ekki þar með sagt að við höfum ekki ýmislegt til málanna að leggja og höfum ekki margt fram að færa í sambandi við þau, en þá er nauðsynlegt að sem best samstarf ríki um málið.