Nýting og útflutningur á jarðefnum

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:47:31 (1627)

1995-12-06 13:47:31# 120. lþ. 54.2 fundur 183. mál: #A nýting og útflutningur á jarðefnum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi StB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:47]

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 227 leyfi ég mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um nýtingu og útflutning á jarðefnum. Það er þekkt að mjög víða á landinu eru námur og þeir sem ferðast um landið sjá þær svo að ekki fer á milli mála. Þar er bæði um að ræða námur sem í er sótt efni til vegagerðar og byggingar en einnig námur tengdar útflutningi á vikri.

Hæstv. umhvrh. óskaði eftir því að Náttúruverndarráð kannaði ástand vegna efnistöku og hefur það skilað heljarmikilli skýrslu sem ber nafnið Námur á Íslandi og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ástandið virðist vera óviðunandi í öllum landshlutum. Námur eru oft margar og umgengni í þeim er víða ábótavant. Sums staðar verður að telja að hætta stafi af vegna slæms viðskilnaðar. Í sumar námur hefur verið safnað sorpi og brotamálmum. Ástæðurnar fyrir þessu ástandi í efnistökumálum eru margvíslegar. Þær helstu eru vanþróað vegakerfi sem einnig er stórt miðað við fólksfjölda, óskýr lög og skipulagsleysi við efnistöku. Vegna þessa er brýnt að efnistaka á Íslandi verði skipulögð og eftirlit með henni eflt. Setja þarf skýrar reglur um efnistöku. Færa ætti eftirlit með henni til sveitarfélaga og gera þarf ítarlegar náttúrufarskannanir í öllum landshlutum. Við núverandi ástand verður ekki unað,`` segir í skýrslu Náttúruverndarráðs.

Sem betur fer á þetta ekki við efnistöku vegna vikurs að ég held. Engu að síður tel ég samt að skipulag þeirra mála sé ekki eins og æskilegt er talið. Þess vegna hef ég, hæstv. forseti, leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. iðnrh.:

1. Hversu mörg leyfi hafa verið gefin út fyrir vinnslu og útflutningi á vikri?

2. Eru í gildi reglur um útflutning á jarðefnum, t.d. vikri?

3. Hvaða kröfur eru gerðar um umgengni í námum og meðferð og vinnslu þeirra jarðefna sem seld eru til útflutnings?

4. Hver hefur eftirlit með þeim námum sem eru nýttar?

5. Hefur verið gerð áætlun um nýtingu jarðefna, t.d. vikurs, til útflutnings og lagt mat á verðgildi miðað við mismunandi vinnsluaðferðir?

6. Hverjar voru tekjur af útflutningi vikurs á sl. ári og hversu mörg ársverk eru í vikurútflutningi?

Ég leyfi mér að bera fram þessa fyrirspurn til hæstv. iðnrh. vegna þess að ég tel að gæta verði þess að nýta auðlindina skikkanlega og með viðunandi hætti, bæði út frá umhverfissjónarmiði og gagnvart því að þetta eru verðmæti og ekki síst vegna þess að þarna eru möguleikar á að skapa atvinnutækifæri og koma á e.t.v. frekari nýtingu og verðmætasköpun í tengslum við byggingariðnað.