Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:49:42 (1658)

1995-12-06 15:49:42# 120. lþ. 55.92 fundur 128#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:49]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég var einn þeirra frambjóðenda sem í kosningabaráttunni studdi réttindabaráttu námsmanna og að veruleg bragarbót yrði gerð á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Eins og kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar, eru framsóknarmenn ásamt öðrum að vinna að lausn þessa máls í samræmi við loforðin sem gefin voru og verður staðið við. Ég vil sérstaklega beina sjónum að einu atriði hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna en það er endurgreiðsluhlutfallið sem er núna að leggjast með fullum þunga á fyrstu námsmennina sem þurfa að standa undir því.

Fyrstu tvö árin er ekki greitt. Síðan eru það 5% í fimm ár og loks 7%. Þeir sem nú eru að horfast í augu við þessa greiðslubyrði segja mér að hún sé mun þyngri en hægt er að ráða við. Við erum ekki að tala um fortíð. Við erum að tala um framtíð unga fólksins sem við styrkjum til náms. Ég tel þetta vera eitt brýnasta verkefnið sem vinna skal að og það munum við framsóknarmenn svo sannarlega gera og við þurfum ekki brýningar annarra sem telja sig hafa farið illa út úr stjórnarsamstarfi hvað þetta varðar.