Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:00:20 (1702)

1995-12-07 16:00:20# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil fagna því hvað menn taka ljúflega undir þá skoðun mína að við þurfum að efla leiguíbúðamarkaðinn. Ég vil láta þess getið að á vegum Reykjavíkurborgar er í gangi átak sem heitir Íbúð á efri hæð. Með því er verið að reyna að nýta það húsnæði sem fyrir hendi er og mikið af því gæti líka hentað til leigu. Ég er ánægður með þær undirtektir sem þetta hefur fengið hér.

Ég held að við eigum að einbeita okkur að því að reyna að styrkja leigumarkaðinn, þannig að framboðið verði nægjanlegt af sæmilega góðu leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum og það verði betri kostur fyrir fólk en ráðast í að kaupa sér húseign ef það á ekki neitt. Reynslan sýnir nefnilega að fólk sem á ekki neitt til að leggja í íbúðarkaup en leggur í þau samt lendir yfirleitt í vandræðum því miður.

Samkvæmt upplýsingum frá héraðsdómi Reykjavíkur fæst ekkert upp í 99% gjaldþrota einstaklinga, ekkert. Samt eru gjaldheimtan og tollurinn að keyra menn í gjaldþrot. Það verða líklega 400--500 gjaldþrot í Reykjavík hjá einstaklingum á þessu ári og þau eru langflest að kröfu tollstjóra eða gjaldheimtunnar. Þeir einu sem hafa upp úr því eru lögfræðingarnir sem annast búin.

Ég get verið að vissu leyti sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að 86-kerfið var ekkert galið kerfi. 86-kerfið hafði sína galla, en í grundvallaratriðum var það gott kerfi. Það hafði hins vegar þann galla að mikill biðlisti myndaðist og það var ekki gott. Húsbréfakerfið hefur líka sína kosti, er t.d. mjög greitt í viðskiptum. Húsbréf eru ágætur gjaldmiðill þegar menn skipta um íbúð og húsbréfin geta gengið frá hönd til handar. Ég ætla ekki að leggja til að húsbréfakerfið verði lagt niður. Ég vil reyna að laga það. Ég hef tekið við húsbréfakerfinu nauðugur viljugur. Það er eins og þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er sestur upp í alþýðubandalagsrútuna og farinn að keyra. Hann keypti ekki þennan bíl. Hann hefði keypt sér miklu betri bíl ef hann hefði fengið að ráða. En hann reynir að halda honum á veginum og er reyndar sá eini sem getur það því að hinir alþýðubandalagsmennirnir geta ekki keyrt svona slæman bíl. Ég er að reyna að halda húsbréfakerfinu á veginum.