Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:29:34 (1714)

1995-12-07 17:29:34# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:29]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu fram komna frv. um þetta mikilvæga mál og bendi á að það hefur komið fram í umræðunni að í rauninni sé beðið eftir að ákvæði þessa frv. verði lögfest vegna snjóflóðsins á Flateyri. Þetta kom einnig fram hjá hæstv. félmrh. í ræðu hans og í því sambandi langar mig að spyrja út í gildistökuákvæði laganna því að það virðist vera mjög hefðbundið, þ.e.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.`` Ég spyr vegna þess að í skaðabótalögunum er reglan sú að ávallt er miðað við gildandi lög þegar tjón verður óháð því hvenær tjónið er gert upp og því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé hans skilningur að þetta frv. muni gilda ef að lögum verður varðandi snjóflóðið á Flateyri og ef svo er, hver sé þá eðlismunurinn á þessum lögum og skaðabótalögunum. Einnig hvort hann telji það ekki óeðlilegt að verið sé að móta löggjöf af þessu tagi við þær aðstæður að sérstök vandamál vegna nýfallinna flóða knýja í raun á.

Það kemur fram í greinargerð og í fyrri ræðum að áætlað sé að endurskoða þessi lög í grundvallaratriðum innan árs. Það er augljóst mál að fyrir þann tíma verður að eiga sér stað mjög mikil vinna varðandi hættumat og það er ósk mín að verulega verði vandað til þeirrar vinnu. Nú er einungis þrennt lagt til, þ.e. í fyrsta lagi flutningur á yfirsstjórn málaflokksins til umhvrn. og Veðurstofunnar og ég tel að það sé mjög góð ráðstöfun. Í öðru lagi er lagt til að gerðar verði áætlanir til þess að rýma húsnæði á afmörkuðum svæðum ef sérstakt hættuástand hefur skapast og mér virðist að helsta álitamálið sé hvort rétt geti verið að beita valdi í því skyni. Mér virðist að á því geti verið siðferðilega skiptar skoðanir og því þurfi að athuga það mál mjög vel.

Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að lögfestar verði reglur varðandi tilhögun á greiðslum úr ofanflóðasjóði til húseigenda á hættusvæðum en það er nú bundið í reglugerð. Í þeim reglum er gengið út frá því sem meginforsendu að styrkja eigi byggð í sveitarfélögunum þar sem snjóflóð hafa fallið eða snjóflóðahætta er yfirvofandi. Greiðslur til þeirra sem hyggjast búa áfram í heimabyggð geta þar með orðið hærri en greiðslur til þeirra sem flytja brott eins og fram hefur komið í málflutningi fleiri ræðumanna í dag.

Ég veit að ýmis rök mæla með þessu fyrirkomulagi en ég hef einnig verulegar efasemdir um hvort þetta sé rétt, ekki síst vegna þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli og ég er greinilega ekki ein um þá skoðun. Ég tek því undir það með Kristínu Ástgeirsdóttur og fleirum sem hafa látið í ljós þá skoðun að það sé rétt að hlusta á fólk sem býr á þessum svæðum og það sé alls ekki rétt að binda það átthagafjötrum með því að hygla því fjárhagslega fyrir að vera áfram á hættusvæðinu umfram það að flytja burt. Þarna togast á byggðapólitísk og siðfræðileg sjónarmið og þau verður að gaumgæfa mjög vel. Ég tel að enginn sé betur fær en hv. Alþingi til þess að gera það. Ég er því tilbúin að fara mjög gaumgæfilega ofan í þetta mikilvæga mál í hv. allshn. og er tilbúin að stuðla að farsælli meðferð þess í þinginu en ítreka að málið verður að fá nokkra grundvallarumræðu þó að auðvitað verði að flýta fyrir málinu.

Ég ítreka í lokin fyrirspurn mína til hæstv. forsrh. varðandi muninn á afturvirkni þessa frv. ef að lögum verður og skaðabótalaganna, ekki síst vegna þeirra miklu álitamála sem eru úti í þjóðfélaginu um óuppgerð skaðabótamál samkvæmt skaðabótalögunum.