Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:56:52 (1719)

1995-12-07 17:56:52# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:56]

Drífa Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Ég vil fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram. Það hefur verið lögð allmikil vinna í það og það er vandað. Ég tel að sá grunnur sem þarna er lagður sé mikilvægur. Þarna kemur einmitt sú skoðun fram að fólk verði jafnsett sem verður fyrir þessu. Það finnst mér ákaflega mikilvægt.

Það sem ég vil einkum ræða hér er 5. gr. og þá sérstaklega síðasta málsgreinin. Mér finnst að það sé ákaflega vandasamt að meta hvað er hættusvæði og hvað ekki. Þegar talað er um að ekki megi hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum nema komin séu tilskilin varnarvirki hef ég allmiklar áhyggjur af því að við séum jafnvel ekki fær um að meta hvort þessi varnarvirki raunverulega virki. Ég er ekki fróð um þessi efni, en þó er það mikill kyngikraftur í snjóflóðum að það er ákaflega erfitt að vega þetta og meta og kannski ógerlegt í stöðunni á Íslandi í dag. Ég tek þó undir að það er mikilvægt að það verði rannsakað. Ég tel að sveitarstjórnir hljóti að taka upp aðalskipulag í þeim bæjarfélögum þar sem hefur verið og er snjóflóðahætta. Þeir hljóta að meta það í ljósi reynslunnar.

En mér finnst líka ákaflega mikilvægt að íbúunum sé gerð grein fyrir þeirri hættu sem fylgir því að búa á þessum svæðum. Mér finnst að íbúarnir eigi rétt á upplýsingum um þessi efni svo þeir geti tekið ákvörun um hvort þeir ætla að vera eða fara. Ég vil lýsa efasemdum varðandi síðustu málsgrein í 5. gr. frv. en ég tel jafnframt að það sé varhugavert varðandi 10. gr., sem ekki er þó gerð brtt. við, að taka svo mikla peninga út úr Viðlagatryggingu Íslands. Það veikir viðlagatryggingu og í ljósi fyrri hamfara er spurning hvort það gæti gengið til lengri tíma. Ég held að það sé a.m.k. varasamt og bið menn að skoða það. Annars sé ég reyndar ekki í stöðunni í dag hvar annars staðar á að taka þessa peninga.

Mér finnst allmikil áhætta felast í þessari 5. gr. varðandi varnarvirki. Maður veit raunverulega ekki hvort þau duga, þótt það stafi kannski af þekkingarleysi. Ég hef áhyggjur af að svo sé ekki.