Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 15:41:20 (1748)

1995-12-08 15:41:20# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[15:41]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hér í umræðunni hefur með nokkrum orðum verið vikið að því ákvæði frv. sem hér er til umræðu og lýtur að takmörkunum á ábyrgð ríkissjóðs á greiðslum á bótum til þolenda afbrota. Nú er það svo að lögin sem samþykkt voru í ársbyrjun fólu í sér takmarkanir á greiðsluábyrgð ríkissjóðs. Það var ekki svo að greiðsluábyrgð ríkissjóðs væri án takmarkana. Það er mikilvægt að hafa það í huga í þessu sambandi. Það er vissulega rétt sem komið hefur fram að það voru mikilvæg skilaboð út í þjóðfélagið þegar Alþingi samþykkti að ríkisvaldið tæki ábyrgð á greiðslum bóta til þolenda afbrota. Í býsna mörgum tilvikum sem við vitum um á mörgum undanförnum árum hafa þolendur afbrota staðið uppi án þess að hafa getað innheimt þær bætur sem þeim ber. Það er réttlæti sem þingið vildi ekki fallast á. Ég tel þess vegna að mikilvægt skref hafi verið stigið þegar lögin voru samþykkt og tek undir þau sjónarmið sem sett hafa verið hér fram í þeim efnum af nokkrum þingmönnum.

Við verðum hins vegar að horfast í augu við áveðinn veruleika við fjárlagagerðina og auðvitað má með nokkrum sanni segja eins og bent hefur verið á að menn hefðu átt að sjá það betur fyrir þegar málið var til afgreiðslu hér í byrjun árs. En vissulega bundu menn þá vonir við að fjárlagarammi dómsmrn. yrði heldur rýmri en raun varð á. Ég held á hinn bóginn að hv. þm. geti ekki verið ósammála mér um það að það er mjög mikilvægt að okkur takist að halda útgjöldum ríkisins innan ákveðinna takmarka og það gerist auðvitað ekki nema hvert og eitt ráðuneyti reyni að virða þá fjárlagaramma sem settir eru. Öðruvísi náum við ekki markmiðum okkar. Og það er líka mikilvægt fyrir alla þá sem eiga að njóta greiðslna úr sameiginlegum sjóðum að okkur takist að ná því markmiði.

Það voru horfur á að fresta þyrfti ákvæðum laganna alfarið um heilt ár. Niðurstaðan varð sú að gera frekar breytingar á lögunum sem takmarka bótagreiðslur ríkissjóðs meir en gert var ráð fyrir í þeim eins og þau voru samþykkt. En ég minni enn og aftur á að í lögunum fólust takmarkanir. Þær eru hertar hér í þeim tilgangi að dómmrn. eins og önnur ráðuneyti geti tekið þátt í því að ná heildarmarkmiðum í ríkisfjármálum. Og það er mikilvægt að hafa í huga í umfjöllun um þessi mál að það markmið að ná hallalausum fjárlögum, sem að vísu næst ekki að þessu sinni en við erum að stíga vonandi mikilvægt skref í þá átt, skiptir þá sem njóta greiðslna frá ríkissjóði miklu máli.

[15:45]

Ef við náum ekki þeim markmiðum þá erum við kannski fyrst og fremst að veikja stoðir þeirra sem virkilega þurfa á fjárhagsaðstoð ríkisins að halda. Traust fjármálastjórn er forsenda fyrir því að okkur takist að viðhalda varanlegu velferðarkerfi í landinu og tryggja öryggi þegnanna. Fyrir þá sök er lagt til að þessar takmarkanir verði samþykktar. Ég get að öðru leyti tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og eins og til að mynda hjá hv. síðasta ræðumanni um mikilvægi þess að ríkisvaldið tryggi þessar bætur. Það er ekki svo að hér sé einvörðungu um að ræða ábyrgð vegna bóta sem viðurkenndar hafa verið með dómi. Hér er einnig um að ræða ábyrgð á bótum án þess að dómur hafi gengið. Fyrir því eru þau ákvæði í lögunum að sérstök nefnd fjallar um þau mál og úrskurðar um bótaréttinn og um leið bótaábyrgð ríkissjóðs eða ábyrgð ríkissjóðs vegna bótanna. Það er ekki skilyrði fyrir þessari ábyrgð að það hafi gengið dómur um sök í málinu.

Það hefur verið vikið hér að nokkrum öðrum málum, til að mynda þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á skipun sýslumannsembætta í landinu. Það er hluti af sparnaðarráðstöfunum dómsmrn. að leggja til að tvö sýslumannsembætti verði sameinuð öðrum nærliggjandi embættum þar sem ekki er um langan veg að fara til að sækja sýslumannsþjónustu annaðhvort til næsta sýslumannsembættis eða næsta útibús sýslumannsembættis. Það er svo að ef við ætlum að ná árangri í sparnaði í ríkiskerfinu þá þurfum við líka að horfa á það að í yfirstjórn kerfisins þarf að gera endurskipulagningu. Hluti af yfirstjórn ríkiskerfisins eru sýslumannsembættin. Þau voru eðlilega staðsett og ákveðin á sínum tíma með tilliti til aðstæðna. Aðstæður hafa verið að breytast bæði vegna bættra samgangna, vegna bættra fjarskiptatækni og nýrra möguleika í þjónustu. Það er alveg ljóst að í áframhaldandi sparnaðaraðgerðum þarf að stíga enn stærri skref í uppstokkun í yfirstjórn kerfisins. Það liggur fyrir að á næsta ári þarf að stíga stærri skref og sameina fleiri sýslumannsembætti. Ég lagði fram tillögur um það fyrir ekki mörgum árum að stíga mjög stórt skref í þeim efnum. Þá þótti ýmsum sem ætlunin væri að stíga of stórt skref í einu og heppilegra væri að ná markmiðunum með því að hafa skrefin styttri en fleiri. Þær tillögur sem hér liggja fyrir byggja m.a. á því. Ég ætla ekki að gera upp á milli þessara sjónarmiða hvaða aðferð eigi að nota til að ná þessum markmiðum. Það er alveg ljóst ef við ætlum að ná frekari árangri í sparnaði í ríkisrekstri þarf líka að taka á yfirstjórninni. Menn verða að vera reiðubúnir til þess að taka á á því sviði. Þess vegna blasir það við að við þurfum að stíga enn stærri skref á næsta ári í þessum efnum. Við erum alltaf reiðubúnir til þess í dómsmrn. að ræða um fyrirkomulag þessarar þjónustu, hvernig má auðvelda fólki aðgang að henni, til að mynda með samningum við skrifstofu sveitarfélaga um afgreiðslur og þar fram eftir götunum ef það er um leið þáttur í því ná fram sparnaðarhugmyndum og minnka kostnað við yfirstjórnina sjálfa.

Þá vík ég að Fiskifélaginu sem hv. 4. þm. Norðurl. e. minntist á í morgun. Hér er einfaldlega verið að afnema skyldu til samninga við Fiskifélagið. Ráðuneytið hefur átt mjög gott samstarf við Fiskifélagið um vinnslu á ákveðnum verkefnum fyrir Fiskistofu. Okkur hefur hins vegar þótt sem greiðslan fyrir þetta væri of há og það er hluti af sparnaðarráðstöfunum að ná niður kostnaði í þessu efni. Hins vegar höfum við verið í viðræðum við Fiskifélagið um áframhaldandi verktöku þess og væntum þess að þær viðræður geti leitt til þess að við gerum samning til lengri tíma við Fiskifélagið. Það hefur verið að ganga í gegnum breytingar. Óhjákvæmilegar breytingar. Þar höfum við verið að stíga þau skref að skilja á milli almennrar félagsstarfsemi og stjórnsýslu sem var óhjákvæmileg aðgerð. Fiskifélagið eins og aðrar slíkar stofnanir sem urðu vissulega til við aðrar aðstæður í þjóðfélaginu, urðu að horfast í augu við þá endurskipulagningu. Ég held að það hafi líka verið fullur vilji til þess innan Fiskifélagsins. Það hefur haft einhver tímabundin áhrif á stöðu félagsins en ég held að allir þeir sem fylgdust með síðasta fiskiþingi hafi sannfærst um að félaginu er að aukast þróttur og afl og síðasta fiskiþing bar vitni um nýja sókn félagsins. Ég held að það sé alveg fráleitt að ætla að þessar breytingar þurfi að leiða til þess að Fiskifélagið koðni niður. Það er ekki markmið stjórnvalda og enda held ég að starf þess á síðasta ári hafi sýnt að það er að eflast á nýjan leik. Ég vona að við getum átt áfram gott samstarf við Fiskifélagið um þessi verkefni en tel fullkomlega eðlilegt að ná þar niður kostnaði eins og á öðrum sviðum í opinberum rekstri og tel ekki eðlilegt að í lögum sé skylda til samninga. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Fiskifélagsins til frambúðar að vera með slík ákvæði í lögum. Það er miklu betra og skynsamlegra að þróa gott samstarf og góða samvinnu á frjálsum grundvelli eins og ég tel að allar forsendur séu fyrir og vona að takast muni í þeim viðræðum sem nú standa yfir.