Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 16:06:49 (1757)

1995-12-08 16:06:49# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[16:06]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. reynir auðvitað að verja lagabreytingarnar um bótagreiðslurnar. Honum er nauðugur einn kostur. Hann talar um heldur meiri takmarkanir á upphæð bótagreiðslna eins og þær séu ekki mjög miklar en þær eru auðvitað geysilega miklar og það hefur allt verið rakið áður.

Ég tel mig reyndar vita nokkuð um hug hæstv. dómsmrh. í þessu máli og staða hans er auðvitað ekkert öfundsverð. Honum er settur ákveðinn rammi og svigrúmið er lítið í ráðuneyti hans. Ég held að honum sé þetta bæði sárt og nauðugt. Ég held að það skorti ekkert á skilning hans en að vandamálið sé að þennan skilning skorti meðal samráðherra hans og þeirra sem standa að baki þessari ríkisstjórn. Ég kalla eftir skilningi úr röðum þeirra því að hér er um að ræða forgangsröðun í ríkisfjármálum og allir ráðherrar bera ábyrgð í þessu efni. Ég er sannfærð um að hæstv. ráðherra fagnar stuðningi alþingismanna í þessu efni, bæði úr minni og meiri hluta, við að finna leiðir til þess að tryggja framgang laganna í óbreyttu formi.

Ég ítreka að ég heiti á hv. þm. í öllum þingflokkum að sameinast um að finna leiðir til þess að tryggja lögunum þann framgang sem þau eiga að fá.