Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:08:29 (1768)

1995-12-08 17:08:29# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki blanda mér í umræður þeirra hæstv. félmrh. og hv. þm. Svavar Gestssonar um það hvor þeirra hnígur örar að aldri, en hins vegar fullyrði ég að hæstv. félmrh. tapar minninu miklu fyrr og verr en hv. þm. Svavar Gestsson. Það var alveg ljóst á máli hans áðan þegar hann var að tala um fjármagnstekjuskattinn sem búið er að setja á gamla fólkið í landinu, að hann man til að mynda ekkert eftir bæklingi sem Framsfl. gaf út fyrir síðustu kosningar og heitir Sáttmálinn milli kynslóðanna. Þar er mynd af manni í selskinnsjakka sem er að ávarpa hina gömlu Íslendinga og þar er sérstakur ,,parsus`` um réttindi hinna öldruðu til tryggingarbóta og lífeyrissjóðsgreiðslna og ýmislegt fleira. Þar er hins vegar ekki, hæstv. félmrh., sagt eitt einasta aukatekið orð um það að ef Framsfl. kæmist til valda, þá ætti að skerða lífeyrissjóðsbætur gamla fólksins. Það er talað um ýmislegt annað. En þar er ekkert talað um að það yrði hlutskipti Framsfl. og hæstv. félmrh. sem alltaf hefur nú verið tiltölulega jákvæður í garð alls þess sem lífsanda dregur, að skerða hlut gamla fólksins. Og ég vil endilega, hæstv. félmrh., rifja þetta upp, rifja upp sáttmálann milli kynslóðanna vegna þess að þetta mál eins og svo mörg önnur undirstrikar það að það er ekki nokkur einasti flokkur sem hefur jafnsameiginlega lélegt minni og Framsfl. Enginn flokkur lofaði jafnmiklu og Framsfl. og enginn flokkur sem hefur svikið jafnmikið.

Svo kemur hæstv. félmrh. og segir að Framsfl. hafi ekkert farið verr út úr fjárlögunum heldur en Sjálfstfl. Munurinn á Sjálfstfl. og Framsfl. er sá að Sjálfstfl. gaf bara eitt kosningaloforð. Hann sveik það að vísu. En hinir gáfu nokkra tugi og eru búnir að svíkja nánast öll. Ég gæti lesið hérna upp loforð á tveimur blaðsíðum þar sem Framsfl. gefur kjósendum rétt fyrir kosningar væntingar um hitt og um þetta. Ekkert af því er að finna í fjárlögunum, herra forseti. Ég bið bara um eitt og það er að sá, ég vil ekki segja hrumi, hæstv. félmrh. sem situr hér og skrifar fyrir framan mig, en a.m.k. tapar hann minninu allt of fljótt, kynni sér Sáttmálann milli kynslóðanna og þá kannski rifjast það upp fyrir honum hver þessi maður er í selskinnsjakkanum.