Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:39:10 (1777)

1995-12-08 17:39:10# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara viðurkenna það hér og nú af fúsum og frjálsum vilja að sjálfsagt hefur á undanförnum árum meiri skuldum verið safnað en áður. Ástæðan er auðvitað sú í fyrsta lagi, að ég hef setið einna lengst á þessum stóli og það er eðlilegt að á mörgum árum safnist meiri skuldir en á fáum árum. Það sjá allir. Og í öðru lagi vegna þess að lán sem aðrir tóku hafa hlaðið á sig vöxtum sem við höfum orðið að greiða að undanförnu og þeir peningar verða ekki notaðir til annars. Þess vegna flutti ég mína ræðu áðan. Ég fagna því sérstaklega að hv. stjórnarandstæðingar standa upp hver um annan þveran og lýsa því yfir að það sé markmið þeirra einnig að ná hallanum á ríkissjóði niður. Og ég vænti þess að í framhaldi þessarar umræðu munu menn a.m.k. verja einhverjum hluta ræðu sinnar í það hvernig þeir vilja fara að í þeim efnum, en ekki eingöngu gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það sem hún er að gera með frv.