Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:54:12 (1804)

1995-12-08 18:54:12# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. og einnig hæstv. samgrh. yrði gert viðvart að ég óska nærveru þeirra.

(Forseti (GÁ): Forseti mun verða við því. Þeir verða kallaðir hér til að hlýða á ræðu hv. þm.)

Ég þakka fyrir, hæstv. forseti. Ég mun þá fyrst beina máli mínu til hæstv. dómsmrh. á meðan aðrir hæstv. ráðherrar nálgast salinn. (Gripið fram í: Það er rétt að spyrja svolítið svona.) Það er líka ágætt að spyrja og kannski verður orðið við óskum hæstv. ráðherra um að leggja fyrir hann spurningar. Það er einkum tvennt sem ég vil gera að umtalsefni varðandi það sem hæstv. dómsmrh. nefndi. Það varðar í fyrsta lagi ábyrgð ríkisins á miskabótum sem hefur auðvitað verið gert að miklu umtalsefni í dag. Mér fannst málsvörn hæstv. ráðherra þar heldur veikluleg, satt best að segja, því að hæstv. ráðherra reyndi að sanna hvort tveggja í máli sínu, að hér væri á ferðinni mikilsverð og tímabær réttarbót fyrir almenning eða þá sem í hlut eiga og hins vegar væri samt réttlætanlegt að skerða þetta með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar sér og eyðileggja lögin strax á fyrsta ári gildistíma þeirra. Þetta fer heldur illa saman, satt best að segja. Það hlýtur að verða að skoða þannig að hæstv. ráðherra sé almennt þeirrar skoðunar að okkur Íslendingum sé svo illa komið að við höfum yfirleitt ekki efni á því að viðhalda þeim hlutum í réttarkerfi okkar og velferðarkerfi sem séu óumdeilanlega nauðsynlegir og af hinu góða. Ég vona að þetta verði eitt af því sem pólitískar forsendur skapist til að taka til endurskoðunar í meðförum þingsins á þessu máli.

Í sambandi við breytingar á sýslumannsembættum bakka ég ekki með það að sú forsenda fjárlagafrv. að velja út úr tvö tiltekin sýslumannsembætti og slá þau af án frekari rökstuðnings en fram hefur komið stenst ekki mál. Ekki hefur verið sýnt fram á það eða ég hef ekki heyrt þau rök ef menn eru á þessari braut á annað borð séu það akkúrat þessi embætti sem beri að leggja niður en ekki önnur. Hvers vegna þau? Hæstv. ráðherra hafði ekki fyrir því að reyna að svara því sem ég spurði hann um. Hvað með þá leið að færa verkefni og stækka svæði umdæmisins, t.d. í Ólafsfirði, eins og vilji er fyrir hendi af hálfu heimamanna til að gera og bæta þannig nýtingu og reksturs embættisins og gera hann þannig hagkvæmari? Hæstv. ráðherra má ekki gefa sér --- og gerir vonandi ekki þau mistök í þessu sambandi --- að reikna með því að þörfin fyrir þjónustuna verði úr sögunni með því að leggja embættið niður. Vonandi er ekki verið að ganga út frá þeirri forsendu. Ætli það geti ekki verið þetta gamla að sparnaðurinn eigi að vera á kostnað einhverra og þegar upp er staðið sé kannski óútkljáð hvort þjóðhagslega séð verður nokkur framför í þessu tilliti. Frá hinum þrönga sjónarhóli ríkissjóðs og ráðuneytanna í niðurskurðarpælingunum á haustin er kannski möguleiki á að lækka lítilega ríkisútgjöldin með auknun óþægindum og kostnaði fyrir notendurna. En þá greiða aðrir reikninginn og hæstv. ráðherrar hafa væntanlega ekki áhyggjur af því.

Ég held að menn þurfi stundum að horfa á hlutina frá fleiri sjónarhólum en þeim einum að með því að stækka og sameina og leggja niður eitthvað sem er á vegum ríkisins sé sjálfkrafa verið að ná fram þjóðhagslegum sparnaði. Það er ekki endilega svo. Hvað með að endurskipuleggja og nýta betur þá uppbyggingu og þann rekstur sem fyrir er ef það er e.t.v. farsælli lausn út frá sjónarmiði heildarhagsmuna?

Um Fiskifélagið hef ég svo sem ekki margt segja í viðbót við það sem ég gerði fyrr í dag í umræðunni. Mér finnst satt best að segja að þar sé fjallað með heldur ósanngjörnum hætti um hlutina. Mér finnst leiðinlegt að ekki skuli vera hægt að koma slíkum málum einhvern veginn fyrir og semja um þau án þess að það þurfi að vera að hnýta í menn með orðalagi af þessu tagi í greinargerð með opinberu frv. Það er heldur leiðinlegt að bera það upp á þennan merka og mæta félagsskap í greinargerð í stjfrv. sem hæstv. sjútvrh. hefur væntanlega lesið yfir og lagt blessun sína yfir að verið sé að hnýta í aðila eins og Fiskifélagið með þessum hætti. En það verður auðvitað að vera mál hæstv. sjútvrh. hverju hann vill merkja sig í þessum efnum.

[19:00]

Hæstv. félmrh., Páll Pétursson frá Höllustöðum, var næstur í ræðustól. Hann fór mikinn í tilraunum sínum til að verja hinn sértæka fjármagnstekjuskatt á aldraða og öryrkja og sakaði okkur andmælendur um að við værum farnir að standa í málsvörn fyrir ríka fólkið í landinu. Það væri nú meira hneykslið ef menn af vinstri kantinum eins og sá sem hér talar og hv. þm. Svavar Gestsson væru farnir að verja fjármagnseigendur. Það væri meiri ósvinnan. Hann væri þvert á móti væntanlega sá eini sem stæði við sannfæringu sína um að það lið ætti nú ,,sko vesgú`` að borga. En við skulum líta aðeins nánar á málflutning hæstv. félmrh. Er það ríka fólkið í landinu sem á að fara að borga fjármagnstekjuskattinn? Nei, það er ekki endilega svo. Það eru öryrkjar og aldraðir sem ekki hafa neinar tekjur og eru þess vegna að fá bætur sér til framfærslu. Ef þeir skyldu eiga einhvers staðar sparnað á bók og hafa einhverjar minni háttar fjármagnstekjur þá á að skattleggja þær, en aðrir sem eru í fullri vinnu, hafa há laun eða eiga miklar eignir og eru á besta aldri eiga að fá sinn fjármagnsgróða skattfrjálsan. Þetta er málið í hnotskurn. Svo kemur hæstv. félmrh., aumingja karlinn, hér upp og reynir að verja sig með þeim ósköpum að saka þá sem gera þetta að umtalsefni um að verja ríkt fólk og skjóta skildi fyrir þá sem betur mega sín í þjóðfélaginu. Þetta er meiri málflutningurinn, verð ég nú að segja. Og það er von að aumingja framsóknarmennirnir ýmsir séu að verða ókyrrir hér í salnum, langleitir og dauflegir til augnanna. Þannig er frammistaðan hjá Framsókn í þessum efnum eins og svo mörgum fleirum. Hún liggur marflöt undir valtara íhaldsins í hverju málinu á fætur öðru, kyngir ómengaðri frjálshyggjunni og lætur sig hafa það að öðrum málum sem menn hafa barist fyrir, eins og fjármagnstekjuskattinum almennt sé frestað.

Það hafa þegar orðið nokkrar umræður út af orðum hæstv. fjmrh. um tekjuöflun og skuldasöfnun ríkissjóðs og hallareksturinn og einnig vegna þess sem hæstv. heilbrrh. lagði til umræðunnar um 30 milljarðana. En ég spái því að hæstv. ráðherra verði nokkuð frægur fyrir þetta afrek í stærðfræði áður en lýkur. Ég hugsa að sonur minn 11 ára og fleiri slíkir sem eru að læra samlagningu um þessar mundir yrðu býsna langleitir ef þeir sæju dæmi eins og hæstv. heilbrrh. hefur verið að setja fram hér í dag. Hann hefur tekið niður málflutning manna og fengið út úr 30 milljarða. Kannski voru það 29 milljarðar. Það gæti verið að það væri svona plús eða mínus 1 milljarður tilhlaupið hjá hæstv. ráðherra. Nákvæmnin var þó ekki meiri en þetta. Það voru ekki margir aukastafir í samlagningardæmi hæstv. heilbrrh. Nei, en ég veit um ágætt námskeið, m.a. hjá Námsflokkum Reykjavíkur og víðar þar sem hægt er að leysa svona vandamál og byrjendum er kennd stærðfræði. (Heilbrrh.: Ég held að þú ættir að koma með mér.)

Herra forseti. Nú ætla ég að beina máli mínu til hæstv. samgrh. Satt best að segja komst ég ekki yfir það í morgun því það er svo aftarlega í bandorminum sem fjallað er um skerðingu til samgöngumála. Ég vona að hæstv. samgrh. sé hér nálægur.

Ég segi það sömuleiðis að það olli mér nokkrum vonbrigðum að sjá eftir allt saman bandorminn koma fyrir þingið með þessum ákvæðum óbreyttum eins og þau eru kynnt í fjárlagafrv. Þ.e. að hér skuli stefna í skerðingu í samgöngumálum upp á nærfellt 1 milljarð kr. og það eigi að taka á níunda hundrað millj. kr. af mörkuðum tekjustofnum samgöngumálanna í ríkissjóð og skerða framkvæmdir í þessum málaflokki sem því nemur. Það er kominn tími á það, eins og nú er í tísku að segja, að hæstv. samgrh. komi í ræðustól og svari fyrir málin vegna þess að hæstv. ráðherra fór mikinn á síðasta kjörtímabili og sló um sig með því að hann væri að auka framkvæmdir í samgöngumálum. Síðan hefur hann síðustu missiri verið svo upptekinn við að klippa á borða og halda vígslur og athafnir út um allt að sagan segir að hann sé búinn að slíta upp tvennum skærum með fínasta stáli frá Svíþjóð í eggjunum. En nú er veislunni lokið hjá hæstv. skæraliðaforingjanum, hæstv. samgrh. Nú er veislunni lokið og skærin, eða það sem eftir er af þeim eru komin upp í hillu. Nú er komið að skuldadögunum, hæstv. ráðherra. (Samgrh.: Ég þarf að klippa í desember.) Þess sést stað m.a. í því að nú á að skerða framlög til samgöngumála, hina mörkuðu tekjustofna í ríkissjóð, um á níunda hundrað millj. kr. bara í flugmálum og vegamálum. Þar til viðbótar er svo niðurskurður í hafnarframkvæmdum allverulegur þannig að samtals er þetta í málaflokknum upp undir milljarður kr. Því segi ég það að það olli mér vonbrigðum að þetta skyldi standa hér enn eftir. Ég hafði satt best að segja gert mér vonir um að hæstv. ríkisstjórn væri ekki svo heillum horfin að hún myndi taka þessi áform til endurskoðunar nú, m.a. í ljósi þess hvaða ákvarðanir hafa verið teknar um stórframkvæmdir á suðvesturhorni landsins eða eru í bígerð hér. M.a. af þeim sökum vonaði ég að ríkisstjórnin myndi á nýjan leik fara yfir það hvort þessi harkalegi niðurskurður á mikilvægasta framkvæmdaflokki fjölmargra kjördæma og mest allrar landsbyggðarinnar væri skynsamlegur við þessar aðstæður. Það má auðvitað einnig nefna atvinnuástandið og atvinnuleysið í þessu sambandi því hvernig sem Framsókn montar sig af einhverjum tölum frá Hagstofunni þá stendur hitt óhaggað að atvinnuleysið er í kringum 5%. Á milli 6.000 og 8.000 Íslendingar ganga þessa dagana án atvinnu og engar hundakúnstir í kringum það. Það er alveg sama hvaða árangur Framsókn telur hafa orðið af umtali sínu um að skapa þurfi ný störf. Það var helst að skilja á hæstv. félmrh. að það væri nóg að Framsókn ályktaði um það mál og þar með tæki störfum að fjölga en það er nú ekki svo því miður.

Ég spyr, í fyrsta lagi: Hvað hefur breyst? Er atvinnuleysið nú eitthvað skárra en það var fyrir tveimur eða þremur árum þegar menn urðu sammála um að nauðsynlegt væri að fara í framkvæmdaátak, m.a. í samgöngumálum til að sporna gegn atvinnuleysi? Er 5% atvinnuleysi nú eitthvað skárra en 5% atvinnuleysi var fyrir einu eða tveimur árum síðan? Ég spyr, herra forseti, í öðru lagi, hæstv. ráðherra: Er ekki ætlunin að endurskoða í neinu þessar áherslur í opinberum framkvæmdum hvað varðar landsbyggðina í ljósi ákvarðana um stóriðjuframkvæmdir hér á suðvesturhorni landsins? Ef það fer nú svo sem mjög líklegt er talið að til viðbótar stækkun í Straumsvík, allt gott um það að segja að þar komi til framkvæmdir og ný störf, verði skrifað undir endanlega samninga um gerð Hvalfjarðarganga eins og líklegt er talið að náist fyrir jóladag og e.t.v. í febrúar eða marsmánuði nk. verði teknar ákvarðanir um viðbótarofn og viðbótarframkvæmdir á Grundartanga og er þá nokkuð talið þegar þrjár stórframkvæmdir eru í farvatninu, ýmist þegar ákveðnar eða taldar mjög líklegar og allar hér á sama atvinnusvæðinu við sunnanverðan Faxaflóa, svo ekki sé nú minnst á hitt að eitt eða tvö ef ekki þrjú álver til viðbótar eru að sögn á athugunarstigi. Er þá ætlunin hjá hæstv. ríkisstjórn að láta þetta bara ganga fram si sona án nokkurra tilburða til þess að grípa til jafnvægisaðgerða á móti í atvinnumálum og byggðamálum? Það er satt best að segja harla sérkennilegt ef svo er. Eru stjórnarþingmenn af landsbyggðinni þvílíkar lurður að þeir ætli ekki að láta í sér heyra um þessi mál, hvorki æmta né skræmta og láta þetta yfir sig ganga? Ef svo er ekki hvers vegna er þetta þá lagt fram m.a. svona? Ég segi fyrir mitt leyti að það er lágmark að þessari skerðingu á samgöngumálunum verði kastað út og vegamálin og flugmálin fái að nýta á næsta ári sína tekjustofna óskerta til framkvæmda og til viðbótar verði það skoðað að áherslum í þeim framkvæmdum verði hagað þannig að þær komi í meira mæli en ella væri í þá landshluta þar sem ekki verður ráðist í sérstakar stórframkvæmdir. Það er sanngjarnt og efnahagslega skynsamlegt til að afstýra því að enn meiri þensla skapist af völdum þessara framkvæmda og enn frekari sporðreising í byggðamálum.

Ég minni á að þegar samið var um álverið í Straumsvík á sínum tíma sem nú á að fara að stækka fylgdi því máli lagasetning um sérstakar aðgerðir í byggðamálum og það var ákveðið að mestallar skatttekjur af álverinu skyldu renna í sérstakan atvinnuuppbyggingarsjóð. Svo geta menn rætt um það að framkvæmdirnar á því hafi orðið meira og minna í skötulíki eða hvernig sem það nú varð, meira og minna fyrir mitt minni en það er þá á ábyrgð þeirra sem að því stóðu. (Samgrh.: Það er allt önnur bygging sem var líkt við skötubörð heldur en þessi.) En hvað sem skötum líður, hæstv. samgrh., þá er þetta alvörumál og ég trúi því satt best að segja ekki að hæstv. samgrh. verði glottandi yfir þessum málum ef hann skyldi lenda á fund norður á Akureyri núna á næstu dögum. Ég held að menn séu að vakna til vitundar um það, víða um landið að ef þetta gengur svona óbreytt fram þá er það ekkert annað en meðvituð ákvörðun um að sporðreisa landið enn frekar en orðið er. Það var verið að birta spá núna fyrir nokkrum dögum um að 80% þjóðarinnar yrðu komin hér á suðvesturhornið um aldamót ef svo heldur sem horfir. Ég veit ekki betur en að í vændum séu tölur af Vestfjörðum sem sýna að þar muni fækka um yfir 300 manns á árinu sem gert verður upp miðað við 1. desember sl. Um það hef ég lauslegar upplýsingar. Máttu þó Vestfirðingar síst við þeirri þróun. Ég þekki þess varla dæmi í allri Evrópu að slík byggðaröskun gangi yfir án þess að stjórnvöld séu með einhverjar tilraunir til að snúa henni við eða sporna gegn henni. Ég held að menn hefðu gott af að kynna sér til að mynda hvernig nú um stundir er staðið að þessum málum í Noregi, í Skotlandi og víðar og er þó ástand mála þar eins og hátíð borið saman við það sem er að gerast á Íslandi. Það er ekki hollt í neinu tilliti og ekki heldur fyrir þetta svæði sem við erum hér stödd á núna að þróunin gangi svona eftir. Hún er líka dýr og óhagkvæm þessu svæði. Hún kostar líka mikið fyrir sveitarfélög hér og hið opinbera vegna þess að á bak við liggja vannýttar fjárfestingar úti um landið en þörf fyrir viðbótaruppbyggingu og fjárfestingar hér ef þessi þróun heldur svona áfram. Og það er sóun í hvaða landi sem er að safna öllu mannfólkinu saman á einn stað og nýta ekki auðlindir og möguleika sem landið að öðru leyti býður upp á. Það er óhagkvæmt frá umhverfissjónarmiðum séð og það er afturför í menningarlegu og sögulegu tilliti og svo mætti lengi áfram telja. Um það þarf, hæstv. forseti, vonandi ekki að deila að byggðaröskun á þennan mælikvarða er óhagstæð. Það hefur orðið niðurstaða allra þjóða sem ég þekki til nema þá helst Íslendinga ef það er að verða uppi um þessar mundir að við þetta sé ekkert að athuga.

Herra forseti. Ég mun svo gera þessu máli betur skil í tengslum við frv. um lögfestingu heimilda til að stækka álverið í Straumsvík sem er til meðferðar í þinginu og mun þá leggja til og flytja breytingartillögur um að áætlun í byggðamálum og aðgerðir í byggðamálum verði afgreiddar í tengslum við það mál ef ekki bólar á neinu slíku af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans hér á Alþingi. En ég er farinn að sakna þess að heyra ekki eitthvað í einhverjum um þetta mál og satt best að segja er hún harla dapurleg þessi þögn hv. stjórnarþingmanna um það sem einhverju máli skiptir hér.

Inn á þingið rignir alls konar sýndarmennskutillögum fluttum af hv. þm. stjórnarliðsins um athuganir á öllu milli himins og jarðar og að það beri að kanna og skoða þetta og hitt af góðum hug og miklum vilja, m.a. að bæta almennt þjónustu, uppræta skattsvik o.s.frv. En eitthvað sem máli skiptir sést ekki hér á borðum hv. þm. stjórnarliðsins. Þeir beygja sig í duftið og kyssa vöndinn og samþykkja framlagningu hvers frv. á fætur öðru sem er í raun og veru hreinasta hneyksli borið saman við þann málstað sem þeir ættu að vera hér að verja. Kannski hrökklast einhverjir hv. þm. af landsbyggðinni úr stjórnarliðinu upp í ræðustólinn hér á eftir, til að mynda hv. þm. af Vesturl., Vestf., eða annars staðar þar sem mönnum er málið skylt og láta eitthvað frá sér fara um hvort þeir skrifa með stolti upp á þennan niðurskurð á samgöngumálunum.

Og hæstv. samgrh. segir okkur e.t.v. frá því hvernig hann hefur hugsað sér að ljúka veisluhöldunum og standa að skuldadögunum, þ.e. því sem nú er verið að bera fram fyrir okkur að það eigi í vaxandi mæli, ár frá ári að skerða tekjustofna til að mynda Vegagerðarinnar til að borga skuldirnar sem hann stofnaði til á síðasta kjörtímabili. Ætli það sé þá ekki að sannast sem haldið var fram að það sé skammgóður vermir að standa þannig að málum eins og hæstv. ráðherra gerði í allt of ríkum mæli.