Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 15:55:57 (1826)

1995-12-11 15:55:57# 120. lþ. 59.2 fundur 118. mál: #A sveitarstjórnarlög# (Sléttuhreppur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[15:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fjallaði um það stuttlega í máli mínu við 1. umr. hversu merkilegur viðburður það væri þegar Sléttuhreppur væri sameinaður Ísafirði. Eins og fram kom hjá formanni félmn. fór Sléttuhreppur í eyði árið 1951. Þetta var harðbýlt svæði þar sem bjuggu útvegsbændur og það er fróðlegt að reyna að líta um öxl og átta sig á því hvað gerðist fyrir 50 árum og orsakaði þá miklu byggðaröskun sem þá átti sér stað á þessum merkilega stað.

Við erum enn í dag að ræða byggðavanda og orsakir fyrir byggðaröskun, hver sé ástæða þess að fólk sækir í þéttbýli, hvaða grunnþörfum þurfi að sinna svo að búandi sé á afskekktum stöðum og hvort ástæða sé til þess, virðulegi forseti, að stuðla að því að búandi sé á ákveðnum stöðum. Í tilefni þessa finnst mér við hæfi að flytja þingmönnum stutt bréf frá bóndakonu á Sæbóli í Aðalvík, Margréti Magnúsdóttur, til landlæknis og svar hans við þessu merkibréfa bréfi. Mér finnst að það eigi erindi bæði til þingmanna og í Alþingistíðindi. Landlæknir á þeim tíma var Vilmundur Jónsson og þetta bréf er skrifað 1945 þegar svæðið er orðið læknislaust og prestslaust. Eftir stuttan inngang bóndakonunnar segir hún, með leyfi forseta:

,,Ég sný mér nú til yðar í sárri neyð okkar hér sem á þessum hala landsins búum og bið yður í nafni guðs að senda okkur lækni þó ekki væri nema yfir vetrarmánuðina því þeir eru okkur erfiðastir, bæði hvað tíðarfar og allar samgöngur varðar. Við getum ekki alltaf sótt hjálp til Ísafjarðar þó líf liggi við og þó að við kvörtum og þurfum á hjálp að halda. Það er ekki alltaf hægt að sinna okkur hér sökum veðurfars og annarra aðstæðna.

Hér sem annars staðar hefur verið mikið um vesöld í haust. Ég á dreng 12 ára og telpu 10 ára sem bæði hafa verið mikið veik. Fyrst fengu þau einhvers konar taugatruflun eða hjartveiki og voru lengi lasin af því og hafa ekki náð sér enn. Síðar fengu þau uppköst og vellu í hálsinn, verk í höfði sem lagði ofan í hálsinn aftan. Ég veit ekki hvað þetta hefur verið, en fleiri tilfelli hafa komið hér af þessu tagi. Og einn ungur drengur varð hálfmáttlaus í handlegg og var lasleiki hans svipaður og í mínum börnum að öðru leyti en því að þau urðu ekki máttlaus. Við vorum hálfhrædd við þetta og báðum Baldur Johnsen á Ísafirði að koma og athuga þetta, en sökum annríkis gat hann ekki sinnt því, hefur meira en nóg að gera maðurinn sá. Það er ekki alltaf hægt að rjúka með mikið veikt fólk til Ísafjarðar, t.d. konur sem ekki er hægt að hreyfa fyrir blóðlátum. Þetta hefur komið fyrir hér og ekki fyrir löngu síðan.

Drengur sem ég á 15 ára gamall sem var við vinnu uppi á fjalli nú um tíma kom heim í dag töluvert meiddur á fæti. Hvern á að sækja til að athuga meiðsli? Mér finnst hann óbrotinn en finn vanmátt minn til að athuga þetta fyllilega þó drengurinn treysti mér fyllilega. Ekki er til neins að síma um svona hluti. Við höfum aðeins einn lækni og það er guð en það er ekki alltaf nóg. Já og nei. Það deyr svo margur að enginn hjálpar. Gætuð þér nú ekki haft einhver áhrif í þá átt að útvega okkur góðan lækni er fengist til að vera hér í vetur þó ekki væri til lengri tíma. Þetta er óbærilegt eins og það hefur verið og er nú.

[16:00]

Þér getið sagt sem svo: Það er enginn að biðja fólk að vera þarna þar sem enginn menntaður maður vill vera eða getur þrifist. En það er nú svo. Það hafa ekki allir ástæður né löngun til að rífa sig upp með rótum þaðan sem þeir einu sinni eru búnir að hreiðra um sig bara til að elta fjöldann og læknana. Það getur annað afl verið sterkara sem við köllum átthagaást, en hún getur líka e.t.v. stundum verið of dýru verði keypt, þessi tryggð við það sem við köllum heima og þá lífsvenju að vera okkar eigin húsbændur og sækja ekki vinnu til annarra.

Jæja Vilmundur. Þá fer ég að hætta þessum bréfaskriftum. Þetta er orðið lengra en ég hafði hugsað mér í fyrstu. Víkin mín er nú að klæðast haustfötunum og sjórinn er farinn að hækka raustina og sendir freyðandi hvítar öldur upp að grundinni sem húsið okkar stendur á. Þar sat einu sinni lítill drengur og lék sér með ofurlítinn seppa er ég átti. Þá var sól og sumar, ég var að vinna í garðholunni minni og virti unga manninn fyrir mér þar sem hann horfði út á spegilsléttan sjóinn og hversu mjúklega hann lét sér að hundinum mínum. Skyldi honum þykja eins gaman að sjá sjóinn þegar hann er sem reiðastur og víkin öll eitt brot svo að löðrið teygir sig upp á græna, slétta blettinn sem hann hvíldi á þá? Þennan dreng áttuð þér. Þér voru þá hér á ferð og hann var með yður. Guð blessi hann og yður.

Ég hef enga afsökun fyrir þessu masi mínu, get tæplega búist við að þér lesið það til enda, bið velvirðingar á því sem er ábótavant. Ég vona að þér gerið allt sem þér getið til að útvega okkur lækni.

Með vinsemd og einlægri virðingu.

Margrét Magnúsdóttir,

Sæbóli, Aðalvík.``

Ég vek athygli á því að þessi kona var ómenntuð bændakona norður á Ströndum.

Þá kemur svar læknisins, Vilmundar Jónssonar, og það er merkilegt fyrir margra sakir og á erindi við okkur enn þann dag í dag:

,,Kæra frú Margrét.

Ég bæði klökknaði og mér hitnaði um hjartaræturnar við að lesa bréfið yðar auk þess sem ég dáist að hve vel þér eruð pennafær. Víst man ég vel eftir yður en ekki því að ég hafi á neinn hátt unnið til þeirrar velvildar sem bréfið ber vitni um. Ef nokkuð hefði vantað á að ég þættist gera allt sem í mínu valdi stendur til að útvega ykkur lækni, hefði bréfið enn hert á mér og ég hefði sent hann samstundis ef unnt hefði verið. En segja verður hverja sögu eins og hún gengur. Á því hef ég engin tök. Allt virðist hafa verið gert sem hugsanlegt er að gera til þess að laða menn í þessi afskekktu læknisembætti sem nú eru launuð á borð við hæstlaunuðustu embætti í landinu. Og opinn vegur þaðan til enn tekjumeiri og eftirsóknarverðari héraða eftir tiltölulega stutta þjónustu. Engin leið er að flytja lækna fremur en aðra þegna þjóðfélagsins nauðuga á landshorn sem þeir vilja ekki vera á, enda tvísýnt þó að upp væri tekið hvernig nýttist þjónusta slíkra bandingja. Til dæmis um það hvernig straumurinn liggur nefni ég að hér í Reykjavík setjast læknakandidatar unnvörpum hver ofan á annan við afarkjör um húsnæði og annan framfærslukostnað, launalausir í meira og minna valtri von um að maður og maður velji þá sjúkrasamlagslækna og aðrir slæðist við og við inn á lækningastofur þeirra. En um Þingeyrarhérað sem lengi hefur verið talið eitt besta læknishérað á landinu og nú er svo launað að læknirinn fær um 30 þús. kr. á ári aðeins fyrir að eiga þar heima (eins og Hesteyrarlækni stendur til boða), sækir enginn fyrr en ég að liðnum umsóknarfresti gat dekstrað til þess ungan kandidat sem þó fæst ekki til að taka við héraðinu strax og bágt að vita nema hann sjái sig um hönd. Læknunum þýðir ekki að lá. Hina sömu sögu er að segja af öllum stéttum. Þið munuð vera prestslaus og svo eru fleiri. Og fluttust ekki 84 burtu úr Sléttuhreppi af 420 íbúum, þ.e. fimmta hvert mannsbarn, árið 1943? Þér segið e.t.v. að þar hafi læknisleysið átt sinn hlut í, en því miður gerist svipuð saga í þeim sveitum sem ekkert hafa haft af læknisleysi að segja. Víst er ekki von til að læknar skeri sig einir úr um þennan flótta frá dreifbýlinu og séu óðfúsir að flytjast úr fjarlægð til þeirra staða þar sem íbúarnr sjálfir, rótfastir að langfeðgatali, vilja með engu móti una. Börn dreifbýlisins sjálfs eru hér síst öðrum fúsari til þjónustunnar. Verst allra taka piltar aldir upp í sveit undir að gerast héraðslæknar í sveitahéruðum en best Reykjavíkurpiltar, enda bjarga þeir helst dreifbýlinu í þessu efni að svo miklu leyti sem því er bjargað --- og Reykjavíkurstúlkur þeim við hlið. Margt af þessu aðkomufólki dugir mjög vel og tekur með furðulegu jafnaðargeði því sem stundum lítur út fyrir að til sé ætlast: að það sitji eitt eftir þegar allt heimafólkið er farið.

Nú hef ég málað þetta allt nokkuð svart og e.t.v. raknar eitthvað úr þessu. En satt að segja hef ég ekki mikla von um það. Ég geri ráð fyrir að sú bylting standi fyrir dyrum --- fyrst og fremst innra með fólkinu sjálfu --- sem gengur mjög nærri tilverumöguleikum hinna dreifðustu byggða uns þar sitja ekki aðrir en þeir sem kunna svo að meta kosti þeirra að þeir sætti sig við þá vankanta sem fylgja, þar á meðal að læknisþjónsta standi þar ekki til boða til neinna líka við það sem á sér stað í þéttbýli. Það er e.t.v. kaldranalegt að segja þetta svona blátt áfram en hitt er óheiðarlegt að dylja staðreyndirnar í þessum efnum, að ég ekki tali um þann loddaraskap að halda því að fólki að unnt sé að viðhalda hinu afskekktasta dreifbýli og sjá því fyrir öllum fríðindum þéttbýlisins. Ég held að hin mesta ógæfa sveitanna sé sú að hvers konar fríðindum kaupstaða hefur verið hampað svo fyrir sveitafólki að því hafi gleymst að það hafi nokkur fríðindi er vegi þar á móti. Metin í meðvitund fólks verða aldrei jöfnuð með því að flytja kaupstaðarlíf upp í sveit sem er jafnóframkvæmanlegt sem að flytja sveitalíf í kaupstaði, heldur mundi hitt vera reynandi: að halda uppi hvoru tveggja, kostum og ókostum dreifbýlisins annars vegar og þéttbýlisins hins vegar. --- og svo velji menn á milli að geðþótta sínum. Sá sem gerir skilyrðislausar kröfur um alla kosti og kynjar kaupstaðarlífs fær þeim kröfum aldrei fullnægt annars staðar en í kaupstað og á þar að vera. Sé öllu sveitafólki þannig innanbrjósts --- þá í kaupstað með það sem allra fyrst. Ef til vill byggjast svo sveitirnar aftur úr kaupstöðunum af fólki sem áttað hefur sig á að þar er ekki heldur allt fengið. Mér virðist reynsla mín af að skipa sveitirnar læknum jafnvel benda til þess.

Þessar bollaleggingar mínar koma vissulega ómaklega niður þar sem þér eruð, sem svo einlæglega viljið vera kyrr á yðar stað. En eruð þér ekki líka undir þá sök seld að telja jafnvel meira halla á yður í samanburðinum við kaupstaðarfólk en að réttu mati á sér stað --- jafnvel í sambandi við aðstöðuna til læknishjálpar? Víst veit ég að enginn meðaltalsreikningur nægir til þess í hverju einstöku tilfelli að sætta mann í dreifbýli við að aðstandandi hans missi heilsu sína, verði örkumla eða bíði jafnvel dauða fyrir örlög fram vegna þess að of seint náist til læknishjálpar. En hins vegar má ekki gleyma því að svo mjög aukin heilbrigðis- og slysahætta fylgir þéttbýlinu að vafasamt er að hin auðsóttari og margbreytilegri læknishjálp þar endist til að jafna muninn. Ég veit ekki hvort þér trúið því, en satt er það samt, að þrátt fyrir alla erfiðleika barnsfæðandi kvenna í sveitum við að ná til ljósmæðra og lækna, hlekkist ekki fleiri konum í sveitum en í kaupstöðum á við barnsburð og í sveitum fæðast færri börn andvana. Hafið þér gert yður ljóst að í raun og veru alið þér börnin yðar upp við meira heilbrigðisöryggi á Sæbóli --- og þó að læknislaust sé á Hesteyri --- heldur en þér ættuð heima hérna á Laugaveginum. Jafnvel allt læknakraðakið í kaupstöðunum er oft síður en svo til öryggis heilsu manna. Hið sífellda kvabb í tíma og ótíma, langoftast af hégómlegasta tilefni, svæfir læknana á verðinum að ég ekki tali um það sem mjög er tíðkað að hlaupa milli fjölda lækna uns enginn veit hver ábyrgðina ber. Leiðir þetta til margvíslegra mistaka og vanrækslu. Er ekki laust við að að mér hvarfli stundum að hollara væri fyrir báða aðilja, læknana og sjúklinga þeirra, að hafa á milli sín hæfilega breiða vík eða mátulega háan háls yfir að sækja.

Nú megið þér ekki snúa öllu á versta veg fyrir mér og leggja orð mín út á þá leið að ég telji ykkur svo vel sett að þið þurfið engan lækni á Hesteyri. Víst get ég unnað ykkur læknis þó meira væri og mun nóg halla á ykkur fyrir því. Og lækni sendi ég ykkur jafnskjótt sem ég get.

Ég vík nú að lokum að kvillanum í börnum yðar. Mér virðist einsýnt að þau hafi fengið snert af mænusótt og megið þér og þau hrósa happi yfir að þau hafa komist út úr þeim hreinsunareldi örkumlalaus. Þau hafa nú fengið náttúrlega bólusetningu gegn þessari ægilegu veiki og þurfa ekki að óttast hana framar. Einskis hafið þér farið mis við að ná ekki til læknis í þessu tilfelli því að hér standa allir læknar uppi jafnráðalausir sem þér sjálf. Hitt skil ég og þess get ég nærri hver áhyggjuraun hefur verið fyrir yður að horfa upp á þetta og hafa engan yður fróðari til að ráðgast við og leita trausts hjá. Ég vona að drengurinn yðar sem meiddi sig á fæti sé orðinn heill. Fótbrot sem móðurauga og góð greind fer ekki nærri um, er varla hættulegt beinbrot.

Þér fyrirgefið hve bréfið er fátæklegt og nær skammt til að létta af yður kvíða og áhyggjum. Þó er það skrifað af góðum hug og innilegri hlutdeild í kjörum yðar.

Yðar með einlægri vinsemd og kærum kveðjum.

Vilm. Jónsson.``

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að taka tíma Alþingis til að lesa þessi tvö bréf, annað frá alþýðukonunni Margréti Magnúsdóttur frá Sæbóli í Aðalvík og hitt svarbréf Vilmundar landlæknis. Mér finnst þau eiga erindi inn í umræðuna um byggðaröskun og ég tel ljóst að prestsleysið og síðar læknisleysið hafi verið byrjunin á því óumflýjanlega, að þessi blómlega byggð lagðist í eyði 1951. Bréfin eru skrifuð 1945.