Vatnalög

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:34:32 (1853)

1995-12-12 16:34:32# 120. lþ. 61.1 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er eðlilegt að lagastoð sé fyrir hendi og þess vegna er þetta frv. flutt. Sama hlýtur náttúrlega að gilda um heimildir til annarra sveitarfélaga. Það verða að vera sömu heimildir til allra sveitarfélaga. Holræsagjald hefur verið innheimt í flestum stærri sveitarfélögum og ekki svo mér sé kunnugt um verið fellt niður á elli- og örorkulífeyrisþegum með sama hætti og fasteignaskatturinn. Lögvísir menn hjá Reykjavíkurborg komust að því að þegar hugmyndir komu upp um að fella niður þetta gjald hjá þeim sem verst voru settir, þá voru ekki lagaheimildir til og þess vegna sendi borgarráð mér þessi tilmæli. Ég brást að sjálfsögðu vel við þessu því að hér er um að ræða réttlætismál.

Varðandi heimildir sveitarfélaga, eða rýmkun á heimildum sveitarfélaga, þá er að sjálfsögðu stefnt að því að efla sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu. Það er eitt af þeim atriðum sem kemur til skoðunar við endurskoðun á sveitarstjórnarlögum sem ég mun fljótlega setja í gang.