Norræn karlaráðstefna í Stokkhólmi

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:54:37 (1874)

1995-12-13 14:54:37# 120. lþ. 63.2 fundur 209. mál: #A norræn karlaráðstefna í Stokkhólmi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég get fullvissað málshefjanda um að það er alls ekki hugmynd mín að skerða í nokkru hlutverk Jafnréttisráðs eða draga úr hinni hefðbundnu starfsemi sem Jafnréttisráð hefur haft með höndum. Ég tel að hún sé mikilvæg og ég tel að það sé mjög mikilvægt að auka hana fremur en að draga úr henni. Út á það gengur tillagan. Í fyrsta lagi að efla Jafnréttisráð sem slíkt og í öðru lagi að auka verksvið þess.

Varðandi karlaþáttinn í jafnréttismálum þá hefur hann lent í skugganum. Ég tel að það sé eðlilegt að gefa honum gaum. Það er eðlilegt líka að áherslan hafi fyrst og fremst verið á veikara kynið, ef svo mætti segja, vegna þess að það hefur verið í mörgum tilfellum og áreiðanlega í fleiri tilfellum verr sett heldur en karlkynið, en það hefur skipast þannig að í Jafnréttisráði eru einkum konur. Ég hygg að allir aðalmenn í Jafnréttisráði séu konur en varaformaðurinn er karl. Ég tel að karlar eigi erindi inn í Jafnréttisráð og vil stuðla að því. Það var nú svo komið í sumar að ég var kominn á flugstig með að kæra fiskvinnslustöð fyrir misrétti gagnvart körlum vegna þess að þar var karlmönnum neitað um vinnu af kynferðislegum orsökum. En þessi tiltekna fiskvinnslustöð, sem ég var farinn að undirbúa að stefna, sá að sér og fór að ráða karla til snyrtingar og pökkunar á fiski.

Varðandi störf karlanefndarinnar vil ég heyra álit Jafnréttisráðs áður en ég fer að úttala mig um það hvort hún eigi að halda áfram. Ég geri ráð fyrir því hins vegar að það verði niðurstaðan að karlanefnd haldi áfram. Ég hafði þá ánægju að taka þátt í setningu þessa átaks gegn ofbeldi og flytja þar ávarp. Varðandi sérstök úrræði gegn ofbeldishneigðum karlmönnum, þá takmarkar fjárhagshlið málsins kannski aðgerðir. Ég tel að það sé atriði sem þurfi endilega að gefa gaum.