Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 15:33:46 (1923)

1995-12-14 15:33:46# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[15:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson er nú reyndar hinn vammlausasti maður sem ég þekki í Framsfl. og síst vildi ég af öllum mönnum fara að leggja illt til hans. En ég verð samt sem áður að segja að ég þekki stefnuskrá Framsfl. augljóslega miklu betur heldur en hv. þm. Ég veit það vel að þar segir m.a. að halla ríkissjóðs verði eytt á kjörtímabilinu. Það vill Framsfl. gera með því að fjárlög verði gerð til fjögurra ára. Ríkisútgjöld verði föst og með tekjum vegna aukinnar veltu í kjölfar aukins hagvaxtar.

Allt það sem ég taldi hér upp áðan, herra forseti, sagðist Framsókn mundu ná fram á kjörtímabilinu svo fremi sem hagvöxtur yrði 3%. Hvað blasir við núna? Það blasir við að hagvöxtur verður að öllum líkindum 3% eða meira. Samt sem áður er það svo að ekkert af þessum loforðum sem ég las upp áðan er að finna í breytingartillögum sem hv. þm. Jón Kristjánsson veitir forstöðu. Ég gerði mér vonir um að samviskan mundi angra hv. þm., vekja hann af værum blundi á milli 1. og 2. umr. og leiða til þess að hann reyndi að hrinda einhverju af þessu í framkvæmd. En þess sér engan stað. Og það sem verst er, hv. þm. hrósar sér sérstaklega af því að hann og flokkurinn séu að beita sér fyrir því og það sé ein af meginundirstöðum í þessu fjárlagafrv. að rjúfa það sem hann kallar sjálfvirkar tengingar. Það þýðir að bætur til gamla fólksins og bætur til öryrkjanna hækka ekki í takt við launaþróun. Hér er kominn maðurinn sem lét birta mynd af sér í skinnkápunni og sagði: ,,Ég hef gert sáttmála milli kynslóðanna.`` Sáttmála milli kynslóðanna sem hann er af, sem við erum af og hinna eldri. En um leið og hann er kominn í ríkisstjórn rýfur hann einmitt þennan sáttmála. Það hefur verið ákveðinn sáttmáli í gildi, en það er Framsfl. sem rýfur hann. En ég fagna því a.m.k. að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. er genginn í salinn. Hann hefði haft gott af því að hlýða á þá upptalningu sem ég fór með hér áðan úr stefnuskrá Framsfl. Vegna þess að það virðist sem þingmenn Framsfl., herra forseti, séu illa haldnir af ótrúlegri gleymsku.