1995-12-15 00:00:07# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[24:00]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. hafi heyrt hvað ég sagði. Ég sagði að ég mundi ekki taka upp viðræður úr þessum ræðustóli um kjarasamninga. Það gildir um samninga almennt. Ég tel að við eigum að ræðast við annars staðar. Það þýðir hins vegar ekki það að ég ætli að taka upp viðræður við hv. þm. um núgildandi kjarasamninga. Um það gilda hins vegar reglur sem við getum rætt á öðrum vettvangi. Það er útúrsnúningur að halda því fram að ég hafi lýst því yfir að ég ætli að ræða um kauphækkun núna við hv. þm. Ég var að lýsa því yfir að við ætlum ekki að gera það hér. Það þýddi ekki það að við ætlum að taka núverandi samning og gera það annars staðar.

Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á það, hafi það farið fram hjá honum, sem mér þykir nú harla undarlegt því ég afhenti hv. þm. skjal sem hafði upplýsingar að geyma, að ríkisstjórnin hefur gefið yfirlýsingu þess efnis að 450 millj. kr. sem ekki var gert ráð fyrir í frv. fara í grunn lífeyris um áramótin þannig að lífeyririnn verður jafnmikill og nemur jafnmiklum hækkunum og verða á almennum vinnumarkaði. Og þar með verða að sjálfsögðu ekki 150 millj. lagðar til viðbótar enda hefur enginn búist við því. Ég held að hv. þm. verði að skilja að það hefur breyst. Áætlanir ríkisstjórnarinnar hafa breyst frá því að frv. var lagt fram í haust. Það hljóta allir menn að sjá og vita.