Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:25:54 (1972)

1995-12-15 11:25:54# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að gleðjast yfir því að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa nú flutt tillögur með þeim hætti að reynt er að láta tekjur mæta gjöldum. Sýnir það nýjan skilning, reyndar breytingu frá því sem áður hefur verið, en menn skilja að það þarf að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. Flestar tillögur hv. stjórnarandstæðinga eiga það sammerkt að vera tillögur um skattahækkanir og útgjaldaauka. Hv. þm. fór rangt með tölur og það er nauðsynlegt að leiðrétta þær hér og nú. Hann sagði að á fjárlögum 1993 og niðurstöðum hefði orðið gífurlegur munur og nefndi í því sambandi 19 milljarða kr. Hið sanna er að verið er að bera saman tölur á mismunandi grunni. Niðurstaða á greiðslugrunni fyrir það ár var 9,6 milljarðar en á reikningsgrunni 19 milljarðar. Ástæðan er sú að þar er um að ræða áfallna ógreidda vexti, lífeyrisskuldbindingar en þó umfram allt 4--5 milljarða sem eru afskriftir vegna fyrri ára í útistandandi eign vegna tekna.

Það er síminnkandi munur á fjárlögum og útkomu og árið 1994 gerðist það í fyrsta skipti um langan aldur að niðurstöðutalan varð lægri en fjárlagatalan. Líklega var metið árið 1988 þegar menn lögðu af stað með jafnvægistölu en niðurstaðan varð hins vegar 10 milljarða kr. halli. Hver var fjármálaráðherra þá? Enginn annar en hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.