Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:40:29 (1979)

1995-12-15 11:40:29# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:40]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir margt af því sem kom fram. Vill hv. þm. hlýða á mál mitt? Ég vil taka undir margt að því sem kom fram í ræðu hv. þm. og einkum það sem sneri að jafnvægi í ríkisrekstri. En er það nú trúverðugt að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem er að koma út úr ríkisstjórn sem mun gerð upp með líklega 9--10 milljarða halla í árslok þessa árs, síðasta starfsárs, komi fram og segi: Nú get ég, og leggi fram tillögur sem eigi að vera trúverðugar fyrir þjóðina að byggja á og trúa því að hann meini það að nú geti hann boðið upp á hallalaus fjárlög á 1. ári í stjórnarandstöðu. Annaðhvort hefur hv. þm. skipt um skoðun þó hann legði mikla áherslu á að menn ættu að hafa sömu skoðun hvort sem þeir væru í ríkisstjórn eða í stjórnarandstöðu eða þá að hans flokkur hefur verið algjörlega valdalaus í ríkisstjórninni sem hann átti sæti í og í samstarfinu við Sjálfstfl. og Sjálfstfl. þá væntanlega viljað eitthvað allt annað en hallalaus fjárlög. Ég fullvissa hv. þm. um það að svo er ekki í þessari ríkisstjórn. Það er mikil samstaða um að taka á þessum málum og að ná hallalausum fjárlögum á tveimur árum. Við treystum okkur nú ekki til að ganga eins langt og hv. þm. vill í þeim efnum að gera þetta á einu ári heldur á tveimur árum. En það sem ég var mest ósammála hv. þm. í hans ræðu var afstaða hans til atvinnulífsins því það er mín skoðun að það sé grundvöllur að velsæld og öflugu velferðarkerfi að atvinnulífið sé sterkt.