Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:42:33 (1980)

1995-12-15 11:42:33# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:42]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Við erum sammála um það. Sterkt atvinnulíf sem stendur á eigin fótum og þarf ekki á að halda styrkjum af almannafé heldur er aflögufært til að greiða að minnsta kosti einhvern réttmætan skerf af hagnaði sínum til almannaþarfa. Það er eftirsóknarvert markmið. Hv. þm. spurði: Er það trúverðugt að Alþfl. leggi nú fram tillögur um jöfnuð í ríkisfjármálum í ljósi þess sem hún sló föstu að yfirstandandi ár yrði gert upp með 10 eða 10,5 milljarða halla. Þá er því til að svara: Hvað hefur breyst? Hv. þm., við börðumst fyrir því allan tímann í fyrrv. ríkisstjórn að koma fram fjármagnstekjuskatti. Samstarfsaðili okkar var mjög tregur í því efni. Hann fékkst ekki til að skrifa upp á yfirlýsingu um það fyrr en við gerð kjarasamninga undir lok seinasta árs en skuldbatt sig þá til þess loksins að setja af stað nefndarstarf sem átti að tryggja að sá skattur kæmi til framkvæmda við næstu áramót þannig að fyrir okkar baráttu er þetta mál að komast í höfn en það komst ekki í höfn á seinasta kjörtímabili. Annað. Við höfum barist fyrir því að taka upp þetta kostunarprinsipp og jafnframt fyrir þeirri sjálfsögðu kröfu að þeir sem fá ókeypis úthlutað veiðiheimildum og aðgangi að auðlindinni greiði eitthvað fyrir það. Okkur tókst að hluta til að ná þeirri gjaldtöku fram í gegnum Þróunarsjóð en það rennur alfarið til sjávarútvegsins. Sjálfstfl. beitti sér gegn því þó hann sé klofinn í málinu. Nú leggjum við það undir meiri hluta þings vegna þess að það eru fleiri menn á hv. Alþingi frá öðrum flokkum sem hafa lýst yfir stuðningi við það.

Að því er varðar sparnaðartillögur þá veit ég að hv. þm. mun ekki halda því fram, ekki upp í opið geðið á mér, að það hafi ekki verið látið á það reyna af hálfu ráðherra Alþfl. að ná fram slíkum sparnaði. Ég er tilbúinn í samanburðarfræði um það hvenær sem er. Ef það hefði ekki verið gert væri vandi flokkssystur hennar, hæstv. heilbrrh., að minnsta kosti 7--8 milljörðum meiri en hann er núna og er þó lítið sýnilegt af því hvernig hún eða þeir framsóknarmenn ætla sér að taka á þeim vanda þannig að tillögur Alþfl. eru trúverðugar bæði í samanburði við það sem við gerðum í fyrri ríkisstjórn og það sem við segjum í stjórnarandstöðu.