Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 14:03:17 (2002)

1995-12-15 14:03:17# 120. lþ. 66.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[14:03]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ef ég færi að eins og fjárlaganefndarmenn ætti ég að flytja hástemmda ræðu og þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir það hve vel þeir brugðust við þegar þetta mál kom til nefndarinnar því að það var lagt fram fyrir aðeins örfáum dögum. Nefndarmenn voru allir sammála um að það fengi eins skjóta afgreiðslu og unnt væri. Enda gekk það eftir, það var tekið fyrir á einum fundi og afgreitt. Þetta lagafrv., sem nefndin leggur til að samþykkt verði óbreytt, lýtur að því að heimila sveitarstjórnum að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.

Frv. varð til fyrir tilstilli borgarstjórnar Reykjavíkur sem rak sig á það þegar holræsagjald var hækkað í Reykjavíkurborg á þessu ári að nokkur hópur elli- og örorkulífeyrisþega átti í erfiðleikum með að greiða gjaldið.

Við leggjum til að frv. verði samþykkt óbreytt og undir álitið skrifa auk mín Bryndís Hlöðversdóttir, Magnús Stefánsson, Drífa Sigfúsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Arnbjörg Sveinsdóttir. Svanfríður Jónasdóttir er samþykk álitinu, en fjarverandi voru Pétur H. Blöndal og Kristján Pálsson.