Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:11:45 (2028)

1995-12-15 17:11:45# 120. lþ. 66.9 fundur 205. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (breyting grunngjalda, áfengisinnflutningur o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Sú gjaldtaka sem hér er fjallað um, hinar svonefndu aukatekjur ríkissjóðs, er hálfgerður leiðindamálaflokkur svo ekki sé meira sagt. Oft og tíðum er þetta þannig að hér er verið að leggja á gjöld, mismunandi vísindalega. Þetta fellur að mestu leyti um sjálft sig því að það er heilmikið stand í kringum það að ná þessu inn. Og þegar upp er staðið skilar gjaldtakan kannski litlum nettótekjum í ríkissjóð en hún situr samt hér inni ár eftir ár. Oft og tíðum hafa ákvarðanir um upphæðir þessara gjalda verið afar geðþóttalega teknar og ekki mikið samhengi við það hvort á bak við liggur einhver raunverulegur kostnaður hins opinbera. Með öðrum orðum er spurning hvort þau eru til að greiða fyrir einhverja veitta þjónustu eða einhvern kostnað sem það opinbera ber af viðkomandi leyfisveitingu, skoðun, eftirliti eða hvað það nú er. Þar af leiðandi er þessi gjaldtaka oft og tíðum á gráu svæði, mitt á milli þess að vera þjónustugjöld eða gjald fyrir veitta þjónustu eða útlagaðn kostnað og skattur. Og það er ekki gott.

Hv. fyrrv. þm. Jóhann Ársælsson flutti á síðasta kjörtímabili gagnmerka tillögu um að þessi mál yrðu tekin til heildarendurskoðunar í stjórnkerfinu og gerð skýr mörk á milli skatta, tekjuöflunar í ríkissjóð, og hins vegar gjaldtöku sem væri til að dekka útlagðan kostnað.

Þetta frv. er heldur til bóta frá því sem verið hefur varðandi þau gjöld sem hér er tekið á, en það er ekki nema hluti af allri súpunni. Þar af leiðandi styð ég þetta mál og tel að þær lagfæringar sem efh.- og viðskn. er m.a. að gera á frv. með breytingartillögum sínum á þskj. 389 séu auðvitað allar skynsamlegar.

Eitt atriði vil ég gera sérstaklega að umtalsefni og nota það tækifæri sem hér gefst til þess. Það varðar álagningu svonefnds afgreiðslugjalds á skip en hér eru gerðar breytingar sem að því lúta, annars vegar varðandi mælieininguna sem stuðst er við eða miðað er við, þ.e. að nettótonn komi í stað brúttótonna. Hins vegar er nokkur breyting á upphæð gjaldsins. Það er lækkað í frv. og efh.- og viðskn. leggur svo til að gerður sé enn meiri greinarmunur á farþegaskipum og öðrum skipum í sambandi við þessa innheimtu. Það á sér þær skýringar að menn fóru að skoða það gjald sem tekið er af farþegaskipum, jafnvel risastórum farþegaskipum, sem hér hefðu stuttar viðkomur, rétt renndu sér inn á hafnir, og sáu að auðvitað var afar lítið samræmi í því eða sanngirni að innheimta þetta gjald miðað við heildarstærð þessara skipa sem eru oft og tíðum miklu miklu meiri heldur en annarra skipa sem hingað eru að sigla, fiskiskipa eða jafnvel fraktskipa. Niðurstaða nefndarinnar var sú að farþegaskip skuli aðeins greiða fjórðung af þessu afgreiðslugjaldi, þ.e. fjórðung af 20 kr. af hverju nettótonni sem hér eftir verður þá miðað við, eða 5 kr. af nettótonni. Þetta er auðvitað heilmikil framför frá þeim 15 kr. sem farþegaskip greiða í dag.

[17:15]

Í tengslum við þetta mál fór ég að afla mér upplýsinga um hvaða gjöld eru lögð á slíkar skipakomur eða slík skip þegar þau koma hingað til hafna. Nú er það ljóst að það er mikið hagsmunamál íslenskrar ferðaþjónustu og efnahags- og atvinnulífs almennt að laða hingað slík viðskipti og fá hingað sem mest umsvif af þjónustu við erlend skip, bæði farþegaskip og önnur skip. Og hvernig halda menn að þetta sé, herra forseti? Það er ekki beinlínis þannig að þessu staðið að það sé hvetjandi fyrir þessa aðila að koma hingað og leita viðskipta. Ég skal nefna dæmi frá Akureyrarhöfn. Þegar stórt erlent skemmtiferðaskip lagðist þar að í sumar, skipið Royal Viking Sun, var lagt á það þetta afgreiðslugjald. Skipið er stórt þannig að það kostaði 210.810 kr. fyrir skipið að borga þetta afgreiðslugjald til ríkisins. En ekki er öll sagan sögð. Til viðbótar þarf þetta skip að borga vitagjald upp á 548.753 kr. þannig að til ríkisins greiðir skipið fyrir þessa einu komu í Akureyrarhöfn 759.563 kr. Samtals nema greiðslur til Akureyrarhafnar 469.187 kr. og svo geta glöggir menn lagt saman og fengið út að gjaldtakan er komin á aðra millj. kr. Á aðra millj. kr. kostar það skipið að renna þarna inn á höfnina og hafa þar stutta viðkomu. (VE: Það er eins gott að það sé einhver um borð.) Já, það er eins gott að einhverjir séu um borð og einhver sé tilbúinn til að taka upp veskið. Ég, herra forseti, er sannfærður um að þetta sem við leggjum til sé að sjálfsögðu skref í rétta átt, að lækka þarna niður í þriðjung sýnist mér eða úr 15 kr. í 5 kr. miðað við nettótonn, það gjald sem skipin greiða undir formerkjunum afgreiðslugjald. Þó stendur eftir risahátt vitagjald og samkvæmt lögum um vitamál sem ég hef með mér er það þannig að þetta gjald er rukkað í fjögur fyrstu skiptin sem skip kemur á hverju ári inn á íslenska höfn. Sem sagt, þegar stór skemmtiferðaskip af þessu tagi sigla reglubundið til Íslands og við skulum segja að það sé nokkurt hagsmunamál okkar að ná þeim, þá er í fjórum fyrstu ferðunum tekið af skipinu yfir hálf millj. í vitagjald. Það er þó þannig gagnvart íslenskum skipum að þau borga þetta gjald ekki nema einu sinni á ári og þar er auðvitað allt önnur gjaldtaka á ferð. Ég held, herra forseti, að þarna sé á ferðinni mál sem eigi alveg tvímælalaust að endurskoða og menn séu þarna í ógöngum.

Ef ég man rétt er svo annars staðar ákvæði um að afgreiðslugjaldið er tekið í sex skipti af erlendum skipum og þá getum við aðeins ímyndað okkur hvernig gjaldtakan er orðin. Þetta er kannski komið í 5, 6, 7 millj. kr. sem tekið er af skipum af þessu tagi fyrir fimm til sex viðkomur í íslenskum höfnum. Ætla má að skip sem sigla hingað reglubundið yfir sumartímann, t.d. frá Evrópu eða koma hér við á milli Evrópu og Ameríku, nái nokkrum ferðum eða þetta mörgum ferðum á hverju sumri.

Það er ljóst að álagning vitagjaldsins heyrir undir önnur lög, þ.e. lög um vitamál, og það þarf því að taka þau upp og skoða ákvæði þeirra ef á að breyta vitagjaldinu. Ég tel bráðnauðsynlegt að gera það, herra forseti, og er tilbúinn til að beita mér fyrr því ef aðrir vilja ekki verða til þess. Ég held að þarna sé afar lítið samræmi í hlutunum og beinlínis óskynsamlegt að standa svona að þessu. Undan þessari gjaldtöku er kvartað. Mér er kunnugt um að ferðaskrifstofur hafa borið sig upp undan því að þær eigi í erfiðleikum með að útskýra fyrir rekstraraðilum slíkra erlendra skemmtiferðaskipa, hvers konar gjald þetta er sem skipin eru að greiða. Eða halda menn að sú þjónusta sem skipin fá af vitum við strendur landsins sé jafngildi hálfrar millj. kr. fyrir það að sigla inn á höfn í eitt skipti eða hvert skipti? Auðvitað er það ekki svo. Hér er um hreina skattlagningu langt umfram alla þjónustu að ræða á þessa aðila og hún er að mínu mati ekki efnahagslega skynsamleg.

Herra forseti. Úr því að þessi gjaldtaka öll er hér til umræðu á annað borð, þá notaði ég tækifærið og vakti máls á þessu. Ég tek þó fram að lokum að breyting sú sem hér er gerð er til bóta og þar af leiðandi styð ég hana og frv. í heild þar sem það er þó frekar en hitt í rétta átt.