Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 12:57:44 (2062)

1995-12-16 12:57:44# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[12:57]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Allir gestir hafa komið sem við höfum boðað eða beðið um að til okkar kæmu. Engum óskum um viðmælendur hefur verið neitað. Engum óskum um umsagnir hefur verið neitað. Við höfðum nægan tíma þegar við slitum starfi okkar í haust til þess að vinna það mál betur ef mönnum þótti of fjölmennt á einhverjum fundi þannig að sjónarmið kæmust ekki að. Þess vegna fellst ég ekki á þann málflutning sem hér var uppi.

Í öðru lagi vil ég endurtaka það sem ég sagði og mótmæla enn og aftur því að hér hafi verið um óvenjuleg og óþingleg vinnubrögð að ræða. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson biður um að það sé haldinn aukafundur vegna þess að hann sé að fara til útlanda á þriðjudegi. Fundurinn er haldinn á mánudegi. Hann leggur þar fram margvíslegar óskir um skrifleg svör sem hefðu þá þurft að vinnast á næstu 7--8 klukkutímum. Það var alveg ljóst að það næðist ekki og það var alveg ljóst að þegar hann væri farinn til útlanda var ekki hægt að ræða þetta mál við hann. Á miðvikudegi áttum við að svara iðnn. og hefðum getað gert það ef hv. þm. hefði verið á landinu. Mér þykir það skjóta skökku við að ljúka upphafskafla álits minni hluta umhvn. með þessari gagnrýni og mótmæli henni vegna þess að sá sem um þetta bað hafði ekki tíma til að bíða eftir þeim umsögnum sem hann bað um.