Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 17:36:07 (2076)

1995-12-16 17:36:07# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[17:36]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. iðnn. fyrir störf sín að þessu máli milli 1. og 2. umr. Hér er eins og fram hefur komið mjög stórt mál á ferðinni, mikilvægt og skiptir þjóðarhag gríðarlega miklu. Mér sýnist að iðnn. hafi unnið hratt að framgangi þessa máls í þinginu, enda er mikilægt að það fái afgreiðslu þingsins sem fyrst. Jafnframt hefur þess verið gætt í meðförum iðnn. að vinna málefnalega. Það vil ég þakka hv. þingmönnum í iðnn. fyrir og ekki vil ég síður þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu í dag fyrir málefnalegar umræður.

Það er auðvitað svo að mönnum getur sýnst sitt hvað í þessum efnum og greinir auðvitað á. Það er eðlilegt í svo stóru máli sem þessu. En ég held að það megi kannski skipta því upp í þrjá meginþætti. Það er í fyrsta lagi orkusala. Í öðru lagi eru það umhverfismálin og í þriðja lagi eru það skattamálin og starfsheimildir fyrirtækisins.

Tveir fyrstu þættir þessa máls eru í raun og veru ekki til formlegrar afgreiðslu á Alþingi, þ.e. orkumálin og umhverfismálin. Þau hafa verið afgreidd í samningum milli þar til bærra yfirvalda, þ.e. umhvrn. með útgáfu starfsleyfis fyrir fyrirtækið og svo í samningum milli Ísals og Landsvirkjunar þar sem gengið hefur verið frá orkusamningi. Það er eðlilegt að þessir hlutir séu ræddir í þessu samhengi og það hefur verið gert.

Margir hverjir hv. þingmenn gera lítið úr því að þetta stóra mál sé jafnstórt og menn vilja vera láta. Það hafi sáralitla efnahagslega þýðingu. Ég er því reyndar alveg ósammála. Ég tel að það hafi gríðarlega mikla efnahagslega þýðingu. Auk þess sem það hefur bein áhrif á efnahagslífið er alveg ljóst að það hefur líka, eins og hv. 8. þm. Reykv. orðaði það fyrr við umræðuna, mikil sálfræðileg áhrif. Smátt og smátt kemur í ljós að þetta virkar sem vítamínsprauta á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þær spár sem núna koma um afkomu þjóðarbúsins á næsta ári, hagvöxtur fer sennilega yfir 3% sem ekki hefur verið í mjög langan tíma og það mun draga úr atvinnuleysi, eru auðvitað hlutir sem menn eiga að gleðjast yfir við þessar kringumstæður. Kannski hefur þetta mál haft meiri áhrif í þessa veru en nokkur annar hlutur.

Ég fagna því og mér finnst að það hafi skapast hér gríðarlega víðtæk, pólitísk samstaða um þetta mál. Hún lýsir sér best í því að það er eitt minnihlutaálit frá iðnn. sem kemur inn á þingið. Það ber þess ekki merki eftir því sem ég best fæ séð að hv. 8. þm. Reykv. sem að því stendur leggist gegn málinu heldur vill hann koma á framfæri athugasemdum sínum og brtt. við málið og mun ég koma að því á eftir. Hinu er ekki að leyna að hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, leggst gegn málinu. Af því má marka að Alþb. sé klofið í afstöðu sinni til þessa máls.

Nú er það svo að menn hafa örlítið verið að velta því fyrir sér hvaða hæstv. iðnrh. hafi komið þessu máli í höfn og hverjum beri að þakka. Það finnst mér ekki skipta öllu máli. Reyndar skiptir það engu máli, aðalatriðið er að nú hefur verið frá þessum samningum gengið. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var búið að vinna vel að undirbúningnum. Af klofinni afstöðu Alþb. má hins vegar ráða að hefði Alþb. komist í ríkisstjórn að afloknum síðustu alþingiskosningum, hefði þetta mál sennilega ekki komist í höfn. Það er hin alvarlega og blákalda staðreynd sem blasir við.

Hv. þm. Svavar Gestsson gerði leyndina yfir orkusamningnum að umtalsefni fyrr við umræðuna. Það kom fram hjá hv. þm. að hann hefði verið fjarstaddur afgreiðslu málsins í stjórn Landsvirkjunar. Það er rétt. Hins vegar tjáði hv. þm. sig samdægurs, þar sem hann var staddur á þingi Sameinuðu þjóðanna vestur í Bandaríkjunum, símleiðis við fjölmiðla hér á landi. Hann sagðist standa að orkusamningnum eins og hann lægi fyrir, enda hefði hann, hv. þm., kynnt sér efnisinnihald samningsins. Hins vegar hefur það ekki komið fram við umræðu hvort hv. þm. hafi staðið að þeirri ósk sem kom frá fyrirtækinu um að yfir þeim kafla samningsins sem snýr að orkuformúlunni og orkuverðinu ríkti sérstök viðskiptaleynd. Þær óskir komu frá fyrirtækinu, að því var staðið af hálfu stjórnar fyrirtækisins með þeim hætti að stjórnin samþykkti ályktun í þessa veru. Það varð til þess að nú hefur orkusamningur verið kynntur fyrir iðnn. en hann er ekki hluti af því staðfestingarfrv. sem nú liggur fyrir þinginu.

Mér finnst eðlilegt að þessar óskir fyrirtækisins séu virtar og það hefur áður komið fram af minni hálfu. Ég tel að þetta þurfi ekki að skapa fordæmi fyrir þau mál sem samið verður um í framtíðinni en mér finnst ekki óeðlilegt að það gerist. Það hlýtur að teljast eðlilegt að fyrirtæki sem þarf að eiga viðskipti, hvort sem það er við innlenda eða erlenda aðila, geti hagað samningum sínum þannig að það sé hægt að gera mismunandi samninga eftir því við hvern er verið að semja. Það setur hins vegar fyrirtækið í mjög erfiða stöðu að ná samningum við aðila ef alltaf er vitað nákvæmlega hversu langt viðkomandi fyrirtæki getur gengið, eða kannski öllu heldur hversu skammt það getur gengið.

Hv. þm. Svavar Gestsson gerði að öðru leyti ágæta grein fyrir orkusamningnum, enda þekkir hv. þm. þann samning ágætlega þar sem hann á setu í stjórn Landsvirkjunar.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði nákvæma grein fyrir þeim svörum sem liggja fyrir í þinginu við fyrirspurnum frá hv. þm. og var beint til iðnrh. Ég vil í örfáum orðum gera nokkrar athugasemdir við það sem fram kom hjá hv. þm. og þá um leið styðjast við þau svör sem hv. þm. fékk frá iðnrn.

Fyrst er frá því að greina að á þskj. 377 er spurst fyrir um hversu mikið af afgangsorku Landsvirkjun og/eða Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða hafi selt til viðskiptavina sinna samkvæmt sérsamningum á síðustu fimm árum, flokkað eftir árum og notendahópum (garðyrkjubændur, fiskeldi, loðnuverksmiðjur, járnblendi o.s.frv.). Út úr þessu koma 844,308 gwst. Ótryggða orkan sem Landsvirkjun hefur selt Ísal er 161. Eftir samning um stækkun er gert ráð fyrir að hún fari upp í 223 gwst. Aukningin er á milli 50 og 60 gwst. Þess vegna er þessi tala talsvert lægri en um getur þarna. Ef það er síðan borið saman, sem svar við spurningu 4, á tímabilinu frá 1998--2004 má gera ráð fyrir að bæta þurfi við nýjum virkjunum vegna orkuaukningar almenna markaðarins auk þeirra framkvæmda sem þörf er á við stækkunar Ísals. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hverjar þær virkjanir verða en gert er ráð fyrir t.d. að fyrsti áfangi Nesjavallavirkjunar bætist við raforkukerfið árið 2001 og Hágöngumiðlun árið 2004. Má gera ráð fyrir að Landsvirkjun hafi í meðalvatnsári til ráðstöfunar eftirfarandi magn af afgangsorku og ótryggu rafmagni: Hæst 844 gígavattstundir og allt niður í 620. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt er hann þarna að bera saman þessar tölur.

[17:45]

Nú trúi ég því ekki að hv. þm. sé að leggja til að farið verði sérstaklega að virkja fyrir ótryggða orkusölu. Af því höfum við frekar slæma reynslu. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé að tala um að fara að byggja virkjanir til þess að mæta þessari hugsanlegu orkusölu sem væri ótrygg eða, eins og mætti skilja hv. þm., að menn þurfi almennt ekkert að virkja, eigi ekkert að vera að leita að nýjum orkusölukostum vegna þess að við höfum nóg einmitt þessa stundina og nýtum þar af leiðandi auðlindina ekki sem skyldi.

Hins vegar spurði hv. þm. um hvaða virkjanir væru fyrirhugaðar í þeirri virkjanaröð og hvort ákvarðanir hefðu verið teknar um uppbyggingu eða byggingu ákveðinna virkjana. Á þskj. 380, sem er einnig svar til hv. þm. um orkufreka iðnaðarkosti, kemur fram að vegna stækkunar Ísals sé gert ráð fyrir stækkun Blöndulóns, fimmta áfanga Kvíslaveitu og nýjum vatnshjólum í Búrfellsstöð. Fram kemur að vegna hugsanlegra samninga við Columbia-fyrirtækið, ef af þeim verði, þurfi að ráðast í fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar, Bjarnarflag, fyrsta og annan áfanga, Hágöngulón og Nesjavallavirkjun, annan áfanga. Í þriðja lagi, vegna þriðja ofns í járnblendiverksmiðjunni sem hefur komið til tals að bæta við í reksturinn þar, þá verði um aldamótin tilbúin orka úr Vatnsfellsvirkjun.

Hv. þm. gerði athugasemdir við það sem fram kemur í þskj. 378, sem var svar við því hvert væri ráðgert afl og orkuframleiðsla Nesjavallavirkjunar og hugsanlegur byggingartími hennar. Það alveg hárrétt hjá hv. þm. að þegar þessu er stillt saman virðist gæta örlítils misræmis þar sem menn eru að tala um að í árslok 1997 eða á árinu 1996 sé hugsanlega hægt að fara af stað, eins og áform hafa verið uppi um hjá Columbia-fyrirtækinu, með framleiðslu um áramótin 1996 og 1997, ef samningar næðust, og hins vegar þann tíma sem þarf til að byggja virkjun til að geta afhent orku á þeim tíma. Viðræður hafa verið í gangi milli Reykjavíkurborgar eða Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar um samninga um byggingu á Nesjavöllum. Þeir hafa ekki verið fyrir milligöngu iðnrn. heldur beint á milli Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar. Þar hefur ekki náðst samkomulag. Menn hafa fyrst og fremst verið að tala saman um með hvaða hætti væri hægt að koma þessu fyrir. Talið er að tvö og hálft til þrjú ár taki að byggja Nesjavallavirkjun. Í svarinu er gengið út frá því að þessum framkvæmdum verði ekkert hraðað, ekki settur meiri kraftur í þær en áformað hefur miðað við að þetta væri eðlilegur hluti af raforkukerfi landsmanna. Hins vegar er ljóst að hægt er að stytta byggingartímann. Ef samningar um þessa orkusölu tækjust milli Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar og samband þar á milli hafa menn gengið út frá því að byggingartíma Nesjavallavirkjunar þyrfti að stytta til að hægt yrði að verða við þeim óskum. Þegar ég segi óskum á ég fyrst og fremst við þær hugmyndir sem voru uppi þegar fulltrúar þessa bandaríska fyrirtækis komu í heimsókn hingað og voru að kanna aðstæður fyrir byggingu álverksmiðju á Grundartanga. Ég vona að þetta skýri þann mun sem kann að vera í svörunum sem koma úr iðnrn. til hv. þm.

Samskiptin við Hafnarfjarðarbæ. Um þau hafa spurt þrír hv. þm., hv. þm. Svavar Gestsson, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og nú síðast hv. þm. Hjálmar Árnason. Það er rétt að í bréfi til Hafnarfjarðarbæjar frá Ísal, dags. 21. nóv., koma fram, að ég vil meina, almenn sjónarmið um að gæta þurfi að byggðinni í nábýli við álverið. Það kemur líka skýrt fram í bréfinu að ekki er verið að gera athugasemdir við starfsleyfið sem gefið hafði verið út. Starfsleyfið er fyrir stækkun fyrirtækisins upp í 200 þús. tonn og fyrst og fremst eru þetta varnaðarorð af hálfu fyrirtækisins varðandi þróun byggðar á þessu svæði. Ég vonast til að hv. þm. taki undir það að eðlilegt og skynsamlegt sé að fara varlega í þessum efnum. Afrit af bréfinu barst síðan til iðnrn. frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði, dags. 23. nóv., og fáum dögum síðar, 27. nóv., svaraði iðnrn. því bréfi. Það var út frá þessum almennu sjónarmiðum, byggð á reynslu erlendis frá, að þegar skipulögð væri íbúðarbyggð væri ekki gott að hún þróaðist mjög að slíkum iðnaðarsvæðum. Staðreyndin er svæðið í kringum álverið er kannski eitt það besta til atvinnuuppbyggingar um þær slóðir, ekki síst í iðnaðarstarfsemi.

Varðandi það atriði í bréfinu að hugsanlega geti álverið stækkað í 300 þús. tonn er sagt að ekki þætti óeðlilegt að slíkar óskir kæmu fram þar sem hagkvæmast virðist vera að reka þá stærð af álverum. Ljóst er að ef slíkar óskir kæmu fram þyrfti auðvitað að fara fram umhverfismat á því og gefa þyrfti út nýtt starfsleyfi fyrir slíku. Leiddi slík rannsókn í ljós að af slíkri stækkun stafaði umhverfinu hætta af væri ekki hægt að fara út í þær framkvæmdir.

Annar liður bréfsins snýr að því að ráðuneytið telur að á næstu fimm til tíu árum geti Ísal stækkað upp í 200 þús. tonn. Það er byggt á að eðlileg endurnýjun búnaðar ætti sjálfkrafa að leiða til þess að nokkur hluti slíkrar framleiðsluaukningar yrði innan þessara tímamarka. Það er komið að því að endurnýja búnað álversins því var mat okkar, eftir samtöl við eigendur og stjórnendur álversins og alla sem hafa komið að samningunum, að þessi þróun gæti átt sér stað á næstu fimm til tíu árum. Enda hefur fyrirtækið gert ráð fyrir að slíkt gæti gerst og sótt um starfsheimildir fyrir fyrirtækið til að stækka í 200 þús. tonn. Ráðuneytið tók með þessum almennu athugasemdum undir bréf Ísals. Okkur virtist örlítill misskilningur á ferðinni milli bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði og iðnrn. á því sem fram kom í bréfi ráðuneytisins og því sendum við þann 7. nóv. bréf til bæjarstjórnarinnar þar sem við skýrðum nánar innihald bréfsins, eins og hv. þm. lýsti áðan. Í framhaldi af þessu hafa síðan átt sér stað ágætar viðræður milli bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, fulltrúa iðnrn. og stjórnenda Ísals. Ég veit að þær eru í góðum farvegi og nú eru þessir þrír aðilar með til skoðunar sérstaka sameiginlega yfirlýsingu um með hvaða hætti eðlilegast sé að málið þróist. Ég held sem betur fer að öllum misskilningi sem virtist vera milli manna hafi verið eytt og málið því komið í eðlilegan farveg.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði einnig hvað væri fram undan í stóriðjumálum og hvaða fyrirætlanir væru uppi, hvort samningar stæðu yfir. Eftir því gekk líka hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Engar formlega samningaviðræður eru í gangi milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra aðila sem nefndir hafa verið, eins og eigenda bandaríska fyrirtækisins Columbia, Járnblendifélagsins og Atlantsálshópsins. Því er hins vegar ekki að leyna að í september komu fulltrúar bandaríska fyrirtækisins hingað til lands til þess að kynna sér aðstæður. Í framhaldi af heimsókninni hafa þeir óskað eftir frekari upplýsingum um hvaða kostir væru í boði, hvernig ýmsum hlutum væri háttað. Þær upplýsingar hafa verið sendar og nú, eftir því sem ég veit best, er fyrirtækið að bera saman kostina hér og kosti sem í boði eru í Venesúela. Valið stendur á milli þessara tveggja landa, Íslands og Venesúela og fulltrúar fyrirtækisins eru núna að meta og bera saman þessi tvö lönd, ef svo má að orði komast. Eigandi fyrirtækisins hefur sagt að að því sé stefnt að fyrir áramót verði hægt að taka ákvörðun um á hvorn staðinn ákjósanlegra er að fara. Það þýðir ekki að gengið hafi verið frá samningum á milli aðila. Það þýðir að ef Ísland yrði fyrir valinu væri það fyrst og fremst ákvörðun um að taka upp samningaviðræður. Reynslan er sú að oft vill langur tími líða frá því að menn hefja samninga um stóriðjumál og þar til þeir komast að endanlegri niðurstöðu.

[18:00]

Um síðustu mánaðamót kynnti stjórn Íslenska járnblendifélagsins hagkvæmnisathugun sem gerð hefur verið af hálfu fyrirtækisins þar sem þeim erlendu eignaraðilum sem eiga með okkur í fyrirtækinu var gerð grein fyrir þessari athugun. Hún er nú til enn frekari skoðunar milli eigenda og er gert ráð fyrir því að um mánaðamótin janúar/febrúar verði hægt að taka afstöðu til þeirrar athugunar. Þau skilaboð hafa komið frá þeim aðilum sem við vorum í samvinnu við fyrir fáum árum og hafa gengið undir vinnuheitinu Atlantsálshópurinn að þeir væru tilbúnir til þess að dusta rykið af samningnum sem pakkað var ofan í skúffu á sínum tíma þegar menn treystu sér ekki til þess að halda samningaviðræðunum lengur áfram og hann metinn upp á nýtt. Í mínum huga er ekki nokkur einasti vafi á því að allar þær forsendur sem þá voru til staðar hafa breyst hér á Íslandi við þennan samning um stækkun álversins. En það er auðvitað alveg sjálfsagt að ganga til samninga við þá aðila sem óska eftir því að taka upp samninga í þessum efnum vegna þess að við eigum að mínu viti að nýta öll þau tækifæri sem við höfum til þess að ná í erlenda fjárfesta. Við verðum að gæta að í umhverfismálunum og við eigum að gera það á okkar forsendum. Það er ekki þar með sagt að þó að við séum tilbúnir til að ganga til samninga við erlenda aðila að allir þeir samningar náist.

Af því að hv. þm. spurði hverju ég mundi svara þegar þeir spyrðu hvort ekki væri rétt að spretta úr spori hið fyrsta og ganga til samninga þá mun ég svara því til að ég tel rétt að menn spretti úr spori í þessu og reyni að leita leiða til þess að ná þessum samningum vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum alla þá kosti sem við getum krækt í í þessum efnum. Þau áform voru uppi á sínum tíma að byggja þar 200 þús. tonna álver. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að breyta slíkum áformum, taka 200 þús. tonna álver í smærri einingum, taka eitt skref í einu, og reyndar eru þessir samningar ekki farnir af stað. En það er gert ráð fyrir því að eftir áramótin setjist menn niður og meti þá stöðu upp á nýtt.

Hv. þm. Svavar Gestsson flytur hér brtt. við frumvarpið eins og það liggur fyrir. Hæstv. umhvrh. hefur gert grein fyrir afstöðu sinni til 1. liðar þeirrar tillögu og ég tek undir þau sjónarmið sem þar komu fram. Annar liður tillögunnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi kýs strax og lög þessi hafa tekið gildi sjö manna nefnd, atvinnumálanefnd, til þess að gera tillögur um eflingu alhliða atvinnulífs, m.a. með hliðsjón af þeim þjóðfélagslegu breytingum sem það kann að hafa í för með sér ef stórframkvæmdir næstu ára verða nær allar á sama svæði á landinu. Nefndin skili fyrstu tillögum sínum fyrir þinglok vorið 1996.``

Í þessum lið er gengið út frá því að allar stóriðjuframkvæmdir næstu ára verði á sama svæði á landinu. Svo þarf ekki að vera og er raunar markvisst unnið að því að kynna staðsetningarkosti utan þess. Í því sambandi vil ég nefna samvinnu iðnrn. og markaðsskrifstofu iðnrn. og svo Landsvirkjunar annars vegar við héraðsnefnd Eyjafjarðar og hins vegar við orku- og stóriðjunefnd Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi um staðarvalsathuganir vegna orkufreks iðnaðar á þessum svæðum. Þessi verkefni fela m.a. í sér mælingar á veðurfari og í framhaldi af því gerð spár um dreifingu mengunarefna í lofti, könnun á ýmsum tæknilegum þáttum, svo sem hvað varðar iðnaðarlóðir, aðstæður til hafnargerðar, athuganir á vinumarkaði, samgöngur, þjónustu og margt fleira. Markmiðið með þessari vinnu er að aðstoða sveitarstjórnir við að móta sér skýra stefnu í sambandi við stóriðju, stefnu sem þarf að njóta almenns stuðnings meðal íbúa svæðanna og þessari vinnu verður haldið áfram.

Í gangi er talsvert mikil vinna í þessum efnum á vegum iðnrn. Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar er beitt í þessum efnum til atvinnuuppbyggingar. Fjárfestingarskrifstofa viðskrn. og Útflutningsráðs er einnig að vinna að þessum hlutum í leit að fjárfestum til að koma hingað til lands. Nefnd um lítil og meðalstór fyrirtæki sem iðnrh. og viðskrh. skipaði í vor hefur skilað af sér sínum fyrstu tillögum sem er lýsing á þeim sóknarfærum sem lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi hafa í gegnum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er gert ráð fyrir því að fara strax eftir áramót í kynningarferð um allt land þar sem þessir kostir lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru kynntir og nýta þannig þann möguleika sem þannig skapast til þess að fyrirtæki sem fyrir eru fari inn í þennan farveg og það er verkefni næstu vikna.

Í samvinnu við fjárfestingarlánasjóðina, þ.e. Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð, Iðntæknistofnun, iðnrn. og Samtök iðnaðarins, er að fara af stað upp úr áramótum sérstakt verkefni sem við köllum átak til atvinnusköpunar sem m.a. beinist að því að efla atvinnulífið á landsbyggðinni og þar reynum við að draga að til samstarfs sveitarstjórnirnar.

Fleiri verkefni mætti nefna í þessum efnum. Fyrirhugaðar eru breytingar á fjárfestingarlánasjóðakerfi atvinnulífsins í þeim tilgangi að standa við bakið á nýsköpun í atvinnulífinu. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson efaðist um þau verk sem markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar er að vinna að og velti fyrir sér hvort hún hefði heimildir m.a. til þess að standa að þessum umhverfisathugunum, leggja út fjármuni fyrir álrisann Ísal sem væri svo fátækur að hann gæti ekki kostað þessar umhverfisathuganir og þær aðar sem núna væru í gangi í Hvalfirðinum.

Fyrst um Ísal. Það er rétt að markaðsskrifstofan lagði út fyrir þeim kostnaði. Áætlaður kostnaður var í kringum 4 millj. kr. við gerð þessara umhverfisathugana sem Ísal mun endurgreiða á næstu vikum eða um leið og allur kostnaður sem þeirri úttekt var samfara liggur fyrir. Þetta var gert fyrst og fremst til þess að hraða undirbúningi af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að vera í stakk búin til þess, ef það tækifæri kæmi, að gera þennan samning sem núna hefur verið gerður. Sú ákvörun sem þarna var tekin er að mínu viti rétt og varð til þess að það var hægt að flýta samningsgerðinni.

Það sama liggur að baki þegar nú hefur verið framkvæmt umhverfismat í Hvalfirði. Það er gengið út frá því að þar verði byggt 180 þús. tonna álver og umhverfismatið byggist á því. Áætlaður kostnaður er upp á 4,7 millj. kr. Það er gert á ábyrgð markaðsskrifstofunnar. Það eru engar skuldbindingar sem liggja þar að baki gagnvart Columbia-fyrirtækinu, þ.e. að þeir taki þátt í þeim kostnaði. Verði það hins vegar þeirra ákvörðun að byggja álver í Hvalfirðinum, á Grundartanga, þá er það ljóst að þessi kostnaður mun verða endurgreiddur af fyrirtækinu. Fari svo að fyrirtækið ákveði að koma ekki hingað þá er það ljóst að þetta er fjárfesting fyrir markaðsskrifstofuna í þessum umhverfisathugunum og er innlegg í umræðu um atvinnuuppbyggingu sem þarf að eiga sér stað. Þær upplýsingar sem þarna hefur verið aflað og liggja fyrir eru því fjárfesting fyrir framtíðina.

Á vegum markaðsskrifstofunnar og fjárfestingarskrifstofunnar í samvinnu við mörg sveitarfélög er verið að skilgreina einstaka kosti víða um land þannig að menn geti metið þau landgæði sem til staðar eru og hvaða kostir það eru sem ákveðin landsvæði hafa upp á að bjóða til þess að draga að fjárfesta til atvinnuuppbyggingar. Gleggsta dæmið um þetta er bæklingur sem núna hefur verið gerður og er samvinnuverkefni Hitaveitu Suðurnesja, sveitarfélaganna á Suðurnesjum, markaðsskrifstofu iðnrn. og fjárfestingarskrifstofu viðskrn. þar sem kostir Suðurnesjanna, Reykjanessins, hafa verið skilgreindir og nú er með skipulögðum hætti í gegnum erlenda ráðgjafa, bandarískan ráðgjafa, enskan og þýskan ráðgjafa, sérstaklega verið að leita að erlendum fjárfestum sem eru að leita þeirra kosta sem þetta landsvæði hefur upp á að bjóða. Með þessum hætti ætlum við núna að beita þessum tveimur skrifstofum, markaðsskrifstofunni og fjárfestingarskrifstofu iðnrn. og Útflutningsráðs, í leit að erlendum fjárfestum. Við þurfum auðvitað að vera búnin að vinna okkar heimavinnu þegar erlendir fjárfestar eða hvaða fjárfestar sem það eru koma hingað og fara að kanna með hvaða hætti þeir geta sett sig hér niður. Það verkefni sem núna er verið að vinna á vegum markaðsskrifstofunnar í Hvalfirði, í umhverfismatinu, er því fjárfesting í þessari framtíð sem ég var að lýsa.

C-lið brtt. hv. þm. Svavars Gestssonar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi kýs strax og lög þessi hafa öðlast gildi sjö manna nefnd til þess að gera tillögur til Alþingis um stefnumótun í orku- og stóriðjumálum til næstu áratuga á grundvelli sjálfbærrar þróunar í umhverfismálum. Nefndin skili tillögum sínum til Alþingis við upphaf þings haustið 1996.``

Ég vil ítreka að stöðugt er unnið að stefnumótun sem þessari á vegum ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi vil ég nefna að á sl. vori skilaði starfshópur um umhverfismál, iðnþróun og orkumál sem umhvrh. skipaði skýrslu sem bar heitið: Framkvæmdaáætlun um orkumál. Orka, iðnaður, nytjavatn og jarðefni. Í hópnum sátu 20 fulltrúar er tilnefndir voru af ýmsum ólíkum aðilum, svo sem iðnn. og umhvn. Alþingis, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Náttúruverndarráði, orkuveitum, aðilum vinnumarkaðarins, Landvernd, Kvenfélagasamband Íslands auk fulltrúa umhvrn. og iðnrn. Í skýrslu hópsins eru tillögur að stefnumótun og framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í orku- og iðnaðarmálum. Í skýrslunni er gengið út frá meginreglum sjálfbærrar þróunar. Þá vil ég jafnframt minna á skýrslu sem iðnrn. hefur gefið út um nýtingu innlendra orkulinda.

Það sem hér hefur verið sagt segir auðvitað að upplýsingar um það sem hv. þm. er að leggja til liggja fyrir og hafa nú þegar verið unnar fyrir utan það að núna í haust skipaði ég nefnd til þess að semja skýrslu um helstu iðjukosti sem til athugunar hafa verið að undanförnu, hvenær rekstur iðjuveranna gæti hugsanlega hafist miðað við ákveðinn orkuafhendingartíma og hvernig hagkvæmast yrði að afla orku vegna þeirra. Í þessu sambandi þarf nefndin að leita upplýsinga um virkjunarkosti sem Hitaveita Suðurnesja, Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins hafa verið að kanna.

Það var óskað eftir því að nefndin skilaði skýrslu ekki síður en 15. nóvember 1995. Það hefur því miður ekki tekist einfaldlega vegna þess að ýmsar breytingar hafa verið að eiga sér stað bæði á hugsanlegri virkjanaröð og hugsanlegri fjárfestingu í vænlegum iðjukostum. Nefndin er að störfum enn og hluti af starfi nefndarinnar birtist m.a. í svörum iðnrn. við fyrirspurnum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Þar að auki, eins og kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, hefur iðnrn. óskað eftir tilnefningu fulltrúa í sérstaka nefnd til þess að fara ofan í skipulag orkumálanna í landinu. Þar verða fulltrúar allra stjórnmálaflokka, Sambands ísl. sveitarfélaga, þeirra stóru sveitarfélaga sem mestra hagsmuna eiga að gæta varðandi Landsvirkjun, Reykjavíkurborgar og Akureyrar. Þannig verður reynt að draga saman alla þá sem þessum málum tengjast og leita leiða til að ná vonandi góðri sátt um breytt fyrirkomulag á skipulagi þessara mála.

[18:15]

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom örlítið inn á skattamálin. Mér fannst hann gera heldur lítið úr samningnum, hann taldi hann fremur ómerkilegan og skila okkur litlu. Hv. þm. spurði líka um tækniaðstoðargjaldið og um hvað hefði verið samið í þeim efnum. Tækniaðstoðargjaldið var 2,2% og er óbreytt, þ.e. það er 2,2% af veltu til viðbótar 1,5% í söluþóknun, eins og hv. þm. gerði grein fyrir. Gjaldið er því samtals 3,7%. Í þessum samningum var ekki samið um breytingu á þessu gjaldi. Þau gjöld sem þarna um ræðir eru algeng viðskiptum sem þessum. Og þess má geta að í þeim samningsdrögum sem lágu fyrir um Atlantsálsverkefnið, var gert ráð fyrir að þetta heildargjald yrði 4%. Svarið við fyrirspurninni er því að gjaldið er óbreytt.

Varðandi skattamálin er það mat þeirra sem hafa fjallað um þau mál að heildartekjur næstu 20 ára, aðrar en launaskattur, verði á föstu verðlagi sem hér segir:

1. Að lágmarksskattar verði á bilinu 2--2,4 milljarðar, en tekjutengdu skattgreiðslurnar gætu orðið á bilinu 15--25 milljarðar. Þetta þýðir að tekjurnar af stækkunni einni og sér eru 7,5--12,5 milljarðar kr. vegna þessa samnings. Auðvitað mun þetta ráðast mjög af því hver afkoma fyrirtækisins verður þegar til lengri tíma er litið. En í samningunum var gengið út frá meðalverði á áli, kringum 1.700--1.750 dali á tonnið. Spár eru hins vegar uppi um að verðið geti orðið enn hærra á næstu árum.

Með þessu hygg ég að ég hafi svarað allflestum og vonandi öllum þeim spurningum sem til mín var beint í þessari umræðu. Ég vonast til að svörin skýri að mestu leyti það sem hefur ekki verið á hreinu áður.