Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:56:38 (2114)

1995-12-18 15:56:38# 120. lþ. 69.2 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er lagt til að 1. og 2. mgr. 121. gr. tekjuskattslaganna falli brott. Þar segir, með leyfi forseta, að fjárhæðir sem um ræði í tilteknum greinum, 68. og 69. gr., skuli 1. júlí á hverju ári taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu frá fyrra ári og til þess árs sem yfir stendur. Með öðrum orðum: Hér eru á ferðinni hin almennu verðuppfærsluákvæði tekjuskattslaganna. Það er enginn vafi á því að með því að fella þetta úr lögum og frysta upphæðir, til að mynda persónufrádráttar í krónutölu, þannig að þær taki ekki verðlagsbreytingum á miðju ári eins og verið hefur er verið að skerða kjör manna, þ.e. þyngja skattbyrðina, enda mun það þegar á næsta ári hafa umtalsverð áhrif til lækkunar á persónufrádrætti og skattfrelsismörkum frá því sem ella hefði orðið. Við erum algjörlega andvíg þessari viðbótarkjaraskerðingu á landsmenn sem ríkisstjórnin ætlar að innleiða með þessum tæknibrellum og segjum því nei.