Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 20:34:35 (2172)

1995-12-19 20:34:35# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[20:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður sífellt erfiðara að átta sig á því við hvaða aðstæður verið er að ræða mál og hvernig hlutirnir standa á Alþingi um þessar mundir. Það berast sífellt nýjar upplýsingar á hverri klukkustund, ef svo má að orði komast, annaðhvort inn í einstökum þingnefndum eða hér úr ræðustóli um nýjar og nýjar uppákomur í fjárlagadæminu eða hluti sem varða afgreiðslu þessara mála sem hér eru til umfjöllunar. Það eru eins og kunnugt er fyrst og fremst tekjuöflunarfrv., frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem hér er á dagskrá, bandormurinn illræmdi og fjárlagafrv. sjálft. Auk þess auðvitað ýmis mál sem þessu tengjast og eru hefðbundin eins og lánsfjárlög og annað því um líkt.

Það er afar erfitt að ræða þessa hluti nema eitthvert samhengi liggi fyrir og einhver heildarmynd sé komin á það hvernig fjárlagadæminu verði lokað og hlutirnir líti út í heild sinni. Ég held því, herra forseti, að sú hugmynd sem kom hér fram um miðjan dag í dag hafi verið sú eina skynsamlega --- að fresta þessu fundahaldi og gefa mönnum tíma til að reyna að ná landi með óleyst ágreiningsmál sem greinilega eru mýmörg og virðist heldur fara fjölgandi en fækkandi ef marka má nýjustu upplýsingar. Ef eitthvert samkomulag tækist um hlutina á annað borð og menn áttuðu sig á því hvað þyrfti að afgreiða og um hvað væri samkomulag, sérstaklega milli stjórnarflokkanna, held ég að menn hefðu getað raðað því niður og lokið því á einhverjum hæfilegum tíma, hvort sem það tækist fyrir jól eða milli jóla og nýárs.

Því miður er það svo, herra forseti, að frv. sem hér er til umræðu er eitt af þeim málum hæstv. ríkisstjórnar þar sem verið er að troða hinu nýja trúboði upp á þjóðina. Þá á ég alveg sérstaklega við hina heilögu krossferð hæstv. ríkisstjórnar gegn öllu sem heita viðmiðanir eða verðtengingar eða tryggingar af einum eða öðrum toga.

Varðandi frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þá snýr þetta fyrst og fremst að því að við 2. umr. var staðfest í atkvæðagreiðslum sá ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að afnema uppfærslu bótaliða í skattkerfinu og fella úr gildi hina almennu verðuppfærslugrein tekjuskattslaganna sem hefur á ári hverju á undanförnum árum tryggt mönnum uppreikning á bótaliðum, persónufrádrætti og þar með á skattleysismörkum í takt við verðlagsbreytingar milli ára. Ofstækið gekk reyndar svo langt að í næstu grein þar á eftir, 122. gr. tekjuskattslaganna, var skattvísitalan felld út og þar með bönnuð. Ég held að öllu lengra verði ekki komist en að ganga svo langt að banna með lögum að skattvísitala sé reiknuð út.

Það kann að virðast svo, herra forseti, að þetta mál sé ekki mjög stórt í sniðum. Það er það heldur ekki í talnagildum einmitt nú við afgreiðslu þessara fjárlaga og tekjuskattsfrv. sem því fylgir nú fyrir áramót af þeim einföldu ástæðum að þessi uppreikningur hefur nú um skeið farið fram á miðju sumri. Þar af leiðandi eru bótaliðirnir sem hér eiga hlut að máli ekki að breytast svo ýkjamikið og hefðu ekki gert það þótt öðruvísi hefði verið staðið að málum. Það er að vísu ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur í hyggju að frysta með öllu þessar upphæðir þannig að í reynd er verið að lækka allverulega skattleysismörkin á Íslandi. Í grófum dráttum er það þannig að þessi frysting persónufrádráttarins vegur upp nánast að fullu það hagræði sem menn hafa eða hefðu annars haft af upptöku skattfrelsis á iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóða eða frádráttarbærni slíkra greiðslna. Það má auðvitað spyrja sig að því, herra forseti, hvað sé þá orðið um allt streðið sem menn stóðu í til þess að fá inngreiðslur í lífeyrissjóði frádráttarbærar. Hverju eru menn bættari þótt það heiti svo á pappírunum að þessar inngreiðslur séu skattfrjálsar? Á móti kemur að skattfrelsismörkin hafa lækkað nokkurn veginn sem því nemur. Þannig að skattbyrðin er óbreytt. Það er þá í raun og veru ekki orðið neitt annað en einfalt bókfærsluatriði að láta það heita svo að iðgjöldin séu frádráttarbær því skattbyrðin er ein og hin sama.

Ég óttast nú, herra forseti, að menn hafi keypt köttinn í sekknum eins og stundum áður og menn hafi í einfeldni sinni haldið að með því að ná fram skattfrelsi inngreiðslna væru menn í reynd að bæta stöðu sína gagnvart skattkerfinu sem því næmi, að það hafi í skilningi þjóðarinnar verið réttlætismálið að ná fram afnámi tvísköttunar en ekki hitt að skattfrelsismörkin yrðu þá bara einfaldlega lækkuð á móti. Menn væru þannig að vísu að nafninu til lausir við alla tvísköttun en sætu uppi með óbreytta skattbyrði. Það er það sem gerðist, herra forseti, og gerist með afgreiðslu þessa frv. úr því að meiri hlutinn var svo lánlaus að fella brtt. okkar í minni hlutanum eða öllu heldur taka ekki afstöðu með okkur í atkvæðagreiðslu um frv.

Herra forseti. Að þessu sögðu er eftir sem áður rétt að undirstrika að við í minni hlutanum erum eindregið þeirrar skoðunar að þetta sé rétt aðferð að hafa frádráttinn á inngreiðslunum en ekki á útgreiðslunum þegar til lengri tíma er litið. Strax í desember 1994 þegar þessi mál komu hér á dagskrá þingsins lýsti ég þeirri skoðun að það væri sú aðferð sem stefna ætti að til lengri tíma litið. Ég er því að sjálfsögðu efnislega sáttur við að sjá þá breytingu lögfesta. En hitt verð ég að játa að ég hafði allan tímann reiknað með því og gert mér vonir um að þessu mundi fylgja einhver lagfæring á skattleysismörkunum.

Herra forseti. Þessa hluti eiga menn örugglega eftir að rekast á og heyra meira um hér á Alþingi á komandi árum um þetta leyti árs af þeirri ósköp einföldu ástæðu að það sem verið er að stofna til hér er árvisst skak um upphæðir þessara bótaliða. Deilur og átök verða að mínu mati nánast ófrávíkjanlega svo lengi sem stjórnvöld með því hugarfari sem núverandi ríkisstjórn hefur sitja að völdum. Þær munu reyna að ganga á lagið og nota sér afnám þessarar verðuppfærslutryggingar til að skerða kjör launamanna í skjóli þess. Það þarf ekki neinna sérstakra vitna við, herra forseti, um þau efni. Staðreyndin er að fjárlagafrv., eins og það var lagt fram á borð þingmanna í byrjun þings, bar þess vitni að tilgangurinn með því að hætta annars vegar viðmiðunum atvinnuleysisbóta og elli- og örorkulífeyris við launaþróun og hins vegar að afnema verðuppfærsluákvæði tekjuskattslaga var sá og er sá að skerða. Það stóð til að mynda strax til á næsta ári að skerða kjör atvinnulausra elli- og örorkulífeyrisþega um hálfan milljarð kr. eða svo af þessum sökum. Og í reynd er verið að skerða skattfrelsismörkin og þyngja skattbyrðina þegar á næsta ári með afnámi verðuppfærsluákvæðanna. Það er eins ljóst og tvisvar tveir eru fjórir að væru þau áfram við lýði mundi koma til uppfærslu á næsta ári. Kannski meiri en menn sjá nú fyrir vegna þess að það er ýmissa mat að líkur séu á að verðbólga verði meiri á næsta ári en nú er fyrir séð. Það eru ýmis þenslumerki í kerfinu og það gæti eins og kunnugt er leitt til þess að verulega reyndi á gildi þess að hafa verðuppfærsluákvæði af þessu tagi fyrir hendi í lögum. Þeim mun verra auðvitað er að þau séu út horfin ef einhverjar umtalsverðar breytingar á verðlagsforsendum eru í farvatninu.

[20:45]

Ég tel, herra forseti, að hér horfi mjög ógæfulega um þessi mál og þetta boði ekki gott í samskiptum aðila á komandi árum. Þá á ég við bæði samskipti ríkisvalds og verkalýðshreyfingar sem auðvitað verða hér fyrst og fremst að takast á um hlutina. En þarna gætu einnig komið til í vaxandi mæli hópar sem sjá sig knúna til að fylkja liði og taka upp harðari baráttu fyrir sínum kjörum en þeir hafa gert hingað til. Ég nefni sem dæmi Samtök aldraðra og félög aldraðra um allt land. Ég sé ekki í fljótu bragði að mönnum sé annar kostur boðinn í þessum efnum en að búa sig undir að heyja harðari kjarabaráttu á sjálfstæðari forsendum en hingað til hefur verið, þegar ríkisvaldið er með einhliða aðgerðum að slíta þá úr lögum við launamenn í landinu eins og hér er ætlunin. Það hefur verið svo á undanförnum árum og það er vel og hefur lýst félagslegum þroska á býsna háu stigi, að verkalýðshreyfingin, samtök almennra verkalýðsfélaga og samtök opinberra starfsmanna hafa haft í sínum áherslum við kjarasamninga, kröfur um að séð væri um réttindamál þessara hópa í leiðinni þegar verið er að gera breytingar á launakjörum í landinu og semja um kjarabætur, að þá skiluðu þær sér til þessara hópa sem samkvæmt lögum hafa átt að taka mið af launaþróun varðandi sín kjör. Nýleg dæmi um þetta eru til að mynda talsverðar stimpingar og deilur sem hafa orðið um það þegar þurft hefur að knýja ríkisstjórn, fyrri ríkisstjórn að vísu því á það hefur ekki reynt í miklum mæli gagnvart þessari, til að skila ýmsum sérstökum launauppbótum, eingreiðslum og desemberuppbótum og öðru slíku til þeirra sem lögum samkvæmt eiga að fá kjör í takt við launaþróun. Þetta þekkja menn nú og hefur oft orðið að einhvers konar skiptimynt eða deiluatriði við kjarasamninga. Þá hefur verkalýðshreyfingin tekið að sér að draga vagninn fyrir hönd þessara hópa og sjá um að þeirra kjör væru tryggð.

Þetta hefur í og með gerst, herra forseti, vegna þessarar tengingar sem þarna hefur verið á ferðinni. Nú er verið að segja sundur griðum. Tilgangurinn vefst ekkert fyrir mönnum. Hann er sá að geta skilið þessa aðila eftir þó að þetta sé að vísu klætt í þennan fína búning, að verið sé að afnema sjálfvirkni og verðtryggingar og annað því um líkt í kerfinu. Það, herra forseti, eru málamyndarök. Hrein málamyndarök. Það að einhver óheilbrigð sjálfvirkni felist í því að upphæðir persónufrádráttar og bótaliða séu aðlagaðar verðlagi milli ára, er bull. Ég ætla að leyfa mér að segja, herra forseti, að það er kjaftæði. Vegna þess að ef það er ekki gert þá felst í því ákvörðun um að þyngja skattbyrðina. Þá felst í því ákvörðun um breytingu. Auðvitað er algjörlega verið að snúa hlutunum á haus. Ef hlutdeild launamanna í afrakstri þjóðartekna og þeirra kaupmáttur og þeirra kjör eiga að haldast í takt við þróunina, ef ekki á að breyta hlutaskiptunum, þarf einmitt að færa upp þessa liði. Þá þurfa þeir að vera í takt við verðlag á hverjum tíma því annars er verið að þyngja skattana og auka skattbyrðina. En það er greinilega það sem þessi hæstv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. er alveg sérstaklega að gera. Það velkist held ég enginn í vafa um það, að minnsta kosti ekki ræðumaður sem þekkir orðið sitt heimafólk, að tilgangurinn með afnámi tengingarinnar, í þessu tilviki í tekjuskattslögunum, verðuppfærslugreinum laganna, er þessi og enginn annar.

Ég ætla að koma aftur að öðrum þætti, herra forseti, vegna þess að mér fannst ekki að hann fengi nóga athygli við 2. umr. málsins. Það er sú ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að fella niður á einu bretti nú um áramótin skattafslátt ellilífeyrisþega í stað þess að lækka hann í áföngum í takt við það að áhrif á skattfrelsi lífeyrisiðgjalda fari að koma fram. Nú er það að vísu svo að hæstv. ríkisstjórn gaf um það yfirlýsingu í tengslum við framlengingu kjarasamninga að frádrátturinn skyldi koma til framkvæmda í þeim þrepum sem ákveðin höfðu verið, fyrr en áður hafði verið reiknað með. Dagsetningar sem áður voru 1. júlí á þessu ári og 1. janúar 1996 skildu færast fram um sex mánuði og verða 1. janúar nk. og síðan 1. júlí á miðju ári. Eftir stendur að fullt skattfrelsi inngreiðslna verður ekki komið til framkvæmda fyrr en á miðju næsta ári. Með þeim rökum að skattafsláttur til ellilífeyrisþega hafi átt að mæta þessum breytingum, hefði að minnsta kosti átt að láta standa eftir þrep sem því nam eða helmingnum af því sem áður hafði verið áformað. Það hefði mátt færa efnisleg rök fyrir því að þá hefði verið eðlilegt að lækka það þrep sem áður átti að vera upp á 7,5% niður í 3,75% eða eitthvað því um líkt. Að fella það niður með öllu stenst ekki. Þær forsendur sem ríkisstjórnin sjálf hefur áður lagt upp í málinu standast ekki. Fyrir utan það að með þessu er verið að raska mjög skyndlega högum aldraðra, draga til baka ívilnun sem áður var búið að lofa þeim og var nú ekki gert svo lítið úr í aðdraganda kosninga þegar það kom sér vel fyrir íhaldið að hirða atkvæði gamla fólksins. Þá var gott að geta grobbað af því að svona væri nú íhaldið alltaf gott við gamla fólkið. Nú ætlaði það að veita því alveg sérstakan skattafslátt á næstu árum. Á þessu var ekki beinlínis legið í aðdraganda kosninganna, á þingi, í Morgunblaðinu og öðrum helstu stofnunum. En hvað er nú gert? Áður en þessi kosningamorgungjöf varð ársgömul er komin tillaga um að kippa henni fyrirvaralaust til baka með öllu og standa ekki einu sinni við það þrep sem átti að gilda á næsta ári.

Þetta er nú öll reisnin. Það er þó ekki eins og þetta sé það eina kveðjan til aldraðra um þessi áramót frá sjálfri brjóstvörn gamals fólks í landinu, Sjálfstfl. Nei, heldur er búið að reikna það út að samtals er líklega í sex eða sjö liðum í mismunandi frv. samtímis sem hér eru til umfjöllunar á Alþingi, verið að ráðast á aldraða. (Gripið fram í: Tíu liðum.) Tíu liðum, er upplýst hér. Og þarf nú fara að taka þessa skrá saman. (Gripið fram í: Ég er með hana.) Það verður fróðleg og reyndar dapurleg lesning. En eitthvað af þessu man ég nú og kann utanbókar. Þar er þessi liður mér alveg sérstaklega ofarlega í huga sem er reyndar býsna stór því þarna er verið að fella niður eða hækka skulum við orða það, skatta á ellilífeyrisþegum um 250--300 millj. miðað við það sem orðið hefði að óbreyttu fyrirkomulagi þessa árs.

Þannig er nú það, herra forseti. Þetta á að sjálfsögðu við um aldraða á Suðurlandi eins og í öðrum kjördæmum. Það er rétt að forseti hafi það í huga.

Herra forseti. Að öðru leyti er það þannig að fátt er svo með öllu illt eins og þar stendur að ekki megi finna þar eitthvað jákvætt. Ég hafði áður gert grein fyrir því við 2. umræðu, að við í minni hlutanum styðjum vissar breytingar sem hér eru á ferðinni í tekju- og eignarskattslögunum. Þar er fyrst og fremst á ferðinni ein breyting sem einhver ástæða er til að staldra við og fagna. Það er það litla skref sem er tekið í þá átt að draga úr tekjutengingu eða tekjutengdri skerðingu barnabótaaukans og þar með jaðaráhrifum í skattkerfinu gagnvart þeim hópi sem þar á í hlut, þ.e. barnafólkinu og fólki sem er með húsnæðisskuldbindingar og tekjutengdar afborganir námslána og annað því um líkt á herðunum. Það er vissulega ekki vanþörf á að grípa til aðgerða því eins og dæmin sanna og sýnt hefur verið fram á með útreikningum finnast mýmörg dæmi um jaðarskattsprósentur hjá slíkum hópum sem nálgast 100%. Það er algengt að ungt fólk með þrjú börn á barnabótaaldri og húsnæðisskuldbindingar á bakinu sé með jaðarskatta á bilinu 66--75% samkvæmt dæmum sem ég hef séð. Eftir standa víða í okkar mjög svo tekjutengda kerfi ótrúlegir hlutir eins og 100% og yfir 100% jaðarskattur í vissum tilvikum, t.d. hjá þeim sem eru að fá lífeyrisbætur. Og nú á enn að auka á tekjutengingu með nýboðuðu ákvæði í bandorminum um að hækka skerðingu vegna annarra tekna ellilífeyrisþega úr 25% í 35%. Þetta þýðir nú í einu vetfangi að jaðarskattur þeirra aðila fer að lágmarki í ein 77% því skerðingin verður virk á tekjubili þar sem fullur tekjuskattur upp á 42% er þegar kominn til sögunnar. Þar af leiðandi þarf ekki reikningsvana menn til að sjá að af þessu leiðir sjálfkrafa að jaðaráhrif slíkra breytinga eru orðin þessi.

Þetta á að afgreiða, herra forseti, án þess að menn hafi fyrir sér nokkrar myndir eða útreikninga á því hvaða afleiðingar þetta hefur, til að mynda þessi 10% hækkun á skerðingunni vegna annarra tekna hjá ellilífeyrisþegum. Þetta er önnur jólagjöfin sem íhaldið er að gefa gamla fólkinu í landinu um þessar mundir, þessum vaxandi hópi þjóðarinnar sem skipar þann aldursflokk. Eins og okkar aldursdreifing er að sjálfsögðu að þróast líkt og í flestum öðrum löndum, þá er aldurspíramídinn að breytast nokkuð í samsetningu og eftirlaunamenn og aldraðir verða sífellt fjölmennari hópur í þjóðfélaginu. Velferð og heill þess hóps skiptir að sjálfsögðu sköpum og allra síst væri það við hæfi, uppi á Íslandi þar sem er á ferðinni kynslóð sem sennilega hefur unnið flestum öðrum meira frá landsnámstíð við uppbyggingu í þessu þjóðfélagi, þ.e. það fólk sem er að komast á eða er á eftirlaunaaldri, að fara nú sérstaklega að ráðast að því einu og sér.

Það er alveg lýsandi, herra forseti, að á sama tíma og verið er að ganga í skrokk á þessum hópum, trekk í trekk með mörgum mismunandi aðgerðum í senn, þannig að það er ráðist á aldraða úr öllum áttum í einu, eru ekki tilburðir uppi til að koma á almennum fjármagnstekjuskatti. Þeir sem hafa nú gróðann af stóreignum og vaxtatekjur verða því áfram skattfrjálsir. Það er með semingi að ríkisstjórnin framlengir sérstakan hátekjuskatt um eitt ár í viðbót. Það lýsir sér alveg í orðalaginu að þeir hafa nauðugir viljugir íhaldsforkólfarnir, dregist á það að hafa þetta eitt ár í viðbót, þennan sérstaka skatt á launatekjur hjóna yfir 450 þús. kr. á mánuði og einstaklinga yfir 225. Það finnst því auðvitað blóðugt, íhaldinu, að vera að skattleggja þær tekjur. En aldraða, það er sjálfsagt að reita af þeim upphæðir af því tagi sem hér eiga í hlut.

Herra forseti. Að öðru leyti er nú rétt að víkja betur að þeim þáttum sem varða stöðu aldraðra samkvæmt öðrum ákvæðum en þeim er heyra undir lögin um tekju- og eignarskatt þegar þar að kemur og þegar eða ef, langar mig nú eiginlega til að segja, bandormurinn kemur til umfjöllunar. Hér eru það fyrst og fremst efnisbreytingar sem ég tel að séu mjög alvarlegs eðlis og ég átel og gagnrýni að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki vera til viðtals um að breyta þeim.

[21:00]

Ég bind reyndar enn vonir við það, herra forseti, að ná megi einhverju samkomulagi við hæstv. ríkisstjórn varðandi þessa þætti og auðvitað væri eina lendingin sem eitthvert vit væri í við afgreiðslu þessara mála nú fyrir jólin að fresta átökunum um hin stóru pólitísku deilumál sem varða afnám verðuppfærslna og afnám tengingar bótaliða við launaþróun. Slá þeim deilum þá á frest ef hæstv. ríkisstjórnin vill halda þeim til streitu og taka til umfjöllunar að siðaðra manna hætti í sérstöku frv. um viðkomandi mál eftir jólaleyfið. Það vill nú svo til að það skiptir orðið sáralitlu máli fyrir sjálfa afgreiðslu fjárlaganna hvort þetta væri gert eða ekki vegna þess að í mörgum tilvikum hefði slík breyting engin áhrif á bótafjárhæðirnar strax í upphafi. Þær breytingar koma fram síðar í takt við verðlagsþróun á miðju næsta ári. Menn gætu þess vegna ýtt öllum þessum varanlegu breytingum út úr frv. um tekju- og eignarskatt, út úr bandorminum og afgreitt fjárlögin. Það mætti geyma sér átökin um grundvallaratriðin þangað til síðar.

Það er dapurlegt ef það er svo, herra forseti, sem flýgur um í hliðarsölum að samkomulag um lúkningu þinghaldsins á þessum nótum strandi fyrst og fremst á einum manni, hæstv. forsrh. Mér skilst að hæstv. forsrh. hafi sagt í útvarpsfréttunum að minni hlutinn væri að kúga meiri hlutann á Alþingi með miklu ofbeldi. Ég tek undir það með hæstv. forsrh. Ég hef sjaldan orðið vitni að því að jafnmikill minni hluti kúgi meiri hlutann með jafnmiklu ofbeldi og nú er að gerast. Ef hæstv. forsrh. einn af 63 mönnum á þingi ætlar að kúga þingið til að taka þessar breytingar í gegn með þessum hætti, fyrir áramótin. Það mikið ofbeldi af hálfu mikils minni hluta ef rétt er hermt að fyrst og fremst strandi á hæstv. forsrh. að gera þarna breytingar.

Ég átel og harma þetta. Mér finnst æskilegt, herra forseti, áður umræðan verður öllu lengri og þetta næsta óskipulega fundarhald í kvöld, sem maður veit ekki alveg í hvaða tilgangi er meðan allt hangir í lausu lofti, öðrum en þá þeim að hæstv. forseti geti dundað sér við að lesa góða bók, sem er í sjálfu sér allra góðra hluta maklegt, en ég hefði talið æskilegt, herra forseti, að hæstv. forsrh. kæmi einhvern tímann hingað til skrafs og ráðagerða í þinginu. Hann gæti þá gert grein fyrir viðhorfum sínum í þessum efnum.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. forsrh. er í húsinu.)

Já, það er mjög ánægjulegt. Gjarnan mætti þá hæstv. forsrh. staðfesta eða bera til baka sem hér er orðið altalað að fyrst og fremst strandi á stífninni og nauðhyggjunni í hæstv. forsrh. að ná einhverju landi í þingstörfunum. Það væri gaman að vita af því eða fregna hvort hæstv. forsrh. mundi þá kannski koma til umræðunnar og setja sig á mælendaskrá og veita slíkar upplýsingar.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.