Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:11:58 (2354)

1995-12-21 15:11:58# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum sem ég vil gjarnan svara.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði nokkurra spurninga, m.a. hvernig ætti að tryggja það að menn teldu fram tekjur sínar. Það er nú málið, hv. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, það er erfitt að tryggja það og hef ég ekkert svar við því. (KÁ: Með eftirlitskerfi.) Með eftirlitskerfi, segir hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og það er ágætis ábending en það hefur ekki dugað hingað til og það þarf að taka það mál upp af meiri krafti.

Enn einu sinni er spurt um fjármagnstekjutenginguna og sérstaklega er spurt um hvernig eigi að fara með mál þeirra sem hafa fengið miskabætur, eingreiðslur. Ég hef rætt það við lögfræðinga hvernig eigi að fara með mál þeirra og það er hægt að gera með sérstakri reglugerð að þeir verði undanskildir þessari tengingu.

Í 35. gr. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum eru ívilnandi ákvæði. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að þar eru ívilnandi ákvæði varðandi þau 3% sem eru aukalega ef forsendur fjárlaga breytast og verulegar breytingar verða á þjóhagsforsendum frá því að fjárlög eru samþykkt og menn hafa glaðst yfir því og eru sammála um það.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði sérstaklega um það hvað væri fyrirhugað varðandi stjórnskipulag á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum og nú eru í vinnslu miklar stjórnskipulagsbreytingar þar sem menn búast við því að ein stjórn verði fyrir allar heilbrigðisstofnanir í hverju kjördæmi.

Í þeirri tillögu sem hefur verið dregin til baka í samkomulagi við stjórnarandstöðuna var innifalið að formennska í heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum fylgdi ráðherra hverju sinni og ég tel að það hljóti að vera réttmæt krafa því að það sé mjög mikilvægt að það haldist í hendur. Aftur á móti hefur ekki náðst um það samkomulag nú en að öllum líkindum verður lagt fram sérstakt frv. þar að lútandi eftir áramót.