Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:15:40 (2355)

1995-12-21 15:15:40# 120. lþ. 76.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég fagna því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að með reglugerð væri hægt að undanþiggja þá sem fá þessar eingreiðslur í slysabætur sem búa við varanlega örorku. Ráðherrann sagði að það væri hægt að tryggja það með reglugerð. Ég vil fá skýrari svör. Mun hún tryggja það með reglugerð að þeir verði undanþegnir ef svo fer að þessi grein sem stjórnarliðar leggja áherslu á verði samþykkt?

Í annan stað talaði hæstv. ráðherra um að það væri vitanlega ekki hægt að tryggja að fólk teldi fram tekjur sínar. Mér er það auðvitað ljóst og það er bara útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra að setja þetta svona fram. Ég var að vekja athygli ráðherrans á því að eins og stjórnarliðar hugsa sér að koma á fjármagnstekjuskattinum á lífeyrisþega með því að láta þá telja niður bætur gæti þetta leitt til mikillar mismununar, þ.e. að bæturnar verða taldar niður hjá þeim sem telja samviskusamlega fram vaxtatekjur sínar en ekki hjá þeim sem telja ekki fram sínar vaxtatekjur. Þegar fjármagnstekjuskattur er komin á verður væntanlega komið á kerfi sem tryggir að bankarnir sjái til þess að vaxtatekjurnar skili sér inn á skattframtölin. Þess vegna erum við með þetta ákvæði í breytingartillögum okkar að þessi ákvæði í bandorminum verði endurskoðuð þegar almennur fjármagnstekjuskattur kemur á.

Virðulegi forseti. Ég fékk ekki svar frá hæstv. ráðherra og spyr því aftur um það hvort ráðherrann geti ekki fallist á að styðja þessa brtt. okkar fjórmenninganna sem fellur nákvæmlega að þeim orðum sem kom fram hjá ráðherranum í gær að hún teldi eðlilegt að fjármagnstekjuskattur á lífeyrisþega og almennur fjármagnstekjuskattur í landinu héldist í hendur. Ráðherrann hefur enga tryggingu fyrir því að þetta haldist í hendur nema tillaga sú sem við tölum um verði samþykkt. Ég beini því tveim spurningum til ráðherrans.