Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 16:13:22 (2370)

1995-12-21 16:13:22# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[16:13]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það dugir ekki að einhver þingmaður komi upp og segi að honum hafi verið sagt að 300 millj. verði ekki borgðaðar út fyrr en verkinu er lokið þegar ekki stendur stafur um það í hinni formlegu lagasetningu. Það er jafneinfalt og tvisvar tveir eru fjórir. (Gripið fram í.) Það skiptir engu máli hvað ráðherrann segir um það. Það getur komið annar fjmrh. og veitt þessa heimild samkvæmt þessum lagatexta.

En hitt er alveg rétt, hv. þm., að þessu fyrirtæki var veitt einkaleyfi á göngunum. En hvert var skilyrðið sem þeir lýstu sjálfir hvað eftir annað yfir að þeir væru stoltir af? Skilyrðið var að það færi aldrei króna í formi ríkisábyrgðar eða greiðslu úr ríkissjóði eða sveitarfélögunum í þessa framkvæmd. Og við undirritunarathöfnina 1991 var því lýst yfir af fulltrúum allra eignaraðilanna sem þar tóku til máls að forsenda þessara framkvæmda væri sú að þeir mundu aldrei biðja um krónu frá ríkinu í ábyrgð eða greiðslu vegna þessarar framkvæmdar. Það er því afgerandi stefnubreyting þegar það gerist nú. Það er ekki lengra síðan en nokkrir mánuðir að núv. hæstv. samgrh. lýsti því yfir á Alþingi að það væri skýrt. Hæstv. samgrh. sagði: ,,Ekki er gert ráð fyrir því að bæjar- eða ríkisábyrgð komi til sögunnar.`` Í rúm fimm ár hefur það verið samfelld stefna stjórnvalda, sama hvaða ríkisstjórn hefur setið við völd eða hvaða ráðherra hefur gegnt þessum embættum. Þess vegna er ekki hægt á einum sólarhring að kollvarpa allri þeirri stefnu með einhverjum sögusögnum um að hitt eða þetta hafi verið sagt hér eða þar á síðustu fjórum dögum og ef slík ríkisábyrgð sé ekki veitt í skyndi verði ekkert af þessari framkvæmd. Þannig er einfaldlega ekki hægt að halda á málum, hv. þm.