Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 18:40:52 (2403)

1995-12-21 18:40:52# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[18:40]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hvað eftir annað í ræðu sinni að hin raunverulega ábyrgð í þessu máli væri bara 300 millj. og hann lauk ræðu sinni með því að segja að vegna þess að hin raunverulega ábyrgð væri bara 300 millj. væri hann hlynntur málinu. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm.: Af hverju er þá ekki talað um 300 millj. í tillögunni sem hann flytur? Af hverju er hann að flytja tillögu um að veita ríkisábyrgð upp á milljarð ef hin raunverulega ríkisábyrgð er ekki nema 300 millj.? Ég get sagt hv. þm. það vegna þess að ég hafði það einu sinni að atvinnu að sýsla með ríkisábyrgðir að ef milljarður er veittur í ríkisábyrgð einkafyrirtæki sem verður gjaldþrota, geta kröfuhafar krafist milljarðs. Þannig er málið. Það er mjög einfalt. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm., ef það er skoðun hans eins og fram hefur komið í ræðunni og er reyndar sama skoðun og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti fyrr í dag, af hverju þeir flytja þá ekki tillögu um 300 millj.? Þá er hægt að ræða það á þinginu hvort sú tillaga verður afgreidd í staðinn fyrir að vera með milljarðinn sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur þar að auki upplýst að sé slumpupphæð.

Ég ítreka þessa spurningu til hv. þm.: Hvers vegna flytur hann þá ekki tillögu um 300 millj. fyrst það er hin raunverulega ríkisábyrgð?