1995-12-22 03:30:21# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[27:30]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans þótt vitaskuld valdi þau mér vonbrigðum. Ég hefði getað farið nánar út í útfærslu á ýmsum þáttum í tekjuhugmyndunum. Það sem er ámælisvert hjá hæstv. fjmrh. varðandi fjármagnstekjuskattinn er hvað það mál hefur dregist lengi. Þetta var á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og það er búið að vinna að því nokkuð lengi. Það hefði því átt að geta komið fyrr til framkvæmda en horfur eru á núna. Ég varð sömuleiðis fyrir vonbrigðum með að hann skuli ekki sjá sér fært að gefa afdráttarlausari yfirlýsingar um hluti, eins og t.d. Kvikmyndasjóð og Háskóla Íslands. Þetta er vandamál sem ég held að við ættum að líta á sem sameiginlegt vandamál. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra hefði sýnt meiri djörfung og bjartsýni hvað þessa málaflokka varðar. Að lokum vil ég benda hæstv. fjmrh. á að tillaga um hert skatteftirlit er ekki lögð fram sem einhvers konar galdur. Þar vil ég t.d. benda á eina tillögu sem bætir skatteftirlitskerfið, þ.e. að hafa sérstakan ákæranda í efnahagsbrotum. Það er gert víða erlendis og gæti hugsanlega komið þeim þáttum í betra lag. En svör fjmrh. valda vitaskuld vonbrigðum vegna þess að þar er lítið um loforð, enda kannski ekki við því að búast. Hins vegar finnst mér að fjmrh. hafi tekið á þessum tillögum eins og ég vonaðist til. Hann tekur þær alvarlega og það finnst mér þó af hinu góða.