Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 3 . mál.


3. Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.


    II. kafli útvarpslaga, Menningarsjóður útvarpsstöðva, 9.–13. gr., fellur brott og breytist kafla- og greinatala í samræmi við það.

2. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Eignir Menningarsjóðs útvarpsstöðva skulu við gildistöku laga þessara renna til Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er samhljóða frumvarpi er lagt var fram á 115. löggjafarþingi.
    Við setningu útvarpslaga árið 1985 kom skýrt fram í umræðum á Alþingi að tilgangurinn með Menningarsjóði útvarpsstöðva væri tvíþættur: Í fyrsta lagi að létta af Ríkisútvarpinu kostnaði sem það hafði af rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þ.e. 25% af rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar umfram tekjur, sbr. 11. gr. laga 36/1982, en þessi kostnaður gerði samkeppnisstöðu þess erfiðari gagnvart einkareknum stöðvum sem ekki báru slíkar skyldur, og í öðru lagi að efla innlenda dagskrárgerð sem verða mætti til menningarauka og fræðslu.
    Tekjur Menningarsjóðs útvarpsstöðva eru sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem er 10% og er lagt á allar auglýsingar í útvarpi, bæði hljóðvarpi og sjónvarpi. Af þessu gjaldi greiðist hlutur Ríkisútvarps af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar áður en styrkjum er úthlutað til útvarpsstöðvanna. Vegna þessarar tíundar standa ljósvakamiðlar höllum fæti í samkeppni við aðra fjölmiðla á auglýsingamarkaðnum, en eins og kunnugt er hafa auglýsingatekjur mikla þýðingu í rekstri þessara fjölmiðla.
    Í útvarpslögum og reglugerð nr. 69/1986 um Menningarsjóð útvarpsstöðva er kveðið á um að framlög úr sjóðnum skuli aðeins veitt útvarpsstöðvum, bæði til dagskrárgerðar viðkomandi útvarpsstöðvar sjálfrar og til kaupa útvarpsstöðvar á efni til flutnings frá öðrum innlendum aðilum sem annast dagskrárgerð. Árið 1991 voru gerðar breytingar á eldri reglugerð um sjóðinn. Þar var hlutverk sjóðsins skilgreint að nýju þannig að íslenskir framleiðendur dagskrárefnis öðluðust einnig rétt til framlaga vegna innlendrar dagskrárgerðar er verða mætti til menningarauka og fræðslu. Af þessum sökum tvígreiða útvarpsstöðvarnar í sumum tilvikum fyrir efnið, fyrst með framlögum til framleiðenda sem deilt er út í formi styrkja og aftur er þeir kaupa efnið af framleiðandanum.
    Lýsandi dæmi um þetta er myndaflokkurinn „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins“ þar sem framleiðandi hlaut 9 millj. kr. styrk úr Menningarsjóði útvarpsstöðva og Ríkisútvarpið sjónvarp greiddi síðan 3 millj. kr. fyrir sýningarréttinn. Það þýðir að alls voru greiddar 12 millj. kr. fyrir þættina. Meðalverð fyrir aðkeyptar fræðslumyndir hjá Sjónvarpinu er 20 þús. kr. á mínútuna. Miðað við það hefði eðlilegt verð fyrir myndaflokkinn verið 4,9 millj. kr. (245 mín. x 20 þús. kr.)
    Markmið þau, sem ná átti með Menningarsjóði útvarpsstöðva, hafa ekki náðst. Þar til um mitt ár 1994 voru engar formlegar úthlutunarreglur til fyrir sjóðinn og ekkert eftirlit var haft með því að úthlutað fé væri nýtt með tilætluðum hætti. Um áramótin 1994 voru skuldir sjóðsins við ríkissjóð u.þ.b. 175 millj. kr. Má rekja þessar miklu skuldir til þess að allt frá stofnun sjóðsins hefur verið tilhneiging til að greiða styrki án þess að framlag sjóðsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands sé fulluppgert og í þrjú ár, árin 1986, 1989 og 1992, rann ekkert af tekjum sjóðsins til hljómsveitarinnar. Hafa þessar skuldir nú verið gerðar upp og Sinfóníuhljómsveitin hefur fengið sinn hluta úr sjóðnum sl. tvö ár. Á þeim tíma hefur ekki verið úthlutað úr sjóðnum til dagskrárgerðar.
    Megintekjur sjóðsins hafa komið frá Ríkisútvarpinu og þar með hefur Ríkisútvarpið lagt til stærstan hluta af greiðslum sjóðsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á þeim níu árum, er liðin eru frá stofnun sjóðsins, hefur Ríkisútvarpið hljóðvarp greitt í sjóðinn 202.417 þús. kr. af auglýsingatekjum sínum og Ríkisútvarpið sjónvarp 193.239 þús. kr., alls tæplega 400 millj. kr. Á sama tíma hefur útvarpið fengið til dagskrárgerðar 34,5 millj. kr. en sjónvarpið 92,8 millj. kr. Samtals hefur Ríkisútvarpið fengið til baka 32,17% af greiðslum í sjóðinn.
     Árið 1988 taldi Ríkisendurskoðun að réttast væri að leggja sjóðinn niður þar sem markmiðin með stofnun hans hefðu ekki náðst. Hafi það verið rétt þá á slíkt ekki síður við nú.
    Engin rök eru fyrir því að halda áfram að færa fé frá Ríkisútvarpinu til Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gegn um Menningarsjóð útvarpsstöðva. Ekki er eðlilegt að ljósvakamiðlarnir standi að rekstri Sinfóníuhljómsveitar og nauðsynlegt er að finna hljómsveitinni annan tekjustofn.
    Menningarsjóður útvarpsstöðva átti e.t.v. rétt á sér er hann var stofnaður. Aðstæður hafa breyst og það hefur sýnt sig að markmið með sjóðnum hafa ekki náðst. Því er ekki ástæða til að hann starfi áfram.