Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 72 . mál.


72. Tillaga til þingsályktunar



um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun.

Flm.: Lilja Á. Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að gera tillögu um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun. Markmið þeirrar stefnu verði þríþætt:
     a.     að standa vörð um tjáningarfrelsi sem hornstein lýðræðis,
     b.     að tryggja almenningi aðgang að alhliða, málefnalegum og faglegum upplýsingum,
     c.     að efla íslenska tungu og menningu.
    Tillaga um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en haustið 1996.

Greinargerð.


    Tjáningarfrelsi og réttur almennings til að hafa aðgang að alhliða, málefnalegum og faglegum upplýsingum er einn þeirra þátta sem lýðræðisþjóðfélag byggist á. Í slíku þjóðfélagi gegna fjölmiðlar lykilhlutverki. Það er því ekki að ófyrirsynju að talað hefur verið um áhrif og völd fjölmiðla sem „fjórða valdið“ auk hinnar formlegu þrískiptingar valds sem við þekkjum í hinum vestræna heimi.
    Í lýðræðisþjóðfélagi gegna fjölmiðlar tvíþættu hlutverki. Þeir fræða þjóðfélagsþegnana og veita þeim innsýn í opinber mál, málefni samfélagsins, umheimsins og einstaklinga eftir því sem við á. Þannig geta þegnarnir staðið vörð um lýðréttindi sín. Auk þess veita fjölmiðlar ríkisvaldinu aðhald með því að fylgjast með starfi þess á gagnrýninn hátt og koma í veg fyrir að það misbeiti valdi sínu.
    Undanfarin ár eða áratug hafa átt sér stað ótrúlegar breytingar á sviði fjölmiðlunar og upplýsingatækni. Hin landamæralausa upplýsingatækni hefur þegar haft djúptæk áhrif á þjóðfélagið og sífellt fleiri hafa aðgang að alþjóðlegu fjölmiðlaefni. Í æ ríkara mæli er litið á upplýsingar sem vöru. Hins vegar er það hið félagslega, pólitíska og fjárhagslega vald sem sker úr um það hvernig upplýsingatæknin er virkjuð og hvers konar upplýsingum komið er á framfæri. Að þessu leyti boðar upplýsingatæknin ekkert nýtt þó að hún hafi áhrif á samfélagið í heild og einstaklinga þess.
    Tækniþátturinn vegur þyngst þegar þróun fjölmiðlunar er athuguð. Það eru einkum efnahagslegir og pólitískir hagsmunir tengdir framleiðslu og viðskiptum á sviði fjarskipta-, útvarps- og tölvutækni sem knýja þessa öru tækniþróun áfram. Þessi nýja tækni hefur opnað áður óþekktar þróunarleiðir og hefur átt stóran þátt í því sem við getum kallað alþjóðahyggju.
    Eftir að einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpsrekstrar var afnuminn hefur einkareknum útvarpsstöðvum fjölgað hér á landi. Svipuð þróun hefur orðið annars staðar á Norðurlöndum. Útvarpsstöðvar reknar af auglýsingafé hafa fest sig í sessi. Af þessum sökum hefur fjölmiðlamarkaðurinn breyst. Hagnaðarsjónarmið og auglýsingamennska hafa orðið meira áberandi. Fjölmiðlun hefur fengið á sig alþjóðlegan blæ og knúið fram sífellt meiri alþjóðahyggju.
    Þættir á ensku eru áberandi á sjónvarpsskjáum flestra þjóða í nær öllum heimshornum, og í kvikmyndahúsum er bandarískur kvikmyndaiðnaður næstum því allsráðandi. Lönd þriðja heimsins hafa gagnrýnt þessa þróun vegna þess að fjölmiðlaefni er framleitt út frá sjónarmiði og gildismati Vesturlanda. Þegar fámenn þjóð eins og Íslendingar flytur inn enskar og bandarískar sjónvarps- og kvikmyndir er ekki einungis verið að flytja inn afþreyingu heldur einnig gildismat, fyrirmyndir, tísku og lífsstíl.
    Þessi þróun hefur haft djúpstæð áhrif á íslenskt þjóðlíf. Sjóndeildarhringur okkar hefur víkkað, við höfum kynnst menningu annarra þjóða og gildismati. Einangrun okkar hefur verið rofin. Jafnframt hefur íslensk menning fengið samkeppni. Dægurlög og dægurmál hafa fengið æ meira rúm á öldum ljósvakans. Fjölgun útvarpsstöðva hefur ekki haft í för með sér fjölbreyttara efni því að nýju útvarpsstöðvarnar bjóða nær eingöngu upp á einhæft afþreyingarefni. Hið sama gildir um Stöð 2. Þar er engilsaxnesk framleiðsla mest áberandi. Stöð 3 virðist ætla að fylgja svipaðri dagskrárstefnu. Sjónvarpsstöð, sem dreifir svipuðu efni og myndbandaleiga, gefur mest í aðra hönd. Þetta einhæfa dagskrárframboð hefur mótað viðhorf okkar Íslendinga til sjónvarpsefnis. Við erum best læs á myndefni af engilsaxneskum toga.
    Tækniframfarirnar á sviði útvarps og sjónvarps, sem hafa verið mjög örar, hafa haft í för með sér aukna samkeppni á þessu sviði. Gæði hafa aukist, útsendingarkostnaður hefur lækkað og gervihnattasendingum hefur fjölgað. Með tilkomu FM-senda hefur orðið einfaldara að útvarpa. Víða erlendis hefur þessi aukna samkeppni á fjölmiðlamarkaði orsakað frekari sérhæfingu. Oft eru sérstakar rásir fyrir fréttir, tónlist, íþróttir, barnaefni, menningu o.fl. Þessi sérhæfing endurspeglast einnig í útgáfu blaða og tímarita.
    Ljóst er að dýrara er að reka útvarpsstöðvar í almannaþágu sem bjóða upp á fjölþætt og margbreytilegt efni en að reka sérhæfðar útvarpsstöðvar. Frjáls samkeppni milli fjölmiðla er forsenda tjáningarfrelsis. Hins vegar er hætt við að samkeppni um hlustendur og áhorfendur til að ná hylli auglýsenda leiði til þess að dagskrár stöðvanna verði fábreyttari og einnig sérhæfðari, sífellt fámennari hluti þjóðarinnar muni fylgjast með sama miðlinum eða þættinum, þekkingarsamnefnari þjóðarinnar muni minnka og hagsmunir einstaklinganna verða sundurleitari. Afleiðing þessarar þróunar virðist vera sú að þekking okkar verður sérhæfð og oft sundurlaus. Heildarsýnin verður æ óljósari.
    Verði hagnaðarsjónarmiðið allsráðandi í rekstri fjölmiðla hér á landi er ekki ólíklegt að fræðsluhlutverki þeirra verði ýtt til hliðar. Þar með er grundvöllur lýðræðisins í hættu. Eitt af markmiðum fjölmiðlastefnu hlýtur að vera að tryggja almenningi aðgang að vönduðu efni, m.a. með reglum um auglýsingar og að ekki skuli blanda saman auglýsingum og öðrum efnisþáttum.
    Við Íslendingar höfum haft ríkisútvarp sem býður upp á dagskrá í anda útvarps í almannaþágu. Fyrirmyndin er fengin frá BBC og kallast þar „Public Service Radio“. Hugtakið felur einkum þrennt í sér. Útvarpið þarf að ná til allra íbúa landsins. Það á að tryggja almenna þjóðfélagsumræðu í landinu með því að útvarpa opinberri umræðu sem er lykilatriði í lýðræðislegu þjóðfélagi. Í þriðja lagi á útvarpið að þjóna almenningi með því að bjóða upp á margs konar þætti óháð því hve margir vilja hlusta eða horfa á þá. Með öðrum orðum á útvarp í almannaþágu ekki að bjóða upp á efni sem eingöngu miðast við vinsældir.
    Sjónarmið almenningsfræðslu hafa löngum einkennt efni Ríkisútvarpsins ásamt þeirri meginskyldu þess að miðla menningarefni og taka þátt í samfélagsumræðunni. Sú þróun, sem orðið hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði, hlýtur að vekja okkur Íslendinga til umhugsunar um það hvers konar fjölmiðlun sé æskileg. Þetta er verkefni sem kemur öllum við, enda er fjölmiðill inni í stofu hjá flestum. Undirstaða íslenskrar menningar er sameiginleg reynsla okkar og þekking, og fjölmiðlar gegna mikilvægu sameiningarhlutverki í okkar fámenna þjóðfélagi. Einkennist framsetning þeirra af framandi gildum og hefðum mun íslensk þjóðmenning standa höllum fæti.
    Því er oft haldið fram að vald fjölmiðla hafi aukist í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að þeir eru mikilvægasti gluggi samfélagsins, bæði okkar eigin samfélags og annarra fjarlægari. Víst er að notendum fjölmiðla og tölvtækni fjölgar stöðugt, hvort heldur er til afþreyingar, fræðslu eða tjáskipta. Fjölmiðlaþróunin býður upp á gífurlega möguleika, en hún á sér einnig neikvæðar hliðar. Virk fjölmiðlastefna getur því skipt sköpum ef við viljum hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum.
    Eignasamruni og samþætting fjölmiðlafyrirtækja og stýring fjölmiðla í hvaða formi sem er getur haft hættuleg áhrif á tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði í samfélaginu. Því hlýtur að vera verkefni hins opinbera að tryggja að fjölmiðlar bjóði upp á fjölbreytt efni. Huga þarf að eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja og koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaðnum að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað. Jafnframt ber að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki sem augljóslega gæti haft áhrif á tjáningarfrelsið.
    Öruggasta leiðin til að tryggja fjölbreytt framboð efnis til dreifingar er rekstur öflugra og sterkra innlendra fjölmiðla til mótvægis við alþjóðlegan fjölmiðlaiðnað. Kröftugir fjölmiðlar geta einbeitt sér að sjálfstæðri miðlun frétta og menningar.
    Opinber stefna í fjölmiðlun ætti að ná yfir bæði prent- og ljósvakamiðla. Af því sem að framan greinir er ljóst að mikilvægt er að stjórnvöld móti stefnu í þessum málaflokki og í því augnamiði er þessi tillaga lögð fram.
    Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að nefndin kynni sér alla þætti er snerta fjölmiðlun á Íslandi og hafi eftirfarandi atriði til hliðsjónar við mótun opinberrar stefnu:
     1.     Gerð verði grein fyrir tækniþróun í greininni og aukinni tilhneigingu til markaðshyggju og alþjóðahyggju í framleiðslu fjölmiðlaefnis: Er ef til vill þörf á að stofna embætti sem fylgist með þessari þróun og skilgreinir sambönd og samhengi?
     2.     Skýrt verði hlutverk og starfsemi fjölmiðla: Hvernig er fjölmiðlanotkun hér á landi? Hvert er pólitískt hlutverk fjölmiðla? Hver er hlutur fjölmiðla í efnahagslífi þjóðarinnar?
     3.     Könnuð verði rekstrarskilyrði fjölmiðla hér á landi: Hvernig skiptast auglýsingatekjur milli fjölmiðla? Er sjónvarp helsti auglýsingamiðillinn? Hvernig er unnt að tryggja fjárhagsgrundvöll Ríkisútvarpsins?
     4.     Reglur um eignarhald fjölmiðla verði skoðaðar: Í mörgum löndum hafa verið settar reglur sem takmarka eignaraðild að fjölmiðlafyrirtækjum. Hvernig eru íslensk lög og reglur? Er tilhneiging til samruna fjölmiðlafyrirtækja hér á landi sem gæti haft áhrif á tjáningarfrelsið?
     5.     Hugað verði að gildandi reglum um auglýsingar í íslenskum ljósvakamiðlum: Eru reglurnar virtar og hafa þær gefið góða raun?
     6.     Í flestum Evrópulöndum starfa fjölmiðlar eftir ákveðnum siðareglum. Hér taka fjölmiðlar mið af siðareglum blaðamanna. Frá 1969 hefur í Svíþjóð starfað sérstakur réttargæslumaður (pressombud) gagnvart fjölmiðlum. Kannað verði hvernig ástandið er í þessum efnum hér á landi.
     7.     Skoðuð verði lög og reglur um ljósvakamiðlana og lög um Ríkisútvarpið.
     8.     Reglur um Menningarsjóð útvarpsstöðva verði endurskoðaðar og fundin leið til að tryggja rekstrargrundvöll Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
     9.     Stuðningur ríkisins við útgáfu fjölmiðlaefnis verði endurskoðaður: Hvernig getur stuðningur ríkisins helst orðið til þess að stuðla að fjölbreyttri framleiðslu íslensks fjölmiðlaefnis?
     10.     Áhrif fjölmiðla á börn og unglinga verði könnuð: Taka gildandi reglur um auglýsingar nægjanlegt tillit til barna og unglinga? Hvernig er óbeinum auglýsingum háttað þegar börn og unglingar eru annars vegar? Hver er niðurstaða rannsókna á áhrifum ofbeldis í fjölmiðlum á börn og unglinga? Eru gildandi reglur um aldurstakmarkanir og aðgang að fjölmiðlaefni virtar? Þarf að huga betur að rétti barna og unglinga þegar fjölmiðlar eru annars vegar?
     11.     Kannað verði hvort efla má ljósvakamiðlun í þágu almennings: Hvernig verður það best gert? Á að skylda einkarekna ljósvakamiðla sem ná til landsins alls til að starfa í almannaþágu? Hvernig verður rekstur Ríkisútvarpsins best tryggður og efldur? Hvaða skyldur hafa einkareknir fjölmiðlar?