Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 97 . mál.


102. Frumvarp til laga



um verðbréfaviðskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Lög þessi taka til verðbréfaviðskipta, eins og þau eru nánar skilgreind í lögunum, sem stunduð eru af fjárfestingarfyrirtækjum sem hlotið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra.
    Lög þessi, að undanskildum ákvæðum IV. kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga, taka ekki til:
    Vátryggingafélaga eða fyrirtækja sem annast endurtryggingarstarfsemi samkvæmt lögum.
    Lögaðila sem veita aðeins þjónustu sem lög þessi taka til fyrir móðurfélög sín, dótturfélög sín eða fyrir önnur dótturfélög móðurfélags síns.
    Þjónustu héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna og löggiltra endurskoðenda sem samkvæmt lögum þessum telst til verðbréfaviðskipta, enda sé þjónustan veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni, svo sem búskiptum eða félagsskiptum.
    Lögaðila sem veita aðeins þjónustu sem lög þessi taka til í tengslum við stjórnun á fjárfestingarsjóðum starfsmanna.
    Lögaðila sem veita þjónustu skv. 2. og 4. tölul.
    Seðlabanka ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins, annarra innlendra stofnana þess sem annast sambærilega starfsemi og annarra opinberra stofnana sem annast eða hafa afskipti af lánamálum ríkis.
    Lögaðila sem innlend lagaákvæði eða siðareglur taka til sem mega ekki taka til vörslu fjármuni eða verðbréf viðskiptamanna og sem af þeim ástæðum mega aldrei setja sig í skuldastöðu gagnvart viðskiptamönnum sínum, mega aðeins veita þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem felst í móttöku og miðlun fyrirmæla varðandi verðbréf og hlutdeildarskírteini í fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu og er eingöngu heimilt að miðla fyrirmælum til:
         
    
    fjárfestingarfyrirtækja sem eru með starfsleyfi samkvæmt lögum þessum;
         
    
    lánastofnana sem eru með starfsleyfi samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði eða lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði;
         
    
    útibúa fjárfestingarfyrirtækja eða lánastofnana sem eru með starfsleyfi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru háð og fylgja varfærnisreglum sem lögbær yfirvöld telja að minnsta kosti jafnstrangar og varfærnisreglur samkvæmt þessum lögum, lögum um viðskiptabanka og sparisjóði eða lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði;
         
    
    verðbréfasjóða sem eru með starfsleyfi samkvæmt lögum ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins til að bjóða hlutdeildarskírteini sín út á almennum markaði og til stjórnenda slíkra sjóða;
         
    
    fjárfestingarfélaga með fastan höfuðstól sem gefa út verðbréf sem skráð eru eða ganga kaupum og sölum á skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Verðbréfasjóða og annarra fyrirtækja sem falla undir lög um verðbréfasjóði.
    Aðila sem hafa aðallega þá starfsemi með höndum að versla með hrávöru sín á milli eða við framleiðendur eða aðila sem nota þessar vörur í atvinnuskyni og veita eingöngu slíkum framleiðendum eða aðilum þjónustu á verðbréfasviði og aðeins í þeim mæli sem nauðsynlegt er vegna meginstarfsemi þeirra.
    Fyrirtækja sem veita þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem felst eingöngu í viðskiptum fyrir eigin reikning á markaði fyrir kaupskuldbindingar eða kauprétt eða viðskiptum fyrir reikning annarra sem eiga aðild að þessum mörkuðum eða fyrirtækja sem gefa upp verð til annarra sem eiga aðild að sömu mörkuðum og sem uppgjörsaðilar á sömu mörkuðum ábyrgjast. Uppgjörsaðilar á sömu mörkuðum verða að ábyrgjast að staðið sé við samninga sem slík fyrirtæki gera.
    

2. gr.

    Í lögum þessum merkir:
     Verðbréfaviðskipti: Starfsemi skv. 8. og 9. gr. laga þessara sem stunduð er af fjárfestingarfyrirtækjum sem til þess hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra.
     Fjárfestingarfyrirtæki:
         
    
    Verðbréfafyrirtæki sem fengið hefur leyfi viðskiptaráðherra til að stunda starfsemi skv. 8. gr. laga þessara, svo og þeir sem hafa rétt til að stunda slíka starfsemi hér á landi samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
         
    
    Verðbréfamiðlunarfyrirtæki sem fengið hefur leyfi viðskiptaráðherra til að stunda starfsemi skv. 9. gr. laga þessara, svo og þeir sem hafa rétt til að stunda slíka starfsemi hér á landi samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Ákvæði III. kafla laga þessara eiga við um verðbréfamiðlunarfyrirtæki eftir því sem við getur átt.
     Verðbréf:
         
    
    Hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.
         
    
    Skilyrt skilríki til peningagreiðslu á grundvelli tiltekins verðbréfs eða verðbréfa skv. a-lið.
     Fastur rekstrarkostnaður: Laun og launatengd gjöld, annar reglulegur kostnaður vegna starfsmannahalds, húsaleiga, lögboðnar vátryggingar, kostnaður vegna bókhalds- og tölvuvinnslu, aðildargjöld að Verðbréfaþingi Íslands og afskriftir.
     Veltubók: Verðbréf sem fjárfestingarfyrirtæki hefur eignast eða heldur eftir með endursölu í huga og/eða í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsvirði þessara skjala. Jafnframt teljast til veltubókar stöður í fjármálaskjölum sem verða til við samtímis skipti á höfuðstólsfjárhæðum, svo og fjármálasamningar sem fjárfestingarfyrirtæki er aðili að í því skyni að baktryggja aðra þætti veltubókar. Til veltubókar teljast enn fremur áhættuþættir tengdir óuppgerðum og ófrágengnum viðskiptum og afleiddum skjölum sem verslað er með innan og utan verðbréfamarkaðar, svo og áhættuþættir er tengjast skuldbindingum fjárfestingarfyrirtækis sem myndast vegna viðskipta með verðbréf í veltubók.
     Heimaríki:
         
    
    Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem lögaðili, sem hefur heimild til að stunda verðbréfaviðskipti hér á landi, hefur skráða skrifstofu eða, hafi hann enga skráða skrifstofu í samræmi við eigin landslög, það ríki þar sem hann hefur aðalskrifstofu.
         
    
    Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem skipulegur verðbréfamarkaður hefur skráða skrifstofu eða, hafi markaðurinn enga skráða skrifstofu í samræmi við eigin landslög, það ríki þar sem hann hefur aðalskrifstofu.
     Gistiríki: Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem innlent fjárfestingarfyrirtæki starfrækir útibú eða veitir þjónustu.
     Virkur eignarhluti: Bein eða óbein eignarhlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé þess eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir það kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun fyrirtækis sem eignarhlutdeild er í.
     Skipulegur verðbréfamarkaður:
         
    
    Verðbréfaþing Íslands og hliðstæðar kauphallir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
         
    
    Aðrir verðbréfamarkaðir innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verðbréf ganga kaupum og sölum og sem eru opnir almenningi, starfa reglulega og eru viðurkenndir með þeim hætti sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands metur gildan.
         
    
    Markaðir skv. a- og b-lið sem staðsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og bankaeftirlitið hefur viðurkennt.
     Fjárvarsla: Þjónusta, veitt samkvæmt sérstökum samningi gegn endurgjaldi sem felur í sér að taka við fjármunum til fjárfestingar í verðbréfum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptamanns.
     Almennt útboð: Sala nýrra, samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar.
     Viðskiptavaki: Fjárfestingarfyrirtæki skv. 8. gr. eða annar aðili sem til þess hefur heimild samkvæmt lögum og hefur skuldbundið sig formlega til að kaupa og selja fyrir eigin reikning tiltekin verðbréf, í því skyni að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á verðbréfunum, og tilkynnt það opinberlega.
     Sölutrygging: Samningur milli fjárfestingarfyrirtækis skv. 8. gr. og útgefanda eða eiganda verðbréfa þar sem fjárfestingarfyrirtækið skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðinn hluta eða öll verðbréf í tilteknu útboði innan fyrir fram ákveðinna tímamarka og á fyrir fram ákveðnu verði.
    

II. KAFLI

Leyfi til verðbréfaviðskipta.

3. gr.

    Fjárfestingarfyrirtækjum er óheimilt að hefja starfsemi nema þau uppfylli skilyrði laga þessara og hafi fengið starfsleyfi viðskiptaráðherra. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru sem hér segir:
    Fyrirtækin séu hlutafélög. Þó er heimilt að starfrækja fjárfestingarfyrirtæki skv. 9. gr. sem einkahlutafélög. Sé um að ræða fjárfestingarfyrirtæki sem stundar starfsemi skv. 8. gr. skal innborgað hlutafé nema að minnsta kosti 65 milljónum króna. Sé um að ræða fjárfestingarfyrirtæki sem stundar starfsemi skv. 9. gr. skal innborgað hlutafé nema að minnsta kosti 4,5 milljónum króna. Fjárhæðir þessar skulu bundnar gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við opinbert kaupgengi hennar við gildistöku laga þessara. Fjárfestingarfyrirtæki er óheimilt að hefja starfsemi fyrr en hlutafé hefur verið greitt að fullu í reiðufé. Allt hlutafé skal vera greitt áður en fjárfestingarfyrirtæki er skráð í hlutafélagaskrá. Ekki skal skrá hækkun hlutafjár fyrr en hlutafjárauki er að fullu greiddur.
                  Starfandi fjárfestingarfyrirtækjum við gildistöku laga þessara með eigið fé lægra en það lágmark innborgaðs hlutafjár sem mælt er fyrir um í 1. mgr. þessa töluliðar er heimilt að halda áfram starfsemi sinni. Eigið fé þeirra má þó aldrei verða lægra en það var við gildistöku laga þessara.
                  Yfirtaki nýir aðilar starfsemi fjárfestingarfyrirtækis sem starfar skv. 2. mgr. þessa töluliðar skal eigið fé þess hafa náð því lágmarki sem kveðið er á um í 1. mgr. innan þriggja mánaða frá yfirtökunni.
    Fjárfestingarfyrirtækið hafi aðalskrifstofu hér á landi.
    Stjórnarmenn í verðbréfafyrirtæki skulu vera að minnsta kosti þrír en í verðbréfamiðlunarfyrirtæki að minnsta kosti tveir. Þeir skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru undanþegnir búsetuskilyrðinu, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Ráðherra er heimilt að veita þeim sem búsettir eru í öðrum ríkjum sömu undanþágu.
    Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum 2. og 3. málsl. 3. tölul. og uppfylli kröfur um þekkingu á verðbréfaviðskiptum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Endurskoðun á reikningum fyrirtækisins skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu.
    Fyrirtækið setji tryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skulu sett með reglugerð.
                  Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja:
    Samþykktir fjárfestingarfyrirtækis.
    Starfsáætlun þar sem m.a. komi fram upplýsingar um eðli fyrirhugaðrar starfsemi og skipulag viðkomandi fyrirtækis.
    Upplýsingar um stofnendur, hluthafa og einstaklinga eða lögaðila sem hafa yfir að ráða virkum eignarhlut í félaginu og hlut hvers þeirra um sig.
    Staðfesting á fjárhæð innborgaðs hlutafjár.
    Aðrar upplýsingar sem ráðherra ákveður.
    Áður en ákvörðun er tekin um veitingu starfsleyfis eða synjun umsóknar skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Sé fjárfestingarfyrirtæki dótturfyrirtæki fjárfestingarfyrirtækis eða lánastofnunar sem hefur leyfi í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis slíkra fyrirtækja eða undir stjórn sama einstaklings eða lögaðila og stjórnar slíkum fyrirtækjum skal jafnframt leitað umsagnar lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki.
    

4. gr.

    Uppfylli umsækjandi um starfsleyfi ekki skilyrði laga þessara skal umsókn um starfsleyfi synjað.
    Ráðherra er heimilt að synja umsókn að fengnum tillögum bankaeftirlitsins:
    hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem skapar hættu á að viðkomandi misnoti aðstöðu sína eða hafi þessir aðilar sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína,
    sé eignarhlutur hluthafa í fjárfestingarfyrirtæki skv. 12. gr. talinn ósamrýmanlegur eðlilegum rekstri fyrirtækisins.

5. gr.

    Ákvörðun ráðherra um umsókn um starfsleyfi skal tilkynna umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra.
    Ákvörðun skv. 1. mgr. skal ávallt liggja fyrir innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn barst ráðherra. Synjun ráðherra á umsókn skal rökstudd.
    

6. gr.

    Heimilt er fjárfestingarfyrirtæki að hefja starfsemi þegar í stað eftir að ráðherra hefur veitt því starfsleyfi. Í leyfinu skal getið þeirrar þjónustu skv. 8. gr. sem starfsleyfi fjárfestingarfyrirtækis tekur til. Óheimilt er að veita starfsleyfi sem eingöngu tekur til þjónustu skv. c-lið 8. gr.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi fjárfestingarfyrirtæki ekki veitt þjónustu sem því er heimilt samkvæmt lögum þessum í samfellt sex mánuði.
    

III. KAFLI

Réttindi og skyldur fjárfestingarfyrirtækja.

7. gr.

    Fjárfestingarfyrirtækjum er skylt og einum heimilt, nema lög ákveði annað, að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðin „verðbréfafyrirtæki“ eða „verðbréfamiðlunarfyrirtæki“ ein sér eða samtengd öðrum orðum, sbr. þó 44. gr.
    

8. gr.

    Fjárfestingarfyrirtækjum skv. a-lið 2. tölul. 2. gr. er heimilt að hafa með höndum eftirfarandi starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf:
     Þjónusta:
         
    
    Móttaka og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um eitt eða fleiri verðbréf og framkvæmd slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila.
         
    
    Viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning.
         
    
    Stjórnun fjárfestingarsamvals, samkvæmt umboði fjárfesta, sem miðast við einstaka viðskiptamenn, svo fremi um sé að ræða eitt eða fleiri verðbréf skv. 2. tölul.
         
    
    Sölutrygging í tengslum við útgáfur eins eða fleiri verðbréfa skv. 2. tölul. eða markaðssetning slíkra útgáfna.
     Skjöl:
         Verðbréf skv. 3. tölul. 2. gr.
     Viðbótarþjónusta:
         
    
    Varsla og stjórnun í tengslum við eitt eða fleiri verðbréf skv. 2. tölul.
         
    
    Öryggisvarsla fjár.
         
    
    Veiting lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með eitt eða fleiri verðbréf skv. 2. tölul. ef fjárfestingarfyrirtæki sem veitir lánsheimildina eða lánið annast viðskiptin.
         
    
    Ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun og skyld mál og ráðgjöf og þjónusta varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
         
    
    Þjónusta í tengslum við sölutryggingu.
         
    
    Fjárfestingarráðgjöf varðandi eitt eða fleiri verðbréf skv. 2. tölul.
         
    
    Gjaldeyrisþjónusta ef umrædd viðskipti eru liður í fjárfestingarþjónustu.
         
    
    Fræðsla og kynning á verðbréfaviðskiptum.
    

9. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki skv. b-lið 2. tölul. 2. gr. er eingöngu heimilt að annast milligöngu gegn endurgjaldi um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf um slík viðskipti. Fyrirtækjunum er einungis heimilt að taka við fjármunum eða verðbréfum viðskiptavina í starfsemi sinni um skamman tíma enda sé slíkt nauðsynlegt til að ljúka viðskiptum sem fyrirtækið hefur annast milligöngu um.
    

10. gr.

    Fjárfestingarfyrirtækjum er óheimilt að annast aðra starfsemi en um getur í 8. eða 9. gr. Öðrum aðilum er óheimilt að annast þá starfsemi sem þar getur nema lög ákveði annað, sbr. þó 43. gr.
    

11. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki er heimilt að starfrækja útibú enda uppfylli daglegur stjórnandi þess skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. Tilkynna skal bankaeftirliti Seðlabanka Íslands fyrir fram um stofnun útibús.
    

12. gr.

    Hluthafar í fjárfestingarfyrirtæki sem eiga eða hyggjast eignast virkan eignarhlut í viðkomandi félagi skulu tilkynna bankaeftirlitinu það fyrir fram og greina frá hver eignarhlutur þeirra muni verða. Einnig skulu þeir tilkynna það bankaeftirlitinu hyggist þeir auka hlutafjáreign sína svo mikið að eignarhlutir þeirra í fjárfestingarfyrirtæki, eða samsvarandi réttur til meðferðar atkvæða, nemi 20%, 33% eða 50% eða svo stórum hluta að viðkomandi félag verði talið dótturfyrirtæki fjárfestingarfyrirtækis.
    Ráðherra getur, að fenginni tillögu bankaeftirlitsins, synjað hluthafa um að eignast hlut eða um rétt til meðferðar atkvæða skv. 1. mgr. telji hann viðkomandi ekki hæfan til þess með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjárfestingarfyrirtækis. Rökstudd synjun ráðherra skal hafa borist fyrirtækinu innan þriggja mánaða frá þeim degi sem tilkynning skv. 1. mgr. barst bankaeftirlitinu.
    Sé um að ræða aukningu á eignarhlut skv. 1. mgr. er ráðherra heimilt að kveða á um hvenær henni skuli í síðasta lagi hafa verið hrint í framkvæmd, enda hafi aukningu ekki verið hafnað.
    Hyggist hluthafi, sem á virkan eignarhluta í fjárfestingarfyrirtæki, draga úr hlutafjáreign sinni skal hann tilkynna bankaeftirlitinu það fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhlutur niður fyrir 20%, 33%, 50% eða minnki svo mikið að fjárfestingarfyrirtæki hætti að vera dótturfyrirtæki viðkomandi, sbr. 1. mgr., skal það einnig tilkynnt.
    Fái fjárfestingarfyrirtæki vitneskju um öflun eða ráðstöfun eignarhluta í hlutaðeigandi félagi sem veldur því að eignarhlutar fara yfir eða undir mörk sem tilgreind eru í 1. og 4. mgr. skal það tilkynnt bankaeftirlitinu án ástæðulauss dráttar. Einnig skal bankaeftirlitinu tilkynnt eigi sjaldnar en einu sinni á ári um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í fjárfestingarfyrirtæki og hve stór eignarhlutur hvers um sig er.
    

13. gr.

    Fari hluthafi, sem á svo stóran hlut í fjárfestingarfyrirtæki sem segir í 1. mgr. 12. gr., þannig með hlut sinn að skaði heilbrigðan eða traustan rekstur fyrirtækisins getur ráðherra, að fenginni tillögu bankaeftirlitsins, ákveðið að hlut þessum fylgi ekki atkvæðisréttur eða lagt fyrir fyrirtækið að grípa til viðeigandi ráðstafana.
    Ráðherra getur, að fenginni tillögu bankaeftirlitsins, ákveðið að eignarhlutum í fjárfestingarfyrirtæki, sem ekki hafa verið tilkynntir fyrir fram skv. 1. mgr. 12. gr., fylgi ekki atkvæðisréttur. Synji ráðherra ekki viðkomandi hluthafa um að eignast hlut eða auka við hann fá hlutir atkvæðisrétt að nýju. Ákvörðun ráðherra um að eignarhlut fylgi ekki atkvæðisréttur skal tilkynnt hlutaskrá viðkomandi fjárfestingarfyrirtækis. Jafnframt skal tilkynna hlutaskrá fjárfestingarfyrirtækis verði atkvæðisréttur eignarhluta virkur að nýju.
    Hafi ráðherra ákveðið skv. 1. eða 2. mgr. að hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur skulu þeir hlutir ekki teknir með við útreikning á því fyrir hve mikinn hluta atkvæða mætt hafi verið á hluthafafundum.
    

14. gr.

    Eignist fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, móðurfyrirtæki fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða einstaklingur sem ræður yfir slíku fjárfestingarfyrirtæki virkan eignarhlut í fjárfestingarfyrirtæki hér á landi skal það tilkynnt bankaeftirlitinu. Verði síðastnefnda fyrirtækið dótturfyrirtæki hlutaðeigandi eða undir hans stjórn skal mat á eignarhlut framkvæmt í samráði við lögbær yfirvöld í heimaríki hlutaðeigandi aðila.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við ef aðilar sem þar getur auka virkan eignarhlut sinn í fjárfestingarfyrirtæki þannig að eignarhlutur þeirra nemi 20%, 33% eða 50% eða svo miklu að fyrirtækið yrði dótturfyrirtæki þeirra.
    

15. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki skulu kappkosta að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum í starfsemi sinni og ber þeim ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum. Skulu viðskiptamönnum, að teknu tilliti til þekkingar þeirra, veittar greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.
    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi fjárfestingarfyrirtækja skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu fyrirtækjanna.
    

16. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki skulu kunngera viðskiptamönnum sínum fyrir fram hvaða þóknun þau muni áskilja sér fyrir þjónustu sína. Breytingar á þóknun skal tilkynna viðskiptavinum með nægum fyrirvara.
    Fjárfestingarfyrirtæki skulu hafa aðgengilegar á starfsstöð sinni upplýsingar um hvaða rétt viðskiptamenn þeirra kunni að eiga til bóta vegna tjóns sem þeir verða fyrir vegna viðskipta á vegum fyrirtækjanna.
    

17. gr.

    Taki fjárfestingarfyrirtæki að sér þjónustu sem þeim er heimilt samkvæmt lögum þessum skal, eftir því sem við á, gerður sérstakur samningur milli fyrirtækisins og viðskiptamanns þess þar sem meðal annars skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila.
    

18. gr.

    Fjárfestingarfyrirtækjum er óheimilt að annast milligöngu um verðbréfaviðskipti hafi starfsmenn þeirra vitneskju um eða ástæðu til að ætla að viðskiptin grundvallist á upplýsingum skv. 2. mgr. 25. gr., sbr. þó 2. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 26. gr.

19. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki skal halda fjármunum viðskiptamanna tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Skulu fjármunir viðskiptamanns varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi og verðbréf í hans eigu varðveitt með tryggilegum hætti.
    Fjárfestingarfyrirtæki er heimilt að framselja verðbréf í nafni viðskiptamanns síns hafi fyrirtækið fengið til þess skriflegt umboð. Í framsalsáritun ber að geta þess að verðbréf sé framselt samkvæmt varðveittu umboði og ber fjárfestingarfyrirtæki að varðveita umboð svo lengi sem réttindi eru byggð á verðbréfi sem framselt hefur verið með þessum hætti. Skylt er að láta kaupanda verðbréfs í té samrit umboðsins krefjist hann þess.
    Sá sem veitt hefur fjárfestingarfyrirtæki umboð skv. 2. mgr. getur ekki beint kröfum að framsalshafa með stoð í heimildarskorti fyrirtækisins nema umboð þess til framsals hafi sýnilega verið ófullnægjandi.
    Framsalsáritun fjárfestingarfyrirtækis skv. 3. mgr. telst ekki slíta framsalsröð þótt umboð til fyrirtækisins fylgi ekki verðbréfinu.
    

20. gr.

    Almennt útboð verðbréfa, annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla, skal fara fram fyrir milligöngu fjárfestingarfyrirtækja skv. 8. gr. eða annarra aðila sem til þess hafa heimild í lögum. Almennt útboð verðbréfa skal tilkynna til Verðbréfaþings Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útboðsins í samræmi við reglur sem stjórn Verðbréfaþingsins setur um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs.
    Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um fyrsta söludag einstakra almennra útboða í því skyni að koma í veg fyrir sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðinum.
    Við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, sé hann fyrr, skal fjárfestingarfyrirtæki eða annar aðili, sem hefur milligöngu um almennt útboð, tilkynna Verðbréfaþinginu um heildarsölu verðbréfa í almennu útboði á nafnverði og markaðsverði samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og í lok hvers árs skal enn fremur tilkynna um útistandandi eftirstöðvar almenns útboðs. Verðbréfaþingið skal birta reglulega upplýsingar um verðbréf samkvæmt þessari grein.
    

21. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki skal vegna eigin viðskipta með verðbréf sem því eru falin til sölu og vegna viðskipta eigenda þess, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra gæta eftirtalinna atriða:
    að ýtrustu hagsmuna ótengdra viðskiptavina sé gætt,
    að fullur trúnaður ríki gagnvart ótengdum viðskiptavinum,
    að viðskiptin séu sérstaklega skráð,
    að stjórn fjárfestingarfyrirtækis fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og staðfesti þau.
    Fjárfestingarfyrirtæki skulu setja sér verklagsreglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af bankaeftirlitinu.

22. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki geta veitt viðskiptaaðila lán og gengið í ábyrgðir vegna verðbréfaviðskipta sem þeim er heimilt að annast samkvæmt lögum þessum.
    Heildarskuldbindingar fjárfestingarfyrirtækja skv. 1. mgr. skulu vera innan þeirra marka sem um getur í reglum er ráðherra setur að fengnum tillögum bankaeftirlitsins um hámark lána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila.

23. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki er því aðeins heimilt að vera meðeigandi eða þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi að slík þátttaka sé í eðlilegum tengslum við starfsemi fjárfestingarfyrirtækisins og hafi ekki áhrif á óhlutdrægni þess, sbr. 1. mgr. 15. gr.

24. gr.

    Framkvæmdastjóra fjárfestingarfyrirtækis er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema að fengnu leyfi stjórnar fjárfestingarfyrirtækisins. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess. Bankaeftirlitið sker úr um hvort eignarhlutur brjóti í bága við grein þessa og getur veitt undanþágu frá henni mæli sérstakar ástæður með því.
    Um heimildir annarra starfsmanna fjárfestingarfyrirtækis varðandi þau atriði sem í 1. mgr. greinir fer eftir reglum sem stjórn fyrirtækisins setur og bankaeftirlitið staðfestir.
    

IV. KAFLI

Meðferð trúnaðarupplýsinga.

25. gr.

    Ákvæði þessa kafla taka til verðbréfa sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Með trúnaðarupplýsingum er átt við upplýsingar um útgefanda verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber en eru líkleg til að hafa áhrif á markaðsverð verðbréfanna ef opinber væru. Upplýsingar teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað á verðbréfamarkaðinum með almennum og viðurkenndum hætti. Tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan.
    

26. gr.

    Aðila, sem býr yfir eða hefur aðgang að trúnaðarupplýsingum skv. 2. mgr. 25. gr. vegna eignaraðildar, aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti á vegum útgefanda verðbréfa eða vegna starfs síns, stöðu eða skyldna, er óheimilt að:
    nýta sér upplýsingarnar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfanna sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta,
    láta þriðja aðila upplýsingarnar í té nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,
    ráðleggja þriðja aðila á grundvelli upplýsinganna að afla verðbréfa eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með verðbréfin.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við um viðskipti fullvalda ríkis, seðlabanka þess eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu hlutaðeigandi ríkis í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu.
    

27. gr.

    Öðrum aðilum en um getur í 1. mgr. 26. gr., sem hlotið hafa vitneskju um trúnaðarupplýsingar, er óheimilt að nýta þær með þeim hætti sem þar segir, enda hafi þeir vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.
    

28. gr.

    Ákvæði 26. og 27. gr. ná einnig til lögaðila og taka til þeirra einstaklinga sem taka þátt í ákvörðun um að fara með viðskipti fyrir reikning lögaðilans.
    

29. gr.

    Óheimilt er einstaklingum eða lögaðilum að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með verðbréf eða annarra aðgerða í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með tiltekin verðbréf eða að hafa óeðlileg eða óhæfileg áhrif á verðmyndun í verðbréfaviðskiptum.

30. gr.

    Útgefendur verðbréfa skulu setja eigin reglur í því skyni að hindra að trúnaðarupplýsingar berist til annarra en þeirra sem þarfnast þeirra vegna starfa sinna.
    Stjórnvöld og aðrir aðilar, sem fá reglulega trúnaðarupplýsingar í starfsemi sinni, skulu setja sér reglur skv. 1. mgr.
    

V. KAFLI

Eigið fé fjárfestingarfyrirtækja.

31. gr.

    Eigið fé fjárfestingarfyrirtækis, eins og það er skilgreint skv. 2. mgr., skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni. Áhættugrunnur skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli fjárfestingarfyrirtækja sem Seðlabanki Íslands setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning nema bankaeftirlitið heimili undanþágu frá því.
    Við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 1. mgr. skal eigið fé samsett af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C og frádráttarliðum skv. 32. gr. Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eigin fjár fyrir frádrátt skv. 32. gr. Heildarfjárhæð eiginfjárþáttar B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.
    Eiginfjárþáttur A telst vera:
    Innborgað hlutafé.
    Varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár og óráðstafað eigið fé að frádregnu tapi ársins.
    Endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum.
    Frá eiginfjárþætti A skal draga eigin hlutabréf, viðskiptavild og aðrar óáþreifanlegar eignir, svo og áfallnar ófærðar skattskuldbindingar sem rýra möguleika fjárfestingarfyrirtækisins til að mæta tapi.
    Eiginfjárþáttur B telst vera:
    Víkjandi lán sem fjárfestingarfyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár sem líður af þessum fimm árum. Sé um að ræða lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skal reikna eftirstöðvar hvers árs niður á sambærilegan hátt.
    Endurmatsreikningar, aðrir en gert er ráð fyrir í eiginfjárþætti A.
    Eiginfjárþáttur C telst vera víkjandi lán til skamms tíma sem fjárfestingarfyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en tvö ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár. Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárhlutfall hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtækis er lægra en 8% eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 8%. Heildarfjárhæð eiginfjárþáttar C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má heildarfjárhæð eiginfjárþáttar C hæst nema 4,8% af sérstökum áhættugrunni fjárfestingarfyrirtækis vegna gengisáhættu og áhættu liða í veltubók samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli fjárfestingarfyrirtækja sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands setur. Bankaeftirlitið getur heimilað fjárfestingarfyrirtæki að fara tímabundið yfir umrædd mörk að uppfylltum nánari skilyrðum. Við mat á eiginfjárþætti C getur bankaeftirlitið jafnframt heimilað einstökum fjárfestingarfyrirtækjum að tekið sé tillit til hagnaðar af veltubókarviðskiptum að frádreginni fyrirsjáanlegri gjaldfærslu eða arði og að frádregnu nettótapi af annarri starfsemi enda sé engin þessara fjárhæða meðtalin í eiginfjárþætti A.
    Bankaeftirlitið getur veitt heimild til að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lánveitandi þess enda hafi slíkt ekki áhrif á viðunandi eiginfjárstöðu hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtækis.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–5. mgr. skal eigið fé fjárfestingarfyrirtækis aldrei nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði næstliðins reikningsárs. Bankaeftirlitið getur heimilað undanþágu frá þessari kröfu ef grundvallarbreyting hefur orðið á starfsemi félagsins milli ára. Á fyrsta starfsári fjárfestingarfyrirtækis skal eigið fé þess ekki nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði samkvæmt rekstraráætlun starfsársins. Bankaeftirlitið getur krafist þess að gerð sé breyting á rekstraráætluninni ef það telur að hún gefi ekki rétta mynd af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er.
    Fjárfestingarfyrirtæki skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættum, þar með talinni vaxtaáhættu, í tengslum við öll viðskipti sín. Bankaeftirlitið getur sett leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjárfestingarfyrirtækja.
    Ráðherra er heimilt að fengnum tillögum bankaeftirlitsins að ákveða í reglugerð að aðrir liðir en greindir eru í 3.–5. mgr. teljist með eigin fé fjárfestingarfyrirtækis.
    

32. gr.

    Frá eigin fé skv. 2. mgr. 31. gr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum fjárfestingarfyrirtækis í félögum og fyrirtækjum sem það kann að eignast með heimild í 23. gr. Jafnframt skal draga frá víkjandi lán sem fjárfestingarfyrirtæki hefur veitt slíkum félögum eða fyrirtækjum. Frádráttur skal vera í samræmi við eftirfarandi ákvæði í 1.–3. tölul.:
    Eignarhlutur í félögum þar sem eignarhlutir hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtækis nema meira en 10% af hlutafé viðkomandi félaga. Enn fremur víkjandi lán hjá sömu félögum.
    Eignarhlutur í félagi sem fjárfestingarfyrirtæki hefur eignast tímabundið vegna endurskipulagningar þess félags skal ekki dragast frá.
    Eignarhlutur í félögum þar sem eignarhlutur fjárfestingarfyrirtækis nemur allt að 10% af hlutafé viðkomandi félaga. Frádrátturinn takmarkast við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi lána sem er umfram 10% af eigin fé fjárfestingarfyrirtækis eins og það er reiknað skv. 2. mgr. 30. gr. fyrir frádrátt samkvæmt þessari grein.
    

VI. KAFLI

Ársreikningar og endurskoðun.

33. gr.

    Stjórn og framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga og samþykkta. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar. Ársreikningur og skýrsla stjórnar mynda eina heild. Reikningsár fyrirtækjanna er almanaksárið.
    Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra. Telji stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri að ekki skuli samþykkja ársreikning eða hefur mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
    Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fjárfestingarfyrirtækis.
    Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi fjárfestingarfyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á rekstrarárinu og ekki koma fram í ársreikningnum.
    Bankaeftirliti Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings.
    

34. gr.

    Endurskoðandi fyrirtækisins má ekki sitja í stjórn þess eða starfa að öðru leyti í þágu þess að öðru en að endurskoðun.
    Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum og fylgiskjölum og öðrum gögnum fjárfestingarfyrirtækis og jafnframt skulu stjórn og starfsmenn þess veita honum allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.
    

35. gr.

    Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Endurskoðandi skal láta í ljós álit sitt á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
    Telji endurskoðandi að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Ef skýrsla stjórnar hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða er ekki í samræmi við ársreikning skal endurskoðandi vekja athygli á því í áritun sinni. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
    Leiði endurskoðun í ljós verulega ágalla á rekstri fjárfestingarfyrirtækis eða atriði sem geta veikt fjárhagsstöðu þess skal endurskoðandi þegar gera stjórn fyrirtækisins viðvart, svo og bankaeftirlitinu, hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína í þessu sambandi.
    

36. gr.

    Endurskoðaður ársreikningur fjárfestingarfyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun stjórnar og framkvæmdastjóra en eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Jafnframt er fjárfestingarfyrirtæki skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.
    

37. gr.

    Hafi stjórn eða framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis ástæðu til að ætla að eigið fé þess sé undir því lágmarki sem kveðið er á um í 31. gr. ber þeim að tilkynna það bankaeftirlitinu. Sambærileg skylda hvílir á endurskoðanda hlutaðeigandi fyrirtækis hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur þess hafi ekki rækt skyldu sína skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.
    Ef bankaeftirlitinu berst tilkynning skv. 1. mgr. eða telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eigið fé fjárfestingarfyrirtækis sé undir því lágmarki sem kveðið er á um í 31. gr. skal það krefja stjórn fyrirtækisins þegar í stað um reikningsuppgjör sem henni ber að afhenda innan hæfilegs frests.
    Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eigið fé fjárfestingarfyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 31. gr. skal stjórn þess án tafar boða til fundar hluthafa til ákvörðunar og afhenda síðan bankaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af þessu tilefni. Skal bankaeftirlitið þegar afhenda ráðherra reikningsuppgjör endurskoðanda og greinargerð stjórnar fyrirtækisins ásamt umsögn sinni.
    Þegar ráðherra hafa borist gögn skv. 3. mgr. er honum heimilt að veita hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki frest í allt að sex mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 31. gr. Séu til þess ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja þennan frest í allt að sex mánuði til viðbótar. Ráðherra er heimilt að stytta áður ákveðinn frest eða fella hann niður ef sýnt þykir að viðleitni fjárfestingarfyrirtækisins til úrbóta muni ekki bera árangur.
    

38. gr.

    Bankaeftirlitið getur látið framkvæma sérstaka endurskoðun hjá fjárfestingarfyrirtæki og ráðið til þess löggiltan endurskoðanda. Bankaeftirlitinu er heimilt að láta hlutaðeigandi fyrirtæki bera kostnaðinn af slíkri endurskoðun.

VII. KAFLI

Starfsemi innlendra fjárfestingarfyrirtækja erlendis.

39. gr.

    Fjárfestingarfyrirtæki, sem hlotið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra skv. 3. gr. og hyggjast starfrækja útibú í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, skulu tilkynna það bankaeftirliti Seðlabanka Íslands. Tilkynningu skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:
    í hvaða ríki fyrirhugað sé að stofna útibú,
    lýsing á skipulagi útibúsins og fyrirhugaðri starfsemi,
    heimilisfang útibúsins,
    nöfn stjórnenda þess.
    Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að bankaeftirlitið hefur móttekið upplýsingar skv. 1. mgr. skal það senda staðfestingu til lögbærra yfirvalda gistiríkis á að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins. Jafnframt skal bankaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum gistiríkis nákvæmar upplýsingar um bótakerfi sem verndar viðskiptavini útibúsins. Hlutaðeigandi fyrirtæki skal samtímis tilkynnt að framangreindar upplýsingar hafi verið sendar.
    Bankaeftirlitið getur hafnað beiðni um að senda upplýsingar skv. 2. mgr. telji það ástæðu til að efast um að stjórnunarleg uppbygging og fjárhagsstaða fjárfestingarfyrirtækis sé nægilega traust til að réttlæta stofnun útibús skv. 1. mgr. Fjárfestingarfyrirtæki skal tilkynnt afstaða bankaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku upplýsinga skv. 1. mgr.
    Fjárfestingarfyrirtæki skal tilkynna bankaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum þess ríkis þar sem það starfrækir útibú um hverjar þær breytingar sem verða kunna á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. eigi síðar en einum mánuði áður en fyrirhugaðar breytingar koma til framkvæmda.

40. gr.

    Hyggist fjárfestingarfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, án þess að stofna þar útibú, skal tilkynna það bankaeftirlitinu. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki eigi í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
    Eigi síðar en einum mánuði frá því að bankaeftirlitið hefur móttekið tilkynningu skv. 1. mgr. framsendir það upplýsingar til lögbærra yfirvalda í viðkomandi ríki ásamt staðfestingu á því að starfsleyfi fyrirtækisins heimili fyrirhugaða starfsemi.
    Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu tilkynntar bankaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum viðkomandi ríkis eigi síðar en einum mánuði áður en þær koma til framkvæmda.

41. gr.

    Hyggist fjárfestingarfyrirtæki hefja starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt bankaeftirlitinu. Sé um að ræða stofnun útibús skulu fylgja tilkynningu upplýsingar skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 39. gr. Sé um að ræða fyrirhugaða starfsemi án stofnunar útibús skulu upplýsingar skv. 1. mgr. 40. gr. fylgja tilkynningu. Um málsmeðferð að öðru leyti fer skv. 2.–4. mgr. 39. gr. eða 2–3. mgr. 40. gr. eftir því sem við á.
    Bankaeftirlitinu er heimilt að óska frekari upplýsinga samkvæmt þessari grein.
    

42. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi innlendra fjárfestingarfyrirtækja erlendis.
    

VIII. KAFLI

Starfsemi erlendra fjárfestingarfyrirtækja hér á landi.

43. gr.

    Erlend fjárfestingarfyrirtæki, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, geta stofnsett útibú hér á landi tveimur mánuðum eftir að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur fengið tilkynningu þess efnis frá lögbærum yfirvöldum í heimaríki fjárfestingarfyrirtækis. Útibúi er heimilt að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til enda sé hún fyrirtækinu heimil í heimaríki þess.
    Bankaeftirlitið aflar upplýsinga frá lögbærum yfirvöldum í heimaríki erlends fjárfestingarfyrirtækis um:
    lýsingu á skipulagi fyrirtækisins og fyrirhugaðri starfsemi þess hér á landi,
    staðfestingu á að fyrirhuguð starfsemi sé heimiluð í heimaríki,
    heimilisfang útibúsins,
    nöfn stjórnenda,
    bótakerfi sem ætlað er að vernda viðskiptamenn útibúsins.
    Verði breytingar á áður tilkynntum upplýsingum skv. 2. mgr. skal fjárfestingarfyrirtæki tilkynna þær til bankaeftirlitsins eigi síðar en einum mánuði áður en breytingarnar koma til framkvæmda.
    Ákvæði laga um hlutafélög varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.

44. gr.

    Erlendum fjárfestingarfyrirtækjum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús þegar bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá lögbærum yfirvöldum í heimaríki fjárfestingarfyrirtækis. Heimildir til að veita þjónustu hér á landi samkvæmt þessu ákvæði verða þó aldrei víðtækari en starfsheimildir fyrirtækis í heimaríki þess.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi fjárfestingarfyrirtækja sem um getur í 1. mgr.

45. gr.

    Erlend fjárfestingarfyrirtæki geta notað sama heiti og notað er í heimaríki þess. Sé hætta á að villst verði á nöfnum innlendra og erlendra fjárfestingarfyrirtækja sem starfa hér á landi getur bankaeftirlitið farið fram á að nöfn hinna síðarnefndu verði auðkennd sérstaklega.

46. gr.

    Ráðherra getur, að fenginni tillögu bankaeftirlitsins, heimilað fjárfestingarfyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi eða veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda hliðstæða starfsemi í heimaríki sínu við þá sem það hyggst stunda hér á landi, sbr. 8. og 9. gr., og að starfsemi þess í heimaríkinu sé háð eftirliti.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi fjárfestingarfyrirtækja sem um getur í 1. mgr.
    

IX. KAFLI

Samruni fjárfestingarfyrirtækja.

47. gr.

    Um samruna fjárfestingarfyrirtækja fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög eða einkahlutafélög, eftir því sem við á. Jafnframt skal liggja fyrir samþykki ráðherra að fenginni umsögn bankaeftirlitsins.
    Starfi fjárfestingarfyrirtæki erlendis skal tilkynna lögbærum yfirvöldum hlutaðeigandi ríkis um samruna.
    

48. gr.

    Við sérstakar aðstæður og að fengnu samþykki bankaeftirlits Seðlabanka Íslands er heimilt að við samruna tveggja eða fleiri fjárfestingarfyrirtækja verði eigið fé hins sameinaða fjárfestingarfyrirtækis lægra en kveðið er á um í 1. mgr. 1. tölul. 3. gr. Eigið fé má þó ekki lækka frá því sem það er við samruna. Fari eigið fé niður fyrir þá fjárhæð er bankaeftirlitinu heimilt að veita hlutaðeigandi fyrirtæki hæfilegan frest til úrbóta. Uppfylli fyrirtækið ekki skilyrði um eigið fé að þeim fresti liðnum skal starfsleyfi þess afturkallað skv. XI. kafla og því slitið skv. X. kafla.
    

X. KAFLI

Slit fjárfestingarfyrirtækja.

49. gr.

    Um slit fjárfestingarfyrirtækja fer samkvæmt lögum um gjaldþrot o.fl. og lögum um hlutafélög eða einkahlutafélög, eftir því sem við á.
    Slíta ber fjárfestingarfyrirtæki ef ráðherra synjar fyrirtækinu um frest skv. 4. mgr. 37. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að fyrirtækinu hafi tekist að auka eigið fé fram yfir það lágmark sem kveðið er á um í 31. gr.
    Þegar skylt er að slíta fjárfestingarfyrirtæki skv. 1. mgr. skal ráðherra senda héraðsdómara á varnarþingi hlutaðeigandi fyrirtækis kröfu um að bú þess verði tekið til skipta. Þegar héraðsdómari hefur kannað hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir kröfunni skal hann kveða upp úrskurð um hvort orðið skuli við henni.
    Sé krafa skv. 3. mgr. tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum hins látna að öðru leyti en því að hluthafar njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum.
    

XI. KAFLI

Afturköllun starfsleyfa.

50. gr.

    Ráðherra skal afturkalla starfsleyfi fjárfestingarfyrirtækis að fengnum tillögum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands:
    hafi leyfisveiting byggst á röngum skýrslum eða upplýsingum frá leyfishafa eða verið aflað með öðrum ólögmætum hætti,
    uppfylli fjárfestingarfyrirtæki ekki ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. um hlutafé eða eigið fé eða skilyrði 1. mgr. 31. gr., enda hafi eigið fé ekki verið fært í lögmælt horf innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 4. mgr. 37. gr.,
    brjóti fjárfestingarfyrirtæki með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim,
    séu aðstæður með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 12. gr. um hæfi hluthafa eða 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. um hæfi stjórnarmanna fjárfestingarfyrirtækis,
    hafi bú fjárfestingarfyrirtækis verið tekið til gjaldþrotaskipta eða fyrirtækinu slitið af öðrum ástæðum.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.
    

51. gr.

    Standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots fjárfestingarfyrirtækis á ákvæðum laga þessara, reglugerðum, reglum eða samþykktum er ráðherra heimilt, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, að svipta hlutaðeigandi fyrirtæki starfsleyfi um stundarsakir. Skal þá ráðherra skipa fyrirtækinu umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir sem miða að því að tryggja hag viðskiptavina þess.
    

52. gr.

    Afturköllun á starfsleyfi fjárfestingarfyrirtækis skal tilkynnt stjórn hlutaðeigandi fyrirtækis og rökstudd skriflega. Birta skal tilkynningu um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum. Hafi fjárfestingarfyrirtæki starfað erlendis, sbr. ákvæði VII. kafla, skal afturköllun einnig tilkynnt lögbærum yfirvöldum í viðkomandi ríki.
    Afturkalli ráðherra starfsleyfi fjárfestingarfyrirtækis endanlega skal fyrirtækinu slitið.
    

XII. KAFLI

Eftirlit.

53. gr.

    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með starfsemi fjárfestingarfyrirtækja hér á landi, svo og starfsemi innlendra fjárfestingarfyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þessum aðilum sem, að þess mati, eru nauðsynleg vegna eftirlitsins. Að öðru leyti gilda um eftirlitið ákvæði laga um Seðlabanka Íslands eftir því sem við getur átt. Telji bankaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa skal það eiga sambærilegan aðgang að upplýsingum og gögnum hjá viðkomandi aðilum.
    Telji bankaeftirlitið að starfsemi fjárfestingarfyrirtækis brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt hlutaðeigandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.
    Hafi bankaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðum IV. kafla laga þessara skal því heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila, þar á meðal opinberar stofnanir, um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg til rannsóknar málsins.

54. gr.

    Við framkvæmd eftirlits með starfsemi erlendra fjárfestingarfyrirtækja hér á landi skal bankaeftirlitið hafa samráð við lögbær yfirvöld í heimaríki viðkomandi fjárfestingarfyrirtækis í samræmi við lög og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

XIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

55. gr.

    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal halda sérstaka skrá yfir fjárfestingarfyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi hér á landi svo og erlend fjárfestingarfyrirtæki sem starfa eða veita þjónustu hér á landi. Í skránni skulu koma fram nöfn stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og endurskoðenda fjárfestingarfyrirtækis. Jafnframt skulu koma fram upplýsingar um starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækis.
    Bankaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um upplýsingar sem veittar skulu samkvæmt 1. mgr. Breytingar á áður tilkynntum atriðum skulu þegar tilkynntar bankaeftirlitinu.
    

56. gr.

    Eigendur, stjórnendur, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og aðrir starfsmenn fjárfestingarfyrirtækja eru bundnir þagnarskyldu um öll viðskipti sem fyrirtækin annast eða hafa milligöngu um, svo og allt það er varðar hagi viðskiptamanna fyrirtækjanna og þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    

57. gr.

    Kostnaður við birtingu tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki.

58. gr.

    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð, þar á meðal um viðurlög í formi dagsekta.
    

XIV. KAFLI

Viðurlög.

59. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
    Brot gegn ákvæðum IV. kafla varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Jafnframt er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur með broti gegn ákvæðum IV. kafla.
    Tilraun til og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    

XV. KAFLI

Gildistaka og brottfallin lög.

60. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Starfandi verðbréfafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 9/1993 skulu tilkynna viðskiptaráðherra þegar við gildistöku laga þessara hvaða þjónustu skv. 8. gr. þau hyggist veita.

II.

    Einstaklingar, sem hlotið hafa leyfi viðskiptaráðherra til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 9/1993 og stunda starfsemi samkvæmt því leyfi, skulu hafa aðlagað starfsemi sína að ákvæðum laga þessara eigi síðar en einu ári eftir gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Þann 11. mars 1994 skipaði viðskiptaráðherra fastan vinnuhóp vegna málefna verðbréfamarkaðarins og Evrópska efnahagssvæðisins sem ætlað er tvíþætt hlutverk. Annars vegar er honum ætlað að vera vettvangur fyrir ráðuneytið til að koma upplýsingum varðandi þróunina innan EES á framfæri við hagsmunaaðila og kynnast skoðunum þeirra og hins vegar að semja drög að frumvörpum eða reglugerðum þegar slíkt er nauðsynlegt vegna aðlögunar íslensks réttar að EES-rétti. Í vinnuhópinn voru skipaðir Páll Ásgrímsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, formaður, Björn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslandsbanka hf., Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Sambands almennra lífeyrissjóða, og Gunnar Helgi Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Landsbréfa hf. Páll Ásgrímsson lét af störfum í vinnuhópnum í byrjun maí 1994 og tók Gunnar Viðar, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, við formennsku vinnuhópsins. Þá tók Jóhann H. Albertsson, deildarstjóri í Seðlabanka Íslands, sæti Eiríks Guðnasonar í hópnum um miðjan maí 1994. Um það leyti var vinnuhópurinn einnig stækkaður og tók í honum sæti Pálmi Sigmarsson, framkvæmdastjóri Handsals hf. Gunnar Helgi Hálfdanarson lét af störfum í vinnuhópnum í byrjun ágúst 1994 en sæti hans tók Guðmundur Hauksson, framkvæmdastjóri Kaupþings hf. Í ársbyrjun 1995 lét Gunnar Viðar af störfum í starfshópnum. Í hans stað var Jóhann Albertsson skipaður formaður hans auk þess sem Finnur Sveinbjörnsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, tók sæti þar. Þá tók Þórður S. Gunnarsson hrl. einnig sæti í vinnuhópnum. Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, og Sigurjón Geirsson, sérfræðingur í bankaeftirlitinu, voru starfshópnum til aðstoðar.
    
    Löggjöf um verðbréfaviðskipti.
    Fyrstu lög um verðbréfaviðskipti voru lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun. Þau voru síðar felld úr gildi með lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem voru mun ítarlegri en lögin frá 1986 og að ýmsu leyti í samræmi við löggjöf nágrannalanda á þessu sviði. Eftir að nokkur reynsla var komin á framkvæmd þeirra laga var talið nauðsynlegt að framkvæma á þeim ýmsar breytingar, en einnig vegna aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Voru þá samin núgildandi lög, nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti.
    Frumvarp þetta er þáttur í aðlögun íslensks réttar að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með tilskipun ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana voru reglur um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja samræmdar eiginfjárreglum lánastofnana og jafnframt aukið við eiginfjárreglur lánastofnana. Þessi tilskipun og tilskipun 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta voru hluti af „viðbótarpakka“ EES-samningsins sem sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun um 21. mars 1994. Ákvæði þeirra eiga að koma til framkvæmda á sama tíma, þ.e. eigi síðar en 31. desember 1995. Þó er vitað að í Danmörku og Englandi hyggjast stjórnvöld ekki láta þær taka gildi fyrr en 1. janúar 1996. Frumvarpinu er ætlað að lögfesta efnisreglur þessara tilskipana. Við samningu frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti, var höfð hliðsjón af drögum að fyrrgreindum tilskipunum. Engu að síður hefur komið í ljós að gera þarf svo miklar breytingar á lögum nr. 9/1993 til að uppfylla algerlega ákvæði þeirra að heppilegra var talið að semja frumvarp til nýrra laga á þessu sviði.
    Samhliða þessu frumvarpi eru lögð fram frumvörp til laga um breytingu á lögum um verðbréfasjóði og lögum um Verðbréfaþing Íslands. Breytingar á þeim lögum eru nauðsynlegar til að samræmis sé gætt í löggjöf á verðbréfasviði en einnig reyndist nauðsynlegt að breyta nokkuð skilgreiningum laga um verðbréfasjóði og rýmka heimildir til aðildar að Verðbréfaþingi Íslands frá því sem er samkvæmt gildandi lögum um Verðbréfaþing Íslands.
    Í nágrannalöndunum er einnig unnið að sambærilegum breytingum á löggjöf vegna fyrrgreindra tilskipana Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana. Gildir það jafnt um þau lönd sem eru aðilar að Evrópusambandinu og hin sem eru aðilar að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki hefur verið unnt að styðjast við þá vinnu við samningu þessa frumvarps nema að mjög takmörkuðu leyti þar sem endurskoðun laga á þessu sviði fer fram í öllum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu á sama tíma og er mislangt komin. Hins vegar sóttu fulltrúar starfshópsins sérstakan fund á vegum EFTA þar sem báðar tilskipanirnar voru kynntar og tækifæri gafst til að leggja fram spurningar og fá svör um túlkun og framkvæmd einstakra álitaefna.
    
    Meginefni frumvarpsins.
    Við samningu frumvarpsins var að verulegu leyti stuðst við ákvæði núgildandi laga um verðbréfaviðskipti. Þó er aukið það miklu við lögin í tengslum við efnisákvæði í áðurnefndum tilskipunum Evrópusambandsins, sem nauðsynlegt er að lögfesta hér á landi, að talið var eðlilegt að lögin yrðu endurútgefin í heild eins og þegar hefur verið rakið. Skilgreiningum fjölgar samkvæmt frumvarpinu frá því sem nú er og hugtakanotkun breytist nokkuð. Þá eru lögfest ákvæði um aðila sem sérstaklega eru undanþegnir ákvæðum laganna en slík ákvæði er ekki að finna í gildandi löggjöf, sbr. I. kafla. Gert er ráð fyrir að verðbréfamiðlun verði einungis stunduð af hlutafélögum en ekki einstaklingum eins og nú er og samhliða því er skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfa breytt nokkuð, sbr. II. kafla. Ákvæði III. kafla um réttindi og skyldur fjárfestingarfyrirtækja eru ítarlegri en samkvæmt gildandi lögum. Meðal annars er lögfest sérstakt ákvæði sem ætlað er að sporna gegn aðgerðum eða viðskiptaháttum í því skyni að hafa óhæfileg áhrif á viðskipti með verðbréf eða verðmyndun í slíkum viðskiptum, oft nefnt „market manipulation“ á ensku. Loks skal nefnt að gerðar eru eiginfjárkröfur til fyrirtækja sem frumvarpið tekur til en slíkar kröfur hafa ekki verið gerðar til verðbréfafyrirtækja samkvæmt gildandi lögum. Í frumvarpinu eru sérstök ákvæði um samruna fjárfestingarfyrirtækja og slit þeirra, sbr. IX. og X. kafla. Ákvæði um afturköllun starfsleyfa eru endurbætt frá gildandi lögum, sbr. XI. kafla. Þá er ákvæðum um eftirlit breytt nokkuð frá því sem tíðkast hefur, sbr. XII. kafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

    Í I. kafla eru sett fram almenn ákvæði. Í kaflanum er gildissvið laganna afmarkað. Þá eru settar fram skilgreiningar á ýmsum hugtökum í kaflanum sem notuð eru í frumvarpinu. Er bæði um að ræða að skilgreiningum er breytt frá gildandi lögum, þær felldar brott og nýjar settar fram sem ekki er að finna í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti.
    

Um 1. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er nýjung, en í núgildandi lögum er gildissvið ekki sérstaklega afmarkað með þeim hætti sem hér er gert. Lögin taka til verðbréfaviðskipta, eins og þau eru skilgreind í 1. tölul. 2. gr., sem stunduð eru af lögaðilum sem fengið hafa sérstakt leyfi til starfsemi sinnar. Kemur fram að verðbréfaviðskipti verða eingöngu stunduð af lögaðilum en ekki einstaklingum svo sem nú er. Nánar er gerð grein fyrir þessu atriði í umfjöllun um II. kafla frumvarpsins.
    Í 2. mgr., sem einnig er nýjung, eru sérstaklega tilgreindir þeir aðilar sem lögin taka ekki til, þó með þeirri undantekningu að IV. kafli um meðferð trúnaðarupplýsinga tekur eðli máls samkvæmt einnig til þeirra sem hér eru taldir upp. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Einstakir töluliðir 2. mgr. skýra sig flestir sjálfir að efni til. Þó skal bent á e-lið 7. tölul. sem undanþiggur fjárfestingarfélög með fastan höfuðstól sem gefa út verðbréf sem skráð eru eða ganga kaupum og sölum á skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Átt er við fjárfestingarfélög skv. 4. mgr. 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins 77/91/EBE. Samkvæmt þeirri tilskipun er átt við félög sem bjóða almenningi áskrift að eigin hlutabréfum og hafa það aðeins að markmiði að fjárfesta fé sitt í ýmsum hlutum og hlutabréfum, landi eða öðrum eignum í þeim tilgangi einum að dreifa fjárfestingaráhættu og veita hluthöfum sínum ágóða af umsýslu sinni með eignir þeirra.
    

Um 2. gr.

    Í þessari grein koma fram skilgreiningar sem stuðst er við í einstökum ákvæðum frumvarpsins. Flestar skilgreiningarnar eru óbreyttar frá gildandi lögum en einstaka skilgreiningu er þó breytt auk þess sem nýjar líta dagsins ljós. Af þeim breytingum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, leiðir m.a. að hugtakið verðbréfamiðlari fellur nú brott, enda er ekki gert ráð fyrir að einstaklingar geti starfað að verðbréfaviðskiptum samkvæmt frumvarpinu. Jafnframt er hugtakið verðbréfamiðlun fellt brott.
    Hugtakið verðbréfaviðskipti er skilgreint í 1. tölul. en þá skilgeiningu er ekki að finna í núgildandi lögum. Er hér um að ræða hvers konar fjárfestingarþjónustu svo sem nánar er skilgreint í 8. og 9. gr. frumvarpsins. Fram kemur í skilgreiningunni að verðbréfaviðskipti verða einungis stunduð af fjárfestingarfyrirtækjum sem hlotið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra. Skilgreiningin tekur mið af innlendum fjárfestingarfyrirtækjum en undan eru skilin erlend fjárfestingarfyrirtæki sem hafa sömu heimildir til starfsemi hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. og ákvæði VIII. kafla frumvarpsins.
    Í 2. tölul. er hugtakið fjárfestingarfyrirtæki skilgreint sem er nýjung í lögum. Er því ætlað að vera samheiti fyrir þær tvær tegundir fyrirtækja sem leyfi geta fengið til fjárfestingarstarfsemi hér á landi, þ.e. verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlunarfyrirtæki. Verðbréfafyrirtæki er sú tegund fjárfestingarfyrirtækja sem hefur rýmri starfsheimildir, sbr. 8. gr. Er þar um að ræða sambærileg fyrirtæki við þau verðbréfafyrirtæki sem nú starfa á verðbréfamarkaði hér á landi. Geta þau veitt hvers konar þjónustu sem frumvarp þetta nær til. Hugtakið verðbréfamiðlunarfyrirtæki er hins vegar nýtt í löggjöf um verðbréfaviðskipti. Það eru fyrirtæki sem hafa mun takmarkaðri starfsheimildir, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Er þeim ætlað að koma í stað þeirra einstaklinga sem nú starfa sem verðbréfamiðlarar og eru starfsheimildir verðbréfamiðlunarfyrirtækja þær sömu og sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlarar hafa samkvæmt gildandi lögum.
    Í 3. tölul. er að finna skilgreiningu á verðbréfum og er hún óbreytt frá núgildandi lögum.
    Í 4. tölul. er skilgreining á hugtakinu fastur rekstrarkostnaður sem er ný í lögum um verðbréfaviðskipti. Hugtakið er tilkomið vegna ákvæða í tilskipun Evrópusambandsins um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana og er nauðsynlegt með tilliti til V. kafla frumvarpsins um eigið fé og eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja en þar er gert ráð fyrir að eigið fé fjárfestingarfyrirtækis sé aldrei lægra en 25% af föstum rekstrarkostnaði fjárfestingarfyrirtækja.
    Hugtakið veltubók í 5. tölul. er einnig nýtt í lögum um verðbréfaviðskipti. Líkt og hugtakið fastur rekstrarkostnaður er þetta hugtak tilkomið vegna tilskipunar Evrópusambandsins um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana. Hugtakið kemur fyrir í V. kafla frumvarpsins um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og var því talið nauðsynlegt að skilgreining á því væri sett fram í frumvarpinu.
    Í 6. tölul. er heimaríki skilgreint í tveimur stafliðum og er skilgreining á því í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Annars vegar er í a-lið fjallað um heimaríki lögaðila en það er ríki þar sem hann hefur skráða skrifstofu eða aðalskrifstofu ef ekki er gert ráð fyrir sérstakri skráningu á skrifstofu í lögum viðkomandi ríkis. Í b-lið er síðan sjónum beint að skipulegum markaði og er þar að finna efnislega sömu reglu og í a-lið.
    Gistiríki er skilgreint í 7. tölul. en þar er um að ræða ríki þar sem fjárfestingarfyrirtæki, sem hlotið hefur leyfi hér á landi, setur upp útibú eða veitir þjónustu á annan hátt. Skilgreining þessi er ný í lögum um verðbréfaviðskipti.
    Í 8. tölul. er hugtakið virkur eignarhluti skilgreint og er það einnig nýmæli í lögum um verðbréfaviðskipti. Hér er hins vegar um sömu skilgreiningu að ræða og kemur fyrir í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði frumvarpsins um virkan eignarhluta eru sett með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.
    Í 9. tölul. er skilgreint hugtakið skipulegur verðbréfamarkaður sem er nýjung í lögum hérlendis. Í núgildandi lögum er notað hugtakið opinber verðbréfamarkaður í 9. tölul. 1. gr. en einnig er í þeim lögum fjallað um annan skipulegan verðbréfamarkað, sbr. t.d. 5. gr. laganna. Hér er lagt til að skipulegur verðbréfamarkaður nái yfir þessi tvö hugtök, þ.e. annars vegar Verðbréfaþing Íslands og hliðstæðar kauphallir erlendis og hins vegar aðra verðbréfamarkaði, svokallaða, sbr. b-lið 7. tölul. frumvarpsins. Skilgreining á öðrum verðbréfamörkuðum breytist hins vegar ekki frá núgildandi lögum. Með c-lið eru síðan felldir undir hugtakið markaðir sem staðsettir eru utan Evrópska efnahagssvæðisins en hafa sömu stöðu í sínu heimaríki og þeir markaðir sem a- og b-liðir ná til. Er gert ráð fyrir að sama regla gildi um þá og í núgildandi lögum, sbr. lokamálslið 5. gr. laganna.
    Hugtakið fjárvarsla í 10. tölul. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Skilgreining frumvarpsins á almennu útboði, sem fram kemur í 11. tölul., er nokkuð breytt frá því sem er samkvæmt gildandi lögum. Breytingin felst í því að hér er gert ráð fyrir að almennt útboð eigi einungis við um sölu nýrra verðbréfa, svonefnda frumsölu, í stað þess sem verið hefur, að öll verðbréf sem boðin hafa verið almenningi til kaups með opinberri auglýsingu eða annarri sambærilegri kynningu hafa verið talin almenn útboð. Reynslan hefur sýnt að núverandi framkvæmd og skilgreining hefur í fjölda tilvika reynst óþarflega íþyngjandi fyrir seljendur áður útgefinna verðbréfa auk þess sem deilt hefur verið um hvort hagsmunir verðbréfamarkaðarins í heild krefðust svo víðtækrar skilgreiningar á almennum útboðum. Hér er lagt til að megináherslan verði lögð á að þeir sem hyggist afla sér nýs fjármagns með sölu verðbréfa til almennings fullnægi tilteknum lágmarkskröfum um upplýsingar til almennings líkt og verið hefur. Nánar verði kveðið á um framkvæmd almennra útboða með reglugerð.
    Skilgreining 12. tölul. á hugtakinu viðskiptavaki er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 13. tölul. er fjallað um sölutryggingu en það hugtak er einnig að finna í núgildandi lögum. Sú breyting er lögð til í frumvarpinu að samningurinn geti einnig náð til annars aðila en útgefanda verðbréfa, enda getur verið að slíkur samningur sé gerður við eiganda verðbréfa sem ekki er útgefandi þeirra.
    

Um II. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um leyfi til verðbréfaviðskipta og kemur hann í stað II. og III. kafla núgildandi laga. Áður hefur þess verið getið að frumvarpið gerir ráð fyrir að verðbréfamiðlun verði ekki stunduð af einstaklingum. Ástæðu þessarar breytingar má rekja til þess að í tilskipun Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta er að vísu gert ráð fyrir að einstaklingum verði mögulegt að starfa áfram. Skilyrðin, sem þarf að uppfylla í því sambandi, eru hins vegar þess háttar að erfitt er að sjá að slíkt sé mögulegt í framkvæmd. Þannig er þar gert ráð fyrir að ávallt verði tveir menn að taka ákvörðun um stefnu fyrirtækisins og skulu þeir vera jafnt settir innan þess. Þessi regla kemur fram í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, en undantekningin frá reglunni er þannig orðuð að finna verði heppilegt fyrirkomulag sem tryggi að sami árangur náist, einkum að því er varðar ráðstafanir til að vernda fjárfesta ef einstaklingur hættir störfum vegna andláts, vanhæfni eða annarra sambærilegra ástæðna. Ekki verður í fljótu bragði séð hvernig unnt á að vera að ná sama árangri að þessu leyti ef um einstakling er að ræða. Öllu mikilvægara er þó að í tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og tilskipun um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana er gert ráð fyrir að einstaklingur þurfi að lúta sömu kröfum um eigið fé og hlutfall eigin fjár og fyrirtæki í sama rekstri. Í framkvæmd þyrfti að meta fjárhagsstöðu viðkomandi einstaklings í heild, en ekki bara þann hluta sem snýr að eiginlegum rekstri hans. Ljóst er að framkvæmd eftirlits yrði erfið ef málum væri svo háttað, sér í lagi ef verðbréfamiðlarar hæfu starfsemi erlendis samhliða verðbréfamiðlun hér á landi. Innan EES tíðkast almennt ekki að veita einstaklingum heimildir til að starfa sjálfstætt með þeim hætti sem gert er hér á landi. Á Norðurlöndum er gerð krafa um að stofnað sé fyrirtæki um reksturinn og sama staða mun vera uppi í öðrum EES-ríkjum að undanskildu Bretlandi, Írlandi, Þýskalandi og Hollandi. Er hér lagt til að fylgt verði þeirri stefnu sem meiri hluti EES-ríkja hefur markað.
    

Um 3. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. er fjárfestingarfyrirtækjum óheimilt að hefja starfsemi nema þau uppfylli skilyrði laganna og hafi fengið starfsleyfi viðskiptaráðherra. Skilyrði fyrir leyfisveitingu eru talin upp í málsgreininni.
    Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. er gert ráð fyrir að fjárfestingarfyrirtæki séu hlutafélög. Þó er gerð sú undantekning að heimilt er að starfrækja verðbréfamiðlunarfyrirtæki sem einkahlutafélög þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 133. gr. laga um einkahlutafélög sem ætla má að tæki einnig til verðbréfamiðlunarfyrirtækja að óbreyttu. Þykir heppilegt að veita verðbréfamiðlunarfyrirtækjum kost á að nýta sér einkahlutafélagsformið enda gerir það sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlurum hægara um vik að aðlaga starfsemi sína breyttri löggjöf. Þá ber einnig að hafa í huga að starfsemi verðbréfamiðlunarfyrirtækja eru þröngar skorður settar í frumvarpinu miðað við verðbréfafyrirtæki og er því talið fært að heimila starfrækslu fyrrnefndu fyrirtækjanna í formi einkahlutafélaga. Lágmarksfjárhæð hlutafjár er ákveðin 65 milljónir króna fyrir verðbréfafyrirtæki skv. 8. gr. frumvarpsins og er það hækkun frá gildandi lögum sem er til komin vegna lágmarkskrafna tilskipunar Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Verðbréfamiðlunarfyrirtæki skv. 9. gr. frumvarpsins, sem leysa eiga verðbréfamiðlara samkvæmt núgildandi lögum af hólmi, eru hins vegar nýmæli. Fram til þessa hafa ekki verið gerðar sérstakar fjárhagskröfur til sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlara. Lágmark hlutafjár í slíkum fjárfestingarfyrirtækjum er ákveðið verulega lægra eða 4,5 milljónir króna í samræmi við tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Er það eðlilegt með tilliti til takmarkaðri starfsheimilda þessara fyrirtækja, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Tekið skal fram að lágmarksfjárhæðir hlutafjár samkvæmt þessum tölulið miðast við það tímamark þegar starfsleyfi er veitt hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki. Loks er gert ráð fyrir þeim nýmælum í 1. mgr. 1. tölul. að fjárfestingarfyrirtæki sé óheimilt að hefja starfsemi fyrr en hlutafé hefur verið greitt að fullu í reiðufé og að allt hlutafé skuli vera greitt áður en fjárfestingarfyrirtæki er skráð í hlutafélagaskrá. Sambærilegt ákvæði er að finna í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og þykir eðlilegt að það eigi einnig við um fjárfestingarfyrirtæki. Hækkun hlutafjár í fjárfestingarfyrirtækjum skal ekki skráð fyrr en hlutafjárauki er að fullu greiddur.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. er fjárfestingarfyrirtækjum, sem eru starfandi við gildistöku laganna og með eigið fé undir lágmarki hlutafjár skv. 1. mgr. 1. tölul., heimilt að halda áfram starfsemi sinni enda þótt þau uppfylli ekki lágmarkskröfur um hlutafé skv. 1. mgr. 1. tölul. Eigið fé þessara fyrirtækja má þó aldrei verða lægra en það er við gildistöku laganna. Sambærilegt ákvæði er í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Með hliðsjón af aðstæðum á verðbréfamarkaði hér á landi á ákvæðið fyrst og fremst við um verðbréfafyrirtæki sem eru starfandi við gildistöku laganna. Jafnframt leiðir af ákvæðum gildandi laga um verðbréfaviðskipti að eigið fé slíkra fyrirtækja getur aldrei farið undir 40 milljónir króna uppreiknað með tilliti til gengis evrópsku mynteiningarinnar ECU frá gildistöku laga nr. 9/1993.
    Með 3. mgr. 1. tölul. er ætlunin fyrst og fremst að koma í veg fyrir að nýir aðilar komist í þá aðstöðu að geta komist inn á sameiginlegan markað Evrópska efnahagssvæðisins með því að nýta sér undanþágu sem veitt er af sérstökum ástæðum án þess að þurfa að fullnægja þeim ströngu kröfum sem frumvarpið setur. Með yfirtöku er átt við að nýir aðilar eignist eða hafi ráðstöfunarrétt yfir svo stórum hlut í viðkomandi fjárfestingarfyrirtæki að það geri þeim kleift að ráða í raun stjórnun þess eða stefnu. Ákvæðið á ekki við um samruna skv. IX. kafla frumvarpsins. Sambærilegt ákvæði er að finna í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. verður fyrirtæki að hafa aðalskrifstofu sína hér á landi. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og er ætlað að koma í veg fyrir að hér á landi séu stofnuð fyrirtæki sem einkum eða eingöngu hyggja á starfsemi í öðrum ríkjum. Með tilkomu sameiginlegs markaðar innan EES á sviði verðbréfaviðskipta er ákvæði sem þetta nauðsynlegt til að fyrirtæki afli sér leyfis í því ríki þar sem það hyggst hafa sína starfsemi. Ljóst er að einhver mismunur verður ávallt á framkvæmd milli einstakra ríkja við leyfisveitingar eða eftirlit með starfsemi fjárfestingarfyrirtækja. Einstökum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að gera strangari kröfur til þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru í viðkomandi ríki en krafa er gerð um samkvæmt tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Ákvæðið á þannig að koma í veg fyrir að fyrirtæki séu stofnuð í þeim ríkjum þar sem eftirlit er minna eða vægari kröfur gerðar í því skyni að komast inn á markað í ríki þar sem eftirlit er skilvirkara eða kröfur meiri.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er fjallað um fjölda stjórnarmanna og hæfi þeirra. Stjórnarmenn verðbréfafyrirtækja skulu vera þrír eins og í núgildandi lögum. Í verðbréfamiðlunarfyrirtækjum nægir að stjórnarmenn séu tveir. Í ákvæðinu eru sett fram ítarlegri almenn hæfisskilyrði en gert er samkvæmt gildandi lögum. Er ákvæðið efnislega í samræmi við hæfisskilyrði um stjórnarmenn hlutafélaga og einkahlutafélaga samkvæmt gildandi lögum. Þykir eðlilegt að samræmis sé gætt auk þess sem einnig verður að telja þau hæfisskilyrði sem hér eru sett fram eðlileg um stjórnendur fyrrtækja á fjármálamarkaði.
    Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. er gerð sú krafa til framkvæmdastjóra að hann fullnægi sömu skilyrðum og nefnd eru í 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. Jafnframt er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis uppfylli kröfur um þekkingu á verðbréfaviðskiptum sem settar verða með reglugerð. Orðalagi er í þessu sambandi nokkuð breytt frá því sem er í gildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækis hafi sótt námskeið og lokið prófi samkvæmt reglugerð. Orðalagsbreytingin er í sjálfu sér ekki vísbending um að slakað verði á kröfum til þessara aðila frá því sem nú er heldur þótti heppilegt að auka svigrúm til breytingar á fyrirkomulagi með því að orðalag töluliðarins yrði almennara.
    5. og 6. tölul. eru óbreyttir frá núgildandi lögum og þarfnast ekki skýringar.
    Í 2. mgr. koma fram þau gögn sem eiga að fylgja umsókn um starfsleyfi. Er ákvæðið töluvert ítarlegra en í núgildandi lögum.
    1. tölul. 2. mgr. er óbreyttur frá því sem kveðið er á um í núgildandi lögum.
    Í 2. tölul. 2. mgr. er gerð krafa um að lögð verði fram starfsáætlun þar sem m.a. komi fram upplýsingar um eðli starfseminnar og skipulag fyrirtækisins. Er þetta í samræmi við kröfur tilskipunar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Ákvæðið er eðlilegt með tilliti til þess að frumvarpið gerir ráð fyrir tveimur tegundum fjárfestingarfyrirtækja og einnig að verðbréfafyrirtæki geti, innan tiltekinna marka, ákveðið að stunda einungis hluta þeirrar starfsemi sem þeim er heimilt.
    Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. ber að leggja fram upplýsingar um stofnendur fyrirtækisins, hluthafa og aðra þá sem hafa yfir að ráða virkum eignarhlut í fyrirtækinu og hversu stór hlutur hvers þeirra er. Upplýsingar um stærð hlutar á aðeins við um þá sem ráða yfir virkum eignarhlut, en ekki stofnendur. Ákvæðið er eðlilegt með tilliti til til að mynda ákvæða um virkan eignarhlut, sbr. 12.–14. gr. frumvarpsins.
    Krafa 4. tölul. 2. mgr. um staðfestingu á fjárhæð innborgaðs hlutafjár er einnig til staðar í núgildandi lögum.
    Samkvæmt 5. tölul. 2. mgr. er ráðherra heimilt að ákveða að frekari upplýsingar skuli lagðar fram. Samsvarandi heimild er í núgildandi lögum.
    Í 3. mgr. er óbreytt ákvæði um að leita skuli umsagnar bankaeftirlits áður en ákvörðun er tekin um leyfisveitingu eða synjun umsóknar. Er ákvæðið að því leyti í samræmi við gildandi lög. Hins vegar gerir ákvæðið ráð fyrir þeirri nýjung að leita skuli umsagnar viðkomandi yfirvalda í öðrum ríkjum ef fyrirtækið, sem sótt er um leyfi fyrir, er tengt erlendu fjárfestingarfyrirtæki eða lánastofnun með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og er dæmi um samráð sem gert er ráð fyrir milli yfirvalda einstakra ríkja samkvæmt þeirri tilskipun og öðrum tilskipunum sem í gildi eru innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Um 4. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    Ákvæði 1. tölul. 2. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum. Hins vegar er 2. tölul. ákvæðisins nýmæli og í samræmi við sambærileg ákvæði í tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta þar sem lögð er áhersla á að hluthafar, einkum þeir sem fara með virkan eignarhlut í fjárfestingarfyrirtækjum, séu þeim kostum búnir að tryggt sé að starfsemi fyrirtækjanna fari fram með eðlilegum hætti í samræmi við lög og reglur og hagsmuni verðbréfamarkaðarins almennt. Sambærileg ákvæði er að finna í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

Um 5. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 6. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og er ekki að finna í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Skv. 1. mgr. er skýrt kveðið á um rétt fjárfestingarfyrirtækja til að hefja starfsemi jafnskjótt og starfsleyfi hefur verið veitt. Samkvæmt þessu væri t.d. óheimilt að fresta gildistöku starfsleyfis. Þá skal tekið fram í starfsleyfi til hvaða þjónustu skv. 8. gr. frumvarpsins leyfið taki. Í þessu felst að hugsanlegt er að verðbréfafyrirtæki ákveði að stunda eingöngu tiltekna þætti þeirrar starfsemi sem því er heimil samkvæmt frumvarpinu. Þetta á eingöngu við um verðbréfafyrirtæki samkvæmt orðalagi greinarinnar og jafnframt einungis um þá þætti sem falla undir 1. tölul. 8. gr. frumvarpsins en þar kemur fram sú þjónusta sem verðbréfafyrirtækjum er heimilt að veita. Loks er sérstaklega tekið fram að leyfi verði ekki veitt til að veita þjónustu skv. 3. tölul. 8. gr. eingöngu. Er það í samræmi við skýr ákvæði tilskipunar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.
    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við heimild í tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Starfsleyfi fellur sjálfkrafa niður í þeim tilvikum sem um getur í ákvæðinu og þarf ekki að koma til formlegrar afturköllunar starfsleyfis skv. XI. kafla frumvarpsins. Þykir eðlilegt að ákvæði af þessu tagi sé sett enda nauðsynlegt að á hverjum tíma sé tryggt að öruggar upplýsingar liggi fyrir um þá leyfishafa sem raunverulega starfa á verðbréfamarkaði. Jafnframt væri óeðlilegt að aðilar gætu geymt starfsleyfi ótímabundið og hafið síðar starfsemi á grundvelli þess, jafnvel þegar langt er um liðið frá leyfisveitingu og óvíst hvort leyfishafi uppfylli í raun kröfur sem þá eru gerðar til leyfishafa.
    

Um III. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um réttindi og skyldur fjárfestingarfyrirtækja að því er varðar samskipti þeirra við yfirvöld annars vegar og viðskiptavini sína hins vegar. Nokkur ákvæði kaflans fela í sér nýmæli í íslenskum lögum. Er kaflinn talsvert ítarlegri og skýrari um þessi efni en sambærilegur kafli núgildandi laga.
    

Um 7. gr.

    Hér kemur fram sambærileg regla þeirri sem nú er í 10. gr. laga nr. 9/1993 um einkaheimild og jafnframt skyldu fjárfestingarfyrirtækja til að geta þess í firma sínu eða á annan hátt hvers konar fyrirtæki þar er um að ræða. Ákvæðið er afdráttarlausara um rétt og skyldu fjárfestingarfyrirtækja en ákvæði núgildandi laga. Því er ætlað að draga úr hættu á ruglingi milli fjárfestingarfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem starfa kunna á fjármálamarkaði eða á öðrum sviðum. Þetta verður nú enn mikilvægara þar sem gert er ráð fyrir tveimur tegundum fjárfestingarfyrirtækja með mismunandi starfsheimildir og er mikilvægt að fram komi um hvora tegundina er að ræða, verðbréfafyrirtæki eða verðbréfamiðlunarfyrirtæki. Einnig er með ákvæðinu spornað gegn því að aðilar, sem ekki hafa starfsleyfi, villi á sér heimildir. Þrátt fyrir reglu 7. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að erlend fjárfestingarfyrirtæki geti notað sama heiti hér á landi og þau nota í heimaríki sínu, sbr. 45. gr. frumvarpsins.
    

Um 8. gr.

    Hér koma fram starfsheimildir verðbréfafyrirtækja samkvæmt frumvarpinu. Framsetning er önnur og ítarlegri en í núgildandi lögum. Er hún í samræmi við framsetningu tilskipunar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Starfsheimildir eru engu að síður í öllum meginatriðum sambærilegar við starfsheimildir verðbréfafyrirtækja samkvæmt gildandi lögum um verðbréfaviðskipti. Framsetning starfsheimilda er þríþætt skv. 8. gr. frumvarpsins. Í 1. tölul. er tiltekin sú þjónusta sem verðbréfafyrirtækjum er heimilt að veita. Í 2. tölul. er að finna þau skjöl sem þjónusta skv. 1. tölul. verður að tengjast. Er þar um að ræða verðbréf eins og þau eru skilgreind í 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins sem tekur yfir þau skjöl sem um getur í þætti B í viðauka við tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Þriðji þáttur í starfsheimildum verðbréfafyrirtækja kemur svo fram í 3. tölul. 8. gr. Þar er um að ræða svonefnda viðbótarþjónustu, tengda skjölum skv. 2. tölul. Í 1. og 2. tölul. 8. gr. er meginstarfssvið verðbréfafyrirtækja afmarkað. Verðbréfafyrirtæki geta ákveðið að veita einungis tiltekna þætti þeirrar þjónustu sem kveðið er á um í 1. tölul. og jafnvel með einungis tiltekin verðbréf skv. 2. tölul. Þá geta þau ákveðið að veita ekki þjónustu skv. 3. tölul. Hins vegar er verðbréfafyrirtækjum ekki heimilt að veita einungis þjónustu skv. 3. tölul. 8. gr. og starfsleyfi verður ekki veitt í slíkum tilvikum.
    

Um 9. gr.

    Í 9. gr. koma fram starfsheimildir verðbréfamiðlunarfyrirtækja samkvæmt frumvarpinu. Verðbréfamiðlunarfyrirtækjum er ætlað að koma í stað einstaklinga sem hafa verðbréfamiðlunarleyfi samkvæmt gildandi lögum og frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að einstaklingar geti stundað verðbréfaviðskipti. Starfsheimildir verðbréfamiðlunarfyrirtækja eru þær sömu og verðbréfamiðlurum eru veittar samkvæmt gildandi lögum eins og sést á orðalagi 1. málsl. 9. gr. frumvarpsins sem er það sama og í skilgreiningu hugtaksins verðbréfamiðlun samkvæmt gildandi lögum. Starfsheimildir verðbréfamiðlunarfyrirtækja, eins og þær eru settar fram hér, eru einnig í samræmi við ákvæði tilskipunar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta um fyrirtæki af því tagi sem greinin gerir ráð fyrir. Í 2. málsl. 9. gr. er hins vegar skýrar kveðið á um það en gert er í gildandi lögum að ekki er til þess ætlast að verðbréfamiðlunarfyrirtæki taki fjármuni til vörslu nema um skamman tíma enda sé það nauðsynlegt til að ljúka viðskiptum sem verðbréfamiðlunarfyrirtæki annast milligöngu um.
    

Um 10. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um verðbréfaviðskipti.
    

Um 11. gr.

    Greinin er óbreytt frá samsvarandi ákvæði gildandi laga.
    

Um 12.–14. gr.

    Í greinunum er fjallað sérstaklega um svonefndan virkan eignarhlut í fjárfestingarfyrirtækjum en virkur eignarhlutur er skilgreindur í 2. gr. frumvarpsins. Ákvæði frumvarpsins um virkan eignarhlut eru í samræmi við tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Samsvarandi ákvæði er einnig að finna í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði en eðlilegt þykir að sömu reglur gildi um fjárfestingarfyrirtæki samkvæmt frumvarpinu.
    

Um 15. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum.
    

Um 16. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    Ákvæði 2. mgr. er tilkomið vegna ákvæða í tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Innan Evrópusambandsins er nú unnið að samræmdri tilskipun um vernd fjárfesta. Óvíst er hvenær þeirri vinnu verður lokið eða með hvaða hætti verður tekið á þessum atriðum í umræddri tilskipun. Engu að síður er gert ráð fyrir því í tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta að einhvers konar bótakerfi kunni nú þegar að vera fyrir hendi innan einstakra ríkja Evrópusambandsins og er því gert ráð fyrir að fjárfestar séu upplýstir um tilvist þeirra. Hér á landi er fyrir hendi reglugerð um tryggingarskyldu verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja sem þetta ákvæði á við um og ber því að upplýsa viðskiptavini fjárfestingarfyrirtækja um tilvist og efni hennar. Nægilegt er að reglugerðin sé aðgengileg viðskiptamönnum á starfsstöð fyrirtækis og þeim bent á að hún sé til staðar.
    

Um 17. gr.

    Ákvæði 17. gr. frumvarpsins er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 18. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 19. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 20. gr.

    Í 1. mgr. er vikið að almennu útboði verðbréfa. Ákvæðinu er breytt lítillega frá sambærilegu ákvæði gildandi laga. Áfram er gert ráð fyrir þeirri meginreglu, sem gilt hefur, að almennt útboð fari fram fyrir milligöngu fjárfestingarfyrirtækja skv. 8. gr. frumvarpsins, þ.e. verðbréfafyrirtækja. Hins vegar er nú sérstaklega tekið fram að almennt útboð geti einnig farið fram fyrir milligöngu annarra aðila sem til þess hafi heimild í lögum. Er þessi breyting fyrst og fremst tilkomin vegna þeirra breytinga á starfsheimildum viðskiptabanka og sparisjóða sem orðið hafa með gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Einnig skal bent á að heimildir til að annast almennt útboð verðbréfa eru ekki bundnar við þá innlendu aðila sem um ræðir heldur hafa erlendir aðilar sem heimild hafa til að stunda starfsemi hér á landi samkvæmt frumvarpinu eða lögum um viðskiptabanka og sparisjóði einnig heimild til að annast almennt útboð hér á landi, enda sé þeim heimilt að annast slíka þjónustu í heimaríki sínu.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 21. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 22. gr.

    Í 1. mgr. er óbreytt ákvæði frá gildandi lögum um heimildir fjárfestingarfyrirtækja til að veita lán og ganga í ábyrgðir að öðru leyti en því að ekki er lengur gert ráð fyrir að settar verði sérstakar verklagsreglur innan fjárfestingarfyrirtækisins um þessi efni sem staðfestar séu af bankaeftirlitinu. Krafa um slíkar verklagsreglur þykir ekki nauðsynleg lengur með tilliti til ákvæðis 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli í löggjöf um verðbréfaviðskipti. Í tilskipun Evrópusambandsins um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana, sem á við um fjárfestingarfyrirtæki samkvæmt frumvarpi þessu, kemur fram að nauðsynlegt sé að samþykkja sameiginlegar reglur um eftirlit með stórum áhættum fjárfestingarfyrirtækja og er í því sambandi vísað til tilskipunar Evrópusambandsins 92/121/EBE um stórar áhættur. Ákvæði 2. mgr. þessarar greinar frumvarpsins eru sambærileg við ákvæði um þessi efni í gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, enda þykir eðlilegt að samsvarandi reglur gildi um þessar stofnanir í þessu sambandi. Ákvæðið gerir ráð fyrir að settar verði sérstakar reglur um hámark lána og ábyrgða sem fjárfestingarfyrirtæki veita. Við setningu slíkra reglna verður tekið mið af sambærilegum reglum sem settar hafa verið á grundvelli laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

Um 23. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 24. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um IV. kafla.

    Ákvæði frumvarpsins um meðferð trúnaðarupplýsinga, sem fram koma í IV. kafla þess, eru að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum. Orðalagi er breytt frá gildandi lögum í 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins þar sem notað er hugtakið „skipulegur verðbréfamarkaður“ í stað hugtaksins „opinber verðbréfamarkaður“. Þá kemur nýtt ákvæði fram í 29. gr. frumvarpsins um það sem kallast á ensku „market manipulation“.
    

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er gerð sú orðalagsbreyting frá gildandi lögum að í stað hugtaksins „opinber verðbréfamarkaður“ kemur hugtakið „skipulegur verðbréfamarkaður“. Er þessi breyting eðlileg með tilliti til sambærilegrar breytingar á hugtakanotkun sem fram kemur í 2. gr. frumvarpsins. Ekki er stefnt að efnislegri breytingu frá gildandi lögum með breytingunni.
    Ákvæði 2. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 26.–28. gr.

    Greinarnar eru óbreyttar frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 29. gr.

    Greinin er nýmæli í íslenskri löggjöf á verðbréfasviði. Ákvæðinu er ætlað að sporna gegn því að reynt sé að hafa áhrif á viðskipti eða verðmyndun í viðskiptum með verðbréf. Slíkt hefur verið kallað á ensku „market manipulation“. Almennt felst í því hugtaki að verðbréf eru keypt eða seld í því skyni að gefa villandi upplýsingar á verðbréfamarkaði um viðskipti með tiltekin verðbréf, hafa áhrif á verðmyndun verðbréfa og jafnvel leiða aðra til viðskipta með verðbréfin. Í slíkum tilvikum eiga viðskiptin með verðbréfin sér í raun enga stoð í aðstæðum á verðbréfamarkaði á þeim tíma. Þykir eðlilegt og nauðsynlegt að í lögum sé kveðið á um bann við viðskiptaháttum af þessu tagi.
    

Um 30. gr.

    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um V. kafla.

    Í kaflanum, sem er tvær greinar, er fjallað um eigið fé og eiginfjárhlutfall fjárfestingarfyrirtækja, hvaða liðir teljist til eigin fjár og um frádrátt frá eigin fé á eignarhlutum í öðrum félögum og víkjandi lánum til annarra félaga. Kaflinn er að mestu leyti efnislega samhljóða VI. kafla um laust fé og eigið fé í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

Um 31. gr.

    Í gildandi lögum um verðbréfafyrirtæki er kveðið á um að innborgað hlutafé verðbréfafyrirtækis þegar það fær starfsleyfi skuli vera 40 milljónir króna og að eigið fé skuli aldrei nema lægri fjárhæð. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um eiginfjárhlutfall verðbréfafyrirtækis.
    Sem fyrr segir tekur tilskipun ráðsins 93/6/EBE um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana til viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana hér á landi. Í samræmi við hana þarf að breyta ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði og laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og eru frumvörp þar að lútandi lögð fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi.
    Í stuttu máli er megintilgangur tilskipunar 93/6/EBE sá að tryggja að eiginfjárhlutfall fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana endurspegli ýmiss konar áhættu sem sérhvert fyrirtæki tekur á sig vegna markaðsáhættu verðbréfa og gengisáhættu. Þá er í tilskipuninni kveðið á um lágmarksstofnfé fjárfestingarfyrirtækja. Einnig er þar að finna ákvæði er lúta að hámarki lána og ábyrgða til einstakra viðskiptavina eða fjárhagslega tengdra viðskiptavina og ákvæði er lúta að eftirliti á samstæðugrundvelli og koma þau til viðbótar ákvæðum sérstakra tilskipana um þessi atriði (tilskipanir ráðsins 92/121/EBE og 92/30/EBE).
    Auk meginmáls eru sex viðaukar í tilskipun 93/6/EBE þar sem nánar er fjallað um mismunandi áhættu og þá eiginfjárkröfu sem gerð er í hverju tilviki:
         
I.
    viðauki: Stöðuáhætta.
         
II.
    viðauki: Uppgjörsáhætta og mótaðilaáhætta.
         
III.
    viðauki: Gengisáhætta.
         
IV.
    viðauki: Önnur áhætta.
         
V.
    viðauki: Eigið fé.
         
VI.
    viðauki: Stór áhætta.
    Grundvallarhugmyndin í eiginfjárreglunum í tilskipuninni er að greint sé á milli áhættutegunda fyrir hverja einustu skuldbindingu í svokallaðri veltubók (í henni eru verðbréf sem keypt eru til að hagnast á markaðssveiflum) og eiginfjárkrafa reiknuð út fyrir sérhverja áhættutegund. Heildareiginfjárkrafa vegna sérhverrar skuldbindingar er svo fundin út með því að leggja saman eiginfjárkröfu vegna hverrar áhættutegundar. Rétt er að benda á að þær eiginfjárreglur lánastofnana, sem í gildi eru hér á landi og í öðrum iðnríkjum (Basle-reglurnar), endurspegla einungis þá áhættu sem felst í því hver útgefandi skuldbindingar er.
    Orðalag þessarar greinar frumvarpsins er fengið úr 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði að teknu tilliti til þeirra breytinga sem lagðar eru til á þeirri grein í frumvarpi um breytingu á fyrrgreindum lögum sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Eins og þegar hefur komið fram munu í framtíðinni gilda nákvæmlega sömu reglur um eiginfjárhlutfall fjárfestingarfyrirtækja og viðskiptabanka og sparisjóða.
    Mikilvægasta breytingin frá gildandi eiginfjárreglum lánastofnana er sú að fjárfestingarfyrirtækjum, viðskiptabönkum og sparisjóðum verður heimilt að telja nýjan lið, eiginfjárþátt C, til eigin fjár. Hér er um að ræða víkjandi lán sem tekin eru til minnst tveggja ára. Ýmis skilyrði gilda um þennan eiginfjárþátt og eru þau talin upp í ákvæðinu.
    Varðandi eiginfjárþátt B er í 4. mgr. lagt til að kveðið verði á um að sé um að ræða víkjandi lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skuli reikna hvern afborgunarhluta lánsins niður á sambærilegan hátt. Samkvæmt þessu ákvæði er gert ráð fyrir að t.d. afborgunarhluti, sem á fjögur ár eftir til gjalddaga, reiknist niður um 20% og afborgunarhluti, sem á eftir eitt ár til gjalddaga, reiknist niður um samtals 80% o.s.frv. Lán með jöfnum afborgunum, sem á fimm ár eftir til síðasta gjalddaga, mundi þannig reiknast niður um samtals 40%.
    Ólíkt því sem gildir um viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir er sett það skilyrði í 7. mgr. að eigið fé fjárfestingarfyrirtækis megi aldrei nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði næstliðins reikningsárs. Er þetta í samræmi við ákvæði tilskipunar 93/6/EBE. Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram að með föstum rekstrarkostnaði er átt við laun og launatengd gjöld, annan reglulegan kostnað af starfsmannahaldi, húsaleigu, lögboðnar vátryggingar, kostnað af bókhalds- og tölvuvinnslu, aðildargjöld að Verðbréfaþingi Íslands og afskriftir. Rétt er að vekja athygli á því að eigið fé fjárfestingarfyrirtækis má ekki fara undir þá fjárhæð sem hærri er af þessum tveimur: viðmiðunarfjárhæð innborgaðs hlutafjár skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. (eða eigin fjár við gildistöku laganna ef fyrirtækið er starfandi þann dag) eða 25% af föstum rekstrarkostnaði. Auk þess verður eiginfjárhlutfall þess að vera hærra en 8%.
    

Um 32. gr.

    Ákvæði greinarinnar samsvara ákvæðum 55. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Rétt er að vekja athygli á því að skv. 23. gr. frumvarpsins má fjárfestingarfyrirtæki því aðeins vera meðeigandi eða þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi að slík þátttaka sé í eðlilegum tengslum við starfsemi fjárfestingarfyrirtækisins og hafi ekki áhrif á óhlutdrægni þess. Það er því frádráttur á eignarhlutum af því tagi og víkjandi lán til slíkra félaga sem kveðið er á um í þessari grein frumvarpsins.
    

Um VI. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um ársreikninga og endurskoðun fjárfestingarfyrirtækja. Um orðalag var að hluta tekið tillit til nýrra laga um ársreikninga. Ákvæði kaflans eru að mestu efnislega óbreytt frá ákvæðum gildandi laga um verðbréfaviðskipti. Þó er bætt við ákvæðum sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja auk þess sem bankaeftirlitinu er veitt heimild til að láta framkvæma sérstaka endurskoðun hjá fjárfestingarfyrirtækjum.
    

Um 33. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.
    

Um 34. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að felldur er út áskilnaður um að endurskoðun skuli framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Er slíkur áskilnaður óþarfur í þessu ákvæði með hliðsjón af ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Um 35.–36. gr.

    Ákvæði þessi eru efnislega óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 37. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli í lögum um verðbréfaviðskipti. Sambærilegt ákvæði er að finna í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og þykir eðlilegt að samsvarandi ákvæði gildi í verðbréfaviðskiptum.
    Samkvæmt 1. mgr. er stjórn og framkvæmdastjóra fjárfestingarfyrirtækis lögð sú skylda á herðar að tilkynna bankaeftirlitinu hafi þessir aðilar ástæðu til að ætla að eigið fé fjárfestingarfyrirtækis sé undir lágmarki því sem kveðið er á um í 31. gr. frumvarpsins. Sambærileg skylda hvílir á endurskoðendum fjárfestingarfyrirtækja en hún verður þó aðeins virk hafi endurskoðendur ástæðu til að ætla að stjórnendur fjárfestingarfyrirtækis hafi ekki gegnt upplýsingaskyldu sinni.
    Ákvæði 2.–4. mgr. mæla fyrir um viðbrögð og málsmeðferð bankaeftirlitsins og viðskiptaráðherra berist tilkynning skv. 1. mgr. Ákvæðin eru efnislega sambærileg samsvarandi ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði og skýra sig sjálf.
    

Um 38. gr.

    Ákvæðið er nýmæli í lögum um verðbréfaviðskipti en sams konar ákvæði er að finna í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og þykir eðlilegt að sama regla gildi um fjárfestingarfyrirtæki. Nauðsynlegt getur verið í einstökum tilvikum að eftirlitsaðili hafi heimild til að láta framkvæma sérstaka endurskoðun hjá fyrirtækjunum og jafnframt að heimild sé til að láta fyrirtækið sjálft bera kostnað af slíkri endurskoðun. Heimild þessari yrði þó almennt ekki beitt nema sérstakar ástæður væru til þess.
    

Um VII. kafla.

    Í kaflanum koma fram ákvæði um starfsemi íslenskra fjárfestingarfyrirtækja erlendis. Ákvæðin eru ítarlegri en ákvæði gildandi laga um verðbréfaviðskipti. Fram til gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta var ekki fyrir að fara samræmdum reglum um þessi efni innan Evrópska efnahagssvæðisins. Úr þessu hefur nú verið bætt og taka ákvæði þessa kafla mið af reglum þessarar tilskipunar. Ákvæði kaflans eiga sér hliðstæðu í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Einstakar greinar kaflans skýra sig sjálfar að efni til og þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um VIII. kafla.

    Í VIII. kafla er fjallað um heimildir erlendra fjárfestingarfyrirtækja til að starfa hér á landi. Ákvæði kaflans eru ítarlegri en ákvæði gildandi laga um sama efni. Þessi kafli frumvarpsins byggir á meginreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa og málsmeðferð í þeim tilvikum sem um ræðir. Einstök ákvæði kaflans skýra sig efnislega sjálf og þarfnast ekki frekari skýringa.
    

Um IX. kafla.

    Ákvæði IX. kafla eru nýmæli í lögum um verðbréfaviðskipti en sérstök ákvæði um samruna verðbréfafyrirtækja er ekki að finna í gildandi lögum. Almenna reglan um samruna er því óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. að um hann fari samkvæmt lögum um hlutafélög. Rétt þótti engu að síður að hafa sérstakan kafla um þessi efni í frumvarpinu. Greinar IX. kafla skýra sig sjálfar að efni til og þarfnast ekki skýringa.
    

Um X. kafla.

    Í X. kafla er fjallað um slit fjárfestingarfyrirtækja. Kaflinn er nýmæli í löggjöf um verðbréfaviðskipti. Einstök ákvæði kaflans skýra sig sjálf að efni til og þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    

Um XI. kafla.

    Hér er fjallað um afturköllun starfsleyfa fjárfestingarfyrirtækja. Ákvæði kaflans eru í ýmsum atriðum samræmd tilskipun Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og nokkuð ítarlegri en ákvæði í sambærilegum kafla gildandi laga.
    

Um 50. gr.

    Í 1. mgr. koma fram þau tilvik þar sem ráðherra er skylt að afturkalla starfsleyfi fjárfestingarfyrirtækja. Ákvæðið er ítarlegra en er samkvæmt núgildandi lögum og leiðir það af þeim auknu kröfum sem gerðar eru til fjárfestingarfyrirtækja í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana. Á þetta við um 1., 2. og 4. tölul. ákvæðisins. 3. og 5. tölul. eru óbreyttir frá gildandi lögum. Þá er einnig gert ráð fyrir því nýmæli að til afturköllunar komi að fengnum tillögum bankaeftirlitsins. Það er því meginreglan að frumkvæði að afturköllun komi frá eftirlitsaðila sem telja verður eðlilegt þar sem ætla má að eftirlitsaðili sé best til þess fallinn að hafa yfirsýn yfir starfsemi og starfshætti fjárfestingarfyrirtækja á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi er einnig betur tryggt að fagleg sjónarmið ráði ferðinni í tilvikum sem þessum.
    Ákvæði 2. mgr. skýrir sig sjálft en eðlilegt þykir að veita fjárfestingarfyrirtæki hæfilegan frest til úrbóta áður en gripið er til afturköllunar starfsleyfis. Frestur skal veittur sé þess kostur en eðli máls samkvæmt geta aðstæður fjárfestingarfyrirtækis verið með þeim hætti að ekki sé líklegt að frestur komi að haldi eða að til að mynda brot í starfsemi fjárfestingarfyrirtækisins séu það alvarlegs eðlis að óverjandi sé að veita frest samkvæmt ákvæðinu.
    

Um 51. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 52. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um XII. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um eftirlit með starfsemi fjárfestingarfyrirtækja. Efnistök eru nokkuð önnur en samkvæmt gildandi lögum og er með því ætlunin að kveða skýrar á um eftirlit með starfsemi sem frumvarpið tekur til en gert hefur verið, um það til hverra eftirlitið tekur. Er þetta nauðsynlegt með hliðsjón af tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta og að fenginni reynslu við framkvæmd eftirlits.
    

Um 53. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram meginákvæði frumvarpsins um eftirlit bankaeftirlitsins með starfsemi samkvæmt frumvarpinu. Ákvæðið er nokkuð breytt frá sambærilegu ákvæði gildandi laga. Skv. 1. málsl. þess er bankaeftirlitinu skýrlega falið eftirlit með starfsemi fjárfestingarfyrirtækja hér á landi og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða innlend fjárfestingarfyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra eða erlend fjárfestingarfyrirtæki sem starfa hér á landi. Frá þessu er þó gerð sú undantekning að annað kunni að leiða af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Er sú undantekning eðlileg og nauðsynleg m.a. með tilliti til tilskipana innan Evrópusambandsins og þess að í einstökum tilskipunum, þar á meðal tilskipun um fjárfestingarþjónustu, er gengið út frá tiltekinni verkaskiptingu milli heimaríkis og gistiríkis við framkvæmd eftirlits og heimildum yfirvalda gistiríkis til að krefjast upplýsinga af fjárfestingarfyrirtækjum, enda þótt almenna reglan sé sú að heimaríki sé falið eftirlit með fjárfestingarfyrirtækjum frá viðkomandi ríki.
    Þá skal sérstaklega bent á lokamálslið 1. mgr. sem er nýmæli. Þar er kveðið beint á um heimildir bankaeftirlitsins gagnvart aðilum sem ekki teljast fjárfestingarfyrirtæki í skilningi frumvarpsins en ástæða er talin til að ætla að stundi starfsemi sem frumvarpið tekur til, án tilskilinna leyfa. Þykir eðlilegt og nauðsynlegt, m.a. að fenginni reynslu, að kveða með skýrum hætti á um heimildir bankaeftirlitsins í þessum tilvikum.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 54. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli í löggjöf um verðbréfaviðskipti og kemur til viðbótar ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands og reglugerðar fyrir Seðlabanka Íslands um upplýsingaskipti. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem mæla fyrir um samráð eftirlitsaðila ríkja, t.d. varðandi leyfisveitingar, eftirlit og aðgerðir vegna meintra brota gegn gildandi reglum á þessu sviði. Þótti eðlilegt að styrkja heimildir bankaeftirlitsins í þessu sambandi með því að kveða beint á um þessi efni í frumvarpinu til viðbótar ákvæðum laga og reglugerðar um Seðlabanka Íslands sem áður er vitnað til.

Um XIII. kafla.

    Almenn ákvæði um efnisatriði XIII. kafla er nú að finna í X. kafla laga nr. 9/1993. Ákvæði XIII. kafla frumvarpsins eru mun ítarlegri en samkvæmt gildandi lögum að því er varðar starfsemi innlendra fjárfestingarfyrirtækja erlendis og erlendra fjárfestingarfyrirtækja hér á landi, sbr. VII. og VIII. kafla frumvarpsins.
    

Um 55. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og gerir ráð fyrir að bankaeftirlitið haldi sérstaka skrá yfir fjárfestingarfyrirtæki með sambærilegum hætti og nú er gert um verðbréfasjóði. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 56. gr.

    Í þessari grein er að finna almennt ákvæði um þagnarskyldu, sambærilegt við það sem kveðið er á um í gildandi lögum. Ákvæði frumvarpsins eru þó nákvæmar orðuð en verið hefur til þessa. Þannig er nú sérstaklega kveðið á um þagnarskyldu eigenda fjárfestingarfyrirtækja og endurskoðenda þeirra sem ekki er gert í gildandi lögum. Þótti eðlilegt að þessara aðila væri sérstaklega getið enda augljóst að aðstaða þeirra, einkum eigenda fjárfestingarfyrirtækja, er slík að þeir hafa aðgang að upplýsingum sem þagnarskylda gildir um samkvæmt almennum reglum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
    

Um 57. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um 58. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um XIV. kafla.

    Mælt er fyrir um viðurlög við brotum gegn lögunum í XIV. kafla frumvarpsins, 59. gr. Kaflinn er óbreyttur frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
    

Um XV. kafla.

    Í þessum kafla er mælt fyrir um gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 1996. Er það í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta en samkvæmt henni skyldu aðildarríki Evrópusambandsins hafa lögtekið efni hennar eigi síðar en 1. júlí 1995 og taki lögin gildi eigi síðar en 31. desember 1995. Að öðru leyti þarfnast ákvæði kaflans ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Hér er mælt fyrir um að starfandi verðbréfafyrirtæki við gildistöku laganna tilkynni viðskiptaráðherra hvaða þjónustu sem þeim er heimilt að veita skv. 8. gr. frumvarpsins þau hyggist veita. Ákvæðið er eðlilegt með hliðsjón af 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 6. gr. frumvarpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Ákvæði þetta veitir einstaklingum, sem hlotið hafa leyfi viðskiptaráðherra til verðbréfamiðlunar samkvæmt eldri lögum, aðlögunarfrest að breyttri löggjöf. Aðlögunarfrestur samkvæmt ákvæðinu er bundinn við þá sem stundað hafa starfsemi á grundvelli slíks leyfis. Sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlarar sem hyggjast nýta sér aðlögunarfrest samkvæmt ákvæðinu verða því að sýna fram á að þeir hafi sannanlega starfað á grundvelli verðbréfamiðlunarleyfis fyrir gildistöku laganna. Að öðrum kosti geta þeir ekki nýtt sér frest samkvæmt ákvæðinu. Aðlögunarfrestur samkvæmt ákvæðinu á sér stoð í tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti.

    Frumvarp þetta er þáttur í aðlögun íslensks réttar að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er það lagt fram samhliða fjórum öðrum frumvörpum um peningastofnanir og verðbréfaviðskipti. Verði það að lögum falla lög nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti, úr gildi. Að stofni til eru nýju lögin því ekki ólík gildandi lögum, en heppilegra þótti að setja þau fram upp á nýtt en sem röð breytinga á gildandi löggjöf.
    Í frumvarpinu eru ýmsar nýjungar í samræmi við þróun löggjafar á Evrópska efnahagssvæðinu, auk þess sem nokkrum ákvæðum er breytt á grundvelli reynslunnar af lögunum um verðbréfaviðskipti frá 1993. Ekki verður séð að nein af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu geti valdið beinum viðbótarkostnaði fyrir ríkissjóð. Hins vegar er eftirlitsskylda bankaeftirlitsins gerð skýrari (sjá m.a. 53. gr. frumvarpsins) og má ætla að með tímanum þurfi starfsemi bankaeftirlitsins að aukast vegna starfsemi verðbréfamarkaðarins.