Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 125 . mál.


143. Frumvarp til laga



um Bjargráðasjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Bændasamtaka Íslands. Eignaraðilar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram árleg, óafturkræf framlög sín til hans skv. 5. gr. laga þessara.
    Heimili og varnarþing Bjargráðasjóðs er í Reykjavík.

2. gr.


    Félagsmálaráðherra skipar fimm manna stjórn Bjargráðasjóðs í lok þess árs sem kosið er til sveitarstjórna. Félagsmálaráðherra skipar formann stjórnar, en Samband íslenskra sveitarfélaga og Bændasamtök Íslands tilnefna hvort um sig tvo fulltrúa í stjórnina. Varamenn eru jafnmargir og valdir af sömu aðilum.

3. gr.


    Stjórn sjóðsins hefur á hendi stjórn hans, metur og tekur ákvarðanir um afgreiðslu umsókna og styrkveitinga úr báðum deildum sjóðsins.
    Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og annað starfslið sjóðsins og ákveður kaup þess og kjör í samræmi við launakerfi opinberra starfsmanna. Heimilt er þó stjórninni að semja við Lánasjóð sveitarfélaga eða aðra stofnun, sem henta þykir, um sameiginlega framkvæmdastjórn, skrifstofuhald og rekstur sjóðsins.

4. gr.


    Bjargráðasjóður skiptist í tvær deildir, almenna deild og búnaðardeild. Halda skal bókhaldi hvorrar deildar um sig aðgreindu. Rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist úr almennu deild hans.

5. gr.


    Árlegar tekjur Bjargráðasjóðs eru:
    Framlög sveitarfélaga, sem nema skulu 85,28 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags miðað við 1. desember undanfarið ár. Fjárhæð þessi er miðuð við framfærsluvísitölu 1. janúar 1995 og skal síðan breytast árlega miðað við framfærsluvísitölu 1. janúar ár hvert.
    Allt að 1% af söluvörum landbúnaðarins, sbr. 2. gr. laga nr. 41 1990, um Búnaðarmálasjóð. Hlutfall þetta getur verið mismunandi eftir búgreinum og skal það ákveðið í reglugerð til eins árs í senn. Skal stjórn sjóðsins gera tillögu til ráðherra að fengnu áliti Bændasamtaka Íslands.
    Framlag ríkissjóðs allt að 80 millj. kr. á ári eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum.
    Vextir af fé sjóðsins.

6. gr.


    Tekjur sjóðsins skiptast þannig milli deilda:
    Í almennu deild sjóðsins renna 75% af framlögum sveitarfélaga skv. a-lið 5. gr. og jafnhá fjárhæð af framlagi ríkissjóðs skv. c-lið 5. gr., svo og vaxtatekjur sjóðsins.
    Í búnaðardeild rennur allt framlag skv. b-lið 5. gr., 25% af framlögum sveitarfélaga skv. a-lið 5. gr. og sá hluti af framlagi ríkissjóðs skv. c-lið 5. gr. sem ekki rennur til almennu deildar sjóðsins skv. a-lið þessarar greinar.

7. gr.


    Framlög sveitarfélaganna innheimtir félagsmálaráðuneytið með því að draga þau frá úthlutun til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Bjargráðasjóður annast innheimtu hjá þeim sveitarfélögum er ekki fá greiðslur úr Jöfnunarsjóði.
    Framlag ríkissjóðs greiðist með jöfnum, mánaðarlegum greiðslum.
    Framleiðsluráð landbúnaðarins innheimtir búnaðarmálasjóðsgjald skv. 2. gr. laga nr. 41 1990 og greiðir Bjargráðasjóði hluta hans af gjaldinu skv. b-lið 5. gr. eftir því sem gjaldið innheimtist.

8. gr.


    Hlutverk almennu deildar sjóðsins er að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar bein tjón af völdum náttúruhamfara:
    Á gjaldskyldum fasteignum samkvæmt skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög um Fasteignamat ríkisins, landsvæðum, götum og gangstéttum sveitarfélaga og girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði.
    Á vélum, tækjum, heyi og áhöldum sem notuð eru við landbúnaðarframleiðslu og/eða við starfsemi sveitarfélaga.
    Vegna grasbrests, óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals.
    Ekki eru bætt tjón sem njóta almennrar tryggingaverndar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands.
    Ekki verður veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns ef ásetningi eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður um kennt, eðlilegar varnir ekki við hafðar og ef staðsetning hluta er óeðlileg með tilliti til tjónahættu.
    Ekki verður veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóna á stærri mannvirkjum svo sem orku- og hafnamannvirkjum, sjóvarnagörðum, fiskeldismannvirkjum og skipasmíðastöðvum.

9. gr.


    Hlutverk búnaðardeildar er að bæta meiri háttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa þegar ásetningi eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður eigi um kennt og eðlilegar varnir hafa verið við hafðar. Ekki eru bætt tjón sem almennt er tryggt fyrir innan búgreinar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands. Bætt eru:
    tjón á búfé og afurðum búfjár,
    uppskerutjón á garðávöxtum.
    Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir tjón sem Bjargráðasjóði ber að bæta. Hámark fyrirbyggjandi styrkja er 10% af ráðstöfunarfé hvers árs.

10. gr.


    Fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins er fólgin í veitingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins. Stjórn sjóðsins leggur mat á styrkhæfni tjóna, ákveður styrkhlutfall og eigin áhættu tjónþola í tjóni. Styrkhlutfall og eigin áhættu er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða mismunandi eftir búgreinum og tegundum eigna og taka í því efni m.a. mið af tekjuskiptingu sjóðsins og rekstraráhættu hverrar búgreinar. Stjórn sjóðsins er heimilt að setja sér nánari vinnureglur um veitingu styrkja samkvæmt þessari grein.
    Forsenda styrkveitinga úr búnaðardeild sjóðsins er að skil hafi verið gerð á búnaðarmálasjóðsgjaldi og að búgrein hafi eigi verið undanþegin greiðslu bjargráðasjóðsgjalds, sbr. 6. gr. laga nr. 41/1990.

11. gr.


    Nú er um að tefla almenn bótaskyld tjón í einu byggðarlagi eða fleirum og getur þá stjórn Bjargráðasjóðs skipað nefnd til þess að rannsaka tjónin og gera tillögur til stjórnar sjóðsins um aðstoð vegna þeirra.
    Kostnaður vegna slíkra nefndarstarfa greiðist úr þeirri deild sjóðsins sem veitir aðstoð vegna tjónanna.

12. gr.


    Ársreikningar sjóðsins skulu fullgerðir fyrir febrúarlok ár hvert. Sjóðstjórn felur löggiltum endurskoðanda að endurskoða reikninga sjóðsins og skal endurskoðun að jafnaði lokið fyrir 30. apríl ár hvert.
    Að endurskoðun lokinni skal birta reikninga sjóðsins í B-deild Stjórnartíðinda.

13. gr.


    Fé Bjargráðasjóðs, sem ekki hefur verið ráðstafað skv. 8.–11. gr. laga þessara, skal ávaxtað með sem tryggustum og hagkvæmustum hætti samkvæmt nánari ákvörðun stjórnarinnar.
    Nú hrekkur fé annarrar hvorrar deildar sjóðsins eigi til að veita þá aðstoð sem nauðsyn krefur samkvæmt lögunum og að mati sjóðstjórnar og er þá sjóðstjórninni heimilt að lána fé milli deilda án vaxta. Einnig er ríkisstjórninni heimilt að ábyrgjast nauðsynleg lán fyrir sjóðinn eða veita honum lán úr ríkissjóði gegn veði í eignum og tekjum sjóðsins. Stjórn sjóðsins er ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.

14. gr.


    Skuldabréf fyrir lánum, sem Bjargráðasjóður tekur samkvæmt ákvæðum laga þessara, skulu undanþegin stimpilgjöldum og ríkisábyrgðargjöldum.

15. gr.


    Í reglugerð, sem stjórnin semur og ráðherra staðfestir, skal setja nánari reglur um sjóðinn og starfsemi hans.

16. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 og falla þá úr gildi lög nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Stjórn sjóðsins samkvæmt lögum þessum skal fyrst skipuð frá og með 1. janúar 1996. Frá sama tíma fellur niður umboð og skipun fyrri stjórnar sjóðsins.
    Séreignir sýslufélaga skulu við gildistöku laga þessara falla í almenna deild sjóðsins. Séreignir sveitarfélaga skulu greiddar út til viðkomandi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd er skipuð var af félagsmálaráðherra 2. mars 1993. Samkvæmt skipunarbréfinu var nefndinni ætlað að endurskoða lög um Bjargráðasjóð, nr. 51/1972, einkum með tilliti til þess að kostnaður við tryggingar í landbúnaði gæti lækkað. Í nefndinni voru Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, tilnefndur af stjórn Bjargráðasjóðs, Ingimar Jóhannsson fiskifræðingur, tilnefndur af landbúnaðarráðuneyti, og Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri sem var skipuð formaður nefndarinnar. Ritari nefndarinnar var Birgir Blöndal, aðstoðarframkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndin fjallaði rækilega um þann kost að leggja sjóðinn niður og að almenna deild hans yrði hluti af Viðlagasjóði og að samtök bænda tækju við rekstri búnaðardeildar sjóðsins.
    Leitað var álits heilbrigðisráðuneytis, en Viðlagatrygging Íslands heyrði stjórnsýslulega undir það ráðuneyti fram til 1995. Það leit svo á að ekki væri æskilegt að flytja yfir á Viðlagasjóð þau tjón sem almenn deild Bjargráðasjóðs bætir í dag.
    Leitað var eftir afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess hvort leggja ætti niður Bjargráðasjóð. Eftirfarandi bókun var gerð á fundi stjórnar Sambandsins 21. október 1994:
    „Hugmyndin hefur komið fram í nefnd er skipuð var í mars 1993 til að endurskoða lög um Bjargráðasjóð, einkum með tilliti til þess að kostnaður við tryggingar í landbúnaði geti lækkað. Hugmyndin gengur út á að Viðlagatrygging taki við hlutverki A-deildar sjóðsins og að B-deild sjóðsins verði vistuð í sérstökum sjóði fyrir landbúnaðinn. Fyrir lá minnisblað frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, dags. 29. apríl 1994, þar sem fram kemur að ráðuneytið telur óæskilegt að verkefni A-deildar Bjargráðasjóðs verði færð til Viðlagatryggingar. Ekki er ljóst hvort framlög sveitarfélaga til A-deildarinnar féllu niður þó starfsemi hennar færðist annað.
    Sveitarfélögin greiða árlega framlög til sjóðsins er nema á þessu ári 22,2 millj. kr. Framlögin renna að 75% hluta til A-deildar sjóðsins og 25% hluta til B-deildar. Auk þess fær A-deildin vaxtatekjur af eigin fé sjóðsins en allur rekstrarkostnaður hans er greiddur af tekjum A-deildarinnar. A-deild sjóðsins gegnir því hlutverki að veita bætur vegna margvíslegra tjóna vegna náttúruhamfara sem ekki fást bætt með öðrum hætti.
    Af afstöðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins má ráða að litlar líkur eru til að Viðlagatrygging taki við hlutverki Bjargráðasjóðs. Einnig er með öllu óljóst hvort framlög sveitarfélaganna féllu niður ef sjóðurinn yrði vistaður annars staðar. Með vísan til þess leggst stjórn sambandsins á þessu stigi gegn því að Bjargráðasjóður verði lagður niður í núverandi mynd. Stjórnin er þó reiðubúin til frekari viðræðna um breytingar á hlutverki Bjargráðasjóðs sjái ráðuneytið ástæðu til þess.“
    Frumvarpsdrögin voru send iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti til umsagnar en Viðlagatrygging hefur verið flutt undir það ráðuneyti. Athugasemdir voru gerðar við eina grein frumvarpsins og hefur veridð tekið tillit til þeirrar ábendingar.
    Af hálfu bændasamtaka var mikill vilji til að lækka þann hluta búnaðarmálasjóðsgjalds sem rennur til Bjargráðasjóðs. Á árunum 1994 og 1995 hefur með lagasetningu í tengslum við fjárlagagerð sá hluti búnaðarmálasjóðsgjalds, sem á að renna í Bjargráðasjóð, verið lækkaður úr 0,6% niður í 0,3%.
    Í ljósi þessarar afstöðu var ákveðið að byggja á því að Bjargráðasjóður yrði áfram starfræktur en verulegar breytingar yrðu gerðar á honum. Helstu breytingar sem lagðar eru til á sjóðnum eru þessar:
    Gjöld til sjóðsins geti verið á bilinu 0–1% af söluvörum landbúnaðarins. Hlutfallið getur verið mismunandi eftir búgreinum og skal það ákveðið til eins árs í senn. Í fylgiskjali kemur fram yfirlit yfir síðustu ár um þær greiðslur sem einstakar búgreinar hafa lagt til sjóðsins og hversu miklar greiðslur hafa farið til einstakra búgreina.
    Hlutverk almennu deildarinnar er skilgreint mun skýrar en áður og er þar höfð hliðsjón af þeim bótum sem Viðlagatrygging getur innt af hendi, en lög um Viðlagatryggingu voru samþykkt 1975 og frá þeim tíma hefur ekki farið fram heildarendurskoðun á lögum um Bjargráðasjóð. Nákvæmlega er skilgreint hvað fellur utan við hlutverk sjóðsins, svo sem orku- og hafnamannvirki, sjávargarðar og fiskeldismannvirki og veiðarfæri í sjó.
    Hlutverk búnaðardeildar er skilgreint betur en áður þannig að einungis er bætt tjón á búfé og afurðum búfjár og uppskerutjón á garðávöxtum. Enn fremur er opnuð heimild til þess að styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir tjón.
    Kveðið er á um það með skýrum hætti að einungis eru veittir styrkir en ekki lán úr sjóðnum. Jafnframt að styrkhlutfall geti verið breytilegt eftir búgreinum og einnig eigin áhætta og er þá horft til þess að Bjargráðasjóður hefur mismunandi tekjur af einstökum búgreinum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breytingin byggir á því að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands hafa verið sameinuð.

Um 2. gr.


    Lagt er til að stjórnin sé skipuð fimm fulltrúum og að það sé ekki bundið við tiltekin embætti heldur velji viðkomandi samtök sjálf sína fulltrúa.

Um 3. gr.


    Lagt er til að sjóðurinn hafi ekki heimild til styrk- og lánveitinga en einungis talað um afgreiðslur. Sjóðurinn hefur engar lánveitingar stundað sl. sjö ár.

Um 4. gr.


    Greinin óbreytt frá gildandi lögum.

Um 5. gr.


    Meginbreytingin er sú að framlag af söluvörum landbúnaðarins getur verið allt að 1% í stað 0,6% sem nú er. Miðað er við að hlutfallið sé breytilegt eftir því um hvaða búgrein er að ræða. Þá er Bjargráðasjóður bundinn af því að stjórn sjóðsins er skylt, sbr. 6. gr. laga nr. 41/1990, um Búnaðarmálasjóð, að fallast á tillögu Bændasamtakanna um að undanþiggja framleiðsluvörur einstakra búgreina greiðsluskyldu að hluta eða öllu leyti. Það er því ljóst að sumar búgreinar þurfa ekki að greiða neitt í Bjargráðasjóð og eiga þar með engan rétt á bótum, aðrar búgreinar geta þurft að greiða allt að 1%. Ákvörðun um gjaldið skal birtast í reglugerð útgefinni af félagsmálaráðherra og mun væntanlega yfirleitt byggjast á þeirri afstöðu sem Bændasamtökin láta í ljós til stjórnar Bjargráðasjóðs.

Um 6. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Lagt er til grundvallar að unnt sé að sækja um styrk úr almennu deildinni ef ekki er hægt að kaupa tryggingu samkvæmt almennum tryggingaskilmálum. Þá er lagt til að tjón af völdum grasbrests flokkist með náttúruhamförum.
    Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins bætir almenna deild sjóðsins bein tjón sem eru veruleg fjárhagsleg tjón á fasteignum, tækjum og áhöldum af völdum náttúruhamfara, m.a. snjóflóða, skriðufalla, jarðskjálfta, eldgosa, snjóþunga, fárviðris, sjávargangs og sandfoks. Afnumið er með öllu að bætt séu afleidd tjón.
    Í a-lið felst sú meginbreyting að hugtakið fasteign er notað í þrengri merkingu en í gildandi lögum og nær aðeins til fasteigna sem eru gjaldskyldur tekjustofn sveitarfélaga við álagningu fasteignagjalda. Landsvæði, götur og gangstéttir í eigu sveitarfélaga og girðingar, tún og raflínur er tengjast landbúnaði falla undir bótaskyldu þrátt fyrir að hluti af þeim sé undanþeginn fasteignagjöldum.
    Í b-lið felst sú breyting að í stað þess að bæta lausafé er tilgreint nákvæmlega hvað bætt sé er tengist starfsemi sveitarfélaga eða landbúnaðarframleiðslu. Þetta er gert til að þrengja bótasvið sjóðsins, enda miklir möguleikar til að tryggja lausafé.
    Í c-lið felst sú breyting að grasbrestur, sem ekki er mögulegt að tryggja gegn og tengist náttúruhamförum og veðurfari, bætist af almennu deildinni. Grasbrestur var áður bættur úr búnaðardeild sjóðsins, en með breyttu hlutverki búnaðardeildar, þar sem tjónbætur eru bundnar við bústofn og uppskeru og því skilyrði að greitt sé gjald af söluvörum, er bótaskylda flutt á milli deilda. Slíkt tengist enn fremur a-lið um tjón á túnum og því betur komið í almennu deildinni. Bótaskylda a, b og c-liðar er tengd fjármögnunaraðilum sjóðsins.
    Fyrirvari er gerður á bótaskyldu sjóðsins ef orsaka tjóna má rekja til ásetnings eða gáleysis eiganda eða umsjónarmanns, bæði hvað varðar varnir og staðsetningu þess hlutar er tjón verður á. Enn fremur er gerður fyrirvari um bótaskyldu ef tjónþolar geta notið almennrar tryggingaverndar gegn tjóni.
    Ekki er veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóna á stærri mannvirkjum svo sem á orku- og hafnamannvirkjum, dráttarbrautum, þurrkvíum svo og öðrum mannvirkjum til viðgerða og smíði skipa, sjóvarnargörðum og fiskeldismannvirkjum, enda hluti af þeim fasteignum undanþeginn fasteignagjöldum og fasteignamati. Þá eru verðmæti eigna það mikil að það er ofviða fjárhag sjóðsins miðað við þá fjármögnun sem frumvarpið gerir ráð fyrir að bæta tjón á þeim.

Um 9. gr.


    Búnaðardeild sjóðsins bætir þeim sem greiða til sjóðsins meiri háttar tjón á búfé, búfjárafurðum og uppskerubrest á garðávöxtum af völdum sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa, þegar ásetningur eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður eigi um kennt og eðlilegar varnir hafa verið við hafðar. Ef hægt er að kaupa tryggingar fyrir tjónum og búgreinafélög leggja til við félagsmenn að kaupa þær tryggingar bætir sjóðurinn ekki þau tjón. Búgreinar hafa val um greiðsluhlutfall af söluverðmætum sínum til sjóðsins innan ramma laganna og geta því valið um að kaupa tryggingar eða greiða hærra gjald til sjóðsins.     Heimilt er að verja hluta af tekjum ársins til að fyrirbyggja tjón er hefðu orðið bótaskyld úr sjóðnum og er hér um nýmæli að ræða, en svipað ákvæði er í lögunum um Viðlagatryggingu.

Um 10. gr.


    Fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins er fólgin í veitingu styrkja samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverju tímabili og geta því verið breytilegar frá ári til árs. Stjórn sjóðsins leggur mat á af hvaða orsökum tjón eru bætt úr sjóðnum og ákveður hlutfall eigin áhættu og styrkja.
    Stjórn sjóðsins getur skipt tekjum almennu deildar sjóðsins milli tjónaflokka og taka tjónastyrkir mið af þeirri flokkun.
    Í búnaðardeild geta tjónabætur tekið mið af tekjum sjóðsins frá hverri búgrein og þeirri áhættu sem felst í rekstri búgreinar. Tjónabætur úr búnaðardeild sjóðsins eru bundnar því skilyrði að greitt hafi verið búnaðarmálasjóðsgjald af söluvöru og að búgrein hafi ekki verið undanþegin greiðslu á gjaldi til Bjargráðasjóðs. Útreikningur tjóna getur tekið mið af því framleiðslumagni sem búnaðarmálasjóðsgjald var greitt af á árunum áður en tjón varð.

Um 11. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 12. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 13. gr.


    Ekki er lengur kveðið á um ávöxtun í Lánasjóði sveitarfélaga og er þessi breyting gerð samkvæmt ábendingu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis með hliðsjón af samkeppnislögum.

Um 14. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að fellt er niður ákvæði um stimpilgjald af lánum sjóðsins þar sem þau eru ekki lengur veitt.

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.

Bjargráðasjóður.


Yfirlit yfir styrkveitingar, búvörugjald og framlag sveitarfélaga 1987–94.


(Í þús. kr. á verðlagi hvers árs.)



(Ein síða mynduð.)





Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Bjargráðasjóð.


    Frumvarpið er samið af nefnd sem þáverandi félagsmálaráðherra skipaði í mars 1993. Nefndinni var ætlað að endurskoða lög um Bjargráðasjóð, nr. 51/1972, einkum með tilliti til þess að lækka kostnað við tryggingar í landbúnaði.
    Í a-lið 5. gr. frumvarpsins segir að framlög sveitarfélaga skuli nema 85,28 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags og er sú tala miðuð við framfærsluvísitölu 1. janúar 1995. Samtals gerir þetta 22,8 m.kr. ef miðað er við fólksfjölda 1. desember 1994. Í gildandi lögum um Bjargráðasjóð er framlag sveitarfélaga hið sama og kveðið er á um í frumvarpinu og helst því óbreytt.
    Í b-lið 5. gr. frumvarpsins segir að til Bjargráðasjóðs skulu renna allt að 1% af söluvörum landbúnaðarins, sbr. 2. gr. laga nr. 41/1990, um Búnaðarmálasjóð. Einnig er sagt að hlutfall þetta geti verið mismunandi eftir búgreinum og skal það ákveðið í reglugerð til eins árs í senn. Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að búgreinar hafi val um greiðsluhlutfall af söluverðmætum sínum til sjóðsins innan ramma laganna og geti því valið um að kaupa tryggingar eða greiða hærra gjald til sjóðsins. Með þessu er verið að heimila hækkun á því hlutfalli söluvara landbúnaðarins sem rennur til Bjargráðasjóðs um 0,7 prósentustig frá því sem tilgreint er í lögum nr. 148/1994, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Samhliða er heimiluð lækkun niður í 0%. Ef allar búgreinar nýta heimild sína að fullu eykur hækkun hlutfalls söluvara landbúnaðarins tekjur sjóðsins um allt að 122 m.kr. miðað við lög nr. 148/1994. Ef hins vegar allar búgreinar velja að kaupa tryggingar annars staðar og greiða 0% af söluverðmæti sínu til sjóðsins lækka tekjur hans um 48 m.kr.
    Í c-lið 5. gr. frumvarpins er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs skuli vera allt að 80 m.kr. eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum en áður var miðað við að það gæti ekki orðið lægra en samanlagðar tekjur sjóðsins skv. a- og b- lið 5. gr. Tekjur sjóðsins geta hækkað um 145 m.kr. samkvæmt a- og b-liðum ef allar heimildir eru nýttar til fulls. Með þessari breytingu er verið að hverfa frá sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs en í stað þess verður framlag ríkisins til Bjargráðasjóðs háð mati við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.
    Hvað varðar aðrar breytingartillögur frumvarpsins miða þær að því að takmarka og skýra betur hlutverk almennu deildarinnar og skilgreina betur, og ef til vill að auka hlutverk búnaðardeildarinnar frekar en gert er í gildandi lögum. Einnig er kveðið með skýrum hætti á um að einungis eru veittir styrkir en ekki lán úr sjóðnum og að styrkhlutfall ásamt eigin áhættu geti verið breytilegt eftir búgreinum. Ástæða þessa er sú að rekstaráhætta og tekjur eru mismunandi eftir búgreinum.