Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 169 . mál.


211. Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar til að kanna forsendur fyrir kaupum og rekstri skólabáts.

Flm.: Kristján Pálsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Johnsen,


Hjálmar Jónsson, Árni M. Mathiesen, Gísli S. Einarsson,


Einar K. Guðfinnsson, Guðjón Guðmundsson,


Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að kanna forsendur fyrir kaupum og rekstri skólabáts sem nýttur verði til kennslu í sjómennsku í skólum landsins.
    Nefndina skipi fulltrúar hagsmunaaðila og ráðuneyta og skili hún áliti eigi síðar en í apríl 1996.

Greinargerð.


    Árið 1985 var fyrsta skólabáti landsmanna hleypt af stokkunum og gefið nafnið Mímir RE. Hann var smíðaður á Skagaströnd og var 15 brl. að stærð. Báturinn var í eigu ríkissjóðs og á rekstrarábyrgð sjávarútvegsráðuneytisins. Ráðuneytið samdi við Fiskifélag Íslands um rekstur hans og sá Þorleifur Kr. Valdimarsson starfsmaður hjá Fiskifélaginu um útgerðina.
    Útgerð bátsins var strax mjög árangursrík og að mati þeirra sem séð hafa um sjóvinnukennslu í grunnskólunum skipti tilkoma bátsins sköpum um áhuga fyrir því námi. Fjögurra manna rekstrarstjórn var skipuð yfir bátinn og voru ráðnir úrvalsmenn um borð. Fyrir utan það að nýtast sem skólabátur var Mímir notaður til rannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Fljótlega kom þó í ljós að ásókn í að fá bátinn til kennslu var svo mikil að henni varð ekki annað. Var þar um að ræða stýrimannadeildir víða um landið, svo og aðra skóla.
    Í ársskýrslu Þorleifs Kr. Valdimarssonar til Fiskifélagsins árið 1990 kemur m.a. fram að fyrstu fimm árin hafi 3.000 ungmenni á aldrinum 13–16 ára farið dagsferðir á sjó með honum. Meðalfjöldi nemenda í sjóvinnukennslunni á árunum 1986–1992 var um 300 á ári. Þessu námi fylgdi það að fara á sjó með Mími og var það að allra mati toppurinn á náminu. Reynd voru margs konar veiðarfæri, m.a. lína, net, færi og gildrur. Vegna þess að báturinn var lítill takmörkuðust möguleikar hans til veiða mikið og var t.d. erfitt að koma við trolli. Sá hörmulegi atburður átti sér stað í október 1991 að Mímir fórst með allri áhöfn í Hornafjarðarósi. Þar fórust mætir menn.
    Þegar Mímis naut ekki lengur við í sjóvinnukennslunni dró verulega úr henni í grunnskólum landsins. Til marks um það hefur þeim grunnskólum sem bjóða upp á sjóvinnukennslu fækkað úr 27 árið 1992 í 18 á yfirstandandi skólaári. Þá hefur einnig tekið alveg fyrir dagsferðir með skólabörn sem reyndust mjög vinsælar. Nauðsynlegum þætti í uppfræðslu íslenskrar æsku um það á hverju þjóðin lifir var kippt frá henni og ekkert hefur komið í staðinn.
    Eftir að Mímir fórst hafa einstaklingar reynt að sinna þessari þjóðfélagsskyldu og unnið þar markvert starf. Má þar nefna rekstur Haftinds á vegum Karels Karelssonar.
    Hugmynd flutningsmanna þessarar tilllögu eru:
    að keyptur verði stærri bátur en Mímir var og hann nýttur að mestu til kennslu, en að mati útgerðarstjóra Mímis RE var aðsókn stýrimannadeilda og grunnskóla svo mikil að bátnum að ekki var hægt að anna henni vegna skylduverkefna í þágu vísindanna,
    að báturinn verði í eigu ríkisins, enda eðlilegt að ríkissjóður hafi frumkvæði og beri ábyrgð á því að kennsla fari fram í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar; einnig er erfitt að sjá að einstök sveitarfélög geti átt slíkan bát þó svo að þau gætu tekið þátt í rekstri hans ásamt hagsmunasamtökum í sjávarútvegi,
    að samvinna um kaup og rekstur bátsins verði við sveitarfélögin í landinu, Fiskifélag Íslands, sjómannasamtök, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Stýrimannaskólann, menntamálaráðuneytið og fleiri hagsmunaaðila,
    að undirbúningsnefndin skili af sér eins fljótt og kostur er, en þó ekki seinna en í apríl nk. svo að nægur tími verði til undirbúnings fyrir næsta skólaár og næstu fjárlög.
    Hér áður þótti sjálfsagt að ungir menn réðu sig í skipsrúm upp á brot úr hlut til að læra sjómennsku. Þessi siður er aflagður og með aukinni eftirspurn eftir skipsrúmi hefur ungum mönnum reynst erfitt að komast að sökum reynsluleysis. Áhugi fyrir námi við Stýrimannaskólann hefur dregist verulega saman og er það áhyggjuefni fiskimannaþjóð sem okkur Íslendingum. Það er því nauðsynlegt að við endurmetum stöðuna.
    Það ætti að vera skylda að bjóða sjóvinnukennslu sem valgrein í hverjum grunnskóla. Það vekur athygli að í miklum útgerðarbæjum eins og Akureyri, Sauðárkróki, Siglufirði og Neskaupsstað er ekki boðið upp á slíka kennslu.
    Að mati hagsmunaaðila, sem haft var samband við vegna þessarar þingsályktunartillögu, þ.e. Fiskifélags Íslands, Stýrimannaskólans, Landsambands íslenskra útvegsmanna og sjómannasamtaka, er rekstur skólabáts mjög mikilvæg forsenda þess að hægt verði að glæða áhuga ungs fólks á sjómennsku og menntun sjómanna.