Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 173 . mál.


216. Frumvarp til laga



um Siglingastofnun Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


Yfirstjórn.


    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn siglinga-, hafna- og vitamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum.

2. gr.


Siglingastofnun Íslands.


    Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd siglinga-, hafna- og vitamála á þann hátt sem ákveðið er í lögum þessum og öðrum lögum sem um þau mál fjalla.
    Forstjóri Siglingastofnunar Íslands skal að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingaráðs skipaður af samgönguráðherra.
    Samgönguráðherra ræður framkvæmdastjóra deilda að fengnum tillögum forstjóra, en forstjóri ræður annað starfsfólk Siglingastofnunar Íslands.

3. gr.


Verkefni Siglingastofnunar Íslands.


    Verkefni Siglingastofnunar Íslands eru:
    Að annast þátt ríkisins í framkvæmd hafnalaga.
    Að hafa umsjón með ríkisstyrktum framkvæmdum við sjóvarnargarða og lendingarbætur.
    Að annast framkvæmd laga um eftirlit með skipum, laga um mælingu skipa og laga um skráningu skipa.
    Að annast framkvæmd laga um vitamál, laga um leiðsögu skipa og laga um kafarastörf.
    Að annast mál er varða lög og varnir gegn mengun sjávar og reglugerðir samkvæmt þeim að því leyti sem þau varða skip og búnað þeirra samkvæmt reglum sem umhverfisráðherra setur.
    Að annast samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta sem Ísland er aðili að og varða siglinga-, hafna- og vitamál.
    Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um mál sem eru í verkahring stofnunarinnar.
    Samgönguráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Siglingastofnunar Íslands og einstök verkefni hennar.

4. gr.


Hafnaráð.


    Samgönguráðherra skipar hafnaráð sér til ráðuneytis um hafnamál. Í hafnaráði skulu eiga sæti fimm fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu tveir tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar og skal einn þeirra vera starfsmaður samgönguráðuneytis og skal hann jafnframt vera formaður ráðsins og skipaður til fjögurra ára í senn. Tvo fulltrúa samgönguráðherra skal skipa að loknum alþingskosningum. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

5. gr.


Verkefni hafnaráðs.


    Hafnaráð skal vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og forstjóra Siglingastofnunar í hafnamálum. Hafnaráð skal fjalla um breytingar á lögum og reglum er varða hafnamál og framkvæmdaáætlanir fyrir einstök ár og til lengri tíma, svo og fjármál hafna, þar á meðal gjaldskrárbreytingar.
    Forstjóri Siglingastofnunar Íslands situr fundi ráðsins, með málfrelsi og tillögurétti, ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.

6. gr.


Siglingaráð.


    Samgönguráðherra skipar siglingaráð sér til ráðuneytis um siglinga- og vitamál. Í siglingaráði skulu eiga sæti ellefu fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar og skal einn þeirra vera starfsmaður samgönguráðuneytis og er hann jafnframt formaður ráðsins og skipaður til fjögurra ára í senn. Tvo fulltrúa samgönguráðherra skal skipa að loknum alþingiskosningum. Átta fulltrúar skulu skipaðir til allt að fjögurra ára samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila sem tilnefna einn fulltrúa hver: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Sjómannasamband Íslands, Slysavarnafélag Íslands og Vélstjórafélag Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

7. gr.

Verkefni siglingaráðs.


    Siglingaráð skal vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og forstjóra Siglingastofnunar Íslands í siglinga- og vitamálum. Siglingaráð skal fjalla um breytingar á lögum og reglum er varða siglinga- og vitamál.
    Siglingaráð skal fjalla um öryggismál skipa og sjófarenda, svo og meiri háttar endurbætur og breytingar vitakerfisins. Forstjóri Siglingastofnunar Íslands situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.

8. gr.


Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986, með síðari breytingum, og 2.–6. gr. hafnalaga, nr. 23/1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í september 1993 skipaði samgönguráðherra nefnd er m.a. skyldi kanna möguleika Vita- og hafnamálastofnunar annars vegar og Siglingamálastofnunar ríkisins hins vegar á samnýtingu mannafla og aðstöðu eða sameiningu þessara stofnana í eina stofnun. Nefndarmenn voru Guðjón Guðmundsson alþingismaður sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri, Hermann Guðjónsson vita- og hafnamálastjóri, Benedikt Guðmundsson siglingamálastjóri og Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur. Nefndin skilaði greinargerð til samgönguráðherra í janúar 1994.
    Í framhaldi af störfum nefndarinnar hófst vinna við endurskoðun á starfsemi Siglingamálastofnunar ríkisins annars vegar og Vita- og hafnamálastofnunar hins vegar þar sem talið var að ná mætti fram verulegri hagræðingu í rekstri þeirra. Umsjón með verkefnum höfðu Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur, Agnar Kofoed-Hansen rekstrarverkfræðingur og Sigurður G. Ringsted skipaverkfræðingur. Lögð var meiri áhersla á að hraða vinnunni hjá Vita- og hafnamálastofnun og hefur ýmsum umbótaverkefnum verið hrint í framkvæmd. Árangur þessarar vinnu er þegar farinn að sjást. Vinna við endurskipulagningu hjá Siglingamálastofnun ríkisins er langt komin. Lokið er vinnu við framtíðarsýn og stefnumótun og liggur fyrir greinargerð þar um ásamt skilgreiningu á þeim umbótaverkefnum sem hrinda þarf í framkvæmd.
    Nú er því heppilegur tími til að sameina þessar stofnanir í eina stofnun, Siglingastofnun Íslands. Sú reynsla, sem fengist hefur hjá Vita- og hafnamálastofnun, ásamt þeirri vinnu sem lokið er fyrir Siglingamálastofnun ríkisins, kemur að góðum notum við mótun stefnu og framtíðarsýnar sameinaðrar stofnunar.
    Starfsemi Siglingamálastofnunar ríkisins og Vita- og hafnamálastofnunar er nátengd þar sem báðar stofnanirnar fást við verkefni tengd siglingum, skipaflotanum og öryggi sjófarenda. Framkvæmd samgöngumála í lofti er í umsjón flugmálastjórnar, framkvæmd samgöngumála á landi er í umsjón Vegagerðarinnar og framkvæmd fjarskiptamála er í umsjón Póst- og símamálastofnunar og Fjarskiptaeftirlits ríkisins. Með sameiningu Siglingamálastofnunar ríkisins og Vita- og hafnamálastofnunar í eina stofnun, Siglingastofnun Íslands, verður framkvæmd samgöngumála á sjó í umsjón einnar stofnunar.
    Langtímamarkmið með sameiningunni er hagræðing og sparnaður í rekstri samhliða markvissri þjónustu við viðskiptavini stofnunarinnar. Sameinuð stofnun hefur meira bolmagn til að hafa í þjónustu sinni þá sérhæfðu starfsmenn sem þörf er á hverju sinni og stuðlar að betra upplýsingastreymi ásamt bættri nýtingu mannafla og aðstöðu. Sameiningin mun þannig nýtast bæði ríkinu og viðskiptavinum stofnananna.
    Siglingamálastofnun ríkisins safnar upplýsingum um sjóslys og Vita- og hafnamálastofnun hefur umsjón með hönnun innsiglinga og innsiglingamerkja. Mörg sjóslys verða í og við innsiglingar í hafnir. Sameining stuðlar að gerð öruggari hafnarmannvirkja.
    Vita- og hafnamálastofnun hefur unnið að rannsóknum á öldulagi á hafinu kringum landið og safnað upplýsingum í nærri tvo áratugi. Til að auka öryggi sjófarenda og auðvelda sjósókn hefur verið komið upp upplýsingakerfi með upphringingabúnaði um veður og sjólag, þar sem 12 veðurstöðvar í vitum og á annesjum senda upplýsingar um veður og 6–7 öldudufl sem gefa upp ölduhæð og öldulengd. Í samvinnu við aðila á Norðurlöndum er unnið að rannsóknum á hreyfingum skipa í höfnum. Niðurstöður þessara rannsókna eru notaðar við hönnun hafna og geta nýst við gerð reglna um búnað skipa.
    Vita- og hafnamálastofnun gerir áætlanir um uppbyggingu hafna. Siglingamálastofnun ríkisins heldur skrá yfir skipaflotann og fylgist með þróun hans. Við hönnun og áætlanagerð um uppbyggingu hafna er mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um skipaflotann og áætlaðar breytingar á honum.
    Vita- og hafnamálastofnun hefur enga fasta starfsmenn á landsbyggðinni nema vitaverði en þeim fer stöðugt fækkandi. Siglingamálastofnun ríkisins hefur starfsmenn víða á landinu til eftirlits- og skoðunarstarfa. Með sameiningu geta þessir starfsmenn komið inn í eftirlit með framkvæmdum á sviði Vita- og hafnamálastofnunar, framkvæmt fyrstu skoðun og metið tjón ef óhöpp verða í höfnum og haft umsjón með viðhaldi fasteigna vitanna og rekstri þeirra.
    Samskipti við ýmsar alþjóðastofnanir eru sífellt að aukast og með aukinni þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og tilheyrandi skuldbindingum er mikilvægt að koma sjónarmiðum á framfæri til að hafa áhrif á setningu þeirra laga og reglugerða sem gengist er undir. Siglingamálastofnun ríkisins sér um samskipti við Alþjóðasiglingamálastofnunina (International Maritime Organization) önnur en þau mál sem lúta að mengun hafsins sem Hollustuvernd ríkisins sér um.
    Vita- og hafnamálastofnun er aðili að IALA (International Association of Lighthouse Authorities) sem eru alþjóðleg samtök vitastofnana og annarra aðila er tengjast vitarekstri. IALA vinnur staðla fyrir radiovita, radarsvara, leiðréttingarsendingar fyrir GPS, ljósvita, baujur o.s.frv. Náið samstarf er á milli IMO og IALA. Sameining leiðir til sparnaðar og gerir alþjóðleg samskipti um siglingamál og öryggi sjófarenda markvissari.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um að samgönguráðherra fari með yfirstjórn siglinga-, hafna- og vitamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands fari með framkvæmd siglinga-, hafna og vitamála á þann hátt sem ákveðið er í lögum þessum og öðrum lögum sem um þau mál fjalla. Í því efni er fyrst og fremst um að ræða hafnalög, lög um vitamál og lög um eftirlit með skipum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að forstjóri Siglingastofnunar Íslands skuli skipaður af samgönguráðherra að fengnum umsögnum hafna- og siglingaráðs. Í 3. mgr. er miðað við að framkvæmdastjórar einstakra deilda séu ráðnir af samgönguráðherra að fengnum tillögum forstjóra, en annað starfsfólk ráði forstjóri. Gert er ráð fyrir að samgönguráðuneytið setji stofnuninni skipurit yfir starfsemi hennar.

Um 3. gr.


    Hér eru talin upp verkefni Siglingastofnunar Íslands og er miðað við að þau verði þau sömu og eru nú á höndum Siglingamálastofnunar ríkisins, Hafnamálastofnunar ríkisins og Vitastofnunar Íslands.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir að hafnaráð verði samgönguráðherra til ráðuneytis um hafnamál. Skipan hafnaráðs verður með sama hætti og nú er kveðið á um í 2. gr. hafnalaga, nr. 23/1994.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að verkefni hafnaráðs verði þau sömu og nú er kveðið á um í 3. gr. hafnalaga, nr. 23/1994.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að siglingaráð verði samgönguráðherra til ráðuneytis um siglinga- og vitamál. Vitanefnd, sem starfar samkvæmt lögum um vitamál, nr. 56/1981, verður því lögð niður og siglingaráð tekur við hlutverki hennar. Allir þeir aðilar sem hafa átt fulltrúa í vitanefnd hafa einnig átt fulltrúa í siglingaráði. Fulltrúar í siglingamálaráði eru nú níu og hér er miðað við að sömu aðilar tilnefni fulltrúa í siglingaráð og að samgönguráðherra skipi þrjá án tilnefningar í stað tveggja áður.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að verkefni siglingaráðs verði þau sömu og nú er kveðið á um í 5. gr. laga um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986, auk þeirra verkefna sem vitanefnd eru nú falin með lögum um vitamál, nr. 56/1981, með síðari breytingum.

Um. 8. gr.


    Miðað er við að lög þessi taki þegar gildi og að þau leysi af hólmi lög um Siglingamálastofnun ríkisins og 2.–6. gr. hafnalaga frá sama tíma. Þá fylgir frumvarpi þessu fylgifrumvarp þar sem ýmsum sérlögum er breytt með hliðsjón af þeim breytingum sem þetta frumvarp, verði það að lögum, hefur í för með sér.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Siglingastofnun Íslands.


    Með frumvarpinu er lagt til að Siglingamálastofnun ríkisins og Vita- og hafnamálastofnun verði sameinaðar í eina stofnun, Siglingastofnun Íslands. Í fylgifrumvarpi eru gerðar nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum vegna þessarar sameiningar.
    Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneyti er gert ráð fyrir að almenn rekstrarútgjöld minnki um 10 m.kr. á ári í kjölfar sameiningar þessara stofnana. Kostnaðarlækkun skýrist að mestu leyti af minna mannahaldi við yfirstjórn. Ætla má að biðlaunagreiðslur nemi um 7 m.kr. á ári í kjölfar sameiningar þessara stofnana. Kostnaðarlækkun skýrist að mestu leyti af minna mannahaldi við yfirstjórn.
    Þá er gert ráð fyrir að Siglingamálastofnun ríkisins flytji úr núverandi leiguhúsnæði í nýtt húsnæði hjá Vita- og hafnamálastofnun í Kópavogi. Leigugjöld stofnunarinnar eru nú um 7 m.kr. á ári. Sá leigusamningur er bundinn til ársins 2002 svo að leita þarf uppsagnar á honum. Nauðsynlegt verður að stækka húsnæði Vita- og hafnamálastofnunar í Kópavogi vegna flutnings þessarar starfsemi. Kostnaður af því er áætlaður um 40 m.kr. og fellur hann til á fyrsta ári.
    Þannig má gera ráð fyrir að sameining þessara stofnana komi til með að minnka útgjöld um allt að 14–15 m.kr. á ári en að viðbótarkostnaður verði samtals um 47 m.kr. á fyrsta ári.