Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 296 . mál.


535. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    4. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 83/1995, orðast svo:
    Þá er heimilt að veiða 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar, síldar og úthafsrækju og 3% umfram aflamark innfjarðarrækju og hörpudisks, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, eins og lögin voru samþykkt á Alþingi í maí 1990, var fiskiskipi aðeins heimilt að veiða umfram aflamark sitt í botnfisktegundum. Heimild þessi takmarkaðist við 5% af aflamarki skips í hverri botnfisktegund og dróst umframafli frá við úthlutun aflamarks í sömu tegundum til fiskiskipsins næsta fiskveiðiár á eftir.
    Á 117. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um breytingu á áðurgreindu ákvæði og var þar lagt til að þessi heimild til umframveiða tæki einnig til veiða á síld. Ástæða þess að þetta frumvarp var lagt fram var fyrst og fremst sú að á síldarvertíð haustið 1993 var skortur á síld til manneldisvinnslu. Var talið að með þessari breytingu næðist að fá það magn til ráðstöfunar til manneldisvinnslu sem samningar væru fyrir. Var frumvarp þetta samþykkt í desember 1993, sbr. lög nr. 113 14. desember 1993.
    Við endurskoðun laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, í maí 1994, á sumarþingi 1995, var 4. mgr. 10. gr. breytt þannig að heimildin tæki einnig til veiða á rækju, en hins vegar var heimild til umframveiða á síld felld niður, sbr. 3. gr. laga nr. 83/1995. Miðast heimild til umframveiða í rækju við 5% í úthafsrækju en 3% í innfjarðarrækju.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að aftur verði horfið til fyrri skipunar varðandi síldina þannig að heimilt verði einstökum fiskiskipum að veiða allt að 5% umfram aflamark í síld. Þá er lagt til að heimilt verði að veiða 3% umfram í hörpudiski eins og nú leyfist í innfjarðarrækju, en skipan veiðistjórnunar í þessum staðbundnu stofnum er með líkum hætti. Umframaflinn komi til frádráttar næsta fiskveiðiár á eftir eins og tíðkast í öðrum tegundum. Þykir þessi skipan heppilegri, bæði með tilliti til samræmingar í nýtingu veiðiheimilda auk þess sem hún skapar nokkurt svigrúm sem getur nýst þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að heimilaðar verði veiðar á síld 5% umfram aflamark, enda dragist sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs. Aukakostnaður ríkissjóðs af þessum sökum er enginn þar eða núverandi aflastjórnunarkerfi mun ná yfir þessa breytingu án teljandi fyrirhafnar.