Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 336 . mál.


591. Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1995.

I. Almennt starf.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar fóru vaxandi þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989. Mikilvægi nefndarinnar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, en fulltrúar úr henni skipa EFTA-hluta hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES.
    Þingmannanefnd EFTA heldur fundi nokkrum s innum á ári. Á milli funda hittist framkvæmdastjórn (áður dagskrárnefnd) þingmannanefndarinnar en hún gerir tillögur að dagskrá og verkefnum þingmannanefndarinnar, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi. Í Íslandsdeildinni hefur auk formanns einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EFTA hefur einnig samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu og hefur það aukist á undanförnum árum vegna aukinna viðskiptatengsla og samninga við þessi ríki. Þá hefur þingmannanefnd EFTA á undanförnum árum haft samskipti við Evrópuþingið og eru þau nú orðin formleg eftir gildistöku EES-samningsins og stofnun þingmannanefndar EES. Þingmannanefnd EFTA hafði í samvinnu við Evrópuþingið frumkvæði að því að í samningnum um EES var gert ráð fyrir 66 manna sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Eftir inngöngu Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar í ESB í ársbyrjun 1995 var hins vegar gert samkomulag um að sameiginleg þingmannanefnd EES samanstæði eftirleiðis de facto af 24 þingmönnum, tólf frá Evrópuþinginu og öðrum tólf frá eftirstandandi EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo, en Liechtenstein gerðist aðili að EES á árinu 1995. Hin sameiginlega þingmannanefnd EES á að fara ofan í saumana á nýrri EES-löggjöf á undirbúningsstigi og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin fundar tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda.
    Hvert EFTA-ríki má senda fimm aðalmenn og tvo áheyrnarfulltrúa á fundi þingmannanefndar EFTA þótt Íslandsdeildin nýti heimildina alla jafna ekki til fulls. Á fundi þingmannanefndar EES hefur Íslandsdeildin sem fyrr segir rétt á að senda fjóra aðalmenn.
    Ljóst er að innganga þriggja EFTA-ríkja í ESB 1. janúar 1995 mun hafa áhrif á framtíðarstarf EFTA og þar með þingmannanefndarinnar. Þingmenn þeirra ríkja sem eftir verða í EFTA hafa komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að halda samstarfinu áfram þó að aðstæður séu breyttar. Náðst hefur fyrrnefnt samkomulag þingmannanefndar EFTA og Evrópuþingsins um breytta samsetningu sameiginlegrar þingmannanefndar EES, sem de facto 24 fulltrúar skipa nú í stað 66 eins og EES-samningurinn gerir ráð fyrir. Að öðru leyti eru starfsemi og skipulag sameiginlegrar þingmannanefndar EES óbreytt en hagsmunir ríkja sem eftir eru í EFTA hvað snertir áframhaldandi öflug tengsl við Evrópuþingið eru augljósir. Hins vegar hefur farið fram mikil endurskipulagning á skrifstofu EFTA frá því að þrjú aðildarríki gengu úr EFTA í ársbyrjun. Búið er að skilja alveg á milli starfsemi skrifstofanna í Brussel og Genf, launakostnaður hefur minnkað um helming og jafnframt hefur kostnaður á hvern einstakan starfsmann minnkað um tæpan þriðjung. Sem dæmi um samdrátt í starfsemi skrifstofu EFTA má nefna að þingmannanefnd EFTA hefur nú einungis einn starfsmann sér til aðstoðar í stað þriggja áður.

II. Fulltrúar Alþingis í þingmannanefd EFTA.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir á árinu 1995:
     Fyrir þingkosningar í apríl: Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki, formaður deildarinnar, Páll Pétursson, Framsóknarflokki, Eyjólfur Konráð Jónsson, Sjálfstæðisflokki, Gísli S. Einarsson, Alþýðuflokki, Guðrún Helgadóttir, Alþýðubandalagi, og Anna Ólafsdóttir Björnsson, Kvennalista. Þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar skiptu með sér tveimur sætum.
     Eftir þingkosningar í apríl:
    Aðalmenn: Vilhjálmur Egilsson, Sjálfstæðisflokki, formaður deildarinnar, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Framsóknarflokki, varaformaður deildarinnar, Árni M. Mathiesen, Sjálfstæðisflokki, Hjörleifur Guttormsson, Alþýðubandalagi, og Sighvatur Björgvinsson, Alþýðuflokki. Hjörleifur tók sæti Svavars Gestssonar í nóvembermánuði.
    Áheyrnarfulltrúar: Ágúst Einarsson, Þjóðvaka, og Kristín Ástgeirsdóttir, Kvennalista.
    Gústaf Adolf Skúlason, alþjóðaritari Alþingis, er ritari Íslandsdeildarinnar.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA eru Vilhjálmur Egilsson og Hjörleifur Guttormsson.

III. Starfsemi þingmannanefndar EFTA á árinu 1995.
    Umsvif og starfsemi á árinu báru merki þess aukna vægis sem þingmannanefnd EFTA hefur öðlast innan EFTA á undanförnum árum. Árið 1995 var miklum tíma þingmannanefndar EFTA varið til að hlúa að samstarfi við Evrópuþingið á vettvangi hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES. Lögð var áhersla á að fylgjast vel með gangi EES-mála, fá upplýsingar frá embættismönnum stofnana EFTA og frá ráðherraráðinu um þau mál og koma skoðunum þingmanna á framfæri við þessa aðila. Þrátt fyrir mikla áherslu á EES-mál fjallaði þingmannanefnd EFTA einnig ítarlega um framtíðarhlutverk EFTA í kjölfar þess að Slóvenar hafa sýnt áhuga á nánum tengslum við EFTA og jafnvel aðild og hélt sendinefnd þingmannanefndarinnar í upplýsingaferð til Slóveníu. Á árinu lagði þingmannanefnd EFTA niður kerfi vinnuhópa sem verið hafði við lýði en tók þess í stað upp kerfi framsögumanna sem leggja fram skýrslur á fundum nefndarinnar til umræðu og ályktunar. Á árinu voru lagðar fram skýrslur um framkvæmd EES-samningsins árið 1994, samkeppni og ríkisstyrki, umhverfismál og frelsi í fólksflutningum.
    Þingmannanefnd EFTA varð með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt og eru nefndirnar til aðgreiningar hér á eftir kallaðar þingmannanefnd EFTA I og þingmannanefnd EFTA II, þegar um fundi þingmannanefndar EFTA er að ræða. Aðgreiningin byggist á því að Sviss á ekki aðild að EES og á því ekki aðild að þingmannanefnd EFTA II sem fjallar um EES-mál og myndar EFTA-hlutann í þingmannanefnd EES.

a.    Heimsókn dagskrárnefndar þingmannanefndar EFTA til Slóveníu.
    Heimsóknin stóð yfir dagana 9.–11. febrúar og með í för fyrir hönd Íslandsdeildarinnar voru Vilhjálmur Egilsson og Páll Pétursson. Nefndin átti fundi með þarlendum ráðamönnum þar sem rædd var staða efnahagsmála og samskipti Slóveníu við EFTA en Slóvenar hafa sýnt áhuga á nánum tengslum við og jafnvel aðild að EFTA.
b.    Fundur fulltrúa þingmannanefndar EFTA með Evrópuþingmönnum.
    Vegna umræðu um framtíð EES í Evrópuþinginu í Strassborg héldu Vilhjálmur Egilsson og Haakon Blankenborg, formaður þingmannanefndar EFTA, til funda við þingmenn Evrópuþingsins dagana 13. og 14. febrúar. Ýmsar hugmyndir höfðu verið uppi í Evrópuþinginu um framtíð samstarfsins en niðurstaða Evrópuþingsins var sú að samstarfinu yrði haldið áfram og samkomulag gert um de facto fækkun í sameiginlegri þingmannanefnd EES úr 66 fulltrúum í 24.

c.    4. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
    Fundurinn var haldinn í Brussel 21. mars. Fulltrúar þingmannanefndar EFTA í framkvæmdastjórninni héldu undirbúningsfund fyrir fundinn. Í forföllum Vilhjálms Egilssonar sótti ritari Íslandsdeildarinnar fundinn.
    Á undirbúningsfundinum var farið yfir samsetningu sendinefndar Evrópuþingsins til sameiginlegrar þingmannanefndar EES. Almenn ánægja var með nýjan formann sendinefndar Evrópuþingsins, Olli Rehn frá Finnlandi, þar eð hann væri áhugasamur um starfið og samstarfsfús. Evrópuþingið hefði ákveðið að hafa tólf manna sendinefnd. Þingmannanefnd EFTA yrði að fara eins að. Fundarmenn voru sammála um að vinnuhópur um fjármál ætti að starfa áfram. Blankenborg lagði til að aðrir vinnuhópar yrðu lagðir niður en í staðinn mundi nefndin ákveða hverju sinni að skoða tiltekin málefni og gera um þau skýrslur. Ákveðið var að ræða þetta frekar á næsta fundi og hvaða málefni nefndin hefði hugsanlega áhuga á að fjalla um. Utan fundar dreifði Loeb frá Sviss bréfi sem hann hafði sent fyrir hönd Svissdeildar þingmannanefndar EFTA til þingsins í Slóveníu þar sem hann bauð sendinefnd til Bern í september. Hann hvatti Ísland og Noreg til að bjóða Slóvenum í heimsókn líka.
    Á fundi framkvæmdastjórnarinnar var staðfest að Rehn yrði formlega kjörinn varaformaður sameiginlegrar þingmannanefndar EES á maífundinum. Þá lögðu fundarmenn blessun sína yfir að eftirleiðis samanstæði sameiginleg þingmannanefnd EES de facto af 24 fulltrúum í stað 66 eins og gert er ráð fyrir de juris í EES-samningnum (95. gr.).

d.    5. fundur dagskrárnefndar þingmannanefndar EFTA.
    Fundurinn var haldinn 5. maí í Kaupmannahöfn og hann sóttu Vilhjálmur Egilsson og Páll Pétursson fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Á fundinum var greint frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu í Liechtenstein þar sem samþykkt var að afnema tollabandalag við Sviss en í kjölfarið gat Liechtenstein loks fengið aðild að EES. Það gerðist 1. maí. Þá voru ræddar skýrslur um framkvæmd EES-samningsins árið 1994 og um samkeppni og ríkisstyrki sem lagðar skyldu fram á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar EES 29. maí. Einnig var ræddur fyrirhugaður fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA 13. júní og loks var ræddur fyrirhugaður niðurskurður á starfsliði þingmannanefndarinnar úr þremur í einn, en uppi voru efasemdir um að einn starfsmaður gæti annast alla þjónustu við nefndina.

e.    37. fundur þingmannanefndar EFTA og 4. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar EES.
    Fundirnir voru haldnir 29. maí í Brussel. Fundina sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Árni M. Mathiesen, auk ritara deildarinnar.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA gerði Kjartan Jóhannsson, framkvæmdastjóri EFTA, grein fyrir fjárhagsstöðu samtakanna. Í máli hans kom fram að fækkun aðildarríkja úr sjö í fjögur um síðustu áramót hefði miklar breytingar í för með sér og því þyrfti að beita niðurskurði á nánast öllum sviðum. Starfsfólki yrði fækkað þannig að í Genf yrðu 15 starfsmenn í stað um 65 áður, í Brussel 37 og í Lúxemborg þrír. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) flytur í húsakynni EFTA í Brussel. Munu EFTA og ESA hafa með sér samstarf um rekstur hússins og ýmsa þjónustu.
    Haakon Blankenborg, formaður þingmannanefndar EFTA, sagði frá því að fækka ætti starfsmönnum þingmannanefndarinnar frá 1. júlí úr þremur í einn. Nokkur umræða varð um störf nefndarinnar og þjónustu við hana. Töldu þingmenn hæpið að einn starfsmaður gæti annast alla þjónustu við þingmannanefndina. Kjartan Jóhannsson sagðist skilja áhyggjur þingmanna en alls staðar þyrfti að skera niður. Ef í ljós kæmi eftir einhvern reynslutíma að þingmannanefndin þyrfti meiri þjónustu mætti skoða málið á ný en engu væri hægt að lofa.
    Knut Almestad, forseti ESA, gerði grein fyrir fjárhagsáætlun eftirlitsstofnunar EFTA fyrir síðari hluta árs 1995. Þar kom fram að stefnt væri að því að einfalda yfirbyggingu stofnunarinnar og að þjónustudeildum yrði fækkað úr átta í fimm. Í grófum dráttum yrði skipting kostnaðar ESA eftirfarandi: Ísland 9%, Liechtenstein 2% og Noregur 89%.
    Á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar EES var Blankenborg frá Noregi endurkjörinn formaður en Olli Rehn frá Finnlandi kjörinn varaformaður. Formaður sendinefndar Liechtenstein, Otto Büchel, lýsti yfir ánægju sinni með inngöngu Liechtenstein í EES 1. maí. Grete Knudsen, varaformaður EES-ráðsins, ræddi þróun EES-samstarfsins það sem af var árinu. Tvær skýrslur voru lagðar fram til umræðu á fundinum, annars vegar um framkvæmd EES-samningsins á árinu 1994, en í henni var m.a. fjallað um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar, og hins vegar um samkeppni og ríkisstyrki. Ályktanir voru samþykktar um bæði efnin.
    Í umræðum á fundinum benti Vilhjálmur Egilsson á tvö atriði sem nauðsynlegt væri að huga betur að í EES-samstarfinu, annars vegar að ný ESB-lög yrðu yfirfærð í EES jafnóðum og hins vegar að efla þyrfti samstarf þingmanna EFTA-ríkja og Evrópuþingsins við mótun nýrrar EES-löggjafar. Þá gerði Vilhjálmur grein fyrir málum á Íslandi sem enn voru útistandandi gagnvart EES, svo sem löggjöf um vinnutíma barna og unglinga, einkasölu ríkisins á áfengi og vörugjöld.
    Í sameiginlegri þingmannanefnd EES lögðu Íslendingar og Norðmenn fram skriflega fyrirspurn til ráðherraráðs EES í október 1994 um mengun hafsins af völdum kjarnorkuúrgangs frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum. Á fundinum barst svar við fyrirspurninni á þá leið að EES-samningurinn næði ekki yfir þetta málefni.

f.    38. fundur þingmannanefndar EFTA og 12. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.
    Fundirnir voru haldnir dagana 12. og 13. júní. Fundina sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Árni M. Mathiesen og Svavar Gestsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Aðalmál fundanna var samskipti við ríki utan EFTA og EES og hugsanleg stækkun EFTA. Sérstaklega voru rædd samskipti við Slóvena þar sem þeir hafa lýst áhuga á nánari tengslum við EFTA. Rætt var um fríverslunarsamning EFTA við Slóveníu sem undirritaður var á fundi ráðherraráðs EFTA 13. júní og fríverslunarsamninga á milli EFTA og Eystrasaltsríkjanna er til stóð að leggja fram sama dag. Á fundi þingmannanefndar EFTA sagði Kjartan Jóhannsson framkvæmdastjóri EFTA að mikil umræða ætti sér stað innan samtakanna um samskipti við þriðju ríki. Áhugi væri á því að þróa þá fríverslunarsamninga sem þegar hefðu verið gerðir og jafnframt að kanna gerð fríverslunarsamninga við fleiri ríki, jafnvel utan Evrópu. Hann lagði áherslu á að skýrsla sú sem skrifstofa EFTA hafði tekið saman um Slóveníu og möguleika hennar á aðild að EFTA hefði tekið á tæknilegum þáttum málsins. Spurningin um hugsanlega stækkun EFTA væri hins vegar pólitískt mál sem skoða yrði með tilliti til þess hvernig skilgreina bæri framtíðarhlutverk EFTA og hlutverk þess í samrunaferli Evrópu. Skiptar skoðanir voru á fundinum um stækkun EFTA en innan Íslandsdeildarinnar vildu menn skoða hugsanlega aðild Slóveníu á jákvæðan hátt.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA fóru þeir síðarnefndu almennt varlega í umræðu um hugsanlega stækkun samtakanna. Grete Knudsen, formaður ráðsins, sagði að aðalverkefni EFTA nú væri þjónusta við EFTA-hlið EES. Varðandi samstarf við önnur ríki sagði hún að mikilvægast væri að senda skýr skilaboð um að EFTA hefði mikinn áhuga á slíku samstarfi, sérstaklega við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Slík skilaboð fælust einmitt í fríverslunarsamningnum við Slóvena. Knudsen taldi ekki ástæðu til að flýta ákvörðun um hugsanlega stækkun EFTA. Hún minnti á að þótt EFTA-ríki hefðu vissulega skyldur við ríki Mið- og Austur-Evrópu hefðu þau jafnframt skyldur gagnvart EES og starfsemi þess. Þingmenn voru almennt sammála um að brýnt væri að skilgreina framtíðarhlutverk EFTA og stöðu þess í samrunaferli Evrópu þannig að hægt yrði að taka afstöðu til hugsanlegrar stækkunar. Ákveðið var á fundi þingmannanefndar EFTA að formenn landsdeilda legðu hver fram greinargerð um hlutverk EFTA í samrunaferli Evrópu á fundi dagskrárnefndar þingmannanefndar EFTA í september.
    Á fundunum var rætt um EES-samstarfið almennt og starfsemi þingmannanefndar EES. Þingmenn og ráðherrar voru almennt sammála um að þingmannanefnd EES væri á réttri braut og að samstarf þingmannanefndarinnar við Evrópuþingið væri mikilvægur liður í EES-samstarfinu. Á fundinum með ráðherraráðinu lagði þingmannanefndin áherslu á að hún fengi eins og ráðgjafarnefndin tækifæri til að funda sérstaklega með fastanefnd EFTA.
    Olli Rehn, formaður sameiginlegrar þingmannanefndar EES, mætti á fundi þingmannanefndar EFTA og ræddi annars vegar framtíðarstarf sameiginlegrar þingmannanefndar EES og hins vegar ályktun Evrópuþingsins um ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins.

g.    6. fundur dagskrárnefndar þingmannanefndar EFTA og 5. fundur framkvæmdastjórnar sameiginlegrar þingmannanefndar EES.
    Fundirnir voru haldnir 28. september í Brussel. Þá sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson, auk ritara deildarinnar.
    Á fundi framkvæmdastjórnarinnar var kynnt uppkast að skýrslu um frjálsa fólksflutninga og drög að skýrslu um umhverfismál sem fjallað skyldi um á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Liechtenstein í nóvember. Í umræðum um framtíðarviðfangsefni nefndarinnar var samþykkt að um sinn yrði lögð megináhersla á væntanlega ársskýrslu. Á fundinum var samþykkt að gengið skyldi eftir því að sameiginlegri þingmannanefnd EES bærust skrifleg svör við álitsgerðum sínum frá ráðherraráðum EFTA og ESB. Jafnframt lagði breski Evrópuþingmaðurinn Gary Titley til að unnar yrðu skýrslur um framvindu þeirra mála sem nefndin ályktaði um og Rehn lagði til að slíkar skýrslur yrðu kynntar í tengslum við ársskýrsluna. Hugmyndin var samþykkt. Að lokum var samþykkt að framvegis sætu de facto þrír þingmenn frá EES-aðildarríkjum EFTA fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES, sem og þrír þingmenn Evrópuþingsins, en samkvæmt starfsreglum skulu þeir vera fjórir frá hvorum.
    Meginmálefnið á fundi dagskrárnefndarinnar voru skýrslur landsdeilda þingmannanefndar EFTA um framtíðarhlutverk EFTA í samrunaþróun Evrópu, sem ákveðið hafði verið að fjalla um í tengslum við áhuga Slóveníu á nánari tengslum við EFTA. Almenn samstaða var um það á fundinum að halda fríverslunarsamtökum EFTA opnum þegar við ætti fyrir þeim sem áhuga sýndu á nánari tengslum við eða aðild að samtökunum. Nokkurs áherslumunar gætti þó í afstöðu fundarmanna og einkum höfðu fulltrúar Noregs uppi áberandi meiri efasemdir um ágæti þessa en aðrir fundarmenn. Þannig taldi Blankenborg að slík stækkun kynni að trufla framkvæmd þriggja meginviðfangsefna EFTA — rekstur fríverslunarsvæðis, samhæfingu stefnu í málefnum EES og samskipti við þriðju ríki — auk þess að hafa aukinn kostnað og flóknara regluveldi í för með sér. Hann lagði jafnframt mikla áherslu á að full aðild að EFTA væri engin trygging fyrir aðild að EES en svissnesku fulltrúarnir minntu á að Sviss væri aðili að EFTA en ekki að EES. Samþykkt var að landsdeildirnar skiluðu hver fyrir sig nýrri og endurskoðaðri skýrslu fyrir 15. október og að formaðurinn sameinaði þær í eina og skilaði aftur til landsdeildanna fyrir 1. nóvember. Sameiginlega skýrslan yrði síðan rædd á fundi þingmannanefndarinnar í nóvember og kynnt fyrir ráðherraráði EFTA í Genf í byrjun desember. Fram kom áhugi á að bjóða fulltrúum Slóveníuþings til viðræðna við nefndina en ekki var tekin ákvörðun um tímasetningu slíks fundar. Hins vegar var samþykkt að biðja um skýrslu frá sérfræðingum EFTA um fríverslunarsamningaflóru Evrópu og mat á hvort hægt væri að hefja einhvers konar samræmingarferli allra þessara samninga. Einnig var fjallað um kerfi það sem nú er viðhaft í þingmannanefndum EFTA I og II, sem felur í sér að ekki er ávallt sami formaður fyrir nefndunum tveimur þar sem Sviss er ekki aðili að EES (en EFTA II myndar EFTA-hluta þingmannanefndar EES). Samþykkt var að halda því fyrirkomulagi óbreyttu, þ.e. að EES-aðildarríkin þrjú skiptist á um formennsku í EFTA II en að EFTA-ríkin fjögur (með Sviss) skiptist á um formennsku í EFTA I og að hvert ríki fari þá með formennsku í eitt ár í senn frá 1. janúar til 31. desember.

h.    39. fundur þingmannanefndar EFTA, 1. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 5. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar EES.
    Fundirnir voru haldnir 20. og 21. nóvember í Triesenberg í Liechtenstein. Þá sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Árni M. Mathiesen, Hjörleifur Guttormsson, Sighvatur Björgvinsson og Kristín Ástgeirsdóttir, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var Otto Büchel frá Liechtenstein kjörinn formaður nefndarinnar (I og II), frá og með 1. janúar 1996. Peter Vollmer frá Sviss var kjörinn varaformaður þingmannanefndar EFTA I og Vilhjálmur Egilsson varaformaður þingmannanefndar EFTA II (sem fjallar um málefni EES og myndar EFTA-hluta þingmannanefndar EES).
    Á fundinum var formlega samþykkt að leggja niður kerfi vinnuhópa, að undanskildum vinnuhóp um fjárlög, og taka í staðinn upp kerfi framsögumanna. Þá var samþykkt að starf vinnuhóps um fjárlög skyldi framvegis falla undir starfssvið dagskrárnefndar. Jafnframt var nafni dagskrárnefndar breytt í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA. Þá var fjallað um sameiginlega skýrslu þingmannanefndar EFTA um framtíðarhlutverk samtakanna í samrunaferli Evrópu, sem m.a. hefur verið unnin vegna áhuga Slóvena á nánari tengslum við og jafnvel aðild að EFTA. Samþykkt var sameiginleg skýrsla þar sem lýst er þeirri skoðun þingmannanefndarinnar að EFTA skuli í grundvallaratriðum vera opið fyrir nánari tengslum við ríki utan EES og jafnvel nýjum aðildarríkjum og að viðhafa beri sveigjanleika í formbindingu slíkra tengsla.
         Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA kynnti Knut Almestad, forseti ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), drög að fjárlögum stofnunarinnar fyrir árið 1996 sem hlutu samþykki fundarins.
    Á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar EES sagði Federico Garayalde sendiherra, fulltrúi ráðherraráðs ESB, sambandið vera sátt við virkni stofnana EES og lýsti ánægju þess með að allur þorri laga og reglugerða sambandsins um innri markaðinn næði nú til alls Evrópska efnahagssvæðisins. Tvær skýrslur voru lagðar fram á fundinum til umræðu, annars vegar um umhverfismál og hins vegar um frjálsa fólksflutninga. Árni M. Mathiesen var framsögumaður þingmannanefndar EFTA um umhverfismál. Ályktanir voru samþykktar um bæði efnin. Olli Rehn var kjörinn nýr formaður þingmannanefndar EES frá og með 1. janúar 1996, en varaformaður verður Otto Büchel frá Liechtenstein.
    Ákveðið var að fyrir næsta fund þingmannanefndar EES yrði unnin skýrsla um fjarskiptatækni og að einnig yrði rætt um ársskýrslu EES.

i.    40. fundur þingmannanefndar EFTA, 2. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 13. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.
    Fundirnir voru haldnir í Zermatt í Sviss dagana 6. og 7. desember og þá sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Árni M. Mathiesen, Hjörleifur Guttormsson, Sighvatur Björgvinsson og Ágúst Einarsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Á fundi þingmannanefndarinnar var fjallað um WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunina), net fríverslunarsamninga og samrunaferli í Evrópu. Jorge Vigano frá WTO sat fundinn og fór yfir málefni WTO og stöðu þeirra samninga sem stofnunin hefur eftirlit með.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA fór Aldo Matteucci, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, yfir hlutverk og útgjöld EFTA-skrifstofunnar.
    Á fundinum með ráðherraráði EFTA var rætt um þróun EES-samningsins, framtíðarhlutverk EFTA og samskipti við önnur ríki. Varðandi samninga við ríki utan EES var rætt um fyrirhugaðan fríverslunarsamning við Eystrasaltsríkin sem undirritaður var sama dag, tvíhliða samninga við svonefnd Visegrad-lönd (Pólland, Ungverjaland, Tékkland og Slóvakíu) og hugsanlega samninga við Kýpur og Möltu. Í umræðum um framtíðarhlutverk EFTA komu fram nokkuð skiptar skoðanir. Fundarmenn voru þó flestir sammála um að ef umsóknir um aðild bærust til EFTA væri rétt að skoða þær vandlega með jákvæðu hugarfari.

Alþingi, 19. febr. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson,

Árni M. Mathiesen.


form.

varaform.



Hjörleifur Guttormsson.

Sighvatur Björgvinsson.