Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 99 . mál.


681. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

(Eftir 2. umr., 11. mars.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
    2. mgr. orðast svo:
                  Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir fyrir lánastofnunina, lýsing á starfseminni þar sem fram kemur, meðal annars, hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og lýsing á innra skipulagi lánastofnunarinnar. Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um stofnendur, hlutafé, hluthafa og hlut hvers um sig, auk annarra upplýsinga og gagna sem viðskiptaráðherra ákveður.
    Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvörðun um umsókn um starfsleyfi skal ávallt liggja fyrir innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn barst ráðherra.
    

2. gr.

    Í stað orðanna „11. maí 1993“ í 5. gr. laganna kemur: 27. maí 1993.
    

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Eigið fé lánastofnunar skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni. Áhættugrunnur stofnunar skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli lánastofnana sem Seðlabankinn setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning.
    Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
                  Ákvæði laga um Seðlabanka Íslands, svo og reglur settar samkvæmt þeim um laust fé, bindiskyldu og gengisbundnar eignir og skuldir innlánsstofnana, skulu einnig gilda fyrir aðrar lánastofnanir, eftir því sem við getur átt.
    

4. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Ársreikningur lánastofnunar skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Þó skal ársreikningur lánastofnunar, sem rekin er á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira, endurskoðaður af Ríkisendurskoðun, sbr. lög um Ríkisendurskoðun. Ráðherra sá, sem fer með málefni lánastofnunar í eigu ríkissjóðs, staðfestir ársreikning hennar.
    Um ársreikning og endurskoðun að öðru leyti, svo og samstæðureikningsskil, fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

5. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um heimildir dótturfyrirtækja erlendra lánastofnana til starfsemi hér á landi fer samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

6. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um heimildir dótturfyrirtækja innlendra lánastofnana til starfsemi erlendis fer samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

7. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú gerist hérlend lánastofnun, sem stundar starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, brotleg við lög þess ríkis, og lögbær yfirvöld þess ríkis grípa til ráðstafana sambærilegra þeim sem greinir í 1. mgr., og skal þá bankaeftirlitið aðstoða þarlend lögbær yfirvöld við samskipti þeirra við yfirstjórn hlutaðeigandi lánastofnunar.
    

8. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Ákvæði 96. gr. A laga um viðskiptabanka og sparisjóði um rétt til að leita til dómstóla gilda einnig um lánastofnanir.
    

9. gr.

    Orðin „2. mgr. 3. gr.“ í 2. tölul. 24. gr. laganna falla brott.
    3. gr. laga nr. 48/1966, um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja (verslunarlánasjóð), orðast svo:
          Fjáröflun stofnlánadeildarinnar er sem hér segir:
         
    
    Fé sem fengið er með útgáfu vaxtabréfa, að fengnu samþykki Seðlabanka Íslands.
         
    
    Vextir.
         
    
    Fé sem fengið kann að vera að láni til endurlána.

10. gr.


    Við ákvæði til bráðabirgða I í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsheimildir 8. gr. laga þessara koma til viðbótar heimildum sérlaga um starfandi lánastofnanir.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 45/1972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Víkjandi lán, sem lánastofnun hefur tekið fyrir gildistöku laga þessara og greiðast skal niður með afborgunum, er undanþegið ákvæði um endurgreiðslu víkjandi lána sem teljast til eiginfjárþáttar B í 3. málsl. 4. mgr. 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.