Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 397 . mál.


697. Tillaga til þingsályktunar



um breytta starfshætti Alþingis.

Flm.: Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd að móta tillögur um breytta starfshætti Alþingis þannig að hverju löggjafarþingi verði skipt upp í nokkrar fundalotur.
    Jafnframt ályktar Alþingi að umfjöllun um einstaka þætti fjárlagafrumvarps verði færð frá fjárlaganefnd yfir á þær fastanefndir sem hver málaflokkur heyrir undir og starf fjárlaganefndar endurskipulagt í samræmi við það.

Greinargerð.


    Tvö atriði í tengslum við störf þingsins vekja sérstaka athygli hjá þeim sem eru að hefja þingstörf í fyrsta sinn. Annars vegar það vinnulag að flest þingmál eru ekki afgreidd fyrr en á síðustu dögum hvers þings fyrir jól og að vori og hins vegar hve lítil áhrif annarra fastanefnda en fjárlaganefndar eru á meðferð fjárlagafrumvarps. Hér er lagt til að forsætisnefnd verði falið að móta tillögur um breytingar á núverandi ástandi.
    Hvert reglulegt löggjafarþing skiptist upp í tvær lotur, þ.e. haustþing sem nær að jafnaði frá október og fram að jólum og vorþing frá janúar og fram í maí. Þingfundir eru haldnir fjóra daga í hverri viku og halda fastanefndirnar fund að morgni þeirra sömu daga. Afgreiðsla langflestra þingmála fer fram á síðustu tveimur til þremur vikum fyrir lok þessara fundalotna. Hið mikla álag sem á þeim tíma er á bæði þingmönnum og starfsfólki þingsins hlýtur að valda því að ekki næst að vanda eins vel afgreiðslu hvers þingmáls eins og æskilegt væri að gera. Þannig er hættan á að mistök eigi sér stað einnig meiri fyrir vikið. Tímabært er að finna leiðir til að breyta þessu ástandi. Í texta þessarar tillögu er lagt til að hverju löggjafarþingi verði skipt upp í nokkrar fundalotur. T.d. mætti hugsa sér að þingið sæti ávallt fjórar vikur í senn og þinghaldinu yrði skipt þannig upp að fundir fastanefnda væru ekki á sömu dögum og þingfundir. Á milli þessara fjögurra vikna tarna væri einnar viku þingfundahlé þar sem þingflokkar hefðu tækifæri til að funda og þingmenn tækifæri til að ferðast um kjördæmi sín og hitta kjósendur. Þá má einnig hugsa sér að fastanefndirnar gætu notað fundahléð til að fara í vettvangsferðir eða til frekari fundahalda. Fyrsta lotan yrði líklega eingöngu helguð fjárlagavinnunni og er því eðlilegt að ætla henni nokkru lengri tíma. Með hliðsjón af slíkum breytingum mætti einnig hugsa sér að þingið sæti fleiri mánuði á hverju ári og eiginlegt sumarleyfi yrði þá ekki nema einn til tveir mánuðir.
    Árið 1991, þegar þingið var sameinað í eina málstofu, var fastanefndum þingsins jafnframt fjölgað og staða þeirra innan þingsins styrkt. Enn er það samt þannig að vinna við eitt stærsta og umdeildasta frumvarpið sem lagt er fram á hverju þingi, fjárlagafrumvarpið, fer nánast eingöngu fram í fjárlaganefnd. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að tiltekin nefnd hafi heildaryfirsýn yfir svo mikilvægt þingmál og geri tillögur um hugsanlegar breytingar á þeim heildarfjárhæðum sem skipt er niður á einstök ráðuneyti. Hins vegar eru allar forsendur til þess að láta fastanefndunum, sem fara með hvert málefnasvið, eftir að skipta þeim heildarfjárhæðum upp á milli einstakra málaflokka innan hvers ráðuneytis. Slík vinnubrögð hafa tíðkast bæði í Svíþjóð og Noregi um langan tíma, þykja sjálfsögð og hafa gefist mjög vel.