Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 451 . mál.


783. Frumvarp til lögreglulaga.




(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



I. KAFLI

Hlutverk lögreglu o.fl.

1. gr.

Hlutverk.

    Ríkið heldur uppi starfsemi lögreglu.
    Hlutverk lögreglu er:
         
    
    að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi,
         
    
    að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins,
         
    
    að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum,
         
    
    að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að,
         
    
    að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á,
         
    
    að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu,
         
    
    að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju.
    

2. gr.

Tengsl við þjóðarétt.


    Lögregla skal í störfum sínum hafa í heiðri þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

3. gr.

Lögreglumenn.


    Til lögreglumanna teljast þeir sem skipaðir eru eða settir til lögreglustarfs skv. 3. mgr. 28. gr. eða ráðnir tímabundið skv. 4. mgr. 28. gr.
    

II. KAFLI

Skipulag lögreglu og æðsta stjórn.

4. gr.

Æðsta stjórn lögreglu.

    Dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði hans.

5. gr.

Ríkislögreglustjóri.


    1. Hlutverk ríkislögreglustjóra er:
    að flytja og kynna lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkisvaldsins sem snerta starfsemi lögreglunnar með einum eða öðrum hætti og vinna að og fylgjast með að þeim ákvörðunum verði fylgt í starfsemi lögreglunnar,
    að láta dómsmálaráðherra í té upplýsingar um hvers konar lögreglumálefni sem hann getur notað til að undirbúa og byggja ákvarðanir sínar á,
    að gera tillögur til dómsmálaráðherra um almenn fyrirmæli til lögreglustjóra,
    að vinna að og gera tillögur um hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglunnar,
    að annast alþjóðasamskipti á sviði löggæslu,
    að veita lögreglustjórum aðstoð og stuðning í lögreglustörfum,
    að annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu á landsvísu eða samstarf við lögreglu í öðru landi,
    að hafa með höndum yfirstjórn eða gefa fyrirmæli um framkvæmd einstakra löggæsluverkefna sem krefjast viðamikils undirbúnings eða þátttöku lögreglumanna úr fleiri en einu umdæmi. Ríkislögreglustjóri skal að fengnu samþykki dómsmálaráðherra tilkynna hlutaðeigandi lögreglustjóra eða lögreglustjórum ákvörðun sína varðandi stjórn löggæsluverkefnis með hæfilegum fyrirvara.
    2. Sérstök verkefni sem ríkislögreglustjóra ber að hafa með höndum eru:
    að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot,
    að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota, deildin skal rannsaka mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum vegna brots í starfi,
    að starfrækja almenna deild er annist kerfisbundna skráningu upplýsinga um lögreglumálefni, hafi umsjón með kaupum á ökutækjum, búnaði og fatnaði lögreglu og hafi reglulegt eftirlit með lögreglustöðvum, tækjum þeirra og búnaði,
    að starfrækja alþjóðadeild er annist alþjóðleg boðskipti,
    að starfrækja rannsóknarstofu sem annist skjalarannsóknir, fingrafararannsóknir og aðrar slíkar tæknilegar lögreglurannsóknir.
    3. Dómsmálaráðherra mælir nánar fyrir um starfsemi ríkislögreglustjóra.
    4. Ríkislögreglustjóra til aðstoðar er vararíkislögreglustjóri. Hann er staðgengill ríkislögreglustjóra.
    5. Þegar ríkislögreglustjóri er svo við málsefni eða aðila riðinn að hann mætti eigi gegna dómarastörfum í því skal hann víkja sæti og setur dómsmálaráðherra þá löghæfan mann til meðferðar þess máls.

6. gr.

Lögregluumdæmi og stjórn þeirra.


    1. Landið skiptist í lögregluumdæmi sem fara saman við skiptingu þess í stjórnsýsluumdæmi. Sýslumenn eru lögreglustjórar hver í sínu umdæmi nema í Reykjavík þar sem lögreglustjórn er í höndum sérstaks lögreglustjóra. Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skal starfa varalögreglustjóri.
    2. Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.
    3. Dómsmálaráðherra getur falið öðrum en hinum reglulega lögreglustjóra umdæmis að fara með lögreglustjórn þar tímabundið þegar sérstaklega stendur á.
    4. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja annan löghæfan mann í stað hins reglubundna lögreglustjóra til meðferðar einstaks máls.

7. gr.

Starfssvæði lögreglu.


    1. Lögreglumenn hafa lögregluvald hvar sem er á landinu.
    2. Starfssvæði lögreglumanns er það umdæmi sem hann er skipaður, settur eða ráðinn til þess að starfa í.
    3. Dómsmálaráðherra getur ákveðið að hluti lögregluliðs skuli gegna lögreglustörfum alls staðar á landinu. Hann setur reglur um störf þess lögregluliðs og hvernig stjórn þess skuli háttað.
    4. Heimilt er að víkja frá ákvæði 2. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
    Ríkislögreglustjóri getur ákveðið að höfðu samráði við lögreglustjóra að lögreglulið í einu umdæmi skuli tímabundið gegna lögreglustörfum í öðru umdæmi og ákveður þá jafnframt hver skuli fara með stjórn þess. Þá getur dómsmálaráðherra samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra falið lögreglustjórum tímabundið tiltekin löggæsluverkefni utan síns umdæmis ef hagfellt þykir vegna staðhátta.
    Lögreglumanni er heimilt að fara út fyrir starfssvæði sitt til þess að ljúka lögregluaðgerð sem hann hefur hafið innan þess. Á sama hátt getur lögreglumaður unnið lögregluverk utan umdæmis síns ef verkefnið krefst þess eða brýna nauðsyn ber til.
    Lögreglumanni, sem er að störfum en á leið um annað lögregluumdæmi, er heimilt að hafa afskipti af mönnum sem hann stendur að lögbrotum.
    5. Lögreglumaður skal tilkynna yfirmanni sínum um aðgerðir sínar skv. b- og c-liðum 4. mgr. svo fljótt sem kostur er. Með sama hætti ber að tilkynna lögreglustjóra hlutaðeigandi umdæmis um aðgerðir lögreglumanns.

8. gr.

Sérstakar rannsóknardeildir.


    1. Við embætti eftirtalinna lögreglustjóra skulu vera sérstakar rannsóknardeildir:
    lögreglustjórans í Reykjavík fyrir umdæmi hans,
    lögreglustjórans á Akranesi fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans í Borgarnesi, í Stykkishólmi og í Búðardal,
    lögreglustjórans á Ísafirði fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans á Patreksfirði, í Bolungarvík og á Hólmavík,
    lögreglustjórans á Sauðárkróki fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans á Blönduósi og á Siglufirði,
    lögreglustjórans á Akureyri fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans á Ólafsfirði og á Húsavík,
    lögreglustjórans á Seyðisfirði fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans í Neskaupstað, á Eskifirði og á Höfn,
    lögreglustjórans á Selfossi fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans í Vík í Mýrdal og á Hvolsvelli,
    lögreglustjórans í Vestmannaeyjum fyrir umdæmi hans,
    lögreglustjórans í Keflavík fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli,
    lögreglustjórans í Hafnarfirði fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans í Kópavogi.
    2. Lögreglumenn í rannsóknardeildum skulu rannsaka brot í sínu lögregluumdæmi eftir fyrirmælum hlutaðeigandi lögreglustjóra.
    3. Lögreglustjóra í umdæmi þar sem ekki er starfandi rannsóknardeild skv. 1. mgr. er heimilt að leita eftir aðstoð lögreglumanna í rannsóknardeildum skv. 1. mgr. við rannsókn brota. Ef brot er alvarlegt skal hann að jafnaði leita eftir slíkri aðstoð og er þá ríkislögreglustjóra heimilt að fela lögreglustjóra í umdæmi þar sem rannsóknardeild starfar stjórn rannsóknarinnar.
    4. Ríkislögreglustjóri sker úr um í hvaða umdæmi mál skuli rannsakað.
    5. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um starfsemi rannsóknardeilda.
    6. Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skal starfrækt tæknideild sem sinni vettvangsrannsóknum og öðrum slíkum rannsóknum. Tæknideildin skal þjóna öllum lögregluumdæmum og setur dómsmálaráðherra nánari reglur um starfrækslu hennar.

9. gr.

Handhafar lögregluvalds.


    1. Ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar, varalögreglustjórinn í Reykjavík, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn fara með lögregluvald.
    2. Dómsmálaráðherra er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum lögreglu lögregluvald tímabundið eða til að sinna sérstökum verkefnum.
    3. Skipshafnir varðskipa fara með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.
    4. Tollverðir fara með lögregluvald á sínu starfsviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.
    5. Hreppstjórar fara með lögregluvald samkvæmt lögum um hreppstjóra.
    6. Héraðslögreglumenn fara með lögregluvald þegar þeir gegna starfinu.
    7. Þeir sem kvaddir eru lögreglu til aðstoðar lögum samkvæmt fara með lögregluvald á meðan þeir gegna starfanum.
    8. Nemar í Lögregluskóla ríkisins fara með lögregluvald þegar þeir gegna lögreglustarfi.

10. gr.

Héraðslögreglumenn.


    1. Lögreglustjóra er heimilt að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra að ráða héraðslögreglumenn til starfa í umdæmi sínu, enda fullnægi þeir skilyrðum í a-, b- og c-liða 2. mgr. 39. gr. laganna.
    2. Hlutverk héraðslögreglumanna er að gegna almennum löggæslustörfum þegar á þarf að halda, þar á meðal að halda uppi lögum og reglu á mannfundum og skemmtunum undir stjórn lögreglumanna.
    3. Dómsmálaráðherra setur reglur um fjölda héraðslögreglumanna og störf þeirra.
    4. Héraðslögreglumenn njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og lögreglumenn á meðan þeir gegna lögreglustörfum.

11. gr.

Samvinna lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir.


    1. Lögreglan skal aðstoða ákæruvaldið við störf þess.
    2. Lögregla og önnur stjórnvöld og stofnanir skulu hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.

12. gr.

Samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga.


    1. Í hverju lögregluumdæmi skal starfa samstarfsnefnd um málefni lögreglunnar. Í henni sitja þrír menn: Lögreglustjóri viðkomandi umdæmis sem jafnframt er formaður nefndarinnar og tveir sveitarstjórnarmenn tilnefndir af hálfu sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu. Fundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
    2. Nefndin er vettvangur fyrir samskipti og samvinnu lögreglunnar og sveitarfélaga í umdæminu. Hún gerir m.a. tillögur um úrbætur í málefnum sem varða löggæslu í umdæmi hennar og beitir sér fyrir því að almenningi verði kynnt starfsemi lögreglunnar.
    

III. KAFLI

Skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa.

13. gr.

Almennar reglur.

    1. Handhafa lögregluvalds ber að sýna árvekni í starfi sínu og kunna glögg skil á skyldum sínum og þeirri ábyrgð sem starfinu fylgir.
    2. Handhafa lögregluvalds ber að rækja starfa sinn af kostgæfni og samviskusemi og ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni. Þeir skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur. Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum né á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.
    3. Við framkvæmd starfa sinna skulu handhafar lögregluvalds bera á sér sérstök skilríki er sýni m.a. nafn þeirra og stöðu ásamt mynd. Ráðherra ákveður notkun lögregluskilríkja með reglugerð.

14. gr.

Valdbeiting.


    Handhöfum lögregluvalds er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.

15. gr.

Aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl.


    1. Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau.
    2. Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.
    3. Óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu skv. 2. mgr. getur hún gripið til nauðsynlegra ráðstafana á hans kostnað til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu.
    4. Lögreglu er heimilt að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar.
    5. Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af málefnum sem samkvæmt lögum heyra undir önnur stjórnvöld ef það er talið nauðsynlegt til að stöðva eða koma í veg fyrir alvarlega röskun á almannafriði og allsherjarreglu og ekki næst til viðkomandi stjórnvalds eða aðgerðir af þess hálfu eru útilokaðar, þýðingarlausar eða fyrirsjáanlegt er að þær muni hefjast of seint. Tilkynna skal hlutaðeigandi stjórnvaldi um aðgerðir lögreglu svo fljótt sem auðið er.

16. gr.

Heimild til handtöku.


    1. Handhafa lögregluvalds er heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu:
    í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum,
    ef hann hefur hér ekki landvistarleyfi,
    2. Lögregla skal gera manni grein fyrir ástæðum þess að hann er færður á starfsstöð lögreglu. Ekki má halda manni lengur en nauðsyn ber til.

17. gr.

Leit á mönnum.


    1. Lögreglu er heimilt ef ástæða er til að leita að vopnum eða öðrum hættulegum munum á hverjum þeim sem fjarlægður er eða handtekinn af lögreglu.
    2. Sé maður vistaður í fangageymslu er lögreglu heimilt að leita á honum og taka til varðveislu muni sem hann hefur á sér og hann getur notað til þess að vinna tjón á sjálfum sér eða öðrum. Ef ástand manns eða aðstæður að öðru leyti gefa tilefni til er heimilt að taka af honum peninga og muni sem hann hefur á sér og hætta þykir á að geti skemmst, eyðilagst eða glatast.
    3. Verðmætum, sem lögregla tekur til varðveislu skv. 2. og 3. mgr., ber að skila aftur þegar maður er látinn laus enda séu ekki skilyrði til að leggja hald á þau samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

18. gr.

Afskipti af börnum.


    Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af börnum yngri en 16 ára sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra eða velferð er alvarleg hætta búin og koma þeim í hendur forsjármanna eða barnaverndaryfirvalda ef nauðsynlegt þykir.

19. gr.

Skylda til að hlýða fyrirmælum lögreglu.


    Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.
    

20. gr.


Skylda til að aðstoða lögreglu.


    1. Ef nauðsyn ber til geta lögreglumenn kvatt sér til aðstoðar hvern fulltíða mann, þar á meðal til að afstýra óreglu eða óspektum á almannafæri. Maður er skyldur til að hlýða kvaðningu lögreglu ef hann getur veitt aðstoð án þess að stofna lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu.
    2. Þeir sem kvaddir eru lögreglunni til aðstoðar skv. 1. mgr. fara með lögregluvald meðan þeir gegna starfinu og njóta sömu verndar og aðrir lögreglumenn.

21. gr.

Bann við að tálma lögreglu í störfum sínum.


    Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum.
    

22. gr.

Þagnarskylda.


    1. Lögreglumönnum og öðru starfsliði lögreglu ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða skipulag og starfsemi lögreglu og fyrirhugaðar lögregluaðgerðir og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls.
    2. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

23. gr.

Afskipti af eigin málum eða nákominna vandamanna.


    Starfsmanni lögreglu er í starfi sínu óheimilt að aðhafast í eigin málum eða nákominna vandamanna nema afskipti hans af máli séu nauðsynleg til verndar lífi eða heilsu manna eða eignum gegn yfirvofandi hættu eða hætta sé á að frestun aðgerðar muni leiða til þess að tilgangi hennar verði ekki náð.

24. gr.

Afskipti af vinnudeilum.


    Lögreglu er óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.

25. gr.

Lögreglustörf utan vinnutíma.


    1. Lögreglumanni er heimilt að sinna lögreglustörfum í frítíma sínum ef:
    þess er þörf til verndar lífi eða heilsu fólks eða verulegum opinberum hagsmunum,
    þess er þörf til að afstýra eða stöðva alvarlegt lögbrot eða
    þess er þörf til að handtaka megi mann sem grunaður er um alvarlegan refsiverðan verknað.
    2. Hafi lögreglumaður haft afskipti af máli skv. 1. mgr. ber honum tafarlaust að tilkynna það yfirmanni sínum. Hafi hann unnið slík verk utan starfsumdæmis síns skal hann tilkynna það lögreglustjóra þess umdæmis.

26. gr.

Heimild til að fela lögreglu tollgæslustörf.


    Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða með samkomulagi við fjármálaráðherra að lögreglumenn skuli gegna tollgæslustörfum jafnframt öðrum löggæslustörfum eftir nánari fyrirmælum lögreglustjóra og eftir reglum sem settar eru í samráði við tollgæslustjóra. Þar sem slík starfstilhögun er ákveðin skal þess getið í auglýsingu um starf lögreglumanns.

IV. KAFLI

Um veitingu starfa í lögreglu.

27. gr.

Fjöldi lögreglumanna.

    Ráðherra ákveður á hverjum tíma í samráði við ríkislögreglustjóra að fengnum tillögum hlutaðeigandi lögreglustjóra fjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

28. gr.

Veiting starfa í lögreglu.


    1. Forseti Íslands skipar ríkislögreglustjóra, vararíkislögreglustjóra, lögreglustjóra og varalögreglustjóra í Reykjavík.
    2. Ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar og varalögreglustjóri í Reykjavík skulu fullnægja sömu almennum hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti. Þó eiga skilyrði um lágmarksaldur ekki við um lögreglustjórana og varalögreglustjóra í Reykjavík.
    3. Dómsmálaráðherra skipar lögreglumenn til lögreglustarfa enda hafi þeir staðist próf frá Lögregluskóla ríkisins. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig lögreglumanna.
    4. Dómsmálaráðherra getur heimilað lögreglustjóra að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins enda fullnægi hann skilyrðum a-, b- og c-liða 2. mgr. 39. gr. laganna, staðan hafi verið auglýst með venjulegum hætti og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins sótt um hana.

29. gr.

Heitstafur.


    Allir lögreglumenn sem eru skipaðir eða ráðnir til starfa skulu vinna svofellt heit: Því heiti ég og legg við drengskap minn og heiður að lögreglumannsstarfa minn skal ég rækja með kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og vinna að því eftir fremsta megni að halda uppi stjórnarskrá lýðveldisins og öðrum lögum þess.

V. KAFLI

Atriði sem varða starfskjör lögreglumanna.

30. gr.

Bótagreiðslur.

    Ríkissjóður skal bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Greiða skal bætur fyrir missi framfæranda ef því er að skipta.

31. gr.

Bann við verkföllum.


    Lögreglumenn mega hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.
    

32. gr.

Aukastörf.


    1. Heimilt er að fela lögreglumanni að vinna fyrir sanngjarnt endurgjald aukastörf í þágu ríkisins enda valdi það ekki vanrækslu á þeim störfum er stöðu hans fylgja. Að öðru leyti er lögreglumönnum óheimilt að hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja eða reka sjálfstæða atvinnustarfsemi.
    2. Heimilt er að veita undanþágu frá banni 2. málsl. 1. mgr. Undanþágu skal ekki veita ef ástæða er til að ætla að aukastarfið valdi vanrækslu á þeim störfum er stöðu fylgja, ástæða er til að ætla að það brjóti á einhvern hátt í bága við lögreglustarfið eða það geti með öðrum hætti hamlað því að viðkomandi geti sinnt lögreglustarfinu forsvaranlega. Heimilt er að afturkalla undanþágu hvenær sem er án þess að tilgreina sérstakar ástæður. Gefa skal lögreglumanni hæfilegan frest til að láta af aukastarfinu ef kostur er.
    3. Ríkislögreglustjóri veitir undanþágu skv. 2. mgr. en lögreglumaður getur skotið synjun til dómsmálaráðherra.

VI. KAFLI

Löggæslukostnaður.

33. gr.

Kostnaður við rekstur lögreglu.

    Kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði.

34. gr.

Sérstakur löggæslukostnaður.


    1. Lögreglustjóra er heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    2. Enn fremur má í slíkum reglum kveða á um greiðslu kostnaðar af gæslustörfum vegna framkvæmda á almannafæri og flutnings á óvenjulegum eða hættulegum farmi þar sem lögreglustjóri telur nauðsynlegt að fyrirskipa slíka löggæslu.

VII. KAFLI

Kærur á hendur lögreglu.

35. gr.

    Berist kæra á hendur lögreglumanni fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd lögreglustarfa, eða vakni grunur um slíkt brot, skal lögreglustjóri þegar í stað tilkynna ríkislögreglustjóra um ætlað brot. Ríkislögreglustjóri annast rannsókn málsins. Ef kæra beinist að starfsmanni ríkislögreglustjóra, víkur hann sæti við meðferð málsins, sbr. 5. mgr. 5. gr.

VIII. KAFLI

Lögregluskóli ríkisins.

36. gr.

Hlutverk Lögregluskóla ríkisins.

    1. Lögregluskóli ríkisins er sjálfstæð stofnun. Skólinn skal starfrækja grunnnámsdeild er veiti lögreglunemum menntun í almennum lögreglufræðum og framhaldsdeild er veiti starfandi lögreglumönnum símenntun, framhaldsmenntun og sérmenntun.
    2. Lögregluskóli ríkisins skal vera vettvangur rannsókna í lögreglufræðum og stjórnvöldum til ráðgjafar um lögreglumálefni.
    

37. gr.

Stjórn Lögregluskóla ríkisins.


    1. Dómsmálaráðherra skipar skólastjóra Lögregluskóla ríkisins. Hann skal fullnægja sömu skilyrðum fyrir skipan í embætti og lögreglustjórar og hafa staðgóða þekkingu á lögreglumálefnum.
    2. Við Lögregluskóla ríkisins skulu starfa yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn sem dómsmálaráðherra skipar.
    

38. gr.

Inntaka nýnema og námstilhögun.


    1. Ríkislögreglustjóri auglýsir eftir nemum í skólann um land allt. Hann ákveður fjölda nemenda sem hefja skulu nám ár hvert á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins.
    2. Lögreglumannsefni skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
    vera íslenskir ríkisborgarar, 20 til 35 ára og ekki hafa sætt opinberri refsingu,
    vera andlega- og líkamlega heilbrigð og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshæð lögreglumannsefna,
    hafa lokið grunnskólaprófi og a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri, þau skulu hafa gott vald á íslensku, einu Norðurlandamáli auk ensku eða þýsku, þau skulu hafa almenn ökuréttindi til bifreiðaaksturs, lögreglumannsefni skulu synd,
    standast inntökupróf samkvæmt kröfun skólanefndar með áherslu á íslensku og þrek.
    3. Valnefnd velur nema í lögregluskólann úr hópi umsækjenda. Nefndina skipa fimm menn, einn tilnefndur af dómsmálaráðherra, einn af ríkislögreglustjóra, einn af Sýslumannafélagi Íslands, einn af Landssambandi lögreglumanna og einn af skólastjóra Lögregluskóla ríkisins er skal vera formaður nefndarinnar.
    4. Nám í lögregluskólanum skiptist í tvær annir og skal nám á fyrri önn ólaunað. Áður en nám á síðari önn hefst skal ríkislögreglustjóri sjá nemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. átta mánuði. Nám á síðari önn skólans skal vera launað.

39. gr.

Reglugerð um Lögregluskóla ríkisins.


    Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um stjórn skólans og starfslið, inntökuskilyrði, námstilhögun og prófkröfur.
    

IX. KAFLI

Ýmis ákvæði.

40. gr.

Nánari reglur um framkvæmd laganna.

    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

41. gr.

Refsingar.


    Brot gegn 19.–21. gr. varða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    

42. gr.

Gildistaka.


    1. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.
    2. Frá sama tíma falla úr gildi lög um lögreglumenn, nr. 56/1972, ásamt síðari breytingum. Þá falla úr gildi lög um rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, ásamt síðari breytingum.

43. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi lagaákvæði:
    1. Í stað orðanna „(rannsóknarlögreglustjóra ríkisins)“ í 1. málsl. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, kemur: (ríkislögreglustjóra).
    2. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 2. mgr. 4. gr. laga um almannavarnir, nr. 94/1962, kemur: ríkislögreglustjóri.
    3. 1. mgr. 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 25/1967, orðast svo:
              Skipshafnir varðskipa fara með lögregluvald þegar þær annast eða aðstoða við löggæslu.
    4. 1. málsl. 2. mgr. 108. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, fellur brott.
    5. Í stað orðanna „Rannsóknarlögreglu ríkisins“ í 2. málsl. 8. mgr. 28. gr. og 5. mgr. 31. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, kemur: lögreglu. 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. sömu laga fellur brott.
    6. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 2. mgr. 113. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 kemur: ríkislögreglustjóri.
    7. Í stað orðanna „Rannsóknarlögreglu ríkisins“ í 9. mgr. 27. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, kemur: lögreglu. 1. málsl. 2. mgr. 41. gr. sömu laga fellur brott.
    8. Við 1. mgr. 22. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Lögreglustjóri skal sjá um að lögreglurannsókn fari fram þegar eftir brunatjón.
    9. Í stað orðsins „rannsóknarlögreglustjóri“ í 1. mgr. 9. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, kemur: ríkislögreglustjóri.
    10. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 1. mgr. 20. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, kemur: ríkislögreglustjóri.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Þann 29. janúar 1992 skipaði Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra nefnd til þess m.a. að endurskoða lög um lögreglumenn og lög um Rannsóknarlögreglu ríkisins. Í nefndina voru skipaðir: Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, formaður, Bogi Nilsson, rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari og Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður í Stykkishólmi. Ritari nefndarinnar var Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þá var Svala Ólafsdóttir lögfræðingur ráðin starfsmaður nefndarinnar í apríl 1993.
    Nefndin skilaði tillögum sínum í nóvember 1993 og var full samstaða í nefndinni um önnur atriði en skipulag yfirstjórnar lögreglunnar, en um það atriði komu fram tvær tillögur. Lögðu tveir nefndarmenn til að Rannsóknarlögregla ríkisins yrði lögð niður en verkefni hennar yrðu falin lögreglustjórum og ríkislögreglustjóra sem skyldi auk stjórnsýslu starfrækja rannsóknardeildir til aðstoðar lögreglustjórum en auk þess rannsaka tiltekin brot sjálfstætt. Þrír nefndarmenn lögðu hins vegar til að ríkislögreglustjóri fengist eingöngu við stjórnsýslu en að Rannsóknarlögregla ríkisins yrði starfrækt áfram í nokkuð breyttri mynd þar sem henni var samkvæmt tillögunni ætlað að fást einvörðungu við rannsókn stærri brotamála. Þessar tillögur voru yfirfarnar í dómsmálaráðuneytinu og m.a. leitað umsagnar Sýslumannafélags Íslands sem studdi tillögu meiri hluta nefndarinnar.
    Meginniðurstaðan varð sú að í frumvarpinu var lagt til að embætti ríkislögreglustjóra yrði komið á fót og Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður í núverandi mynd. Auk þessa gerði ráðuneytið ýmsar breytingar á ákvæðum sem varða lögreglumenn í samræmi við athugasemdir Landssambands lögreglumanna við upphafleg frumvarpsdrög.
    Frumvarp þetta var lagt fyrir Alþingi til kynningar á 117. löggjafarþingi 1993–94.
    Þann 31. maí 1995 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að yfirfara og endurskoða frumvarp til lögreglulaga. Nefndin var skipuð þeim Sigurði T. Magnússyni skrifstofustjóra sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Eiríki Tómassyni prófessor og Jónasi Magnússyni rannsóknarlögreglumanni. Símon Sigvaldason, deildarsérfræðingur í dómsmálaráðuneyti, hefur verið ritari nefndarinnar.
    Nefndinni var jafnhliða falið að gera tillögur að breytingum á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sem nauðsynlegar væru til að samræmi næðist við efni lögreglulagafrumvarpsins.
    Nefndin hefur að miklu leyti stuðst við fyrra frumvarp en auk þess víða leitað fanga, svo sem í norrænni löggjöf um lögreglumálefni og hugmyndum sem fram hafa komið á fundum með lögreglustjórum og lögreglumönnum.
     Markmið nefndarinnar hafa einkum verið þessi:
    Endurskoðun á skipulagi æðstu stjórnar lögreglunnar.
    Að tengja ákvæði lögreglulaga við endurskoðun á ákvæðum um ákæruvald í lögum um meðferð opinberra mála með það að markmiði að gera rannsóknir afbrota hraðari og skilvirkari. Ferill mála á rannsóknar- og ákærustigi verði einfaldaður og lögreglustjórum falið ákæruvald í fleiri brotaflokkum þannig að allur þorri sakamála verði rannsakaður undir stjórn þess lögreglustjóra sem semur ákæru í máli og sækir það fyrir héraðsdómi.
    Lögfesting skýrari reglna um framkvæmd lögreglustarfa, þar á meðal um þær aðgerðir sem lögreglu er heimilt er að grípa til í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu í landinu.
    Lögfesting skýrari reglna um réttindi og skyldur lögreglumanna.
    Frumvarpið hefur verið endurskoðað í heild og talsverðar breytingar verið gerðar á greinaskipan þess. Endurskoðunin hefur þó einkum beinst að ákvæðum um yfirstjórn lögreglunnar. Eins og í fyrra frumvarpi er lagt til að embætti ríkislögreglustjóra verði komið á fót og að það taki við ýmsum verkefnum dómsmálaráðuneytisins, hluta af verkefnum Rannsóknarlögreglu ríkisins sem gert er ráð fyrir að verði lögð niður og ýmsum smærri verkefnum frá lögreglustjóranum í Reykjavík.
    Flest rannsóknarverkefni Rannsóknarlögreglu ríkisins verði færð til lögreglustjóra í héraði. Rannsóknardeildir eða vísir að rannsóknardeildum eru til staðar hjá ellefu lögregluembættum. Til að mæta auknum rannsóknarverkefnum er lagt til að tveimur nýjum rannsóknardeildum verði komið á fót, þ.e. við embætti lögreglustjóranna á Sauðárkróki og Seyðisfirði. Rannsóknarlögregludeildir, sem nú eru við embætti lögreglustjóranna í Kópavogi og á Keflavíkurflugvelli, munu ekki teljast til sérstakra rannsóknardeilda skv. 8. gr. en starfsemi þeirra verður þó að mestu óbreytt frá því sem nú er. Ekki er gert ráð fyrir fækkun lögreglumanna í þessum deildum. Hins vegar er lagt til að rannsóknardeild verði færð frá embætti sýslumannsins á Eskifirði til sýslumannsins á Seyðisfirði. Þar með verði starfræktar tíu sérstakar rannsóknardeildir sem sinni meginþorra allra viðameiri lögreglurannsókna í landinu. Þar sem stærsti hluti þeirra rannsókna sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur farið með tengist umdæmi lögreglustjórans í Reykjavík er fyrirsjáanlegt að verkefni embættisins munu stóraukast. Leitast verður við að flytja til stöðugildi í samræmi við tilflutning verkefna.
    Mörg ákvæði frumvarpsins eru efnislega samhljóða eldri lagaákvæðum eða staðfesting á gildandi ólögfestri réttarframkvæmd. Gerð er grein fyrir helstu nýmælum í frumvarpinu síðar í þessum athugasemdum.
    Frumvarpinu, ef að lögum verður, er ætlað að koma í stað laga um lögreglumenn, nr. 56/1972, ásamt síðari breytingum. Þau lög eru að stofni til lög nr. 92/1933 sem síðan hafa sætt nokkrum breytingum og þrívegis verið gefin út sem ný lög, síðast sem lög nr. 56/1972. Í frumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir að lög um Rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, ásamt síðari breytingum, falli úr gildi.
    

II.


Sögulegt yfirlit.


A. Lögreglustjórn.
    Til hagræðis þykir rétt að skipta umfjölluninni um lögreglustjórn í landinu í tvo þætti, þ.e. lögreglustjórn utan Reykjavíkur og lögreglustjórn í Reykjavík. Verður hér aðeins drepið á aðalatriði.
    
Lögreglustjórn utan Reykjavíkur.
    Sýslumenn hafa frá fornu fari haft með höndum lögreglustjórn. Þeirra er fyrst getið sem embættismanna konungs hér á landi í Gamla sáttmála, Járnsíðu og Jónsbók. Sýslumenn voru lögreglustjórar og innheimtumenn konungstekna. Þá önnuðust þeir fullnustu dóma o.fl.
    Þótt margvíslegar breytingar hafi verið gerðar á skipan lögreglumála í Reykjavík hefur lögreglustjórn utan Reykjavíkur áfram verið í höndum sýslumanna eins og hún er raunar nú. Sýslumenn hafa lengst af haft með höndum hlutverk flestra þeirra aðila sem nú eiga hlut að meðferð sakamála, þ.e. lögreglustjórn, rannsókn mála utan og innan réttar og hlutverk sækjanda. Þá áttu þeir að sinna ýmsum þeim skyldum sem verjendum eru nú faldar. Loks fóru sýslumenn með dómsvald í héraði. Hlutverk sýslumanna hefur raunar lengst af verið víðtækara en þetta svo sem kunnugt er þótt ekki verði fjallað frekar um það hér.
    Með lögum um meðferð opinberra mála, nr. 27/1951, var dregið úr ákæruvaldi dómara (lögreglustjóra) og ákvörðun um saksókn færð að mestu leyti til dómsmálaráðherra. Angi af málshöfðunarvaldi dómara hélst þó í einföldum málum. Með lögum nr. 57/1961 var gerð sú breyting að ákæruvaldið var fært til sérstaks opinbers ákæranda, saksóknara ríkisins. Tók hann þá við ákæruvaldi því sem dómsmálaráðherra hafði haft með höndum samkvæmt lögum nr. 27/1951.
    Hlutverk ákærandans breyttist að öðru leyti ekki þannig að dómarar fóru áfram með þá þætti ákæruvalds sem áður var lýst.
    Með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, var sérstökum héraðsdómstólum komið á fót víðs vegar um landið (alls átta talsins) og dómsvaldið tekið af sýslumönnum og fengið sérstökum héraðsdómurum í hendur sem starfa við hina nýju héraðsdómstóla. Með lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, var lögreglustjórum falið ákæruvald í veigaminni málum, hverjum í sínu umdæmi, sbr. nánar 28. gr. þeirra laga, sbr. 3. gr. laga nr. 38/1993, auk þess sem þeim var falinn flutningur þeirra mála sem þeir höfða í héraði, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 19/1991. Eftir þessar breytingar eiga sýslumenn ekki annan hlut að meðferð sakamála en almenna lögreglustjórn, rannsókn mála utan réttar og ákæruvald í ákveðnum málaflokkum.
    Þegar bæir uxu og fengu kaupstaðarréttindi urðu þeir jafnframt sérstök lögsagnarumdæmi og þar voru sett á stofn sérstök embætti bæjarfógeta sem höfðu sama hlutverk og sýslumenn, þar með talin lögreglustjórn. Þá voru sérstök lögreglustjóraembætti sett á stofn í Ólafsfirði, Bolungarvík, Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu og á Keflavíkurflugvelli. Þótt embætti þessi bæru þannig annað heiti var hlutverk þeirra í öllum aðalatriðum hið sama og sýslumanna og bæjarfógeta. Með lögum um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972, var kveðið á um stofnun sérstakra dómaraembætta í tengslum við sum embætti bæjarfógeta og sýslumanna. Var slíkum dómaraembættum komið á fót á Akureyri, í Vestmannaeyjum, á Selfossi og í Keflavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar var þó ekki um að ræða „sjálfstæða“ dómstóla í venjulegri merkingu þess orðs. Eftir gildistöku aðskilnaðarlaganna, nr. 92/1989, er heitið „sýslumaður“ notað um öll þau embætti sem áður hétu ýmist sýslumaður, bæjarfógeti eða lögreglustjóri. Eftir sem áður er þó sérstakur lögreglustjóri í Reykjavík eins og nánar verður vikið að hér á eftir.
    
Lögreglustjórn í Reykjavík.
    Árið 1803 var Reykjavík gerð að sérstakri dómþinghá og skipaður þar bæjarfógeti, en fram að þeim tíma heyrði bærinn undir umdæmi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Fyrst um sinn gegndi sýslumaðurinn þar embætti bæjarfógeta, eða til ársins 1806.
    Lögreglustjórn og meðferð sakamála í Reykjavík var í höndum bæjarfógeta allt til ársins 1917. Með lögum um skiftingu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík og um stofnun sjerstakrar tollgæslu í Reykjavíkurkaupstað, nr. 26/1917, var stofnað sérstakt lögreglustjóraembætti og verkefni færð frá bæjarfógetaembættinu til lögreglustjóraembættisins. Undir embætti lögreglustjóra heyrðu stjórn lögreglu- og tollamála, aðalinnheimta á tekjum landssjóðs, skipaafgreiðslur o.fl., sbr. 1. gr. laganna.
    Aftur voru sett lög um dómsmálastarfa, lögreglustjórn, gjaldheimtu o.fl. í Reykjavík árið 1928 (nr. 67). Megininntak þeirra var stofnun sérstaks embættis tollstjóra og voru verkefni færð frá lögreglustjóraembættinu til hans. Skv. 3. gr. laganna skyldi lögreglustjóri hafa á hendi: Lögreglustjórn, meðferð sakamála og almennra lögreglumála og að leggja dóm á þau. Þá skyldu falla til hans strandmál, lögskráning skipshafna, mæling og skrásetning skipa, heilbrigðismál, firmaskrásetning, vegabréf, úrskurðun fátækramála, umsjón hegningarhússins í Reykjavík, útnefning mats- og skoðunarmanna utan réttar, afgreiðsla leyfisbréfa til atvinnurekstrar, löggilding atvinnubóka, afgreiðsla vottorða um uppruna vöru, hlunninda- og aflaskýrslur og manntal í Reykjavík. Þar með var lögreglustjóraembættið í Reykjavík orðið að sjálfstæðu embætti þó að því fylgdu að vísu enn margvísleg störf lögreglumálum óviðkomandi. Með lögum nr. 67/1928 var enn fremur stofnað embætti lögmanns í Reykjavík sem hafði með höndum þau verkefni sem síðar voru falin embættum borgardómara og borgarfógeta.
    Með lögum um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtu o.fl. í Reykjavík, nr. 67/1939, var embætti lögreglustjórans í Reykjavík skipt í tvennt: Sakadómaraembætti og lögreglustjóraembætti. Þar með fluttist rannsóknarvald og dómsvald í opinberum málum í hendur sakadómara. Lögreglustjórinn fór með lögreglustjórn, strandmál, útlendingaeftirlit, heilbrigðismál og útgáfu vegabréfa, sbr. 4. gr. laganna. Sakadómara var aftur á móti falið að fara með opinber mál og barnsfaðernismál, rannsókn þeirra fyrir dómi og utan dóms og dómsuppsögn, uppkvaðningu meðlagsúrskurða, framkvæmd refsidóma, stjórn rannsóknarlögreglu og umsjón hegningarhússins, sbr. 3. gr. laganna. Fyrir gildistöku laga nr. 67/1939 voru engin sérstök ákvæði í lögum rannsóknarlögreglu þótt vísir að rannsóknarlögreglu hefði orðið til með 2. gr. laga um lögreglumenn, nr. 92/1933.
    Með lögum um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtu o.fl. í Reykjavík, nr. 65/1943, var hvorki hróflað við starfssviði sakadómara né lögreglustjóra. Meginbreytingin, sem fólst í þessum lögum, var sú að lögmannsembættinu var skipt í tvennt: Embætti borgardómara og borgarfógeta.
    Lög nr. 65/1943 voru felld úr gildi með lögum um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtu o.fl. í Reykjavík, nr. 98/1961. Ekki er ástæða til að rekja hér þær breytingar sem þau höfðu í för með sér þar sem þær fólu ekki í sér neinar breytingar á lögreglustjórn. Enn voru lög nr. 98/1961 felld úr gildi með lögum um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972. Meginbreytingin, sem fólst í lögunum frá 1972, var sú að við nokkur umfangsmestu embætti sýslumanna og bæjarfógeta voru skipaðir dómarar í stað löglærðra fulltrúa sem höfðu fram að því verið löggiltir til þess að fara með og dæma mál á ábyrgð yfirmanna sinna. Þá var ákvæði þess efnis að lögreglustjóri færi með heilbrigðismál eins og verið hafði í eldri lögum fellt niður þótt hann annaðist eftir sem áður hvers konar löggæslu á þessu sviði.
    Með lögum um rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, og með lögum um breyting á lögum nr. 74/1972, um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 109/1976, voru gerðar verulegar breytingar á skipan lögreglumála. Meginbreytingin fólst í stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins. Með því var stjórn rannsóknarlögreglu tekin úr höndum sakadómaraembættisins í Reykjavík og hún fengin rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Með þessu var stigið spor í þá átt að aðskilja dómsvald í opinberum málum og lögreglustjórn þótt eigi þætti fært að stíga það skref til fulls.
    
Rannsóknarlögregla ríkisins.
    Samkvæmt 3. gr. laga um rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, sbr. 1. og 2. tölul. 70. gr. laga nr. 92/1991, hefur hún með höndum lögreglurannsóknir brotamála í stjórnsýsluumdæmum Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar að því leyti sem þær eru ekki í höndum lögreglustjóra þar samkvæmt ákvæðum laganna eða annarra réttarreglna. Auk þess er dómsmálaráðherra heimilt að auka við aðalstarfssvæði Rannsóknarlögreglunnar með því að fela henni brotarannsóknir almennt í stjórnsýsluumdæmum Keflavíkur og Keflavíkurflugvallar. Þá skal Rannsóknarlögregla ríkisins skv. 4. gr. laga nr. 108/1976, sbr. 3. tölul. 70. gr. laga nr. 92/1991, veita lögreglustjórum hvar sem er á landinu aðstoð við rannsókn brotamála þegar þeir óska og rannsóknarlögreglustjóri og/eða ríkissaksóknari telja það nauðsynlegt. Ríkissaksóknari getur og falið rannsóknarlögreglu ríkisins rannsóknir einstakra mála hvar sem er á landinu þegar hann telur þess þörf. Loks getur rannsóknarlögreglustjóri að eigin frumkvæði tekið í sínar hendur rannsókn máls utan þeirra umdæma sem upp eru talin í 3. gr., en tilkynna skal hann viðkomandi lögreglustjóra um málið svo fljótt sem verða má enda ber honum að veita rannsóknarlögreglu ríkisins alla nauðsynlega aðstoð. Embætti Rannsóknarlögreglustjóra ríkisins heyrir beint undir dómsmálaráðherra. Talið var að þetta væri nauðsynlegt þar sem rannsóknarlögreglustjóri þyrfti að hafa jafna aðstöðu gagnvart öllum lögreglustjórum á landinu stöðu sinnar vegna. Hann verður þó að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara lögum samkvæmt eins og aðrir lögreglustjórar.
    Samkvæmt 6. gr. laganna um Rannsóknarlögreglu ríkisins skulu starfa sérstakar rannsóknarlögregludeildir undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra við embætti lögreglustjóra í umdæmum þar sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum lögreglurannsóknir brotamála sem talin eru upp í 3. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvæðinu er verksvið þeirra takmarkað við ákveðnar tegundir brota, sbr. einnig reglugerð um samvinnu og starfsskiptingu milli lögreglustjóra og rannsóknarlögreglu ríkisins nr. 253/1977, sbr. reglugerð nr. 315/1986.
    Þrátt fyrir stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins gera lögin ráð fyrir því að við lögreglustjóraembættin utan þeirra umdæma sem talin eru upp í 3. gr. skuli starfa sérstakar rannsóknarlögregludeildir samkvæmt nánari ákvörðun dómsmálaráðherra, sbr. 7. gr. Þær eru nú starfræktar við eftirtalin lögreglustjóraembætti: á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, í Vestmannaeyjum og á Selfossi.

B. Löggæslumenn.
Fyrstu löggæslumennirnir.
    Fyrsti vísir að sérstakri stétt löggæslumanna hér á landi í nútímaskilningi varð ekki til fyrr en um miðja 18. öld þegar ráðnir voru sérstakir næturverðir í Reykjavík í tengslum við Innréttingar Skúla Magnússonar landfógeta. Hlutverk þeirra var fyrst og fremst að vakta verksmiðjurnar um nætur. Kostnaður vegna þessa var greiddur af innréttingunum. Í erindisbréfi, sem næturvörðum var sett 1778, kemur fram að þeim hafi einnig verið ætlað almennt löggæsluhlutverk í bænum, þ.e. það starf sem nú er falið lögregluþjónum. Næturverðirnir voru að jafnaði tveir talsins. Þessi löggæsla næturvarðanna var látin nægja fram til 1803. Kostnaður vegna hennar færðist þó yfir á bæjarsjóð árið 1791.
    Þegar Reykjavík var gerð að sérstakri dómþinghá og skipaður bæjarfógeti þar árið 1803 voru enn fremur tveir daglögregluþjónar ráðnir honum til aðstoðar.
    Þessi skipan á löggæslumálum í Reykjavík hélst allt til ársins 1855 er daglögregluþjónum var fjölgað í þrjá. Laun tveggja þeirra voru lengst af greidd úr landssjóði en þess þriðja úr Jafnaðarsjóði Suðuramtsins. Frá 1879 greiddi bæjarsjóður kostnað vegna daglögreglumanna. Jafnframt daglögregluþjónunum störfuðu næturverðir í Reykjavík sem kostaðir voru af bæjarsjóði. Þó var aðeins einn næturvörður frá árinu 1803 fram til 1865, en eftir það voru þeir tveir. Var öðrum ætlaður austurbærinn til eftirlits, en hinum vesturbærinn.
    Fyrsta erindisbréf handa löggæslumönnum í Reykjavík var sett 21. mars 1889 og náði bæði til lögregluþjóna og næturvarða, sjá kansellíbréf frá 19. nóvember 1839. Í 1. gr. erindisbréfsins sem bar heitið „Erindisbréf til bráðabirgða handa löggæzlumönnum í Reykjavík“ sagði:
    „Það er skylda löggæzlumanna, hvort heldur eru lögregluþjónar eða næturverðir, að reyna að sporna við glæpum og afbrotum og leitazt við að koma þeim upp. Svo ber þeim og að hafa vakandi auga á því, að almennum friði og reglu sé eigi raskað, og að breytt sé eftir þar að lútandi lagafyrirmælum og lögregluskipunum.“
    Þá er í erindisbréfinu mælt fyrir um búnað og einkenni lögregluþjóna og næturvarða, nánar kveðið á um starfsskyldur þeirra, heimildir þeirra til að taka menn fasta o.fl. Í erindisbréfinu er að finna mörg þau fyrirmæli og grundvallarreglur sem gildandi lögreglulög byggja á. Má sem dæmi nefna að í 4. gr. erindisbréfsins, sem fjallar um heimild lögreglu til að taka menn fasta, gætir meðalhófsreglunnar. Þar segir m.a.:
    „Heimild þá er löggæzlumönnum er veitt til að taka menn fasta, skulu þeir varast að nota að ófyrirsynju, og, þegar þeir beita henni, forðast allar misþyrmingar.“
    Árið 1890 voru sett lög nr. 1. um lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina. Lögreglusamþykkt var gerð í Reykjavík með heimild í þeim lögum strax sama ár, sbr. lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurkaupstað, nr. 172/1890. Í lögunum og samþykktinni voru m.a. ákvæði um greiðslu kostnaðar vegna starfsemi lögreglunnar.
    
Lög um lögreglumenn.
    Gildandi lögreglulög eru að stofni til lög um lögreglumenn, nr. 92/1933. Megintilgangur laganna frá 1933 var að mæla fyrir um þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar vegna rekstrar lögregluliða. Í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 92/1933, kom fram að ríkið hefði fram til þessa ekki tekið annan þátt í rekstri lögreglu en að skipa og launa lögreglustjóra sem stjórnuðu lögregluliði því sem bæjarfélögin lögðu til. Talið var eðlilegt, m.a. til að efla löggæsluna í landinu, að leggja aukinn kostnað á ríkið vegna þessa. Um þetta eru fyrirmæli í 1. og 2. gr. laganna.
    Í lögunum er enn fremur að finna ýmis fyrirmæli sem lúta að störfum lögreglumanna, réttindum þeirra og skyldum, en nokkur þeirra ákvæða er að finna í gildandi lögum, lítið eða ekkert breytt. Í lögunum var enn fremur að finna heimild fyrir ráðherra til að kalla til varalögreglu þegar sérstaklega stæði á og hann teldi nauðsynlegt öryggi bæjar að aukið væri við hið reglulega lögreglulið. Þá var vísi að rannsóknarlögreglu komið á fót með lögunum og hún gerð að sérstakri deild lögreglunnar í Reykjavík. Fljótlega eftir gildistöku laganna frá 1933 kom í ljós sá galli á þeim að erfitt var að hreyfa lögreglulið milli staða. Á haustþingi 1939 var því flutt frumvarp til laga um breytingar á lögum um lögreglumenn, nr. 92/1933, sem miðaði að því að bæta úr þessum ágalla, m.a. með því að rýmka heimild ráðherra til að kalla til varalögreglumenn sem ríkið skyldi greiða allan kostnað af og að setja fyrirmæli um skyldur nánar tilgreindra lögreglumanna til að gegna löggæslustörfum hvar sem var á landinu ef sérstaklega stæði á. Þá var í lögunum að finna ákvæði sem miðaði að því að koma upp sjálfboðaliðssveitum löggæslumanna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að samkomur úti um sveitir og sjávarþorp þar sem var lítil eða engin löggæsla færu úr böndunum vegna drykkjuskapar. Frumvarpið var samþykkt og fellt inn í lög nr. 92/1933 og lögin gefin út í heild á ný sem lög um lögreglumenn, nr. 50 12. febrúar 1940.
    Engar mikilvægar breytingar voru gerðar á skipan löggæslunnar í landinu fyrr en með gildandi lögum um lögreglumenn, nr. 56 29. maí 1972.
    Allt frá gildistöku laganna frá 1940 höfðu þau sjónarmið verið áberandi að styrkja þyrfti löggæsluna í landinu enn frekar og auka hlutdeild ríkisins í greiðslu kostnaðar vegna hennar. Voru ákvæðin um hlutdeild ríkissjóðs í greiðslu kostnaðar við löggæslu í kaupstöðum af ýmsum talin ósanngjörn og leiða til misréttis (Alþt. A 1959, bls. 409). Vegna þessa voru tvívegis gerðar smávægilegar breytingar á lögunum frá 1940 sem áttu að koma til móts við framangreind sjónarmið, sbr. lög nr. 45/1956 og lög nr. 61/1961. Þá voru aftur gerðar nokkrar breytingar árið 1963 og lögin gefin út í heild á ný sem lög um lögreglumenn, nr. 56 20. apríl 1963.
    Það var svo ekki fyrr en á 92. löggjafarþingi 1971–72 sem næst var lagt fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um lögreglumenn. Veigamesta breytingin, sem það frumvarp fól í sér, var sú að gert var ráð fyrir því að ríkið bæri allan kostnað af almennri löggæslu í landinu. Lögreglumenn urðu þar af leiðandi starfsmenn ríkisins í stað þess að vera starfsmenn sveitarfélaga. Enn fremur var í 1. gr. sett almennt ákvæði um verkefni lögregluliðs, en samsvarandi ákvæði hafði ekki verið í lögum um lögreglumenn fram að því. Loks voru reglur um yfirstjórn lögreglu markaðar með skýrari hætti en áður hafði verið. Frumvarp þetta var samþykkt sem lög um lögreglumenn, nr. 56 29. maí 1972.
    Frá 1972 hafa nokkrar breytingar verið gerðar á lögunum. Með lögum nr. 82/1986 var lagt bann við því að lögreglumenn ríkisins gerðu verkföll eða tækju þátt í verkfallsboðun. Með lögum nr. 26/1987 var sett ákvæði sem heimilaði lækkun eða niðurfellingu skaðabóta vegna tjóns sem lögreglumenn valda við skyldustörf og eru af völdum mistaka eða vanrækslu. Ákvæði þetta var afnumið með nýjum skaðabótalögum, nr. 50/1993. Þá voru með lögum nr. 64/1989 sett ákvæði um menntun lögreglumanna og bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart lögreglumönnum sem slasast eða verða fyrir öðru tjóni vegna starfs síns. Lítils háttar breytingar voru gerðar með lögum nr. 108/1988 og 92/1991 sem ekki er ástæða til að rekja hér.
    
Samantekt um núverandi skipan löggæslumála.
    Æðsti yfirmaður löggæslunnar í landinu er dómsmálaráðherra. Undir hann heyra embætti lögreglustjóra, þ.e. lögreglustjórar í umdæmum og rannsóknarlögreglustjóri ríkisins. Lögreglustjórar í umdæmum fara með almenna lögreglustjórn á hverjum stað en rannsóknarlögreglustjóri fer með rannsókn opinberra mála með þeim takmörkunum sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum.
    

III.


Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins.


    Frumvarpið sem hér liggur fyrir skiptist í níu kafla.
              
I.
    kafli fjallar um hlutverk lögreglu o.fl.,
              
II.
    kafli um skipulag lögreglu og æðstu stjórn,
              
III.
    kafli um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa,
              
IV.
    kafli um veitingu lögreglumannsstarfa,
              
V.
    kafli um ýmis atriði sem varða starfskjör lögreglumanna,
              
VI.
    kafli um löggæslukostnað,
              
VII.
    kafli um kærur á hendur lögreglu,
              
VIII.
    kafli um Lögregluskóla ríkisins og
              
IX.
    kafla, ýmis ákvæði.

Helstu nýmæli í frumvarpi til lögreglulaga.
    Lagt er til að gerð verði sú grundvallarbreyting á skipulagi lögreglunnar og æðstu stjórn hennar að komið verði á fót embætti ríkislögreglustjóra er fari með yfirstjórn lögreglu ríkisins í umboði dómsmálaráðherra. Ríkislögreglustjóraembættinu er ætlað að taka við ýmsum verkefnum sem fram til þessa hafa heyrt undir löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Rannsóknarlögreglu ríkisins og að litlu leyti lögreglustjórann í Reykjavík. Sjá 4. og 5. gr.
    Við embætti ríkislögreglustjóra verði starfrækt rannsóknardeild í skatta- og efnahagsbrotamálum og stoðdeild sérhæfðra rannsóknarmanna til að aðstoða einstök lögregluembætti við rannsókir erfiðra brotamála. Sjá a- og b-lið 2. mgr. 5. gr.
    Við embætti ríkislögreglustjóra verði starfrækt rannsóknarstofa til að sinna skjalarannsóknum, fingrafararannsóknum og slíkum tæknilegum rannsóknum. Sjá e-lið 2. mgr. 5. gr.
    Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði skipaður varalögreglustjóri. Sjá 1. mgr. 6. gr.
    Lögfesting ákvæða um starfssvæði lögreglumanna, þar á meðal heimild dómsmálaráðherra til að ákveða að hluti lögregluliðs skuli gegna lögreglustörfum alls staðar á landinu. Með þessu er ætlað að tryggja nauðsynlegan hreyfanleika lögreglu. Sjá 7. gr.
    Rannsóknir meginþorra mála verði fluttar til lögreglustjóra í héraði. Sjá. 8. gr.
    Landinu verði skipt í tíu rannsóknarumdæmi og sérstakar rannsóknardeildir starfræktar við embætti tíu lögreglustjóra. Lögreglumenn í rannsóknardeildum rannsaki eða aðstoði við rannsókn á stærri brotum í umdæmi rannsóknardeildarinnar undir stjórn lögreglustjóra á hlutaðeigandi embætti. Sjá 8. gr.
    Tæknideild verði rekin fyrir allt landið við embætti lögreglustjórans í Reykjavík til að sinna eða aðstoða við rannsóknir á vettvangi og aðrar slíkar rannsóknir. Sjá 4. mgr. 8. gr.
    Lögfest verði hverjir hafi lögregluvald. Sjá 9. gr.
    Lögfesting ákvæða um samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga og samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld. Sjá 11. og 12. gr.
    Lögfest ákvæði um skyldur lögreglumanna, valdbeitingarheimildir, handtökuheimildir, leit á mönnum og önnur afskipti af borgurunum. Sjá III. kafla.
    Lögfest verði sérstakt ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna lögreglu. Sjá 22. gr.
    Lögfesting ákvæða um aukastörf lögreglumanna. Sjá 32. gr.
    Lögfesting reglna um meðferð kæra á hendur lögreglumönnum vegna ætlaðra refsiverðra brota við framkvæmd lögreglustarfa. Sjá VII. kafla.
    Breytingar á skipulagi Lögregluskóla ríkisins. Sjá 36.–38. gr.
         
    
    Ríkislögreglustjóri ákveður fjölda nema ár hvert og auglýsir eftir nemum í skólann á landsvísu. Sjá 1. mgr. 38. gr.
         
    
    Inntökuskilyrði sett í lög. Sjá 2. mgr. 38. gr.
         
    
    Valnefnd velur nema í skólann. Sjá 3. mgr. 38. gr.
         
    
    Fyrri önn ólaunuð. Sjá 4. mgr. 38. gr.
         
    
    Skólastjóri lögfræðingur. Sjá 1. mgr. 37. gr.
         
    
    Yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn verði starfandi við skólann. Sjá 2. mgr. 37. gr.

IV.


Bætt staða kvenna í lögreglu.


    Um áramótin 1995/1996 voru einungis 25 konur við störf sem lögreglumenn í lögreglu ríkisins eða rúmlega 4% af heildarfjölda lögreglumanna. Hlutfall kvenna í starfsliði lögreglustjóra var þó nokkru hærra. Nokkuð hefur verið gert til að bæta hér úr en svo lágt hlutfall kvenna í lögreglu er óviðunandi. Lögreglustjórum hefur m.a. verið bent á að setja í auglýsingar um lausar stöður innan lögreglu sérstaka hvatningu til kvenna um að sækja um stöðurnar. Hlutastörf í lögreglu hafa verið fátíð og vinnutími oft á tíðum ósveigjanlegur. Þetta ásamt fleiru hefur ekki laðað konur að lögreglustörfum og eins hafa reglur um lágmarkshæð þrengt verulega þann hóp kvenna sem átt hefur þess kost að komast í Lögregluskóla ríkisins.
    Í þessu frumvarpi eru nokkur nýmæli sem eru til þess fallin að auðvelda konum inngöngu í lögreglu. Má þar helst nefna breytingar á ákvæðum um inntöku nema í lögregluskólann í 38. gr., sbr. einnig fyrirætlanir um að færa niður lágmarkshæð kvenna með nýrri reglugerð um skólann.
    Dómsmálaráðherra hefur nýlega komið á fót starfshópi til að kanna stöðu kvenna innan lögreglunnar og gera tillögur að úrbótum á þeim sviðum þar sem talin verður þörf á að bæta stöðu kvenna innan lögreglu ríkisins. Starfshópnum er einnig ætlað að gera tillögur um aðgerðir sem leitt geti til fjölgunar kvenna í lögreglu ríkisins. Þess má vænta að tillögur vinnuhópsins muni hafa áhrif á framkvæmd þessara laga og setningu reglugerða á grundvelli þeirra.
    

V.


Aldur lögreglumanna.


    Meðalaldur lögreglumanna í nokkrum lögregluliðum hér á landi er orðinn mjög hár og nálgast hjá einstaka embættum 50 ár. Nú eru 33 lögreglumenn 65 ára eða eldri og 43 til viðbótar á aldrinum 60 til 64 ára. Þessi aldursdreifing lögreglumanna þykir að mörgu leyti óheppileg.
    Um aldurshámark lögreglumanna gilda nú ákvæði 13. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skal starfsmanni veitt lausn þegar hann er fullra 70 ára. Þó er starfsmanni heimilt, skv. 2. mgr. 13. gr., að láta af störfum með rétti til eftirlauna og/eða lífeyris, hvenær sem er eftir að hann er orðinn 65 ára eða fyrr ef hann hefur unnið sér þann rétt samkvæmt öðrum lögum. Nokkur umræða hefur verið um nauðsyn þess að lækka aldurshámark lögreglumanna umfram það sem almennt gildir um opinbera starfsmenn. Byggist sú umræða á eðli lögreglumannsstarfans. Lögreglumenn vinni óreglulegan vinnutíma, samfara mikilli spennu. Er almennt talið að þær óvæntu aðstæður er bíða lögreglumanna í starfi og oft á tíðum óhugnalegar aðkomur hafi umtalsverð áhrif á andlega og líkamlega líðan þeirra. Færð hafa verið fyrir því gild rök að lífaldur lögreglumanna sé styttri en almennt gerist. Þá þurfa flestir lögreglumenn að vera undir það búnir í störfum sínum að beita líkamlegu valdi eða taka þátt í lögregluaðgerðum þar sem reynir á þrek og úthald.
    Á grundvelli framangreindra sjónarmiða hefur aldurshámark lögreglumanna verið fært niður frá því sem almennt gerist í nágrannalöndum okkar. Í Danmörku er hámarksaldur lögreglumanna 63 ár, en annarra starfsmanna 67 ár. Lögreglumenn geta þó látið af störfum eftir 60 ára aldur með samsvarandi frádrátt í eftirlaunum. Í Noregi er aldurshámark lögreglumanna 60 ár, en annarra starfsmanna 67 ár. Í Finnlandi fara lægra settir lögreglumenn á eftirlaun 60 ára en þeir hærra settu 63 ára. Á Írlandi er aldushámark lögreglumanna 57 ár, en annarra starfsmanna 65 ár. Í Belgíu, Hollandi, Lúxemborg og Þýskalandi er eftirlaunaaldur lögreglumanna almennt 60 ár en eftirlaunaaldur starfsmanna lögreglu með stjórnsýsluverkefni er þó í sumun tilfellum 65 ár.
    Í nefnd þeirri sem falið var að semja frumvarp þetta var rætt um að færa hámarksaldur lögreglumanna niður í 65 ár í áföngum fram til ársins 2001. Einn nefndarmanna vildi ganga lengra og færa hámarksaldurinn niður í 63 ár.
    Ríkisstjórnin taldi ekki heppilegt að svo stöddu að leggja til að hámarksaldur lögreglumanna yrði lækkaður en samþykkti hins vegar að dómsmálaráðherra skipaði sérstaka nefnd til að gera tillögur varðandi hina óheppilegu aldurssamsetningu lögreglumanna. Um ýmsa aðra kosti getur verið að ræða í því sambandi aðra en að færa hámarksaldurinn niður, svo sem að gefa lögreglumönnum sem komnir eru á sjötugsaldur kost á öðrum störfum hjá ríkinu, með skipulögðum hætti, án skerðingar á kjörum eða áunnum réttindum.
    

VI.


Fyrirmyndir.


    Við samningu þessa lagafrumvarps var löggjöf annars staðar á Norðurlöndum sem fyrr segir höfð til hliðsjónar, einkum norsk og finnsk lögreglulög frá árinu 1995.
    Ákvæði um lögregluna í Danmörku er að finna í 11. kafla dönsku réttarfarslaganna (lov om rettens pleje), nr. 905 frá 1992. Gildandi lög um lögregluna í Svíþjóð (polislag) eru nr. 387 frá 1984. Í Finnlandi eru lög um lögregluna (polislag) nr. 493 frá 1995. Í Noregi eru gildandi lög um lögregluna (lov om politiet) nr. 53 frá 1995.
    Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi eru ríkislögreglustjórar undir yfirstjórn dómsmálaráðherra. Ríkislögreglustjórinn í Danmörku hefur undir sinni stjórn þær deildir lögreglunnar sem ekki eru bundnar við umdæmi, þar á meðal umferðarlögregludeild og rannsóknardeild (kriminalpolitiets rejseafdeling). Ríkislögreglustjórinn í Finnlandi hefur m.a. undir sinni stjórn ríkisrannsóknarlögreglu sem aðstoðar hin staðbundnu lögregluyfirvöld við rannsókn alvarlegri brota. Verkefni ríkislögreglustjórans í Svíþjóð eru einkum á sviði stjórnsýslu en hann getur skipulagt aðgerðir lögreglunnar í meiri háttar brotamálum. Í Noregi er ekki ríkislögreglustjóri en sérstök deild í dómsmálaráðuneytinu hefur æðstu stjórn lögreglumála og er rannsóknarlögreglusveit á vegum deildarinnar til aðstoðar staðbundinni rannsóknarlögreglu.
    Við samningu frumvarps þessa var enn fremur tekið mið af lögregluyfirlýsingu Evrópuráðsins frá 8. maí 1979. Þá var þess gætt að ákvæði frumvarpsins samræmdust ákvæðum þeirra alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla frumvarpsins er að finna almenn ákvæði um starfsemi lögreglu og hlutverk hennar. Þá er þar sérstakt ákvæði sem mælir fyrir um að lögreglu beri í störfum sínum að hafa í heiðri þjóðréttarlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið er aðili að. Loks er í 3. gr. skilgreint hugtakið lögreglumaður.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. eru almenn ákvæði um hlutverk lögreglu auk þess sem í 1. mgr. er lögð sú skylda á herðar ríkisvaldinu að halda uppi lögregluliði.
    Í 2. mgr. eru talin upp hlutverk lögreglunnar. Ákvæðið, eins og það er hér, er mun ítarlegra en 1. gr. gildandi lögreglulaga. Samkvæmt ákvæðinu er hlutverk lögreglu margþætt.
    Í a-lið er orðuð sú almenna skylda lögreglu að halda uppi almannaöryggi og allsherjarreglu en í því felst einnig gæsla öryggis einstakra borgara ef því er að skipta. Þetta er efnislega í samræmi við það sem fram kemur í 1. gr. gildandi lögreglulaga.
    Í b-lið er m.a. skilgreint það hlutverk lögreglu að stemma stigu við afbrotum. Hér er fyrst og fremst átt við skyldu hennar til afskipta þar sem brot kunna að vera yfirvofandi. Hér fellur einnig undir forvarnarstarf en sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á þann þátt í starfi lögreglunnar hin síðustu ár.
    Í c-lið er kveðið á um rannsóknarhlutverk lögreglu og skyldu hennar til að stöðva ólögmæta hegðun ef því er að skipta. Fyrirmæli um rannsókn mála og þvingunaraðgerðir lögreglu í þágu rannsóknar máls er að finna í IX.–XIII. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Í þessum lið er einnig kveðið á um skyldu lögreglu til að fylgja málum eftir. Hér er vísað til þess að í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sbr. 7. og 8. tölul. 107. gr. laga nr. 92/1991 og 2. og 4. gr. laga nr. 38/1993, er lögreglu fengin heimild til þess að ljúka minni háttar opinberum málum með sektargerð, sbr. 115. gr., og lögreglustjórum er falið ákæruvald í veigaminni málum, sbr. 28. gr.
    Í lagatextanum er látið nægja að vísa til laga um meðferð opinberra mála í heild án frekari tilgreiningar. Þykir fara betur á því í lagatexta þar sem hætta er á að nákvæmar tilvitnanir til laga verði gagnslitlar vegna breytinga á þeim. Má í því sambandi benda á tilvitnun í 1. gr. gildandi lögreglulaga til laga um meðferð opinberra mála, nr. 82/1961. Þau lög voru felld úr gildi með lögum nr. 74/1974 sem aftur voru felld úr gildi með gildandi lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Í d-lið er kveðið á um þjónustu- og hjálparhlutverk lögreglunnar. Orðalag ákvæðisins er að hluta sótt til 2. málsl. 34. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974.
    Í e-lið er kveðið á um þá skyldu lögreglu að leggja yfirvöldum, þ.e. stjórnvöldum og öðrum opinberum aðilum, svo sem dómstólum, lið við framkvæmd starfa sinna eftir beiðni þeirra þegar lög bjóða eða venja stendur til þess. Í fjölmörgum ákvæðum laga er gert ráð fyrir þessu. Má sem dæmi nefna 3. mgr. 6. gr. berklavarnalaga, nr. 66/1939, 1. mgr. 14. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, 4. mgr. 2. gr., 10. gr., 12. gr. og 13. gr. farsóttalaga, nr. 10/1958 (sbr. 14. gr. laga nr. 108/1988 og 37. gr. laga nr. 92/1991), 3. mgr. 144. gr. laga um loftferðir, nr. 34/1964, 2. mgr. 29. gr. laga um náttúruvernd, nr. 47/1971, 3. mgr. 82. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, 3. mgr. 7. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984, 4. mgr. 230. gr. siglingalaga, nr. 34/1985 (sbr. 1. gr. laga nr. 21/1986 og 13. tölul. 82. gr. laga nr. 92/1991), 4. mgr. 9. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, 3. mgr. 29. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 (sbr. 14. gr. laga nr. 90/1987), 4. gr. laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, 3. mgr. 4. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, 3. mgr. 28. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 3. mgr. 24. gr., 29.–31. gr. og 75. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, 11. gr. og 1. mgr. 32. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, 2. mgr. 22. gr. og 2. mgr. 58. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, 2. mgr. 60. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, 3. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 55. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, 14. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, 22. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, og 18. gr. laga um dýravernd, nr. 15/1994.
    Í f-lið er kveðið á um skyldu lögreglu til samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir að því marki sem lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eru því ekki til fyrirstöðu. Slík samvinna við t.d. skóla og félagsmiðstöðvar er mikilvægur þáttur í forvarnarstarfi lögreglunnar. Í einstökum lagaákvæðum er beinlínis gert ráð fyrir slíkri samvinnu. Má sem dæmi nefna 1. mgr. 7. gr. laga um eftirlit með matvælum og öðrum neyzlu- og nauðsynjavörum, nr. 24/1936, 267. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, 2. mgr. 30. gr. áfengislaga, nr. 82/1969, 3. mgr. 4. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, 3. mgr. 26. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, og 1. og 5. mgr. 16. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992
    Loks kemur fram í g-lið skylda lögreglu til að hafa með höndum önnur verkefni sem hin ýmsu lög fela henni eða byggjast á venju. Dæmi um lagaákvæði þar sem lögreglu er falinn starfi, auk þeirra sem að framan eru talin, má nefna: Opið bréf (frá kansellíinu) um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum, frá 8. júní 1811, 3. gr. tilskipunar um skyldu manna að bjarga mönnum sem sýnast dauðir, frá 4. ágúst 1819, 2. gr. laga um siglingar og verzlun á Íslandi, frá 15. apríl 1854, 1. gr. laga um viðauka við tilskipun fyrir Ísland 12. febr. 1872 um síldar- og upsaveiði með nót, nr. 53/1901, 7.–9. gr. laga um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum, nr. 42/1913, 2. mgr. 138. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, 1. mgr. 1. gr. laga um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), nr. 6/1926, 1.–2., 6.–8., 10.–14., 16.–21., 23.–24., 26. og 28.–29. gr. laga um um skipströnd og vogrek, nr. 42/1926 (sbr. 1.–2. gr. laga nr. 44/1965, 1. tölul. 91. gr. laga nr. 90/1991 og 12. gr. laga nr. 92/1991), 9. gr. laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45/1926, 10. gr. laga um eftirlit með matvælum og öðrum neyzlu- og nauðsynjavörum, nr. 24/1936, 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, nr. 16/1938 (sbr. 1. tölul. 195. gr. laga nr. 19/1991), 6. mgr. 9. gr. berklavarnalaga, nr. 66/1939, 2.–3. mgr. 52. gr. og 3. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (sbr. 42. tölul. 194. gr. laga nr. 19/1991 og 1. tölul. 23. gr. laga nr. 92/1991), 9. og 10. gr. laga um þjóðfána Íslendinga, nr. 34/1944, 2. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, 2. mgr. 1. gr. laga um íslensk vegabréf, nr. 18/1953, 1. mgr. 23. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956, 6. gr. og 5. mgr. 15. gr. farsóttalaga, nr. 10/1958, 1. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga um almannavarnir, nr. 94/1962 (sbr. 4.–5. gr. laga nr. 85/1985), 6. mgr. 52. gr. og 142. gr. laga um loftferðir, nr. 34/1964, 1. gr. laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, nr. 39/1964, 7. mgr. 1. gr. laga um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25/1965, 2. mgr. 20. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, nr. 30/1966, 1. mgr. 4. gr., 5. gr., 2.–3. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 20. gr. áfengislaga, nr. 82/1969 (sbr. 3. og 8. gr. laga nr. 25/1989 og 2. tölul. 36. gr. laga nr. 37/1993), 1. og 5. gr. laga um gæðamat á æðardún, nr. 39/1970 (sbr. 54. gr. laga nr. 92/1991), 4. gr. laga um skemmtanaskatt, nr. 58/1970, 4. mgr. 35. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, 3. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga um opinberar fjársafnanir, nr. 5/1977, 5. mgr. 10. gr., 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 17. gr., 1. og 6. mgr. 25. gr., 1. mgr. 26. gr., 31. gr. og 32. gr. laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46/1977 (sbr. 4. tölul. 36. gr. laga nr. 37/1993), 12. og 13. gr. iðnaðarlaga, nr. 42/1978, 1. gr., 3. gr., 4. gr. og 8. gr. laga um sölu notaðra lausafjármuna, nr. 61/1979, 2. mgr. 81. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, 3., 7. og 11. gr. laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, 2. mgr. 29. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986 (sbr. 1. tölul. 87. gr. laga nr. 92/1991), 2. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar nr. 3/1987, 2. mgr. 34. gr., 1. og 2. mgr. 47. gr., 1. mgr. 48. gr., 5. mgr. 51. gr., 2. mgr. 52. gr., 1. mgr. 53. gr., 1. mgr. 70. gr., 3. mgr. 75. gr., 3. mgr. 76. gr., 3. mgr. 77. gr., 1. mgr. 78. gr., 2.–3. mgr. 81. gr., 82. gr., 2. mgr. 83. gr., 85. gr., 2. mgr. 87. gr., 1. mgr. 103. gr., 2. mgr. 106. gr. og 1.–4. mgr. 110. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 (sbr. lög nr. 90/1991 og 44/1993), 7. gr. laga um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988, 4. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, 3. mgr. 23. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988 (sbr. lög nr. 1/1992), 1. mgr. 37. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989, 1. mgr. 20. gr., 28. gr., 1.–2. mgr. 29. gr. og 115. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 (sbr. 7. tölul. 107. gr. laga nr. 92/1991 og 2. og 4. gr. laga nr. 38/1993), auk ýmissa fyrirmæla í VI. og IX.–XIV. kafla sömu laga, 3. mgr. 11. gr. laga um búfjárhald, nr. 46/1991, 21. gr. og 1. og 3. mgr. 22. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992 (sbr. 1. gr. laga nr. 67/1994), 14. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992 (sbr. 5. gr. laga nr. 58/1992), 1. mgr. 5. gr. og 26. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, 19. gr. og 2. mgr. 32. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, 2. mgr. 3. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 12. gr. og 18. gr. laga um dýaravernd, nr. 15/1994, 10., 57. og 58. gr. vegalaga, nr. 45/1994, 81. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, og 9. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbelsiskvikmyndum, nr. 47/1995.
    

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um það að lögregla skuli í störfum sínum virða þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gerst aðili að. Hér eru einkum höfð í huga lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, sem lögfestu hér á landi Evrópuráðssamning um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950, ásamt síðari viðaukum (mannréttindasáttmála Evrópu). Einnig koma til álita mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem gerður var á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þá má nefna Vínarsamninga um stjórnmála- og ræðissamband frá 24. apríl 1963 og Evrópusamning um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959, ásamt síðari viðauka. Loks má hér geta Evrópusamnings um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 26. nóvember 1987, sbr. lög nr. 15/1990.
    Ákvæði 2. gr. þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að minna á tilvist þessara laga og sáttmála og undirstrika mikilvægi þeirra.
    

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er leitast við að skilgreina hvað átt sé við með hugtakinu „lögreglumaður“. Er lagt til að greint verði á milli notkunar hugtaksins „lögreglumaður“ annars vegar og „handhafi lögregluvalds“ hins vegar, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er orðið „lögregla“ notað sem heildarheiti á þeirri stofnun þjóðfélagsins sem hefur með höndum löggæslu í víðustu merkingu.
    Í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er nánar kveðið á um það hvaða starfsmenn lögreglu það eru sem hafa lögregluvald. Aðrir þeir sem taldir eru upp í 2.–8. mgr. 9. gr. frumvarpsins teljast ekki til lögreglumanna enda þótt þeir hafi lögregluvald. Að öðru leyti vísast til athugasemda við þá grein.
    

Um II. kafla.


    Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um skipulag lögreglu og æðstu stjórn. Í honum er að finna helsta nýmæli laganna sem er stofnun embættis ríkislögreglustjóra. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er ríkislögreglustjóra ætlað að taka við fjölmörgum verkefnum sem fram til þessa hafa verið í höndum dómsmálaráðuneytisins, rannsóknarlögreglu ríkisins og lögreglustjórans í Reykjavík. Ríkislögreglustjóra er í aðalatriðum falið að fara með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra. Stofnun embættis ríkislögreglustjóra er byggist m.a. á því að nauðsynlegt sé að fela einum aðila yfirstjórn, reglubundið eftirlit og samræmingu í störfum hinna 27 lögregluembætta landsins. Embætti ríkislögreglustjóra kemur til með að verða falin ýmis stjórnsýsla á sviði löggæslumála, svo sem stjórn bifreiða-, tækja- og fatakaupa lögreglu, útgáfu lögregluskilríkja og jafnvel vegabréfa.
    Þá er gert ráð fyrir að við embætti ríkislögreglustjóra verði starfræktar sérstakar rannsóknardeildir. Annars er gert ráð fyrir að rannsóknarhlutverk embættis ríkislögreglustjóra verði mun minna í sniðum en Rannsóknarlögreglu ríkisins. Meginþunginn af lögreglurannsóknum Rannsóknarlögreglu ríkisins færist samkvæmt 8. gr. til sérstakra rannsóknardeilda við embætti tíu lögreglustjóra.
    Í 4. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um æðstu stjórn lögreglunnar. Dómsmálaráðherra er enn sem áður æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Þá er gert ráð fyrir að sérstakt embætti ríkislögreglustjóra fari með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra. Hann verður þó að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara um rannsókn mála lögum samkvæmt eins og aðrir lögreglustjórar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri skeri skv. 3. mgr. 8. gr. úr um það hvar mál skuli rannsakað og hvaða lögreglustjóri skuli stjórna rannsókn þó að ríkissaksóknari geti gefið fyrirmæli um rannsóknina að öðru leyti.
    Í 5. gr. er hlutverkum ríkislögreglustjóra lýst. Þá er gert ráð fyrir að skipaður verði vararíkislögreglustjóri sem ætlað er að vera staðgengill ríkislögreglustjóra í fjarveru hans eða forföllum.
    Í 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um skiptingu landsins í lögregluumdæmi og er það í samræmi við lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, sbr. 11. gr. þeirra laga. Í 2.–4. mgr. 6. gr. frumvarpsins er að finna ýmis nýmæli. Í 2. mgr. er sérstaklega kveðið á um sjálfstæði lögreglustjóra í starfi þrátt fyrir að komið verði á fót embætti ríkislögreglustjóra. Með því er átt við að eftir sem áður sé hver lögreglustjóri ábyrgur fyrir framkvæmd lögreglustarfa í umdæmi sínu og rekstri embættis síns frá degi til dags. Ríkislögreglustjóra er ekki að jafnaði ætlað að skipta sér af daglegum rekstri lögreglustjóraembættanna né á hann að gefa lögregluliðunum fyrirmæli í einstökum málum nema svo sé um mælt annars staðar í þessum lögum eða í öðrum lögum, sbr. t. d. h-lið 1. mgr. 5. gr., a-lið 4. mgr. 7. gr. og 3. mgr. 8. gr.
    Í 3. og 4. mgr. 6. gr. er síðan að finna heimildir ráðherra til að fela öðrum en hinum reglubundna lögreglustjóra umdæmis lögreglustjórn þess.
    Í 7. gr. eru reglur um starfssvæði lögreglu. Þar er að finna ýmis nýmæli sem þó eru að mestu leyti í samræmi við ríkjandi framkvæmd. Í 1. mgr. segir að lögreglumenn fari með lögregluvald hvar sem er á landinu. Þá kemur fram í 2. mgr. meginreglan um starfssvæði lögreglumanna en í 4. mgr. eru síðan tilgreindar aðstæður sem réttlæta undantekningar frá henni.
    Í 8. gr. er að finna nýmæli um starfsemi sérstakra rannsóknardeilda sem munu taka við rannsóknarhlutverki Rannsóknarlögreglu ríkisins að stærstum hluta. Kveðið er á um hvenær kalla eigi lögreglumenn í rannsóknardeild til að rannsaka mál eða aðstoða við rannsókn. Eftir sem áður verða smærri brot rannsökuð hjá hverju lögregluembætti, eftir atvikum í rannsóknarlögregludeildum þar sem þær hafa verið til staðar, svo sem í Kópavogi og á Keflavíkurflugvelli.
    Í 9. gr. eru þeir tilgreindir sem hafa lögregluvald. Þeir sem nefndir eru í 1. mgr. teljast til lögreglumanna ríkisins, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 10. gr. eru ákvæði um héraðslögreglumenn.
    Í 11. gr. ákvæði um samvinnu lögreglu við önnur stórnvöld og stofnanir. Ákvæðið er nýmæli, en almennt lagaákvæði um samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld hefur þótt skorta.
    Í 12. gr. eru ákvæði um samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga sem ætlunin er að koma á fót í hverju lögregluumdæmi landsins. Ákvæðið er einnig nýmæli. Hugmyndin að stofnun slíkra nefnda hefur þó komið fram áður. Var hún m.a. reifuð af Ólafi Jóhannessyni, þáverandi forsætisráðherra, er hann mælti fyrir frumvarpi því sem síðar varð að gildandi lögreglulögum, nr. 56/1972 (Alþt. B 1971, bls. 1751).
    

Um 4. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu er dómsmálaráðherra æðsti yfirmaður lögreglunnar. Þá er gert ráð fyrir sérstöku embætti ríkislögreglustjóra er fari með yfirstjórn lögreglunnar í landinu í umboði ráðherra. Embætti ríkislögreglustjóra hefur lengi verið til í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi en annar háttur er á yfirstjórn lögreglu í Noregi. Gert er ráð fyrir að embætti ríkislögreglustjóra heyri undir dómsmálaráðherra. Um hlutverk ríkislögreglustjóra er nánar fjallað í 5. gr. frumvarpsins.
    Þess skal sérstaklega getið að skv. 10. mgr. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969 fer utanríkisráðuneyti með framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, þar á meðal lögreglumál innan marka varnarsvæðanna, sbr. lög um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., nr. 106/1954. Löggæsla í umdæmi sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli heyrir því ekki undir dómsmálaráðherra en engu að síður er ráð fyrir því gert að málefni lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli heyri undir ríkislögreglustjóra, í því tilviki í umboði utanríkisráðherra.
    

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er hlutverki ríkislögreglustjóra lýst í meginatriðum:
A-liður:     Miðlun upplýsinga/ákvarðana og eftirlit.
    Eitt af meginhlutverkum ríkislögreglustjóra er að miðla upplýsingum innan lögreglunnar og fylgjast með og vinna að því að ákvörðunum æðstu handhafa ríkisvaldsins, hinum pólitísku ákvörðunum sem lúta að löggæslu, t.d. forgangsröðun verkefna og hvers konar öðrum áhersluatriðum, verði fylgt eftir.
B-liður:     Miðlun upplýsinga til dómsmálaráðherra.
    Ríkislögreglustjóra er jafnframt ætlað að miðla upplýsingum frá lögreglunni til æðstu handhafa ríkisvaldins (dómsmálaráðherra). Til þess að geta sinnt því hlutverki verður ríkislögreglustjóri m.a. að halda eða hafa yfirumsjón með og viðhalda miðlægum upplýsingakerfum sem lögreglustjórar beina upplýsingum til með öllu því sem máli skiptir varðandi starfsemi lögreglunnar í landinu svo sem nánar verður kveðið á um í reglugerð. Á síðustu þremur árum hefur miklum fjármunum verið varið í gerð miðlægra upplýsingakerfa fyrir lögreglu. Þau kerfi, sem þegar eru komin í notkun eru m.a. dagbók lögreglu og kæruskrá. Dagbók og kæruskrá eru landskerfi og er verið að vinna að uppsetningu þeirra á lögreglustöðvum um land allt ásamt því sem verið er að tengja lögregluembættin í eitt víðnet. Ríkislögreglustjóri mun ásamt dómsmálaráðuneyti hafa yfirumsjón með þróun og viðhaldi upplýsingakerfa lögreglu og þessir aðilar munu ásamt ríkissaksóknara hafa aðgang að kerfunum.
C-liður:     Tillögur til dómsmálaráðherra um almenn fyrirmæli til lögreglustjóra.
    Ríkislögreglustjóra er ætlað að vera til ráðuneytis og vinna að tillögum til dómsmálaráðherra um hvers kyns lögreglumálefni í formi reglugerða, reglna eða almennra fyrirmæla.
D-liður:     Hagræðing, samræming, framþróun og öryggi.
    Ríkislögreglustjóra er ætlað að vinna að og gera tillögur um hvaðeina í þessum efnum og síðan miðla ákvörðunum, verklagsreglum og leiðbeiningum til lögreglustjóra og lögregluliða.
    Honum ber m.a. að veita dómsmálaráðuneyti upplýsingar og vera til ráðgjafar um ætlaða fjárþörf og nýtingu fjárveitinga, mannahald, tækjabúnað, þar með talið tölvubúnað, stjórnun lögregluliða, samræmingu í störfum á landinu öllu, þróun nýrra vinnuaðferða og vinnubragða, forvarnarstarf, nýmæli í tæknilegum efnum og þjálfun, menntun, öryggismál þeirra sem starfa við löggæslu og enn fremur að réttaröryggi borgaranna.
E-liður:     Alþjóðasamskipti.
    Hér er einkum átt við samskipti innan alþjóðasamtaka, svo sem alþjóðalögreglunnar Interpol, en einnig er embætti ríkislögreglustjóra ætlað að vera tengiliður lögreglu ríkisins í lögreglusamstarfi við önnur Norðurlönd og innan Evrópska efnahagssvæðisins. Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra muni kveða nánar á um í reglugerð hvernig samskiptum milli ríkja í löggæslumálum verði háttað.
F-liður:     Aðstoð og stuðningur við lögreglustjóra.
    Byggt er á þeirri grundvallarreglu að lögreglustjórar stjórni og beri ábyrgð á hvers kyns löggæslustörfum, hver í sínu umdæmi. Ríkislögreglustjóra er ætlað að veita lögreglustjórum stuðning og aðstoð þegar þeir leita eftir auk þess sem hann hefur íhlutunarvald gagnvart lögreglustjórum í ýmsum efnum samkvæmt frumvarpinu. Stuðningur eða aðstoð ríkislögreglustjóra kann að vera fólginn í upplýsingamiðlun einni en annars í milligöngu um sendingu liðsstyrks úr öðru umdæmi, sbr. a-lið 4. mgr. 7. gr. frumvarps þessa, eftirgrennslan, milligöngu um aðstoð tæknirannsóknarmanna á vettvangi eða á rannsóknarstofu, aðstoð rannsóknarlögreglumanna úr stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota o.s.frv.
    Íhlutun ríkislögreglustjóra getur hins vegar verið fólgin í yfirtöku á stjórn eða fyrirmælum um framkvæmd vandasamra löggæsluverkefna, sbr. ákvæði h-liðar 1. mgr. 5. gr., tillögu til dómsmálaráðherra um að fela lögreglustjóra tímabundið tiltekin löggæsluverkefni utan síns umdæmis, sbr. niðurlag a-liðar 4. mgr. 7. gr., eða fyrirmælum um hvaða lögreglustjóri skuli stjórna rannsókn tiltekins brots, sbr. 3. mgr. 8. gr.
G-liður:     Viðfangsefni á landsvísu.
    Til dæmis um viðfangsefni á landsvísu, sem rétt þykir að ríkislögreglustjóri annist, má fyrst nefna kerfisbundna söfnun og úrvinnslu upplýsinga um afbrot og afbrotamenn sem nota má til afbrotagreiningar og miðlunar til lögreglustjóra í þágu löggæslunnar.
    Upplýsingar um afbrot eiga að berast tafarlaust frá öllum lögreglustjórum á landinu inn í miðlægar skrár og sama máli gengir um fingraför af afbrotamönnum, ljósmyndir, brotaferil o.s.frv. Inn í þessar skrár eða upplýsingakerfi verða jafnframt að berast upplýsingar frá ríkissaksóknara, dómstólum og fangelsisyfirvöldum um framgang og lyktir mála til þess að upplýsingar um feril tiltekins máls, þar með talið fullnustu dóms, liggi fyrir á einum stað. Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra mæli nánar fyrir um þetta efni í reglugerð.
H-liður:     Yfirstjórn einstakra löggæsluverkefna.
    Rétt þykir að ríkislögreglustjóri hafi möguleika á að hafa yfirstjórn eða gefa fyrirskipanir um stjórnun vandasamra löggæsluverkefna. Hér er einkum höfð í huga stjórn opinberra hátíðarhalda, samkoma eða annarra viðburða, svo sem heimsókna erlendra þjóðhöfðingja eða annarra gesta. Einnig gæti ríkislögreglustjóri tekið í sínar hendur vandasöm löggæsluverkefni, svo sem stjórn lögregluaðgerða vegna hefndarverka eða þegar almannavá eða hættuástand kallaði á samhæfingu lögregluliða. Þannig gæti ríkislögreglustjóri til að mynda tekið í sínar hendur stjórn sérsveitar lögreglunnar í Reykjavík ef þurfa þætti. Þar sem ákvæðið er undantekning frá þeirri meginreglu 6. gr. að lögreglustjórar fari með lögreglustjórn hver í sínu umdæmi þykir rétt að samþykkis dómsmálaráðherra verði leitað hverju sinni áður en ríkislögreglustjóri tekur stjórn lögregluaðgerða í sínar hendur og einnig að ákvörðunin sé kynnt viðkomandi lögreglustjóra eða lögreglustjórum með hæfilegum fyrirvara sem getur þó verið skammur ef aðstæður kalla á skjót viðbrögð lögreglu. Í ákvæðinu er einnig gefinn sá möguleiki að ríkislögreglustjóri gefi fyrirmæli um lögregluaðgerðir í stað þess að taka yfir stjórn þeirra en sömu skilyrði eru sett fyrir slíkum afskiptum ríkislögreglustjóra.
    Í 2. mgr. 5. gr. eru nokkur sérstök viðfangsefni eða verkefni ríkilögreglegustjóra tilgreind en ekki er þar um tæmandi talningu að ræða þar sem löggjafinn eða dómsmálaráðherra kann að fela ríkislögreglustjóra ýmis þeirra verkefna sem dómsmálaráðuneyti sinnir nú eða ný verkefni á sviði löggæslu.
    Í a-lið 2. mgr. er gert ráð fyrir að starfrækt verði rannsóknardeild sem rannsaki undir stjórn ríkislögreglustjóra umfangsmikil afbrot á sviði fjármála og viðskipta. Þessi brot sem nefnd eru skatta- og efnahagsbrot, en ganga einnig undir samheitinu „hvítflibbabrot“, geta verið gróf auðgunarbrot, brot sem lúta að löggjöf um tekjuöflun hins opinbera, gjaldeyrismál, verðlags- og samkeppnismál, verðbréfaviðskipti, stjórn fiskveiða og önnur brot sem eðli máls samkvæmt teljast til efnahagsbrota.
    Rannsókn efnahagsbrota getur oft staðið í mánuði, jafnvel ár, og krefst sérstakrar þekkingar á viðskiptum og bókhaldi. Brot þessi eru meðal þeirra flóknustu sem lögregla þarf að glíma við og krefjast sérhæfingar sem telja verður að útilokað sé að byggja upp í fleiri en einni rannsóknardeild á landinu. Fela verður ríkislögreglustjóra að móta verklagsreglur og skera úr um það í einstaka tilfellum hvaða brot eða brotastarfsemi verði rannsökuð af þessari deild en þess má vænta að einkum verði tekið tillit til eftirfarandi atriða:
    umfangs rannsóknarinnar og hve margslungið málið er,
    verðmætanna eða fjármunanna sem málsrannsóknin snýst um,
    hvort málið eða viðskiptin, sem fjallað er um í rannsókninni, tengist öðru landi,
    hvort um sé að ræða brotastarfsemi í atvinnurekstri eða aðra skipulagða brotastarfsemi,
    hvort málið hafi grundvallarþýðingu með tilliti til almannahagsmuna og um leið fordæmisgildi.
    Mikilvægt er að þeir aðilar, sem falið verður ákæruvald í þessum málaflokki, hafi náið og fastmótað samstarf við rannsóknardeildina um rannsókn brota allt frá upphafi til þess að tryggja skilvirkni í rannsókn og meðferð mála þessarar tegundar. Í þessu samhengi má minna á möguleika ríkissaksóknara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála til að gefa lögreglustjórum fyrirmæli um rannsókn brota.
    Í b-lið 2. mgr. 5. gr. er gert ráð fyrir að starfrækt verði við embætti ríkislögreglustjóra sérstök rannsóknardeild sem annist rannsóknir á landráðabrotum og brotum gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Deildin starfi einnig sem stoðdeild sem aðstoði lögreglustjóra við rannsóknir alvarlegra brota. Með alvarlegum brotum er m.a. átt við manndráp, nauðgun, stórfellda líkamsárás og brennu. Í slíkum tilvikum geta lögreglustjórar óskað aðstoðar eða ríkislögreglustjóri beinlínis sent aðstoð. Gert er ráð fyrir að rannsóknarmenn frá embætti ríkislögreglustjóra aðstoði hlutaðeigandi rannsóknardeild við rannsóknina undir stjórn hlutaðeigandi lögreglustjóra nema ríkislögreglustjóri geri þar aðra skipan á.
    Loks er í niðurlagi b-liðar 2. mgr. gert ráð fyrir að deildin taki við því hlutverki Rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsaka mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum vegna meints brots í starfi.
    Gert er ráð fyrir að í þessari deild vinni fámennur hópur sérfræðinga sem tryggður verði aðgangur að þekkingu á sérhæfðum rannsóknum hérlendis og erlendis og miðli öðrum lögreglumönnum sem við rannsóknir starfa af þeirri þekkingu.
    Í c-lið 2. mgr. er gert ráð fyrir að við embætti ríkislögreglustjóra verði almenn deild sem sinni verkefnum sem embætti ríkislögreglustjóra er falið skv. 1. mgr. og ekki falla undir verksvið annara deilda, sbr. a-, b- og e-liði.
    Í d-lið 2. mgr. er gert ráð fyrir að starfrækt verði alþjóðadeild við embætti ríkislögreglustjóra. Deildin kemur til með að sinna því hlutverki sem ríkislögreglustjóra er falið skv. e-lið 1. mgr. Vísir að alþjóðadeild er nú starfrækt hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og sinnur hún m.a. samskiptum við Interpol.
    Í e-lið 2. mgr. er gert ráð fyrir að rannsóknarstofa á sviði lögreglurannsókna verði starfrækt við embætti ríkislögreglustjóra. Þær rannsóknir, sem einkum er ætlast til að rannsóknarstofan sinni, eru fingrafararannsóknir, skjalarannsóknir og rannsóknir á sporum, fatnaði og þess háttar. Ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn rannsóknarstofunnar annist rannsóknir á vettvangi nema í undantekningartilfellum heldur annist úrvinnslu rannsóknargagna sem aflað er á vettvangi.
    Gert er ráð fyrir að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði starfrækt öflug tæknideild sem annast geti sérhæfðar vettvangsrannsóknir fyrir öll lögregluembætti landsins. Gott samstarf þarf að takast milli tæknideildar og starfsmanna rannsóknarstofu ríkislögreglustjóra. Afar mikilvægt er að myndir af brotamönnum, upplýsingar um fingraför og aðrar slíkar upplýsingar berist tafarlaust inn í miðlæga gagnagrunna sem varðveittir verða hjá ríkilögreglustjóra svo að fullt gagn verði af slíkum skrám eða upplýsingakerfum á landsvísu.
    Eðlilegt er að kennslburðarnefnd eða ID-nefnd heyri undir ríkislögreglustjóra en hlutverk hennar er að aðstoða lögreglustjóra við að þekkja lík sem ekki er mögulegt að bera kennsl á með einföldum aðferðum.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji nánari fyrirmæli um starfsemi embættis ríkisslögreglustjóra.
    Í 4. mgr. er kveðið á um stöðu vararíkislögreglustjóra og hlutverk hans. Um skipun hans og hæfniskröfur vísast til 28. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er að finna ákvæði um setningu sérstaks ríkislögreglustjóra til að fara með einstakt mál vegna vanhæfis skipaðs ríkislögreglustjóra. Ríkisögreglustjóri skal senda dómsmálaráðherra tilkynningu þegar hann telur sig svo tengdan málsefni að hann geti ekki um það fjallað.
    

Um 6. gr.


    Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um skiptingu landsins í lögregluumdæmi og stjórn þeirra.
    Samkvæmt 1. mgr. falla lögregluumdæmin saman við stjórnsýsluumdæmin eins og þau eru nú ákvörðuð í 11. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, sbr. reglugerð nr. 57/1992. Þau eru nú 27 talsins. Í aðskilnaðarlögunum er einnig tekið fram að sýslumenn samkvæmt þeim lögum fari jafnframt með lögreglustjórn að því leyti sem hún er ekki falin öðrum, sbr. 10. gr. þeirra laga. Með þessu síðasttalda er átt við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. aðskilnaðarlaganna. Um skipun í embætti lögreglustjóra og hæfiskröfur gilda ákvæði 14. gr. aðskilnaðarlaganna, sbr. einnig 28. gr. frumvarps þessa.
    Í niðurlagi 1. mgr. er að finna nýmæli þar sem lagt er til að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skuli starfa varalögreglustjóri. Allt frá stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins hefur starfað vararannsóknarlögreglustjóri við embættið. Ef frumvarp þetta verður að lögum fjölgar starfsmönnum lögreglustjórans í Reykjavík verulega og umsvif starfseminnar eykst. Varalögreglustjóra er ætlað að vera næstráðandi lögreglustjóra og staðgengill hans.
    Í fyrri málslið 2. mgr. er kveðið á um að lögreglustjórar annist stjórn lögreglu, hver í sínu umdæmi, og er ákvæðið samhljóða 1. mgr. 2. gr. gildandi lögreglulaga. Þá er í síðari málslið lögð áhersla á sjálfstæði einstakra lögreglustjóra við daglega stjórn og rekstur embætta sinna og við framkvæmd lögreglustarfa í umdæmi sínu. Við túlkun ákvæðisins verður þó að hafa í huga að embætti ríkislögreglustjóra fer með yfirstjórn lögreglu ríkisins í umboði dómsmálaráðherra skv. 4. gr., svo og ýmis ákvæði í 5., 7. og 8. gr. Sérstaklega getur ákvæði h-liðar 1. mgr. 5. gr. takmarkað boðvald einstakra lögreglustjóra tímabundið.
    Í 3. og 4. mgr. er mælt fyrir um heimild dómsmálaráðherra til að fela öðrum en hinum reglubundna lögreglustjóra umdæmis lögreglustjórn.
    Samkvæmt 3. mgr. getur dómsmálaráðherra falið öðrum en hinum reglubundna lögreglustjóra umdæmis að fara með lögreglustjórn þar tímabundið þegar sérstaklega stendur á eða þegar embætti er laust. Algengt er við þessar aðstæður að ráðherra feli lögreglustjóra í nærliggjandi umdæmi lögreglustjórn tímabundið.
    Í 4. mgr. er kveðið á um setningu lögreglustjóra „ad hoc“ til meðferðar einstaks máls. Hér er einkum haft í huga ef talið verður að hinn reglubundni lögreglustjóri sé vanhæfur til meðferðar máls samkvæmt almennum reglum. Þá er hugsanlegt að ákvæðinu verði beitt ef verkefnið er mjög sérstakt eða umfangsmikið og því talið heppilegt að fela það öðrum.
    

Um 7. gr.


    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um starfssvæði lögreglumanna. Í 1. mgr. er sérstaklega tekið fram að lögreglumenn hafi lögregluvald hvar sem er á landinu. Um lögregluvald er að öðru leyti fjallað í 9. gr. frumvarpsins og athugasemdum við hana.
    Í 3. mgr. 2. gr. og 6. gr. gildandi lögreglulaga eru ákvæði um starfssvæði lögreglu. Þótt ekki komi það berum orðum fram í þeim lögum hefur sú meginregla gilt að starfsvettvangur lögreglumanns sé það umdæmi sem hann er skipaður, settur eða ráðinn til þess að starfa í, enda hefur hingað til verið tilgreint í skipunarbréfum lögreglumanna við hvaða embætti þeir væru skipaðir, settir eða ráðnir.
    Þrátt fyrir þessa meginreglu er dómsmálaráðherra heimilt skv. 3. mgr. 2. gr. gildandi lögreglulaga að ákveða að hluti lögregluliðs skuli gegna lögreglustörfum hvar sem er á landinu. Svokallaðri þjóðvegalögreglu, sem er hluti af umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, var fyrir rúmum áratug falið að gegna slíku hlutverki með formlegum hætti og um það settar starfsreglur. Þá kemur enn fremur fram í 6. gr. gildandi lögreglulaga að standi sérstaklega á geti ráðherra mælt svo fyrir að lögreglulið skuli gegna löggæslustörfum utan umdæmis síns og ákveði þá jafnframt hver skuli fara með stjórn þess. Þá segir að þess skuli þó jafnframt gæta að hægt sé að halda uppi löggæslu á þeim stað sem lið er flutt frá. Í framkvæmd hefur þó verið vikið frá meginreglunni í ríkari mæli. Má þar nefna að um árabil hefur tíðkast að lögreglumaður fari ásamt starfsmanni Vegagerðarinnar til að annast þungamælingar í ýmsum lögregluumdæmum. Sama hefur gilt um Bifreiðaskoðun Íslands hf. og áður Bifreiðaeftirlit ríkisins að lögreglumaður hefur farið í eftirlitsferðir um landið ásamt skoðunar-/bifreiðaeftirlitsmanni frá stofnuninni til löggæsluverkefna. Ekki hefur verið gengið frá því með formlegum hætti, hvorki með ákvörðun ráðherra né annars konar staðfestingu, að þessir lögreglumenn megi starfa hvar sem er á landinu og er það óheppilegt. Hlutaðeigandi lögreglumenn hafa ýmist verið frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, Kópavogi eða Hafnarfirði. Þá annast lögreglan í Reykjavík öryggisgæslu vegna erlendra þjóðhöfðingja og annarra fyrirmenna á ferð um landið.
    Í frumvarpinu er lagt til að reglur um starfssvæði lögreglu verði markaðar með skýrari hætti en gert er í gildandi lögum. Í 2. mgr. greinarinnar er orðuð sú meginregla sem talin hefur verið gilda að starfsvettvangur lögreglumanns sé það umdæmi sem hann er skipaður, settur eða ráðinn í samkvæmt skipunarbréfi ráðherra.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að dómsmálaráðherra geti kveðið á um að hluti lögregluliðs skuli gegna lögreglustörfum alls staðar á landinu. Heimild þessari kemur til með að verða beitt varðandi ýmis löggæsluverkefni, svo sem sérsveit lögreglunnar í Reykjavík sem fengið hefur þjálfun í að fást við hefndarverk og hvers kyns vopnaða brotamenn. Þar sem lögreglumenn í sérsveit eru þeir einu sem fengið hafa slíka þjálfun hér á landi er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti sett reglur um hlutverk sveitarinnar á landsvísu. Önnur löggæsluverkefni, sem ákvæðið getur tekið til, er rannsóknardeild ávana- og fíkniefnamála hjá lögreglustjóranum í Reykjavík sem gegnt hefur lykilhlutverki í baráttu við innflutning og dreifingu á fíkniefnum. Mörg verkefni deildarinnar teygja anga sína út fyrir umdæmi lögreglustjórans í Reykjavík og kann að vera heppilegt að deildin fái tilteknar heimildir utan síns umdæmis auk þess sem nauðsynlegt er að hún aðstoði aðrar rannsóknardeildir við rannsókn fíkniefnabrota.
    Ákvæðið getur einnig tekið til öryggislögreglu vegna heimsókna erlendra þjóðhöfðingja og eftirlits með ökuritum, þungaskattsmælum, ásþunga bifreiða og öðru eftirliti með öryggi bifreiða en verið er að vinna að breyttu skipulagi löggæslu á því sviði.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um undantekningar frá meginreglunni í 2. mgr.
    Í a-lið er að finna heimild fyrir ríkislögreglustjóra til að ákveða, að höfðu samráði við lögreglustjóra, að hluti lögregluliðs skuli tímabundið sinna löggæslustörfum utan umdæmis síns. Gert er ráð fyrir að heimildinni verði aðeins beitt þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna útisamkoma eða annarra slíkra viðburða þar sem þörf er fyrir aukna löggæslu um tíma. Þess verður þó jafnan að gæta að slíkar ákvarðanir komi ekki niður á löggæslu í því umdæmi sem lið er flutt frá. Fyrirmynd ákvæðisins er 6. gr. gildandi lögreglulaga.
    Í niðurlagi a-liðar 4. mgr. er að finna nýmæli þar sem lagt er til að dómsmálaráðherra geti að tillögu ríkislögreglustjóra falið lögreglustjóra tímabundið tiltekin löggæsluverkefni utan síns umdæmis.
    Hér er gengið lengra en í fyrri málslið a-lið 4. mgr. og raunar er verið að leggja til undantekningu frá umdæmaskiptingu 1. mgr. 6. gr. Þörfin fyrir slíkt ákvæði er nokkur þar sem víða um landið hafa skapast venjur sem yfirleitt stafa af fámenni lögreglu, fjarlægð eða af öðrum hagkvæmnisástæðum um það að lögreglumenn hafi með höndum lögreglustörf í öðru umdæmi en sínu eigin, ýmist að beiðni viðkomandi lögreglustjóra eða án beiðni. Í slíkum tilvikum þykir rétt að lögreglustjóra í því umdæmi sem viðkomandi lögreglumenn starfa hjá verði formlega falið að fara með tiltekin löggæsluverkefni í nágrannaumdæmi ef það þykir sérstaklega hagfellt vegna staðhátta eða af öðrum slíkum staðbundnum ástæðum. Slíkt fyrirkomulag getur haft verulegan sparnað í för með sér, dreift verkefnum milli lögregluliða á heppilegan hátt og eflt löggæslu á tilteknum svæðum. Dæmi um þetta gæti verið að lögregla á Akranesi fengi það verkefni að annast umferðarlöggæslu á þjóðvegi nr.1 upp í Hvalfjarðarbotn eða að lögreglumanni á Kirkjubæjarklaustri verði falið að annast löggæslu í Skaftafelli.
    Um greiðslu kostnaðar af flutningi lögregluliðs skv. 3. mgr. og a-lið 4. mgr. vísast til athugasemda með 3. mgr. 8. gr. hér á eftir.
    Í b-lið er mælt fyrir um þrenns konar undanþágur frá umdæmamörkum: Í fyrsta lagi er lögreglumanni heimilt að fara út fyrir umdæmi sitt til þess að ljúka lögregluaðgerð sem hafin er innan þess. Sem dæmi má nefna ef lögreglumaður hefur hafið eftirför í sínu eigin umdæmi en verður að fara inn í annað umdæmi til að halda henni áfram. Í öðru lagi er lögreglumanni heimilt að fara út fyrir umdæmi sitt ef verkefnið krefst þess. Með því er átt við að mál þoli ekki bið eða gæti spillst við biðina. Að síðustu er settur sá almenni fyrirvari að lögreglumaður geti farið út fyrir umdæmi sitt ef brýna nauðsyn ber til, svo sem til þess að afstýra yfirvofandi hættu á slysum eða eignaspjöllum.
    Í c-lið er lagt til að lögfest verði venja sem myndast hefur í þessu efni. Sú óskráða starfsregla hefur jafnan gilt að lögreglumaður, sem er einkennisbúinn að störfum en á leið um annað lögregluumdæmi, láti til sín taka lögbrot sem hann stendur menn að og hafi afskipti af þeim. Sé þess kostur reynir lögreglumaður jafnan að kveðja til staðarlögreglu þannig að hún taki við máli en verði slíku ekki komið við lýkur hann sjálfur afgreiðslu þess með skriflegri kæru. Ávallt skal tilkynna um slíkar kærur og senda þær til lögreglustjórans í umdæminu þar sem brot var framið svo fljótt sem verða má.
    Ekki þykir ástæða til að takmarka heimildina samkvæmt ákvæðinu við lögreglumann sem er einkennisklæddur að störfum heldur þykir eðlilegt að hún taki til allra lögreglumanna, sem eru að störfum, á ferð um annað lögreglumdæmi hvort sem þeir eru einkennisklæddir eða ekki.
     Í 5. mgr. er lögð sú skylda á lögreglumann að tilkynna yfirmanni sínum um aðgerðir sínar skv. c- eða d-lið 4. mgr. svo fljótt sem verða má. Þá skal á sama hátt tilkynna viðkomandi lögreglustjóra í umdæmi um aðgerðir lögreglumanns. Mundi yfirmaður lögreglumanns gera það eða lögreglumaðurinn sjálfur eftir atvikum.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. er að finna ákvæði um starfrækslu rannsóknardeilda við embætti tíu lögreglustjóra. Í 6. gr. laga um Rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, er mælt fyrir um að rannsóknarlögregludeildir skuli starfa undir stjórn lögreglustjóra í umdæmum þar sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum lögreglurannsóknir brotamála. Þá er í 7. gr. sömu laga kveðið svo á að við lögreglustjóraembætti utan starfssvæðis Rannsóknarlögreglu ríkisins skuli starfa rannsóknarlögregludeildir samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra. Rannsóknarlögregludeildir eru nú starfræktar við embætti lögreglustjóranna í Reykjavík, í Kópavogi, í Hafnarfirði, á Akranesi, á Ísafirði, á Akureyri, á Eskifirði, á Selfossi, í Vestmannaeyjum, í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli eða við 11 embætti.
    Ef frumvarp þetta verður að lögum verður Rannsóknarlögregla ríkisins lögð niður. Í 5. gr. laganna er einungis gert ráð fyrir að við embætti ríkislögreglustjóra verði rannsökuð skatta- og efnahagsbrot, landráðabrot, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum og kærur á lögreglumenn vegna meintra brota í starfi en auk þess mun embættið aðstoða við rannsóknir alvarlegra afbrota. Í 8 gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að rannsóknir meginþorra afbrota færist til lögreglustjóra sem stjórni rannsókn brota hver í sínu umdæmi. Við 13 af 27 lögregluembættum á landinu starfa fimm eða færri lögreglumenn og í aðeins tíu þeirra eru fleiri en tíu lögreglumenn starfandi. Vegna þessarar staðreyndar þykir óheppilegt og jafnvel óframkvæmanlegt að stærri brotamál verði rannsökuð af lögreglumönnum í minni umdæmum. Útilokað er að lögreglumenn í fámennum lögregluliðum fái þá þjálfun og sérhæfingu sem nauðsynleg er til að tryggja vandaðar rannsóknir flókinna brotamála og að sem flest brotamál upplýsist.
    Því er lagt til í frumvarpinu að sérstakar rannsóknardeildir, sem taki við hlutverki Rannsóknarlögreglu ríkisins að stærstum hluta, verði starfræktar við embætti lögreglustjóranna í Reykjavík, á Akranesi, á Ísafirði, á Sauðárkróki, á Akureyri, á Seyðisfirði, á Selfossi, í Vestmannaeyjum, í Keflavík og í Hafnarfirði. Rannsóknardeildir þær sem fyrir eru verði efldar og til þeirra færð stöðugildi frá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Þannig verði færð 21 stöðugildi rannsóknarlögreglumanna frá rannsóknarlögreglu ríkisins til lögreglustjórans í Reykjavík og átta til annarra embætta sem sérstakar rannsóknardeildir verða starfræktar í, þar af fjögur stöðugildi út fyrir aðalstarfsvæði Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýrri rannsóknardeild á Sauðárkróki, einnig nýrri rannsóknardeild við embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði sem heppilegast þykir að staðsett verði á Egilsstöðum. Hlutverk rannsóknarlögregludeilda, sem nú eru starfræktar við embætti lögreglustjóranna í Kópavogi og á Keflavíkurflugvelli, verður nánast óbreytt frá því sem nú er en þær deildir falla ekki undir ákvæði 8. gr.
    Með orðunum „sérstök rannsóknardeild“ í 8. gr. er fyrst og fremst verið að tryggja að rannsóknum alvarlegra brota verði sinnt með viðeigandi hætti á nokkrum stærri lögregluembættanna. Þannig er ekki verið að festa í lögum nýja deild innan lögregluliðanna þar sem starfi rannsóknarlögreglumenn sem sinni ekki öðrum verkefnum en rannsóknum alvarlegra brota. Þvert á móti er æskilegt að múrar verði ekki reistir milli deilda í lögregluliði og að allir lögreglumenn í liðinu vinni að því sameiginlega markmiði að koma í veg fyrir brot, upplýsa brot og rannsaka þau af kostgæfni.
    Í 2. mgr. 8. gr. er kveðið á um að lögreglumenn í rannsóknardeildum skuli rannsaka brot í því umdæmi þar sem þeir starfa. Með ákvæðinu er þó ekki verið að útiloka að aðrir lögreglumenn við hlutaðeigandi embætti rannsaki smærri brot eða taki þátt í rannsókn alvarlegri brota.
    Í 3. mgr. 8. gr. er mælt fyrir um að unnt sé að kalla lögreglumenn í rannsóknardeildum skv. 1. mgr. til rannsóknarstarfa í öðrum umdæmum. Ef brot eru alvarlegs eðlis eða óvenjuleg skal að jafnaði leita eftir slíkri aðstoð. Lögreglumenn í rannsóknardeildum skulu þá taka yfir rannsókn eða eftir atvikum aðstoða lögreglumenn í umdæminu við rannsóknina. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að lögreglustjóri í hlutaðeigandi umdæmi stjórni að jafnaði rannsókn máls en að ríkislögreglustjóri geti gert aðra skipan á stjórn rannsóknar. Gert er ráð fyrir að lögreglustjórar geti leitað eftir aðstoð og að ríkislögreglustjóri hafi milligöngu um að kalla til aðstoðina. Sérstaklega getur orðið þörf fyrir slíka aðstoð við allra minnstu lögregluembættin, t.d. þau fimm embætti þar sem einungis einn eða tveir lögreglumenn starfa.
    Oft hagar svo til að brotaslóði einstakra brotamanna nær yfir tvö eða fleiri umdæmi eða brot einstaklinga sem búsettir eru í fleiri en einu umdæmi tengjast og getur verið álitamál í hvaða umdæmi skuli rannsaka mál og undir stjórn hvaða lögreglustjóra. Heppilegast þykir að ríkislögreglustjóri ákveði hvar slík mál skuli rannsökuð og hver stjórni rannsókn eins og mælt er fyrir um í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Ágreiningi má skjóta til dómsmálaráðuneytisins.
    Í 5. mgr. 8. gr. er mælt fyrir um að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um starfsemi rannsóknardeilda. Hér er átt við verklagsreglur varðandi það hvenær og með hvaða hætti skuli leita eftir aðstoð rannsóknardeilda, kostnað o.fl. Kemur til greina að festa í reglur hvaða brot það eru nákvæmlega sem að jafnaði verði falin rannsóknardeildum. Þá er þörf á að ákveða forgangsröðun verkefna þegar fleiri en einn lögreglustjóri þarf á vinnuframlagi rannsóknarlögreglumanna að halda.
    Þegar rannsóknarlögreglumenn eru sendir til að rannsaka mál í öðru umdæmi en því sem þeir starfa að jafnaði í fellur til aukakostnaður sem álitamál getur verið á hvaða embætti á að lenda. Rétt þykir að ætla embættum þar sem rannsóknardeild er starfrækt nægjanlegar fjárveitingar til að standa straum af launagreiðslum þeirra rannsóknarlögreglumanna sem við deildina starfa. Um kostnað af ferðum og uppihaldi gegnir öðru máli og þykir heppilegra að slíkur kostnaður verði greiddur af því embætti sem kallar eftir rannsókn eða af sameiginlegum fjárlagalið sem ríkislögreglustjóri hafi umsjón með.
    Sömu leið má fara með aðstoð sem kallað er eftir frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og sérsveit eða rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Erfitt getur verið fyrir hin smærri embætti að gera ráð fyrir slíkum óvæntum útgjöldum í fjárlagatillögum sínum en auðveldara fyrir embætti ríkislögreglustjóra að áætla árlega þörf fyrir slíka aðstoð við lögregluembættin.
    Í 6. mgr. er að finna ákvæði um að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skuli starfrækt tæknideild. Mörg verkefni tengd vettvangsrannsóknum krefjast bæði sérhæfðra lögreglumanna og tækja. Má þar nefna brunarannsóknir. Heppilegt þykir að ein slík tæknideild verði starfrækt í Reykjavík fyrir landið allt þótt ýmsar tæknilegar rannsóknir verði að sjálfsögðu framkvæmdar af rannsóknarlögreglumönnum í öðrum rannsóknardeildum eins og verið hefur. Gert er ráð fyrir að lögreglustjóranum í Reykjavík verði tryggð fjárveiting til reksturs deildarinnar þannig að fyrir þjónustu hennar þurfi ekki að greiða sérstaklega.
    

Um 9. gr.


    Hugtakið „lögregluvald“ er ekki notað í gildandi lögreglulögum. Það kemur aftur á móti fyrir í 6. gr. laga um hreppstjóra, nr. 62/1965, sbr. 43. gr. laga nr. 92/1991. Þá kom hugtakið fyrir í 2. og 3. mgr. 65. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, þar sem bifreiðaeftirlitsmönnum var fengið lögregluvald á starfssviði sínu. Þau ákvæði voru afnumin með 17. gr. laga nr. 44/1993. Hugtakið kom einnig fyrir í 2. mgr. 19. gr. áfengislaga, nr. 82/1969, en það ákvæði var afnumið með 56. tölul. 194. gr. laga nr. 19/1991.
    Í framangreindum ákvæðum er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu. Fræðilega er lögregluvald ein tegund opinbers valds sem stjórnvöld fara með. Nánar telst lögregluvald til réttarvörsluvalds eins og fullnustuvald sýslumanna, enda felst í hvoru tveggja valdbeitingarheimild ef þörf krefur. Með „lögregluvaldi“ er nánar átt við vald sem lögreglunni einni er falið til að gefa fyrirskipanir og til að grípa til aðgerða gagnvart þegnunum, með valdbeitingu ef nauðsynlegt er. Slíkt vald hafa aðeins þeir starfsmenn lögreglu sem beinlínis hafa það hlutverk að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu frá degi til dags og þeir sem eru í stöðum æðstu yfirmanna, sbr. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að taka fram að með orðinu „lögreglumaður“ í ákvæðinu er einnig átt við þá sem gegna stöðum yfirmanna í lögregluliði, svo sem yfirlögregluþjóna, varðstjóra o.s.frv. Löglærðir fulltrúar lögreglustjóra, sem margir hverjir hafa þau verkefni að stjórna, skipuleggja og aðstoða við rannsókn mála, og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins hafa lögregluvald samkvæmt ákvæðinu. Skrifstofufólk og annað starfslið lögreglunnar, sem ekki gegnir hefðbundnum löggæslustörfum, hefur ekki slíkt vald. Lögregluvald fylgir því aðeins nánar tilgreindum störfum innan lögreglunnar.
    Samkvæmt 2. mgr. er dómsmálaráðherra einnig heimilt að fela öðrum starfsmönnum lögreglu lögregluvald tímabundið eða til þess að sinna sérstökum verkefnum. Hér undir gætu fallið sérfróðir rannsóknarmenn, t.d. endurskoðendur.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að skipshafnir varðskipanna fari með lögregluvald þegar þær annist eða aðstoði við löggæslu og í 4. mgr. að tollverðir fari með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annist eða aðstoði við löggæslu. Ákvæðin er að mestu leyti í samræmi við 1. mgr. 4. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. og 1. mgr. 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967, og 1. mgr. 36. gr. tollalaga, nr. 55/1987. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að þeir teljist til lögreglumanna ríkisins eins og gildandi lögreglulög gera ráð fyrir. Er það í samræmi við skilgreiningu á hugtakinu lögreglumaður í 3. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Í 5. gr. laga um hreppstjóra, nr. 62/1965, sbr. 43. gr. laga nr. 92/1991, kemur m.a. fram að hreppstjórar fari með lögregluvald. Ákvæði 5. mgr. er í samræmi við það.
    Samkvæmt 6. mgr. fara héraðslögreglumenn með lögregluvald þegar þeir gegna lögreglustarfinu. Í 10. gr. er að finna sérstakar reglur um héraðslögreglumenn.
    Í 7. mgr. er kveðið á um að aðrir þeir sem kvaddir eru lögreglunni til aðstoðar lögum samkvæmt fari með lögregluvald á meðan þeir gegna starfanum. Lagaákvæði sem gera ráð fyrir aðstoð borgaranna við löggæslu eru: 20. gr. frumvarps þessa, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1989, 127. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, 4. mgr. 41. gr. tollalaga, nr. 55/1987, og 73. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Í 8. mgr. er kveðið á um að nemar í Lögregluskóla ríksins fari með lögregluvald þegar þeir gegna lögreglustarfi. Lögregluvald þeirra þarf að vera ótvírætt á meðan þeir sinna lögreglustörfum á námstíma, svo sem meðan á starfsþjálfun stendur. Ekki er gert ráð fyrir að nemar í lögregluskólanum gegni lögreglustarfi fyrr en að lokinni fyrri önn í grunnnámi.
    Í 9. gr. frumvarpsins er það tæmandi talið hverjir það eru sem fara með lögregluvald.
    

Um 10. gr.


    Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um héraðslögreglumenn, hlutverk þeirra og réttarstöðu. Sambærilegt ákvæði kom fyrst inn í lög um lögreglu árið 1940 (nr. 50/1940). Ástæðan var sú að þörf var talin á einhvers konar varaliði til að aðstoða við að halda uppi löggæslu á útisamkomum. Hefur ákvæðið verið í lögreglulögum allar götur síðan, en hlutverk héraðslögreglumanna orðið víðtækara. Heimildin í gildandi lögreglulögum er mikið notuð, sérstaklega utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Í ljósi þess þykir rétt að hafa þessa heimild áfram í lögum. Þótt héraðslögreglumenn þiggi föst laun fyrir starfa sinn er aðeins um aukastarf að ræða og einkum til þeirra leitað þegar þörf er aukinnar löggæslu af sérstökum ástæðum.
    Ákvæði 10. gr. frumvarpsins er hliðstætt 7. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 2. gr. laga nr. 108/1988. Í 1. mgr. hefur þó verið fellt niður ákvæði um fjölda héraðslögreglumanna í umdæmi þar sem ekki þykir ástæða til að binda fjölda þeirra í lögum. Þá er gert ráð fyrir að fá þurfi samþykki ríkislögreglustjóra fyrir ráðningu héraðslögreglumanns. Skulu þeir fullnægja skilyrðum 39. gr. frumvarpsins um að vera íslenskir ríkisborgarar, 20 til 35 ára, ekki kunnir af refsiverðri háttsemi, vera andlega og líkamlega heilbrigðir og hafa lokið tiltekinni menntun.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um fjölda héraðslögreglumanna og störf. Núgildandi reglugerð um héraðslögreglumenn og aðra afleysingamenn í lögreglustarfi er nr. 284/1981.
    Ákvæði 4. mgr. 10. gr. frumvarpsins um réttarstöðu héraðslögreglumanna er efnislega samhljóða ákvæði 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, en rétt þykir að það verði lögfest að öðru leyti en því að héraðslögreglumenn teljast ekki til lögreglumanna ríkisins skv. 3. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Þá er felld niður heimild í 4. mgr. 7. gr. gildandi laga fyrir héraðslögreglumenn til að taka sér aðstoðarmenn. Þykir heimildin óþörf þar sem hún hefur aldrei verið notuð. Samkvæmt niðurlagi 2. mgr. skulu héraðslögreglumenn vera undir stjórn lögreglumanna er þeir eru að störfum.

Um 11. gr.


    Mikilvægt er að lögregla og önnur stjórnvöld vinni saman að verkefnum sem tengjast löggæslu með einum eða öðrum hætti. Í athugasemdum með 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um hlutverk lögreglu eru talin upp fjölmörg lagaákvæði þar sem mælt er fyrir um aðstoð og samvinnu lögreglu og annara stjórnvalda. Rétt þykir að setja í lög almennt ákvæði um slíka samvinnu. Ákvæðið er til frekari áréttingar á f- og g-liðum 1. gr.
    Í 1. mgr. er sérstaklega mælt fyrir um að lögregla skuli aðstoða ákæruvaldið við störf þess. Ákvæðið tengist m.a. 1. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þar sem kveðið er á um að ríkissaksóknari geti kveðið á um rannsókn máls og mælt fyrir um framkvæmd hennar eða tekið rannsókn eða ákvörðun um málshöfðun í sínar hendur ef svo ber undir. Ákvæðið er því í raun staðfesting á gildandi rétti.
    Í 2. mgr. er lögfest ákvæði um gagnkvæma samvinnu lögreglu og annarra stjórnvalda. Þá er sérstaklega vikið að samvinnu lögreglu, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda um forvarnir en mikilvægt er að þessir aðilar vinni saman að þessum mikilvæga málaflokki en árangur næst þar ekki nema með víðtækri samvinnu. Með forvörnum er hér átt við baráttu gegn áfengi, ólöglegum vímuefnum og hvers kyns aðrar afbrotavarnir.
    

Um 12. gr.


    Samvinna lögreglu og sveitarstjórna hefur aukist nokkuð á síðustu árum á ýmsum sviðum, m.a. við lausn ýmissa félagslegra vandamála. Má þar nefna samvinnu um málefni barna og ungmenna og svonefndra „útigangsmanna“. Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna að í Reykjavík hefur lögreglan í samvinnu við borgaryfirvöld rekið athvarf fyrir unglinga um helgar, svonefnda „útideild“. Þá má einnig geta hér um samstarf lögreglu og sveitarstjórna á sviði forvarna, en sífellt meiri áhersla er lögð á forvarnir til viðnáms gegn félagslegum vandamálum, t.d. afbrotum. Loks ber að nefna samstarf á sviði umferðarmála.
    Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að í hverju lögregluumdæmi landsins verði komið á fót samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga um málefni lögreglunnar í umdæminu undir forustu lögreglustjóra í því umdæmi. Ætlunin er að þessar nefndir verði vettvangur fyrir samstarf þessara aðila og fjalli um sameiginleg málefni þeirra. Rétt þykir að héraðsnefnd eða önnur slík samtök sveitarfélaga í umdæminu tilnefni fulltrúa sveitarstjórna í samstarfsnefnd. Rétt er að lögreglustjóri hafi frumkvæði að því að kalla nefndina saman.
    Nokkur reynsla er komin á samstarf af þessu tagi þar sem slíkar nefndir starfa nú þegar í stærstu sveitarfélögum landsins, þar með talið í Reykjavík. Þetta fyrirkomulag mun hafa gefist vel og er ástæða til að mæla fyrir um stofnun slíkra nefnda í lögum.
    

Um III. kafla.


    Í III. kafla er fjallað um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa. Þetta er einn þýðingarmesti kafli frumvarpsins.
    Í kaflanum er að finna reglur um þær heimildir sem lögreglan hefur til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu og um samskipti lögreglu og borgaranna. Þar er m.a. tilgreint af hvaða tilefni og með hvaða hætti lögreglunni er heimilt að hafa afskipti af borgurunum. Loks er fjallað um ýmis réttindi og skyldur lögreglumanna.
    Sum ákvæðin eru hliðstæð ákvæðum sem er að finna í gildandi lögum um lögreglu eða í eldri lögum um meðferð opinberra mála. Önnur ákvæði eru aftur á móti nýmæli en taka mið af ríkjandi réttarframkvæmd.
    Mikilvægasta nýmæli kaflans er að lögfestar verði ýmsar heimildir lögreglu sem áður voru taldar felast í svonefndu „allsherjarumboði“ lögreglu, sbr. 15.–18. gr. Um þetta vísast nánar til athugasemda við einstakar greinar.
    Í 13. gr. frumvarpsins eru almennar reglur um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa. Sum ákvæðanna sem þar eru voru áður í eldri lögum um meðferð opinberra mála. Önnur ákvæði eru nýmæli í lögum um lögreglu en eiga sér að nokkru leyti fyrirmynd í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954. Ákvæði 3. mgr. um lögregluskilríki er nýmæli í lögum sem er í samræmi við ríkjandi framkvæmd.
    Í 14. gr. er beinlínis tekið fram að lögreglu sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að sjálfsögðu er lögreglu aldrei heimilt að grípa til valdbeitingar nema önnur vægari úrræði hafi verið reynd. Þetta er í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaganna, nr. 37/1993, en þar er lögfest ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins sem nefnd hefur verið meðalhófsreglan. Samkvæmt henni skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þá segir að þess skuli gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Grundvallarregla þessi felur í sér að stjórnvöld verði að gæta hófs í meðferð valds síns. Lögreglunni ber ávallt að hafa meðalhófsregluna í heiðri við framkvæmd starfa sinna. Hún má þar af leiðandi aldrei ganga lengra en nauðsynlegt er hverju sinni. Ákvæðið er nýmæli í lögunum en í samræmi við ríkjandi framkvæmd.
    Í 15. gr. eru m.a. tilgreindar þær aðstæður sem taldar eru réttlæta afskipti lögreglu af þegnunum. Ákvæðið er almennt orðað í þeim tilgangi að sem flest tilvik falli þar undir þar sem nauðsynlegt getur verið fyrir lögregluna að hafa afskipti af fólki. Ákvæði 15. gr. eru nýmæli í lögunum en í samræmi við ríkjandi framkvæmd.
    Í 16. gr. er að finna heimild fyrir lögregluna til að handtaka mann og færa á lögreglustöð ef ákveðin skilyrði eru fyrir hendi. Heimildir lögreglumanna til handtöku hefur verið að finna í XII. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Með frumvarpi þessu eru handtökuheimildir e- og f-liða 98. gr. færðar úr lögum nr. 19/1991 og í lögreglulög. Verður þá í lögum nr. 19/1991 einvörðungu að finna handtökuheimildir er tengjast rannsókn og meðferð opinbers máls, auk þess sem heimildir til handtöku tengdar afplánun refsingar verða áfram í lögum nr.19/1991.
    Í 17. gr. er nýmæli á ferðinni. Þar er lögreglu heimilað að leita á mönnum ef ákveðnar aðstæður eru fyrir hendi, sbr. 1. mgr. Þá er lögreglu jafnframt heimilað að leita á fólki sem vistað er í fangageymslu, sbr. 2. mgr. Ákvæði 2. mgr. miðar fyrst og fremst að því að vernda þann mann sjálfan sem vistaður er og eignir hans.
    18. gr., sem fjallar um afskipti lögreglu af börnum undir 16 ára aldri, er nýmæli í lögunum og er það í samræmi við ríkjandi framkvæmd.
    Í 19. gr. er almennt ákvæði sem mælir fyrir um skyldu almennings til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Þetta er nýmæli í lögum. Hliðstætt ákvæði er að finna í einstaka lögreglusamþykktum.
    Í 20. gr. er kveðið á um skyldu borgaranna til að aðstoða lögreglu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ákvæði svipaðs efnis er í 2. mgr. 4. gr. gildandi lögreglulaga. Ákvæði 20. gr. er þó víðtækara.
    Í 21. gr. er lagt bann við því að tálma lögreglu í störfum sínum. Greinin á sér fyrirmynd í gildandi lögreglulögum.
    Um þagnarskyldu allra starfsmanna lögreglunnar eru ákvæði í 22. gr. frumvarpsins. Ekki hefur áður verið lögfest sérstakt ákvæði þessa efnis er gildi um alla starfsmenn lögreglunnar, hvort sem þeir fara með lögregluvald eða ekki. Fram að þessu hefur þagnarskylda starfsmanna lögreglunnar, eins og annarra opinberra starfsmanna, stuðst við almennt ákvæði þess efnis í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954. Vegna eðlis lögreglumannsstarfans þykir mikilvægt að mæla sérstaklega fyrir um þagnarskyldu starfsmanna hennar í lögum um lögreglu.
    Í 23. gr. eru ákvæði um afskipti starfsmanna lögreglu af eigin málum eða nákominna vandamanna í starfi sínu. Hér er byggt á því að það teljist grundvallarregla að starfsmenn lögreglu beiti hvorki heimildum sínum í eigin málum né málum þeirra sem eru þeim nákomnir. Slíkt er augljóslega til þess fallið að ala á tortryggni í garð lögreglu. Á þetta reyndi að nokkru í dómi Hæstaréttar frá árinu 1989 (H.1989.512). Segja má að dómur þessi hafi verið tilefni þess að lagt er til að ákvæði þessa efnis verði beinlínis lögfest.
    Ákvæði í 24. gr. frumvarpsins um afskipti lögreglu af vinnudeilum eru óbreytt miðað við gildandi lögreglulög.
    Í 25. gr. frumvarpsins er lagt til að settar verði um það skýrar reglur hvenær lögreglumönnum sé heimilt að sinna lögreglustörfum í frítíma sínum. Þegar lögreglumenn grípa til aðgerða utan síns vinnutíma er ætlast til þess að þeir hafi samband við lögreglumenn sem eru að störfum þá stundina og láti þá taka við máli eins fljótt og unnt er.
    Síðasta greinin í kaflanum fjallar um heimild til að fela lögreglu tollgæslustörf ef þörf er á. Greinin er tekin efnislega óbreytt úr gildandi lögreglulögum.
    

Um 13. gr.


    Í 1. mgr. er lýst almennum skyldum lögreglumanna. Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, er skyldum starfsmanna hins opinbera lýst í sérstökum kafla og er þar m.a. kveðið á um þessar skyldur. Þrátt fyrir það þykir rétt að lögfesta sérstakt ákvæði þessa efnis í lögum um lögreglu.
    Í 2. mgr. (2. og 3. málsl.) er sett fram almenn regla um framkvæmd lögreglustarfa. Reglan er grundvölluð á svonefndri meðalhófsreglu (á dönsku proportionalitetsprincip). Grundvallaregla þessi felur m.a. í sér að stjórnvöld verði að gæta hófs í meðferð valds síns. Í samræmi við þetta skal lögregla í stað harkalegs úrræðis ávallt velja vægara úrræði ef það dugir og eðlilegt samræmi verður að vera milli þess óhagræðis sem stafar af úrræði því sem beitt er og þýðingar þess. Jafnan skal lögreglan því beita vægasta úrræði sem völ er á ef það nægir til að náð verði því markmiði sem að er stefnt og valdbeiting verður að vera hófleg miðað við þá almannahagsmuni sem í húfi eru. Meðalhófsreglan er talin mjög þýðingarmikil við framkvæmd lögreglustarfa. Meðalhófsreglan er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þar segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
    Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins (1. málsl.) að lögregla skuli ávallt gæta fyllsta hlutleysis og réttsýni. Þetta er í samræmi við lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þar sem sérstaklega er tekið fram að lögregla skuli gæta hlutleysis er hún vinnur að rannsókn mála, sbr. 31. gr. þeirra laga.
    Í 3. mgr. er lögfest ákvæði um lögregluskilríki, þ.e. skilríki sem lögreglumönnum er ætlað að bera við framkvæmd starfa sinna. Hér er í reynd um að ræða lögfestingu á þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur hér á landi. Eðlilegt verður að telja að í skilríki sé tilgreindur gildistími þess. Með því er komið í veg fyrir að í umferð séu skírteini manna sem látið hafa af störfum en bera þó með sér að vera enn í gildi.
    Þegar hafa verið samin drög að reglum um lögregluskilríki. Heppilegt þykir að ríkislögreglustjóri annist útgáfu þeirra.
    

Um 14. gr.


    Ganga verður út frá því sem meginreglu að lögreglumenn framkvæmi skyldustörf sín án valdbeitingar. Það er þó ljóst að þær aðstæður skapast að nauðsynlegt er að grípa til hennar. Í 14. gr. frumvarpsins er lögreglumönnum heimilað að beita valdi við framkvæmd starfa sinna og er heimildin bundin því skilyrði að aldrei sé gengið lengra í beitingu valds en nauðsynlegt er hverju sinni.
    Ákvæðið byggir á meðalhófsreglunni sem lýst er í athugasemdum við 13. gr. og vísast til þess. Í henni felst m.a. sú almenna skylda stjórnvalda, þar með talið lögreglu, að beita ekki harkalegra úrræði en nauðsynlegt er til að náð verði því markmiði sem að er stefnt hverju sinni. Með þessu er lögð áhersla á að einungis verði gripið til valdbeitingar að önnur mildari úrræði hafa verið reynd, en án árangurs.
    

Um 15. gr.


    Greinin er nýmæli. Þar er mælt fyrir um rétt lögreglu til þess að hafa afskipti af borgurunum við nánar tilgreindar aðstæður og með hvaða hætti. Tilgangur ákvæðisins er að treysta lagalegan grundvöll þessa réttar lögreglu. Hliðstætt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögreglulögum. Talið hefur verið að heimildir lögreglu í þeim tilfellum sem getið er í greininni rúmist innan þess sem kallað hefur verið allsherjarumboð (á dönsku generalfuldmagt) lögreglu. Með því er átt við þá óskráðu reglu að lögreglan hafi almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu. Það er mat nefndarinnar sem samið hefur þetta frumvarp að rétt sé að lögfesta þessar heimildir lögreglu. Byggist sú afstaða á svonefndri lögmætisreglu (á dönsku legalitetsprincip), þ.e. þeirri reglu að hið opinbera, lögreglan sem aðrir, þurfi að hafa heimild í lögum til afskipta af borgurunum gegn vilja þeirra.
    Lagagreinin er þannig upp byggð að í 1. mgr. eru tilgreindar aðstæður sem taldar eru réttlæta afskipti lögreglu af þegnunum. Í 2. mgr. eru síðan taldar upp aðgerðir sem lögreglu er heimilt að grípa til við þessar aðstæður. Sú upptalning er ekki tæmandi. Allar þær aðstæður og heimildir, sem nefndar eru í 1. og 2. mgr., hafa fram til þessa verið taldar rúmast innan allsherjarumboðsins. Í reynd er því lagt til að núverandi framkvæmd verði lögfest. Hér er því hvorki ætlunin að þrengja né rýmka þetta umboð lögreglu heldur miðar ákvæðið fyrst og fremst að því að tiltaka aðstæður og aðgerðir sem eru algengastar og taka þar með af allan vafa um lögmæti afskipta lögreglu.
    Það er ljóst að erfitt er að setja sundurliðaðar og nákvæmar reglur sem kveða á um öll tilvik sem lögreglan kann að standa andspænis og þær aðgerðir sem hún kann að þurfa að grípa til. Þess vegna er 2. mgr. orðuð á almennan hátt þannig að litið verði á hana sem leiðbeinandi um hin ýmsu úrræði sem lögreglan getur gripið til en ekki sem tæmandi talningu á þeim.
    Heimild til afskipta skv. 15. gr. er bundin við þá sem hafa lögregluvald.
    Í 1. mgr. eru taldar upp þær aðstæður sem heimila afskipti lögreglu af borgurunum. Ákvæðið er almennt orðað og ætlað að taka til allra aðstæðna þar sem þörf kann að vera fyrir afskipti lögreglu af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða að afstýra eða stöðva afbrot.
    Í 2. mgr. eru nefnd dæmi um aðgerðir sem lögreglan getur gripið til. Upptalningin er ekki tæmandi.
    Í 3. mgr. kemur fram að óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu sem gefin eru skv. 2. mgr. geti hún á hans kostnað gripið til ráðstafana sem hún telur nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu.
    Í 4. mgr. er sérstök heimild fyrir lögreglu til að krefjast þess að menn segi á sér deili. Ákvæði svipaðs efnis er nú t.d. í 8. gr. lögreglusamþykktar fyrir Garðakaupstað nr. 627/1987 og 7. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur nr. 625/1987.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimildir lögreglu til afskipta af málefnum sem með réttu heyra undir önnur stjórnvöld þegar nauðsyn ber til.
    

Um 16. gr.


    Ákvæði um handtöku er nú að finna í XII. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Í 97. gr. er mælt fyrir um handtöku manns vegna rannsóknar opinbers máls. Í 98. gr. ræðir um rétt lögreglu til þess að handtaka mann af ýmsum öðrum ástæðum. Samkvæmt ákvæðinu er lögreglumanni rétt að handtaka mann:
    ef hann á að afplána refsingu,
    ef hann hefur leyfislaust vikið úr refsivist eða gæslu eða rofið bann við för af ákveðnu svæði,
    ef rökstuddur grunur leikur á um að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, reynslulausn eða náðun,
    ef hann hefur ekki að forfallalausu sinnt fyrirkalli um að mæta á dómþing eða gegnt kvaðningu til að gefa skýrslu í opinberu máli,
    ef hann ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum,
    ef hann hefur hér ekki landvistarleyfi.
    Eðlilegt þykir að handtökuheimildir sé að finna í lögum um lögreglu, aðrar en þær er tengjast rannsókn eða meðferð opinbers máls. Handtökuheimildir tengdar afplánun refsingar verða einnig áfram í lögum nr. 19/1991. Samkvæmt því hefur verið horfið til þess að færa handtökuheimildir samkvæmt e- og f-liðum 98. gr. laga nr. 19/1991 yfir í frumvarp til lögreglulaga. Er f-liður tekinn þar óbreyttur upp en e-liður felldur inn í almenna heimild lögreglu til handtöku í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu.
    

Um 17. gr.


    Í 17. gr. eru lögfestar sérstakar leitarheimildir fyrir lögreglu sem miða að því að hún fái gegnt því almenna hlutverki sínu að halda uppi lögum og reglu. Þessum heimildum ber að halda aðgreindum frá þeim heimildum sem lögregla hefur samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og eru liður í rannsókn einstakra mála, sbr. XI. kafla laga nr. 19/1991 sem fjallar um leit og 2. mgr. 101. gr. sömu laga sem heimilar leit á handteknum manni. Almennt hefur verið litið svo á að lögreglan hefði þessar leitarheimildir við þær aðstæður sem lýst er í ákvæðinu þótt ekki hafi sérstaklega verið kveðið á um þær í lögum. Það er mat nefndarinnar að rétt sé að lögfesta þessar heimildir sérstaklega.
    Bent er á að leitarheimildir skv. 17. gr. eru þrengri en leitarheimildir samkvæmt XI. kafla laga um meðferð opinberra mála að því leyti að þær taka aðeins til leitar á manni, þ.e. til leitar að utanaðkomandi hlutum sem menn kunna að bera á sér. Ákvæði laga um meðferð opinberra mála um líkamsleit taka ekki aðeins til leitar að utanaðkomandi hlutum sem menn bera á sér heldur einnig til leitar að utanaðkomandi hlutum sem menn kunna að hafa í sér, þ.e. innvortis. Af þessari ástæðu þótti ekki fært að nota orðið „líkamsleit“ í þessu samhengi.
    Í 1. mgr. er leitarheimild lögreglu bundin við nánar tilgreindar aðstæður, þ.e. í fyrsta lagi ef maður er fjarlægður, sbr. 2. mgr. 15. gr., eða ef maður er handtekinn, sbr. 16. gr. Heimildin tekur aðeins til þess að leita að vopnum eða öðrum munum sem hætta gæti hugsanlega stafað af, sbr. þó heimild 2. mgr. sem er víðtækari að þessu leyti þegar maður er vistaður í fangageymslu.
    Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. hefur lögreglan heimild til að leita á manni sem vistaður er í fangageymslu og taka til varðveislu muni sem hann hefur á sér og hann gæti notað til að vinna sjálfum sér eða öðrum tjón með. Dæmi um slíka hluti eru belti, axlabönd og hálsbindi. Þá er heimilt skv. 2. málsl. 2. mgr. að taka af manni, sem vistaður er í fangageymslu, peninga og muni sem hann hefur á sér og hætta þykir á að geti skemmst, eyðilagst eða glatast. Dæmi um slíkar aðstæður er þegar margir menn eru hafðir saman í fangaklefa og hætta er á að hlutum verði stolið.
    Samkvæmt 3. mgr. ber lögreglu að skila aftur þeim munum sem hún hefur tekið af mönnum með heimild í 1. eða 2. mgr. þegar þeir eru látnir lausir enda séu ekki skilyrði til að leggja hald á þá samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    

Um 18. gr.


    Í 18. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um afskipti lögreglu af börnum.
    Samkvæmt ákvæðinu er lögreglu heimilt að hafa afskipti af börnum yngri en 16 ára sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra eða velferð þykir alvarleg hætta búin. Skýra verður ákvæðið svo að afskipti lögreglu samkvæmt því komi því aðeins til að barni sé augljós og mikil hætta búin. Sem dæmi má nefna ef barn er í fylgd með foreldrum eða öðrum forsjármönnum sem eru illa á sig komnir sökum ölvunar eða áhrifa annarra vímuefna. Afskipti lögreglu samkvæmt þessu ákvæði eru óháð lögmæltum útivistartíma barna. Með börnum er í ákvæðinu átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs og er það í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992. Um útivistartíma barna eru að öðru leyti fyrirmæli í 57. gr. þeirra laga.
    

Um 19. gr.


    Í gildandi lögum um lögreglu er ekki að finna almennt ákvæði er kveður á um skyldu borgaranna til hlýðni við fyrirmæli lögreglunnar. Slík ákvæði er þó að finna í lögreglusamþykktum, sbr. t.d. 1. mgr. 8. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík nr. 625/1987 og 10. gr. lögreglusamþykktar fyrir Garðakaupstað nr. 627/1987. Rétt þykir að hafa ákvæði þessa efnis í lögum.
    Í 41. gr. frumvarpsins er kveðið á um refsingar við því að óhlýðnast fyrirmælum þessa ákvæðis.
    

Um 20. gr.


    Í 1. mgr. 20. gr. er að finna ákvæði sem heimilar lögreglu að kveðja sér til aðstoðar hvern fulltíða mann ef nauðsyn ber til, þar á meðal til að afstýra óreglu eða óspektum á almannafæri.
    Ákvæðið er hliðstætt 2. mgr. 4. gr. gildandi lögreglulaga en felur þó í sér þrjár breytingar: Í fyrsta lagi er fellt niður það skilyrði gildandi lögreglulaga að viðkomandi maður, sem kvaddur er til aðstoðar, „sé viðstaddur“. Samkvæmt því getur lögreglan kvatt sér til aðstoðar menn sem ekki eru á staðnum, svo sem símleiðis, ef brýna nauðsyn ber til. Í öðru lagi er bætt inn orðunum „þar á meðal“. Í því felst að það tekur til fleiri tilvika en þeirra sem beinlínis eru talin upp í ákvæðinu, enda teljist þau sambærileg. Í þriðja lagi er lagt til að lögfestur verði fyrirvari þess efnis að manni verði ekki gert skylt að sinna kvaðningu lögreglu ef hætta þykir á að hann stofni lífi, heilbrigði, velferð eða öðrum verulegum hagsmunum sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu með því. Samkvæmt 41. gr. frumvarpsins getur sá sætt fésektum sem að ófyrirsynju neitar lögreglu um aðstoð.
    Í 127. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er það lýst refsivert að sinna ekki kvaðningu yfirvalds um aðstoð til þess að koma í veg fyrir brot eða annan ófarnað sem lífi, heilbrigði eða velferð manna er búin hætta af þótt maður hefði getað veitt aðstoðina án þess að stofna sér eða verulegum hagsmunum í hættu. Refsing við slíku broti getur varðað sektum eða allt að þriggja mánaða varðhaldi.
    1. mgr. 20. gr. frumvarpsins tekur til minni háttar brota á aðstoðarskyldu borgaranna við lögreglu enda mega viðurlög við þeim ekki fara fram úr fésektum, sbr. 41. gr. Sé um alvarlegri brot að ræða ber að beita nefndu hegningarlagaákvæði. Ákvæðum lögreglulaga og almennra hegningarlaga verður því ekki beitt samhliða.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þeir sem kvaddir eru lögreglu til aðstoðar skv. 1. mgr. hafi lögregluvald á meðan þeir gegna starfanum. Þá er jafnframt áréttað að þeir njóti verndar sem aðrir lögreglumenn. Hér er m.a. átt við vernd skv. 21. og 30. gr. frumvarpsins og samkvæmt ákvæðum XII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    

Um 21. gr.


    Fyrirmynd ákvæðisins er í 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1989. Í 41. gr. frumvarpsins er kveðið á um refsingar ef brotið er gegn banni 21. gr.
    Brot gegn 21. gr. frumvarpsins varðar aðeins fésektum.
    

Um 22. gr.


    Í 22. gr. er að finna ákvæði um þagnarskyldu lögreglu. Í 32. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, er að finna almennt ákvæði um þagnarskyldu ríkisstarfsmanna. Vegna eðlis starfa lögreglu þykir rétt að hafa sérstakt ákvæði í lögum um lögreglu um þetta efni. Tekur það til allra starfsmanna lögreglu.
    Þagnarskyldan tekur bæði til upplýsinga sem viðkomandi fær í starfi sínu og vegna þess. Í 2. mgr. er áréttað að þagnarskyldan haldist þótt látið sé af starfi.
    Þau atriði, sem þagnarskyldan tekur til, eru greind í þremur liðum:
    Upplýsingar um einkahagi manna sem geta varðað viðkvæm málefni og eðlilegt er og sanngjarnt að leynt fari.
    Upplýsingar um skipulag og starfsemi lögreglu og fyrirhugaðar lögregluaðgerðir. Í því sambandi er bent á að mikilvægt er að haldið sé leyndum upplýsingum um vissa þætti í starfsemi lögreglu og um skipulagningu og útfærslu einstakra lögregluaðgerða. Að öðrum kosti er óvíst um árangur af þeim.
    Aðrar upplýsingar sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins.
    Þagnarskylda starfsmanna lögreglu kemur aftur á móti ekki í veg fyrir að eftirtöldum aðilum verði veittar eða kynntar upplýsingar sem þagnarskyldan tekur annars til:
    Öðrum starfsmönnum lögreglu eða starfsmönnum ákæruvalds ef upplýsingarnar eru nauðsynlegar vegna starfa þeirra.
    Íslenskum eða erlendum yfirvöldum, sem starfa að lögreglu- og öryggismálum, ef þau þurfa á upplýsingum að halda í því skyni að fyrirbyggja brot eða til að afstýra broti.
    Vitnum eða heimildarmönnum þegar það er nauðsynlegt svo að lögreglan geti notið liðsinnis þeirra til að fyrirbyggja eða afstýra broti.
    Að sjálfsögðu verður starfsmaður lögreglu að fara gætilega í að veita upplýsingar í þessum tilvikum, sérstaklega samkvæmt b- og c-lið. Aldrei skal veita frekari upplýsingar en þörf er á hverju sinni.
    Ákvæðinu er ekki ætlað að þrengja að stjórnarskrárvernduðu tjáningarfrelsi lögreglumanna eða koma í veg fyrir gagnrýni á yfirstjórn lögreglu heldur að sporna við því að lögreglumenn láti af hendi upplýsingar sem leynt eiga að fara, spillt geta árangri af lögregluaðgerðum eða skaðað löggæsluhagsmuni verulega á annan hátt.
    Í 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er að finna ákvæði sem lýsir brot á þagnarskyldu opinberra starfsmanna refsivert.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. er lagt til að lögfest verði sú grundvallarregla að starfsmenn lögreglu aðhafist hvorki í eigin málum né nákominna vandamanna sinna þegar þeir gegna starfi sínu. Þessi regla kemur m.a. fram í dómi Hæstaréttar frá 21. mars 1989 (H 1989,512), en þar segir m.a.:
    „Það verður að teljast grundvallarregla að lögreglumenn rannsaki ekki sjálfir mál sín og nákominna vandamanna.“
    Þykir við hæfi að reglan verði lögfest. Við skýringu á því hverjir teljist til nákominna vandamanna þykir mega hafa hliðsjón af d-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Í því ákvæði er mælt fyrir um vanhæfi dómara vegna tiltekins skyldleika eða tengda við aðila máls.

Um 24. gr.


    Efnislega óbreytt ákvæði 10. gr. gildandi lögreglulaga. Ákvæðið kom upphaflega inn í lögreglulög með lögum nr. 92/1933, sbr. 4. gr., og hefur haldist óbreytt síðan.

Um 25. gr.


    Ákvæðið er nýmæli í lögreglulögum hér á landi. Vegna eðlis starfa lögreglumanna er rétt að gera ráð fyrir að þeir geti þurft að sinna lögreglustörfum í frítíma sínum.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir afskiptum lögreglumanns að hans eigin frumkvæði þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þarfnast þeir liðir ekki sérstakra skýringa. Þó skal bent á að ekki er ætlast til að lögreglumaður sinni störfum skv. b- eða c-lið nema um sé að ræða alvarleg brot. Ekki er átt við að hann sé að sinna veigaminni málum, svo sem vegna aksturs gegn rauðu ljósi og þess háttar. Í slíkum tilfellum er eðlilegra að hann láti við það sitja að tilkynna um brot ef hægt er að koma því við og hann sér ástæðu til.

Um 26. gr.


    Ákvæðið er efnislega óbreytt ákvæði 3. mgr. 4. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 2. mgr. 36. gr. tollalaga, nr. 55/1987.
    

Um IV. kafla.


    Í IV. kafla er fjallað um veitingu lögreglumannsstarfa.
    Í 27. gr. er fjallað um fjölda lögreglumanna.
    Í 28. gr. er kveðið á um skipun og ráðningu í stöður lögreglumanna og um hæfniskröfur.
    Í 29. gr. er fjallað um heitstaf lögreglumanna. Sams konar ákvæði var áður í lögum um meðferð opinberra mála en þykir eiga betur heima í lögum um lögreglu.
    Í kaflanum eru felld niður nokkur ákvæði sem er að finna í gildandi lögreglulögum og varða efni þessa kafla:
    1. Ákvæði 2.–3. málsl. 3. mgr. 3. gr. gildandi lögreglulaga um svonefnda „varalögreglumenn“ er ekki tekið upp í frumvarpið. Það á rætur sínar að rekja til fyrstu lögreglulaganna sem sett voru hér á landi á fjórða áratug aldarinnar, sbr. lög nr. 92/1933. Við samningu ákvæðisins var fyrst og fremst hafður í huga órói og upphlaup sem urðu vegna stéttaátaka á þeim árum, t.d. Gúttóslagurinn 9. nóvember 1932. Vegna fámennis í lögregluliði á þeim tíma var talið nauðsynlegt að ráðherra hefði heimild til að fjölga í því fasta lögregluliði sem kveðið var á um í lögum þegar sérstaklega stæði á eða það teldist nauðsynlegt fyrir öryggi borgaranna. Á þessum tíma var gert ráð fyrir að í bæjum (kaupstöðum og kauptúnum) þar sem væru 1.000 íbúar eða fleiri skyldu vera allt að tveir starfandi lögregluþjónar á hverja 1.000 íbúa, enda væri lögreglustjóri þar búsettur. Ákvæðinu hefur ekki verið beitt um lengri tíma og þótti ekki ástæða til að taka það með í frumvarpið.
    2. Ákvæði 4. mgr. 3. gr. gildandi lögreglulaga er ekki tekið með í frumvarpið, en það fjallar um aukna löggæslu vegna sérstakra aðstæðna. Þar segir að á stöðum þar sem þörf er á löggæslu vegna sérstakra aðstæðna, svo sem á vertíðum, megi ráða lögreglumenn til starfa, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum. Ákvæðið kom fyrst inn í lögreglulög, nr. 56/1963. Um efni þess segir í athugasemdum að þar sé fjallað um löggæslu vegna sérstakra tímabundinna aðstæðna, svo sem á Þingvöllum miðsumars, á Keflavíkurflugvelli og í ýmsum verstöðvum þar sem sérstök þörf sé aukinnar löggæslu hluta úr ári. Í II. kafla þessa frumvarps er að finna ákvæði sem koma í stað heimildar 4. mgr. 3. gr. gildandi laga. Má þar sérstaklega nefna a-lið 4. mgr. 7. gr.

Um 27. gr.


    Ákvæði 27. gr. frumvarpsins er efnislega óbreytt ákvæði 1. mgr. 3. gr. gildandi lögreglulaga með þeirri undantekningu að dómsmálaráðherra hefur samráð við ríkislögreglustjóra um fjölda lögreglumanna. Greinin er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins um að ríkið haldi uppi starfsemi lögreglu í landinu.
    Samkvæmt greininni ákveður dómsmálaráðherra fjölda lögreglumanna í hverju lögregluumdæmi í samráði við ríkislögreglustjóra að fengnum tillögum viðkomandi lögreglustjóra. Hann er að sjálfsögðu bundinn af fjárveitingum, en óþarft þykir að taka það sérstaklega fram í lögunum eins og gert er í 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. gildandi lögreglulaga. Þá þykir ekki heldur ástæða til að binda í lagatexta fjölda lögreglumanna í hverju umdæmi þar sem þörfin getur verið misjöfn frá einum tíma til annars.
    

Um 28. gr.


    Í 28. gr. er mælt fyrir um skipun og ráðningu í störf innan lögreglunnar og hæfisskilyrði. Skv. 1. mgr. er gert ráð fyrir að forseti Íslands skipi í æðstu stöður innan lögreglunnar, þ.e. í stöður ríkislögreglustjóra, vararíkislögreglustjóra, lögreglustjóra og varalögreglustjóra í Reykjavík. Ákvæðið um að forsetinn skipi í stöðu lögreglustjóra er í samræmi við 1. mgr. 14. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, en þar segir að forseti Íslands skipi sýslumenn. Sýslumenn fara með lögreglustjórn hver í sínu umdæmi, nema í Reykjavík þar sem hún er falin sérstökum lögreglustjóra.
    Þá er gert ráð fyrir því í 3. mgr. að dómsmálaráðherra skipi lögreglumenn til lögreglustarfa, enda hafi þeir lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Eru ákvæði um skipun lögregluþjóna nánast óbreytt frá gildandi lögum. Ekki þótti rétt að gera breytingar á því grundvallaratriði í lögum um lögreglumenn að lögreglumenn skuli hljóta skipun sem lögreglumenn. Nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins hefur verið falið að gera tillögur að heildarendurskoðun á starfsmannastefnu ríkisins, þar á meðal ráðningarformi opinberra starfsmanna. Lögreglulaganefndinni þótti rétt að láta endurskoðun á ráðningarformi lögreglumanna bíða niðurstöðu þeirrar heildarendurskoðunar.
    Í 2. mgr. kemur fram að ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar og varalögreglustjórinn í Reykjavík skuli fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar. Þó er í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, ekki gert ráð fyrir að aldurskilyrðið gildi um lögreglustjórana og varalögreglustjórann í Reykjavík. Um skilyrði til að gegna embætti héraðsdómara að öðru leyti vísast til 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
    Í niðurlagi 3. mgr. er kveðið á um að dómsmálaráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig lögreglumanna. Samsvarandi ákvæði er að finna í 2. mgr. 3. gr. laga um lögreglumenn, nr. 56/1972, en slíkar reglur hafa þó ekki verið settar. Engar heildarreglur eru þannig til um starfsstig lögreglumanna en í ýmsum lögum, reglugerðum, reglum og öðrum almennum fyrirmælum, svo og kjarasamningum fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs við Landssamband lögreglumanna, er þó gengið út frá tilteknum stöðuheitum og þeirra er nú getið í flestum skipunarbréfum lögreglumanna. Dómsmálaráðherra hefur þegar lagt grunn að skipun nefndar til að gera tillögur að reglum um starfsstig lögreglumanna. Í nefndinni munu eiga sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, lögreglustjóra og Landssambands lögreglumanna.
    Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. gildandi laga um lögreglumenn hefur engan mátt ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. júlí 1991 án þess að hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Frá þessu eru gerðar þær undantekningar að heimilt er að lausráða nema til reynslu til lögreglustarfa meðan á námi þeirra stendur í Lögregluskóla ríkisins. Þá hefur verið heimilt að ráða menn til lögreglustarfa án prófs frá Lögregluskóla ríkisins til afleysinga í sumarleyfum frá 15. maí til 30. september ár hvert.
    Í 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir, að dómsmálaráðherra sé heimilt að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikindaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þótt hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Gert er að skilyrði, að hann fullnægi skilyrðum a-, b- og c-liða 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins, staðan hafi verið auglýst með venjulegum hætti og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins hafi sótt um hana.
    Þær aðstæður hafa alloft komið upp að enginn lögreglumaður með próf frá Lögregluskóla ríkisins hefur sótt um lausa stöðu lögreglumanns. Á það fyrst og fremst við utan höfuðborgarsvæðisins. Í slíkum tilvikum þykir ófært annað en að lögregluyfirvöld eigi þess kost að manna stöðuna tímabundið með manni er ekki hefur lokið námi. Skilyrðin eru þó þröng þar sem heimildin er bundin við orlofstöku, veikindaforföll eða tímabundin leyfi lögreglumanns.
    

Um 29. gr.


    Samhljóða ákvæði var að finna í 3. málsl. 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974. Með gildandi lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, voru þau lög felld úr gildi. Aftur á móti voru ýmis ákvæði V. kafla eldri laganna, sem fjölluðu um lögreglumenn og upphaf rannsóknar, ekki tekin upp í nýju lögin, þar á meðal þetta ákvæði. Í greinargerð með frumvarpi til gildandi laga um meðferð opinberra mála kemur fram að margar þeirra reglna sem skipað var í V. kafla eldri laga um meðferð opinberra mála, eigi fremur heima í lögum um lögreglumenn. Er því ákvæði þetta tekið upp hér. Ætlast er til að lögreglumaður vinni heitstafinn er hann hefur störf.
    

Um V. kafla.


    Í V. kafla er fjallað um nokkur atriði sem varða starfskjör lögreglumanna.
    Lögreglumenn teljast að sjálfsögðu til opinberra starfsmanna og njóta lögkjara og bera skyldur í samræmi við það eftir því sem lög og kjarasamningar mæla nánar fyrir um. Í 1. mgr. 5. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1989, er þetta sérstaklega tekið fram en ekki þótti þörf á að taka það ákvæði upp í frumvarpið.
    Í 30. gr. er mælt fyrir um rétt lögreglumanna til bóta úr ríkissjóði fyrir líkams- og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Þá er kveðið á um bætur fyrir missi framfæranda ef því er að skipta.
    Í 5. mgr. 5. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. 1. gr. laga nr. 26/1987, var að finna sérstaka heimild til lækkunar skaðabóta vegna tjóns sem lögreglumaður olli í starfi sínu. Ákvæði þetta var fellt brott með 5. tölul. 29. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, ásamt hliðstæðum ákvæðum í ýmsum öðrum lögum. Í stað þessara ákvæða er lögfest almenn lækkunarheimild í 24. gr. skaðabótalaganna. Að þessu athuguðu þótti fara best á að sleppa því að fjalla um þetta atriði sérstaklega í frumvarpinu.
    Í 31. gr. er lagt bann við því að lögreglumenn geri verkfall og taki þátt í verkfallsboðun. Ákvæði þessa efnis var bætt inn í lög um lögreglumenn, nr. 56/1972, árið 1986, sbr. lög nr. 82/1986. Rétt er að vekja athygli á að ákvæði 31. gr. frumvarpsins tekur eingöngu til þeirra sem fara með lögregluvald.
    Ákvæði 32. gr. er nýmæli sem fjallar um aukastörf lögreglumanna. Um er að ræða sérákvæði sem gildir um lögreglumenn og gengur framar almennu ákvæði 34. gr. laga nr. 38/1954 um aukastörf opinberra starfsmanna.
    Ákvæði 33. gr. er nýmæli sem fjallar um aldurshámark lögreglumanna. Skulu lögreglumann samkvæmt frumvarpinu leystir frá störfum sínum þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára. Í 3. mgr. 43. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir hvernig lækkun á aldurshámarki lögreglumanna verði framkvæmd.
    

Um 30. gr.


    Fyrri málsliður er tekinn efnislega úr gildandi lögum með áorðnum breytingum, sbr. hér lög nr. 26/1987, en ákvæðið um bætur fyrir missi framfæranda er nýtt. Hér er kveðið á um beina bótaábyrgð ríkissjóðs vegna lögreglumanna sem verða fyrir munatjóni, líkamstjóni eða látast vegna starfs síns. Rétt þykir að ríkissjóður greiði lögreglumönnum eða þeim sem eru á framfæri þeirra slíkar bætur í stað þess að þeir verði að sækja mál sín á hendur þeim er tjóni hafa valdið. Slík málaferli geta tekið langan tíma og engin trygging er fyrir því að tjónvaldur reynist borgunarmaður. Vegna eðlis starfa lögreglumanna þykir eðlilegt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða bætur í slíkum tilvikum. Ríkissjóður eignast síðan endurkröfurétt á hendur tjónvaldi ef því er að skipta. Um lækkun bóta vegna eigin sakar tjónþola og ákvörðun bótafjárhæðar að öðru leyti gilda almennar reglur skaðabótaréttarins.
    

Um 31. gr.


    Efnislega óbreytt ákvæði er í 4. mgr. 4. gr. gildandi lögreglulaga, sbr. breytingalög nr. 82/1986. Með hugtakinu „lögreglumenn“ er eins og áður átt við þá sem fara með lögregluvald, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Með frumvarpi til laga nr. 82/1986 fylgdi ítarleg greinargerð, sbr. Alþt. A 1985–86, bls. 1548–1550, og vísast til hennar.
    Augljós rök búa að baki ákvæðinu, enda er það meginhlutverk lögreglu að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu. Starfsemi lögreglu er þannig ein meginforsenda þess að haldið verði uppi skipulögðu og lögbundnu þjóðfélagi. Telja verður það ósamrýmanlegt þessu hlutverki lögreglu ef lögreglumenn gætu gert verkfall með löglegum hætti.
    Bent er á að hliðstætt ákvæði er í 7. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967. Þar kemur fram að starfsmenn landhelgisgæslunnar megi hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðunum.
    

Um 32. gr.


    Í 32. gr. er mælt fyrir um aukastörf lögreglumanna.
    Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram að heimilt sé að fela lögreglumanni að vinna fyrir sanngjarnt endurgjald aukastörf í þágu ríkisins, enda valdi það ekki vanrækslu á þeim störfum er stöðu hans fylgja. Þetta er í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954. Að öðru leyti eru í 1. mgr. reistar skorður við því að þeir starfsmenn lögreglu sem fara með lögregluvald gegni launuðum aukastörfum samhliða aðalstarfinu. Þar að baki búa þau rök að slík störf geti verið til þess fallin að draga úr möguleikum viðkomandi til að beita sér að fullu í lögreglustarfinu. Með þessu er jafnframt lögð áhersla á mikilvægi þess að þessir aðilar séu eins sjálfstæðir og öðrum óháðir í starfi sínu og kostur er. Ákvæðið tekur jafnt til starfa í þjónustu annarra sem og sjálfstæðs atvinnureksturs.
    Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að veita undanþágu frá banni 2. málsl. 1. mgr. ef sýnt þykir að aukastarfið geti samrýmst lögreglustarfinu og að lögreglumaður geti eftir sem áður rækt skyldur sínar í aðalstarfinu af samviskusemi og trúnaði. Gera verður ráð fyrir að unnt sé að binda undanþágu ýmsum skilyrðum, svo sem því að aukastarfið sé ekki unnið í einkennisfötum lögreglumanns eða öðrum einkennisfötum, að eignir ríkisins, þar með talið húsnæði, bifreiðar, sími, tölvur o.fl., séu ekki nýttar í þágu aukastarfsins, að ekki sé vísað á lögreglumann vegna aukastarfsins á þeim tíma sem hann sinnir lögreglustarfinu, að lögreglumanni verði gert ljóst að ekki verði tekið tillit til aukastarfsins ef kalla þurfi hann til lögreglustarfa og að umfang aukastarfsins sé ekki svo mikið að það geti komið niður á starfi viðkomandi sem lögreglumanns.
    Undanþága er afturkallanleg hvenær sem er án þess að tilgreina þurfi ástæðu afturköllunar. Þá er gert ráð fyrir að starfsmaður fái hæfilegan frest áður en honum er gert að láta af aukastarfi ef unnt er að koma því við.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um það hvert beri að snúa sér með beiðni um undanþágu frá banni 2. málsl. 1. mgr. og um málskot. Sérstaklega er tekið fram að ákvörðun ríkislögreglustjóra sé unnt að skjóta til dómsmálaráðherra.
    

Um VI. kafla.


    Í VI. kafla er fjallað um löggæslukostnað.
    Fyrir rúmum tveimur áratugum var rekstur lögreglunnar í landinu færður frá sveitar- og sýslufélögum til ríkisins. Með frumvarpinu er engar breytingar gerðar á því fyrirkomulagi, sbr. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að ríkið haldi uppi starfsemi lögreglu. Í samræmi við þetta kemur fram í 33. gr. frumvarpsins að ríkið beri allan kostnað af almennri löggæslu í landinu.
    Í 34. gr. eru efnislega óbreytt ákvæði gildandi lögreglulaga þess efnis að unnt sé að krefja einstaklinga eða lögaðila um kostnað löggæslu á skemmtistað, vegna framkvæmda á almannafæri og vegna flutnings á hættulegum eða óvenjulegum farmi. Ákvæðið um greiðslu kostnaðar af löggæslu á skemmtistað kom fyrst inn í lög um lögreglumenn nr. 56/1963. Í greinargerð með sams konar ákvæðum í 8. gr. gildandi lögreglulaga segir eftirfarandi:
    „Tíðkazt hefur um langt skeið við tilkvaðningu lögreglumanna til gæzlustarfa vegna sérstakrar þarfar, í sambandi við atvinnustarfsemi eða skemmtanir einstakra aðila, að lögreglustjórar hafa gert sérstaka kröfu um að lögregla sé tilkvödd, og að þá sé jafnframt hlutaðeigandi aðilum gert að greiða kostnað af störfum löggæzlumanna, sbr. um skilyrði fyrir skemmtanaleyfi ákvæði í 4. málsgr. 8. greinar gildandi laga um lögreglumenn. Rétt þykir að marka þessa heimild lögreglustjóranna skýrar en gert er í gildandi lögum.“ (Alþt. A 1971, bls. 1258.)
    Að öðru leyti er meginreglan sú að ríkissjóður greiði allan kostnað af störfum lögreglu.
    

Um 33. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við það sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    

Um 34. gr.


    Ákvæðið er tekið efnislega óbreytt úr 8. gr. gildandi lögreglulaga að því viðbættu að skv. 2. mgr. má krefja um greiðslu kostnaðar af gæslustörfum vegna flutnings á óvenjulegum eða hættulegum farmi.
    Um 1. mgr. eru fyrirmæli í reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, nr. 587/1987. Rétt er að benda á að aðalreglan er eftir sem áður sú að kostnaður vegna löggæslu á skemmtistað, sem og á öðrum stöðum, greiðist úr ríkissjóði, sbr. það sem fram kemur í 33. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er enn fremur gert ráð fyrir að unnt sé að kveða á um greiðslu kostnaðar af gæslustörfum lögreglu vegna framkvæmda á almannafæri og flutnings á óvenjulegum eða hættulegum farmi. Dæmi um slíkan kostnað er þegar sumarhús eru flutt milli staða í fylgd lögreglu.
    

Um VII. kafla.


    Í VII. kafla frumvarpsins er fjallað um meðferð kæra á hendur lögreglu. Ákvæði 35. gr. taka til meðferðar kæra á hendur lögreglu vegna ætlaðra ólögmætra athafna við framkvæmd lögreglustarfa. Hér er því ekki fjallað um kærur á hendur lögreglumönnum vegna ætlaðra ólögmætra athafna sem ekki tengjast framkvæmd lögreglumannsstarfa. Með þess háttar kærur ber að fara eftir almennum reglum laga um meðferð opinberra mála eins og aðrar kærur á hendur mönnum fyrir ætluð refsiverð brot. Þá eiga kvartanir vegna framkomu lögreglu, sem ekki telst ólögmæt, ekki heldur við hér.
    

Um 35. gr.


    Í 35. gr. er mælt fyrir um meðferð kæru á hendur lögreglumanni fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd skyldustarfa sinna. Í núgildandi lögreglulögum er ekki að finna sérstakt ákvæði sem lýtur að þessu. Meginmarkmiðið með lögfestingu slíks ákvæðis er að tryggja að þessi mál hljóti vandaða og óhlutdræga rannsóknarmeðferð frá upphafi. Mikilvægt er að gagnkvæmt traust og trúnaður ríki milli almennings og lögreglunnar í landinu þannig að borgararnir beri nauðsynlega virðingu fyrir lögreglunni og störfum hennar og geti treyst því að að brot þau, sem hér um ræðir, séu rannsökuð af óhlutdrægum aðila.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að þegar kæra berst á hendur lögreglumanni eða vakni grunur um slíkt brot skuli lögreglustjóri þegar í stað tilkynna ríkislögreglustjóra um ætlað brot. Mikilvægt er að ríkislögreglustjóri fái þegar vitneskju um mál til að tryggja rétta og óhlutdræga meðferð þess frá upphafi. Samkvæmt niðurlagi 35. gr. víkur ríkislögreglustjóri sæti við meðferð málsins ef kæra beinist að starfsmanni ríkislögreglustjóra. Setur dómsmálaráðherra þá löghæfan mann til meðferðar málsins skv. 5. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
    

Um VIII. kafla.


    Í VIII. kafla eru ákvæði um Lögregluskóla ríkisins. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu frá gildandi lögum að í stað þess að Lögregluskóli ríkisins sé starfræktur í tengslum við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði hann starfræktur sem sérstök stofnun sem heyri beint undir dómsmálaráðherra og verði í sömu tengslum við embætti ríkislögreglustjóra og lögregluembættin. Þá eru í kaflanum gerðar verulegar breytingar á lagaákvæðum um skólann, starfsmannamál, inntöku lögreglunema og kjör þeirra á meðan á skólagöngu stendur.
    

Um 36. gr.


    Ákvæði 36. gr. frumvarpsins er hliðstætt 9. gr. gildandi laga um lögreglumenn. Nánari fyrirmæli um Lögregluskóla ríkisins er að finna í reglugerð um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl., nr. 660/1981, með síðari breytingum.
    Í 1. mgr. er að finna ákvæði um að Lögregluskóli ríkisins verði sjálfstæð stofnun. Einnig er kveðið þar á um hlutverk ríkislögreglustjóra varðandi inntöku nema en að öðru leyti heyrir skólinn undir dómsmálaráðherra. Nánar er fjallað um hlutverk skólans í 1. mgr. 36. gr. og er samsvarandi ákvæði að finna í 1. mgr. 6. gr., 13. gr. og 14. gr. reglugerðar nr. 660/1981. Rétt þykir að festa hlutverk skólans í lög. Full þörf þykir á að hrinda í framkvæmd áformum um deildaskiptingu skólans en ákvæði um framhaldsdeild hefur verið í reglugerð frá árinu 1981 en ekki komist í framkvæmd. Lögregluskóli ríkisins hefur á síðustu árum staðið fyrir símenntunarnámskeiðum sem á fjórða hundrað starfandi lögreglumanna hafa sótt. Um eiginlegt framhaldsnám eða sérnám í lögreglufræðum hefur hins vegar ekki verið að ræða til þessa. Fyrir dyrum stendur hins vegar að bjóða upp á stjórnunarnámskeið fyrir yfirmenn í lögreglu og verður það væntanlega skipulagt sem liður í frekara framhaldsnámi við skólann.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli í lögum en þar er kveðið á um það hlutverk skólans að vera vettvangur rannsókna í lögreglufræðum og stjórnvöldum til ráðgjafar um lögreglumálefni. Ljóst er að við kennslu í lögreglufræðum safnast saman mikill fróðleikur um löggæslumálefni sem stjórnvöldum og öllum almenningi getur verið mikið gagn að. Á síðari árum hefur fjölgað þeim erindum sem dómsmálaráðuneytið hefur beint til skólans til frumkönnunar eða umsagnar og með þessu lagaákvæði er þetta fræðahlutverk skólans fest í sessi.
    

Um 37. gr.


    Í 1. mgr. 37. gr. er kveðið á um að dómsmálaráðherra skipi skólastjóra lögregluskólans og er það nýmæli í lögum að hann skuli fullnægja sömu skilyrðum fyrir skipan í embætti og lögreglustjórar. Að auki er gerð sú sjálfsagða krafa að hann hafi staðgóða þekkingu á lögreglumálefnum.
    Í 2. mgr. 37. gr. er að finna nýmæli þess efnis að við skólann skuli starfa yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn. Í skólanum fer fram símenntun og starfsþjálfun lögreglumanna í hinum ýmsu stöðum innan lögeglunnar, allt upp í yfirlögregluþjóna. Það þykir í bestu samræmi við uppbyggingu lögreglunnar og hefðbundið boðvald og boðleiðir innan hennar að við skólann starfi lögreglumenn í a.m.k. jafnháum stöðum og þeir sem þangað sækja menntun.
    

Um 38. gr.


    Í 38. gr. er að finna allnákvæm ákvæði um inntöku nema í skólann, inntökuskilyrði, val á nýnemum og fyrirkomulag náms.
    Með 1. mgr. er farin ný leið við inntöku nema í skólann. Um langt árabil hefur inntaka nema í Lögregluskóla ríkisins farið þannig fram að á hverju sumri auglýsa lögreglustjórar eftir nemum til að fara í lögregluskólann. Gert hefur verið að skilyrði að um lausar stöður sé að ræða á viðkomandi embætti. Umsækjendur þreyta síðan inntökupróf í skólann í íslensku og þreki og fara að því loknu fyrir valnefnd sem gefur umsækjendum einkunn. Á grundvelli útkomu úr inntökuprófum og einkunnar valnefndarinnar velja lögreglustjórar nýnema í skólann úr hópi þeirra sem sóttu um stöðu við embætti þeirra.
    Þessi aðferð við inntöku nýnema í skólann hefur sætt talsverðri gagnrýni og hefur aðgengi í skólann þótt nokkuð flókið og torsótt. Það er undir hælinn lagt hvar á landinu lögreglumannastöður losna hverju sinni og fyrst á næsta hausti eftir að staða losnar getur viðkomandi embætti byrjað að mennta nýjan lögreglumann. Næstu tvö árin bíður nemandans staða við embættið ef hann stenst kröfur skólans en þessa stöðu þarf lögreglustjóri að manna um stundarsakir. Hefur þetta reynst erfitt fyrirkomulag fyrir minni embættin. Í raun er endurnýjun í lögregluliðum háð fleiri atriðum t.d. hvort lögreglumenn með próf frá lögregluskóla sækja um stöður en ef svo er fækkar nýnemum sem því nemur. Sá lögreglumaður, sem fékk stöðuna, getur komið úr starfi hjá öðru embætti sem skyndilega vantar lögreglumann til starfa en þá er e.t.v. orðið of seint að senda lögreglunema í skólann.
    Í stað þessa fyrirkomulags hefur verið valin sú einfalda leið að ríkislögreglustjóri geri áætlun um hversu stóran hóp nýliða vanti til endurnýjunar í lögreglu á næstu árum og ákveði fjölda nýnema í samræmi við það. Ríkislögreglustjóri auglýsi síðan eftir nemum um land allt. Þessi leið ætti að opna skólann og jafna möguleika fólks á því að fá inngöngu í hann. Jafnvel má reikna með að þessi nýja aðferð muni stuðla að hærra hlutfalli kvenna í lögregluskólanum og þar með lögreglu ríkisins en verið hefur til þessa.
    Í 2. mgr. eru lögfest inntökuskilyrði í skólann. Inntökuskilyrðin eru nánast óbreytt frá því sem er í 1. gr. reglugerðar nr. 660/1981. Þó er aldurshámark nýnema hækkað í 35 ár og heilbrigðiskröfur einfaldaðar. Í b-lið er mælt fyrir um að heimilt sé að setja í reglugerð ákvæði um lágmarkshæð lögreglumannsefna. Lágmarkshæð kvenna er nú samkvæmt fyrrgreindri reglugerð 172 sm en lágmarkshæð karla 178 sm. Rök eru til þess að færa þurfi lágmarkshæð kvenna neðar en nú er þar sem þessi hæðarmörk liggja talsvert ofan við meðalhæð íslenskra kvenna meðan lágmarkshæð karla liggur fyrir neðan meðalhæð íslenskra karla. Ákvæðið um lágmarkshæð kvenna útilokar því eitt og sér yfir 50% kvenna frá því að gerast lögreglumenn.
    Ákvæði c-liðar er í samræmi við samsvarandi ákvæði í gildandi reglugerð um skólann.
    Í 3. mgr., sem er nýmæli, er kveðið á um að valnefnd velji nýnema í skólann. Þótti rétt að nefndin væri skipuð fimm mönnum, einum tilnefndum af skólastjóra Lögregluskóla ríkisins sem jafnframt væri formaður, einum fulltrúa dómsmálaráðuneytis, einum fulltrúa Sýslumannafélags Íslands, einum fulltrúa Landssambands lögreglumanna og einum fulltrúa ríkislögreglustjóra.
    Í 4. mgr. er fjallað um námstilhögun við skólann. Rétt þótti að taka slíkt ákvæði í lög þar sem með því er lögð til sú grundvallarbreyting á kjörum nemenda við skólann að þeir verði ekki ráðnir til lögreglustarfa í upphafi skólavistar eins og nú tíðkast heldur sitji ólaunaðir á fyrri önn skólans. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeir nemendur sem standast próf í lok fyrri annar, verði ráðnir af ríkislögreglustjóra til starfsþjálfunar í lögreglu ríkisins. Lagt er á herðar ríkislögreglustjóri að skipuleggja starfsþjálfun fyrir lögreglunema í einstökum lögregluliðum. Með því ætti að vera tryggt að nemar fái sem víðtækasta reynslu, helst hjá fleiri en einu embætti og kynnist fleiri en einni tegund löggæslustarfa.
    Gert er ráð fyrir að nám á síðari önn verði launað. Þessar breytingar á lögreglunáminu koma til með að hafa í för með sér nokkra endurskoðun á námstilhögun og skiptingu verkefna milli anna þar sem nemar hafa samkvæmt frumvarpinu fyrst stöðu lögreglumanna á síðari önninni og því er ekki hægt að kynna þeim fyrr ýmis málefni og aðferðir við löggæslu sem lögreglumönnum einum er ætluð þekking á. Sama á um um ýmsar verklegar æfingar og raunhæf verkefni við löggæslu sem hefur verið liður í námi lögreglumanna. Ætla má þó að slíkt skapi ekki teljandi vandamál við gerð námsskrár.
    

Um 39. gr.


    Í 39. gr. er að finna almenna heimild fyrir dómsmálaráðherra til að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um stjórn skólans og önnur þau atriði sem snerta skólann. Ljóst er að gildandi reglugerð um skólann þarfnast verulegra lagfæringa við þar sem þróun skólans og löggæslunámsins hefur verið hröð á síðustu árum og reglugerðin er að sumu leyti komin úr takti við tímann. Við endurskoðun reglugerðarinnar þarf m.a. að huga að endurskoðun á ákvæðum um skipun skólanefndar fyrir Lögregluskóla ríkisins og skilgreina hlutverk hennar.
    

Um IX. kafla.


    Í IX. kafla er safnað saman ákvæðum sem lúta að framkvæmd laganna, gildistöku þeirra og breytingum sem gera þarf á öðrum lögum ef frumvarp þetta verður að lögum. Í 41. gr. er að finna refsiákvæði.
    

Um 40. gr.


    Í 40. gr. er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Gert er ráð fyrir að í þessum reglum verði m.a. ákvæði um einkenni og búnað lögreglumanna, réttindi þeirra og skyldur og störf þeirra og starfssvið, þar á meðal um starfsstig innan lögregluliða.

Um 41. gr.


    Um skýringar á þessu ákvæði vísast til athugasemda með 19.–21. gr. Með mál vegna brota á ákvæðum þessum fer að hætti opinberra mála.
    

Um 42. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1997. Nauðsynlegt þykir að gera ráð fyrir rúmum tíma til að undirbúa gildistöku laganna, einkum með hliðsjón af ráðagerð um stofnun embættis ríkislögreglustjóra og þeim breytingum á skipulagi lögreglu sem því eru samfara.
    Heppilegt gæti þó verið að skipa ríkislögreglustjóra a.m.k. hálfu ári fyrr og fela honum undirbúning að stofnun embættisins.
         

Um 43. gr.


    Breytingar sem mælt er fyrir um í 1., 4., 5., 6., 7., 8. og 9. tölul. eru í samræmi við þau ákvæði frumvarpsins sem gera ráð fyrir að Rannsóknarlögregla ríkisins verði lögð niður og verkefni hennar færð til ríkislögreglustjóra eða lögreglustjóra í umdæmum.
    Í 2. tölul. er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri taki sæti lögreglustjórans í Reykjavík í almannavarnarráði. Með tilliti til þess hlutverks sem ríkislögreglustjóra er ætlað samkvæmt frumvarpi þessu, þar á meðal boðvalds hans gagnvart öðrum lögreglustjórum við tilteknar aðstæður, þykir heppilegt að hann sitji í almannavarnaráði.
    Breyting í 3. tölul. er í samræmi við 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins en samkvæmt henni teljast skipshafnir varðskipa ekki til lögreglumanna ríkisins, sbr. og 3. gr. frumvarpsins.
    Í 6. tölul. er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri taki sæti lögreglustjórans í Reykjavík í Umferðarráði. Það þykir vera í samræmi við hlutverk ríkislögreglustjóra að hann hafi þetta verkefni með höndum þar sem það tekur til landsins alls.
    Í 10. tölul. er gert ráð fyrir að lögreglustjórinn í Reykjavík fari ekki lengur með yfirstjórn þeirrar borgaralegu stofnunar sem útlendingaeftirlitið er. Útlendingaeftirlitið var gert að sjálfstæðri stofnun með lögum nr. 133/1993 sem breyttu lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965. Lögreglustjórar fara með útlendingaeftirlit, hver í sínu umdæmi, með aðstoð löggæslumanna samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laganna. Lögsaga útlendingaeftirlitsins nær hins vegar til landsins alls og því er m.a ætlað að veita þau leyfi sem þarf til landgöngu og dvalar samkvæmt lögunum og úrskurða um hvort meina eigi útlendingi landgöngu. Ríkislögreglustjóri hefur umboð á landsvísu en ekki daglega stjórn lögregluliðs sem fæst við eftirlit með útlendingum og þykir því heppilegt að hann veiti Útlendingaeftirlitinu forstöðu og að stofnunin verði rekin í tengslum við embætti hans.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til lögreglulaga.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem falið var að endurskoða frumvarp til lögreglulaga sem lagt var fram til kynningar á 117. löggjafarþingi. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á skipulagi æðstu stjórnar lögreglunnar auk annarra þátta. Með lögfestingu þessa frumvarps falla úr gildi lög nr. 56/1972, um lögreglumenn, og lög nr. 108/1976, um rannsóknarlögreglu ríkisins.
    Umsögn þessi er unnin í nánu samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneyti en að mati fjármálaráðuneytis munu eftirfarandi þættir frumvarpsins hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs:
    Komið verði á fót embætti ríkislögreglustjóra sem fer með yfirstjórn lögreglumála í landinu í umboði æðstu handhafa ríkisvaldsins. Embættinu er ætlað að taka við ýmsum verkefnum sem fram til þessa hafa heyrt undir löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Rannsóknarlögreglu ríkisins (RLR) og að einhverju leyti lögreglustjórann í Reykjavík. Við embættið verði rannsóknardeildir sem aðstoði lögreglustjóra við rannsókn skatta- og efnahagsbrota og erfiðra brotamála. Auk þess hafi embættið á að skipa rannsóknarstofu og tæknideild. Áætlað er að við hið nýja embætti muni starfa ríkislögreglustjóri og vararíkislögreglustjóri. Til viðbótar er ætlað að þar verði þrír yfir- og aðstoðaryfirlögreglumenn og 13 aðrir rannsóknarlögreglumenn. Þá verði þar tveir lögfræðingar, einn viðskiptafræðingur, fimm skrifstofumenn auk þjónustustarfsliðs (húsvarsla, matur og ræsting). Á móti þessum kostnaðarauka falla niður launagjöld samtals 26 stöðugilda hjá RLR og rekstrarkostnaður tengdur þeim. Að auki færist stöðugildi yfirlögregluþjóns í dómsmálaráðuneyti til embættisins. Að lokum verður starfsemi útlendingaeftirlitsins færð frá lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að embættið verði staðsett í húsnæði Rannsóknarlögreglunnar í Kópavogi og yfirtaki húsgögn og búnað þess. Því er ekki áætlaður útgjaldaauki vegna stofnkostnaðar. Að því gefnu að fjárveitingar til þeirrar starfsemi sem fellur niður færist til hinnar nýju starfsemi er talið að heildarkostnaðarauki vegna hins nýja embættis verði hverfandi. Einnig er hugsanlegt að embættið geti aflað sér tekna með því að leigja þann hluta húsnæðis RLR sem embættið nýtir ekki. Að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið telur fjármálaráðuneytið að árlegur rekstrarkostnaður stofnunarinnar verði um 111 m.kr., auk 15 m.kr. kostnaðar útlendingaeftirlitsins, eða samtals 126 m.kr.
    Rannsóknarlögregla ríkisins verði lögð niður sem sérstök stofnun og verður starfsemi stofnunarinnar færð til ríkislögreglustjóra og einstakra lögregluembætta og þeim falin rannsókn ýmissa málaflokka sem nú heyra undir RLR. Áætluð útgjöld stofnunarinnar eru 186,3 m.kr. í fjárlögum 1996 og færist fjárveitingin yfir á aðrar löggæslustofnanir. Áformað er að stöðugildi RLR færist til þannig að (a) 4 lögfræðingar, 14 lögreglumenn og 8 aðrir starfsmenn færist til embættis ríkislögreglustjóra, (b) 1 lögfræðingur, 21 lögreglumaður og 2 aðrir starfsmenn færist til lögreglustjórans í Reykjavík og (c) 8 lögreglumenn færist til annarra lögregluembætta. Áætluð útgjöld lögreglustjórans í Reykjavík eru 1.039,4 m.kr. í fjárlögum 1996. Með þessum breytingum og tilflutningi er talið að útgjöldin aukist um 73 m.kr. en vegna flutnings útlendingaeftirlitsins til ríkislögreglustjóra verður heildaraukning um 58 m.kr.
                  Niðurlagning RLR mun væntanlega hafa í för með sér einhverjar biðlaunagreiðslur vegna niðurlagningar starfa rannsóknarlögreglustjóra, vararannsóknarlögreglustjóra og annarra starfsmanna. Ekki er stefnt að fækkun lögfræðinga eða lögreglumanna í þjónustu lögreglu og því munu sambærilegar eða svipaðar stöður verða til hjá öðrum embættum. Þó er talið að greiða þurfi 2–5 starfsmönnum RLR biðlaun og getur kostnaður numið 3,5–9 m.kr.
    Stöðugildum hjá lögreglustjóranum í Reykjavík og öðrum lögregluembættum fjölgar vegna tilflutnings á stöðugildum frá RLR. Einnig er gert ráð fyrir að útlendingaeftirlitið sem nú er sjálfstæð stofnun og heyrir undir lögreglustjórann í Reykjavík verði sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn ríkislögreglustjóra. Ætla má að þessar tilfærslur á stöðugildum hafi í för með sér nokkurn kostnað vegna kaupa á húsbúnaði og tækjum. Að mati dómsmálaráðuneytis má að einhverju marki draga úr því með því að nýta húsbúnað RLR sem embætti ríkislögreglustjóra nýtir ekki. Gera má þó ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa geti numið 3–5 m.kr. Ekki er talið að til útgjaldaauka komi vegna aukinna húsnæðisþarfa. Hjá lögreglustjóranum í Reykjavík er nægjanlegt húsnæði í lögreglustöðinni við Hverfisgötu og ekki þarf að stækka húsnæði lögreglustöðva á landsbyggðinni þar sem hvergi er um að ræða nema einn lögreglumann sem bætist við.
    Áformað er að koma á fót stöðu varalögreglustjóra og er árlegur kostnaðarauki áætlaður 4 m.kr. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna vegna þessara breytinga á skipulagi lögreglunnar og vonast er til að þær leiði til betri nýtingar starfsmanna, m.a. vegna nánari samvinnu almennra lögreglumanna og rannsóknarmanna innan sama embættis. Ekki er heldur gert ráð fyrir breytingum á stöðuheitum lögreglumanna sem hafi launahækkanir í för með sér. Alls er talið að staða varalögreglustjóra, ofangreindar tilfærslur og aðrar smærri breytingar á stöðuheitum geti haft í för með sér 5–6 m.kr. útgjaldaauka.
    Lagt er til að rekin verði framhaldsdeild við Lögregluskóla ríkisins. Þetta er nýtt ákvæði í lögum en kveðið hefur verið á um framhaldsnám í reglugerð. Því hefur að einhverju marki verið sinnt við skólann en gert er ráð fyrir að auka við framhaldsnámið og að mati dómsmálaráðuneytis þarf að bæta við 1/2 stöðugildi ritara og kennslumagni sem nemur 1 stöðugildi, hvort sem því verður mætt með stundakennslu eða fastráðningu kennara. Ætla má að viðbótarkostnaður geti numið 3–4 m.kr. Á móti kemur að í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum vegna nemenda í grunndeild skólans. Þeir eru nú á fullum launum báðar annir en lagt er til að fyrri önnin verði ólaunuð. Við það sparast laun um 20 nemenda í fjóra mánuði og er sparnaður áætlaður um 6 m.kr. Að jafnaði kemur helmingur nemenda utan af landi og við þetta sparast dagpeningar 10 nemenda sem er talið jafngilda um 3,8 m.kr. Að auki verða nemendur á seinni önn ekki lengur sendir í skólann frá einstökum embættum heldur ráðnir af ríkislögreglustjóra. Við það sparast dagpeningar 10 nemenda í 5 mánuði og er sparnaður talinn verða 4,7 m.kr. Í heild er því útgjaldalækkun áætluð 10,5–11,5 m.kr. vegna breyttra ákvæða um Lögregluskóla ríkisins. Gert er ráð fyrir að ríkislögreglustjóri ákveði fjölda nema á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríksins, en hér eru ekki áætlaðar kostnaðarbreytingar vegna hugsanlegra breytinga á fjölda nema.
    Að lokum er gert ráð fyrir 5–10 m.kr. í óviss útgjöld þar sem hér er um verulegar skipulagsbreytingar að ræða og eftir er að útfæra ýmsa þætti nánar.
    Alls er talið að verði frumvarp þetta óbreytt að lögum muni það hafa í för með sér 5–19,5 m.kr. útgjaldauka á ári, sbr. töflu hér á eftir. Lögin eiga að taka gildi 1. júlí 1997 en að sögn dómsmálaráðuneytis er fyrirhugað að ráða ríkislögreglustjóra og varalögreglustjóra í Reykjavík til starfa frá og með næstu áramótum til að undirbúa stofnun embættis ríkislögreglustjóra og aðrar breytingar sem lögin munu hafa í för með sér. Útgjaldaauki á árinu 1997 er áætlaður 7,5–13,8 m.kr. sem er helmingur af áætluðum árlegum kostnaðarauka að viðbættum 4 m.kr. vegna tveggja framangreindra starfa.


Lágmark

Hámark



    1.    Embætti ríkislögreglustjóra
0,0 0,0
    2.    Niðurlagning RLR
3,5 9,0
    3.    Tilfærsla á stöðugildum
3,0 5,0
    4.    
Staða varalögreglustjóra
4,0 4,0
        Breytingar á stöðuheitum o.fl.
1,0 2,0
    5.    Lögregluskóli ríkisins, framhaldsdeild
3,0 4,0
        Lögregluskóli ríkisins, laun og dagpeningar lögreglunema
–14,5 –14,5
        Óviss útgjöld
5,0 10,0

         Samtals
5,0 19,5